Almennt eru einstaklingar smitandi frá byrjun veikinda og í 2 vikur eftir að hósti byrjar (samtals oft kringum 4 vikur).
Engin formleg einangrun eða sóttkví er notuð vegna kíghósta en fólk ætti að vera heima þegar það er veikt með öndunarfæraeinkenni og fara varlega í umgengni við börn, barnshafandi konur og ónæmisbælda í u.þ.b. 4 vikur frá upphafi veikinda ef grunur er um eða staðfestur kíghósti. Kíghósti er mjög smitandi. Mesta áhættan er fyrir börn <6 mánaða (óbólusett/vanbólusett) og sérstaklega nýbura (<1 mánaða).
Allir sem eru taldir vera með kíghósta þurfa að fá ráðleggingar um að takmarka eins og hægt er umgengni við börn undir 6 mánaða og aðra viðkvæma (undirliggjandi ástand ss.lungnasjúkdómar eða ónæmisbældir).
Veikir og útsettir þurfa að huga að því hverja þeir umgangast.
Mikilvægt að fylgja eftir tilmælum um bólusetningu barna og barnshafandi.
Ef einstaklingar í sérstökum áhættuhópum fá kíghósta eða búa á heimili með einstaklingi með kíghósta gæti þurft að gera ráðstafanir (svo sem lyfjameðferð), annars þarf ekki að gera sérstakar ráðstafanir á heimili.
Sama gildir um starfsfólk vinnustaða nema ef um er að ræða vinnustaði þar sem viðkæmir einstaklingar eru (til dæmis vökudeild, krabbameinsdeildir) – hver heilbrigðisstofnun þarf að gera eigin ráðleggingar fyrir starfsfólk slíkra deilda sem hefur fengið kíghósta inn á heimili sitt eða verið útsett fyrir kíghósta.
Foreldrar barna með kíghósta láti dagforeldri/leikskóla/skóla vita svo aðrir viti að kíghósti sé í gangi í barnahópnum. Þá geta aðrir foreldrar metið stöðuna með tilliti til sinna barna, sem ef til vill eru í hópi viðkvæmra eða búa við þannig aðstæður.
Börn sem ekki eru veik geta farið í leikskólann/skólann þó hósti.
Börn með kíghósta hjá dagforeldrum þar sem börn undir 12 mánaða aldri dvelja ættu ekki að snúa þangað aftur fyrr en einkenni eru greinilega batnandi.
Heilbrigðisstofnanir geta ákveðið að hafa grímuskyldu á biðstofu eða annars staðar til að draga úr dreifingu kíghósta til annarra.
Ráðstafanir svo sem lyfjameðferð þarf að meta hverju sinni.
Sýnataka (PCR-próf) á við:
Í samfélögum þar sem ekki hafa þegar komið upp dreifð tilfelli kíghósta.
Einstaklingar með einkenni sem samræmast kíghósta þar sem ekki hafa verið staðfest smit nýlega.
Hjá börnum undir 1 árs.
Hjá heimilisfólki viðkvæmra einstaklinga (barn væntanlegt, barn <6 mánaða aldri eða ónæmisbældur einstaklingur á heimili og svo framvegis).
Hjá heilbrigðisstarfsfólki.
Þeim sem þurfa aðhlynningu á heilbrigðisstofnun.
Sýnatökur hjá öðrum þarf aðeins að gera ef veikindi eru talin alvarleg (grunur um lungnabólgu og þess háttar). Annars má gera klíníska greiningu og tilkynna tilfelli til sóttvarnalæknis samkvæmt því.
Mikilvægt er að bólusetja:
Börn á tíma (3, 5, 12 mánaða, 4 og 14 ára).
Barnshafandi konur á hverri meðgöngu.
Heilbrigðisstarfsfólk, sem sinnir ofangreindum hópum, ef 10 ár eru liðin frá síðustu bólusetningu.
Ekki er almennt brýnt að bólusetja heimilisfólk þar sem þegar er komið smit inn á heimili en það getur stutt við aðrar aðgerðir til að draga úr smithættu til ungbarna, barnshafandi og ónæmisbældra.
Meðferð fer eftir hversu alvarlegur sjúkdómurinn er. Sýklalyf gera lítið gagn, nema mjög snemma á sjúkdómsferlinum, þá fyrst og fremst til að draga úr smiti bakteríunnar til annarra. Önnur meðferð lítur að hvíld, vökvainntöku og næringu. Lítil börn með kíghósta þurfa iðulega að dveljast langtímum á sjúkrahúsi.
Sýklalyfjameðferð vegna kíghósta getur verið viðeigandi við ákveðnar aðstæður, til dæmis einstaklingar í viðkvæmum hópum.
Sýklalyfjameðferð vegna kíghósta getur verið viðeigandi í fyrirbyggjandi meðferð, til dæmis hjá sérstökum áhættuhópum sem búa á heimili einstaklings með kíghósta.
Ef læknir íhugar sýklalyfjameðferð við ákveðnar aðstæður er bent á að ráðfæra sig við smitsjúkdómalækni.
Kíghósti er tilkynningarskyldur sjúkdómur samanber sóttvarnalög. Læknar eiga að tilkynna bæði staðfesta greiningu og klíníska greiningu kíghósta. Einungis ætti að treysta á klíníska greiningu þegar vitað er um útbreidd smit í samfélaginu (eða viðkomandi klárlega útsettur fyrir smiti og með dæmigerð einkenni).
Eyðublað vegna tilkynningarskyldra sjúkdóma er bæði að finna í eyðublaðakerfi Sögu sjúkraskrá og á vef embættis landlæknis: Eyðublað fyrir tilkynningarskylda sjúkdóma.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis