Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Leiðbeiningar vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Hér má nálgast pdf útgáfu af leiðbeiningunum.

Matssvið Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu

17. mars – 11. apríl 2025

    Stöðu- og framvindupróf í stærðfræði

    Stöðu- og framvindupróf í stærðfræði metur hæfni nemenda og námsframvindu í fjórum inntaksflokkum aðalnámskrár: Tölum og reikningi, algebru, tölfræði og líkindum svo og rúmfræði og mælingum. Prófverkefnin eru ýmist fjölval eða opin og skiptast einnig í þrjá færniþætti: Kunnáttu, beitingu, rök og greiningu. Stígandi er í vægi inntaksflokka og færniþátta eftir aldursstigi.

    Miðað er við hæfniviðmið aðalnámskrár í stærðfræði, endurskoðuðum greinasviðum 2024. Prófunum er ætlað að meta stöðu og framvindu nemenda á hverju aldursstigi. Sérhvert hæfniviðmið er tengt ítarlegri viðmiðum sem skilgreind eru í viðmiðatöflu hvers aldursstigs. Viðmiðatöflur byggja bæði á aðalnámskrá og stærðfræðiramma UNESCO þar sem skilgreind eru lágmarksþrep framvindu þekkingar og leikni nemenda í stærðfræði yfir níu námsár í samhengi við heimsmarkmið um menntun fyrir öll (UNESCO Institute for Statistics, 2021).

    Þó prófin nái yfir vítt svið þá meta þau ekki öll viðmið aðalnámskrár í stærðfræði. Markmiðið er að hafa þau eins hnitmiðuð og kostur er en próf sem næði yfir öll viðmið tæki einfaldlega of langan tíma að leysa. Nokkurn fjölda viðmiða þarf að meta með öðrum leiðum en með stöðluðum stafrænum prófum. Til dæmis eru viðmið um að nýta stærðfræðileg verkfæri og hlutbundin gögn, undirbúa og flytja kynningar, gera stærðfræðilegar teikningar ásamt fleiri viðmiðum undir flokknum vinnulag stærðfræðinnar sem ekki er unnt að meta í stafrænni fyrirlögn. Í verkfærakistu Matsferils verða sértækari matstæki tengd þessum viðmiðum. Stöðu- og framvinduprófunum er ætlað að meta almenna framvindu í stærðfræðinámi og eru prófatriði samin, forprófuð og valin með hliðsjón af því.