Aðstoðar-yfirlögregluþjónn segir frá tækjum og tólum sem lögreglan ber við störf sín.
Guðmundur Ásgeirsson, aðstoðar-yfirlögregluþjónn:
Það sem ég ætla að fara yfir með ykkur núna eru þau tæki og tól sem lögreglan notar við dagleg störf. Svona lítur löggan út.
Ég er klæddur í varnarvesti sem er stunguhelt og skothelt. Það er hægt að bæta við aukavörnum á vestið ef þess þarf. Við notum talstöðvar, tetrakerfið, til að koma upplýsingum á milli lögreglumanna.
Við erum búin búkmyndavélum. Búkmyndavélar eru ekki alltaf settar í gang, lögreglumenn stjórna því hvenær þær eru settar í gang og við notum þær við að afla sönnunargagna á vettvangi. Mjög mikilvægt, bæði til þess að tryggja öryggi lögreglu og síðan þeirra sem lögreglumenn hafa afskipti af.
Ef við rúllum hérna áfram með búnaðinn. Við erum með fjölnota verkfæri, við notum það í ýmislegt. Þetta er töng og hnífur og skrúfjárn. Við getum opnað hurðar og bjargað okkur á vettvangi með svona tæki. Við erum með sjúkrabúnað, hérna sýni ég ykkur snarvöndul. Snarvöndull er notaður til þess að hefta blæðingar, slagæða-blæðingar, þá er þetta sett utan um læri eða handlegg og hert að og þá getum við stoppað slagæða-blæðingar.
Við erum með almennan sjúkrabúnað til þess að stoppa svona minni háttar blæðingar, við erum með einnota hanska og sótthreinsvörur sem við getum notað til þess að aðstoða fólk áður en sjúkraflutningafólk kemur á vettvang.
Við erum með vasaljós, þurfum oft að nota það við okkar störf.
Nú ætla ég að fjalla um valdbeitingar-tækin okkar sem við notum ef við þurfum að beita valdi. Það eru náttúrulega misjafnar aðstæður sem lögreglan lendir í og það fer eftir aðstæðum hvaða tæki og tól við grípum.
Tækið sem við notum mest er bara röddin okkar, samtal við fólk. Við þurfum að eiga og geta átt samskipti við fólk og við reynum að lækka spennuna á vettvangi og tölum við fólk.
Tækið sem við notum mest á eftir röddinni eru handjárnin. Handjárnin líta svona út. Þau eru til þess að hefta handahreyfingar til þess að tryggja öryggi lögreglumanna og tryggja öryggi þeirra sem við erum að hafa afskipti af. Þetta er líka notað til þess að tryggja sönnunargögn, það þarf oft að handtaka fjölda fólks út af einhverju máli sem er í gangi og það næst ekki að leita á viðkomandi og þá getum við semsagt handjárnað viðkomandi og þá tryggjum við að sönnunargögn muni ekki spillast.
Þá bera lögreglumenn einnig svona plastbönd eða bensli. Þetta notum við ef við erum búin að nota handjárnin okkar eða ef við erum að handtaka fleiri en einn aðila þá getum við gripið í þetta, þessi bönd til þess að hefta handa- eða fótahreyfingar. Þetta má nota á hendur og fætur.
Varnarúðinn sem við berum við dagleg störf lítur svona út, það eru til fleiri stærðir og tegundir af þessu, en þetta er piparúði og þau skipti sem við þurfum að nota þetta þá úðum við í andlit á fólki. Það sem gerist er að fólk getur ekki haft augun opin, svíður í andlitið og lokar augunum og þá er hægt að ná tökum á fólki og koma handjárnum á það.
Tæki sem við notum lítið, örsjaldan, er kylfan. Útdraganleg kylfa. Þetta tæki er varnartæki fyrst og fremst fyrir okkur að verjast árás en getum þurft að nota við önnur tilvik.
Nýjasta tækið í okkar búnaði er rafvarnarvopnið. Þetta tæki er svona millistig á milli gassins, varnarúðans og kylfunnar og síðan skotvopna. Þetta getur skipt sköpum ef við þurfum að eiga við aðila, sem er vopnaður hnífi eða einhverju, að geta notað þetta tæki til þess að tryggja bæði öryggi lögreglumanna og síðan viðkomandi aðila.
Það kemur kannski fólki á óvart að það tæki sem við notum allra, allra mest af þessum valdbeitingartækjum eru handjárnin eins og ég nefndi áðan.
Lögreglumenn lenda oft í erfiðum aðstæðum og þurfa að taka ákvarðanir með mjög stuttum fyrirvara og þeir þurfa að beita meðalhófi, þau þurfa að velja vægasta úrræðið sem þau geta mögulega notað til þess að yfirbuga viðkomandi. Þannig að starfið getur verið oft erfitt og flókið en við erum alla daga að reyna að gera okkar besta.
Rafvarnarvopn
Þjónustuaðili
Lögreglan