Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Leiðbeiningar vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Hér má nálgast pdf útgáfu af leiðbeiningunum.

Matssvið Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu

17. mars – 11. apríl 2025

    Stöðu- og framvindupróf í lesskilningi

    Lesskilningur er mikilvæg undirstöðufærni í námi. Góður lesskilningur er forsenda þess að hægt sé að skilja og tileinka sér efni texta á meðan slakur lesskilningur getur haft víðtæk áhrif á framvindu og frammistöðu í námi. Góður lesskilningur felst í skilningi einstakra orða, setninga og málsgreina, svo og skilningi stærri heilda eins og efnisgreina eða kafla sem síðan þarf að fella saman við eigin hugmyndir, þekkingu og sjónarmið. Góður lesskilningur er byggður á góðum málskilningi sem aftur hvílir t.d. á góðum hugtakaskilningi og fjölbreytilegum orðaforða sem þarf að fá að vaxa og dafna í takt við hækkandi aldur nemenda og síauknar kröfur í námi. Góður lesskilningur er einnig háður góðri lestrar- eða umskráningarfærni og því mikilvægt að hugað sé að báðum þáttum læsis í lestrarkennslu.

    Með því að leggja stöðu- og framvinduprófin reglulega fyrir fást upplýsingar um stöðu og þróun lesskilnings nemenda. Niðurstöður þeirra gefa vísbendingar um það að hve miklu leyti nemandinn er fær um að nýta sér lestur og málskilning sinn til að tileinka sér almennt innihald texta námsefnis og að njóta ávinningsins af lestri í fjölbreyttum tilgangi.

    Að mörgu er að hyggja við val á próftextum. Huga þarf að því að viðfangsefni sé áhugavert með tilliti til aldurs og áhugasviðs flestra nemenda, og að þyngd prófsins sé í samræmi við almenna lestrarfærni nemenda á tilteknum aldri. Gera þarf ráð fyrir að textarnir geri ekki kröfu um bakgrunnsþekkingu sem er e.t.v. ekki á færi allra vegna ólíks menningarbakgrunns en einnig að bakgrunnsþekkingin á viðfangsefninu sé svo mikil að ekki reynist þörf á að lesa hluta eða allan textann. Einnig þarf að velja texta sem tilheyra fjölbreyttum textategundum (bókmennta-, upplýsinga- og rökfærslutextar) þar sem framsetning efnis er ólík innan tegundanna, tilgangur með ritun þeirra margs konar og hugrænar kröfur mismunandi.

    Textar sem valdir eru fyrir lesskilningspróf þurfa að vera nokkuð efnismiklir svo hægt sé að útbúa góð prófatriði. Þess vegna henta stuttir textar oft ekki en við gerð stöðu- og framvinduprófsins voru viðmið sambærilegra, erlendra og alþjóðlegra prófa höfð til hliðsjónar. Eðli málsins samkvæmt eru próftextar fyrir yngri nemendur að jafnaði nokkuð styttri en fyrir þá eldri.

    Allir próftextar eru forprófaðir til að kanna gæði prófatriða og eins hvort þau séu of þung eða of létt fyrir hvern aldur. Ef í ljós kom við forprófun að prófatriði uppfyllti ekki ákveðin skilyrði var það ýmist endurskoðað og forprófað aftur, eða því hent út.

    Fjöldi próftexta í stöðu- og framvinduprófi fyrir 4. og 5. bekk eru tveir en í öðrum árgöngum þrír en hlutfall upplýsinga- og rökfærslutexta hækkar eftir því sem nemendur verða eldri.