Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Leiðbeiningar vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Hér má nálgast pdf útgáfu af leiðbeiningunum.

Matssvið Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu

17. mars – 11. apríl 2025

    Stöðu- og framvindupróf í lesskilningi

    Lesskilningur er mikilvæg undirstöðufærni í námi. Góður lesskilningur er forsenda þess að hægt sé að skilja og tileinka sér efni texta á meðan slakur lesskilningur getur haft víðtæk áhrif á framvindu og frammistöðu í námi. Góður lesskilningur felst í skilningi einstakra orða, setninga og málsgreina, svo og skilningi stærri heilda eins og efnisgreina eða kafla sem síðan þarf að fella saman við eigin hugmyndir, þekkingu og sjónarmið. Góður lesskilningur er byggður á góðum málskilningi sem aftur hvílir t.d. á góðum hugtakaskilningi og fjölbreytilegum orðaforða sem þarf að fá að vaxa og dafna í takt við hækkandi aldur nemenda og síauknar kröfur í námi. Góður lesskilningur er einnig háður góðri lestrar- eða umskráningarfærni og því mikilvægt að hugað sé að báðum þáttum læsis í lestrarkennslu.

    Með því að leggja stöðu- og framvinduprófin reglulega fyrir fást upplýsingar um stöðu og þróun lesskilnings nemenda. Niðurstöður þeirra gefa vísbendingar um það að hve miklu leyti nemandinn er fær um að nýta sér lestur og málskilning sinn til að tileinka sér almennt innihald texta námsefnis og að njóta ávinningsins af lestri í fjölbreyttum tilgangi.

    Hluti af undirbúningsvinnu fyrir stöðu- og framvinduprófið í lesskilningi var að útbúa matsramma fyrir lesskilning en þar er gerð grein fyrir helstu undirþáttum sem að jafnaði eru metnir á stöðluðum lesskilningsprófum. Eitt af markmiðunum við gerð rammans var að lýsa stígandinni innan hvers undirþáttar svo það lægi fyrir hvaða kröfur mætti gera til nemenda á hverju aldursstigi fyrir sig með þróun færninnar í huga.

    Matsramminn fyrir lesskilning er settur fram í fimm þrepum út frá þroska og viðfangsefnum nemenda í lestrarnámi en sérstök áhersla var lögð á að útfæra í bili ítarlegan ramma fyrir 4.-10. bekk (þrep 3-5) þar sem stöðu- og framvinduprófið snýr að þeim.

    Þrep matsramma fyrir lesskilning.

    Við gerð matsrammans var rýnt í alþjóðlegt, samræmt mat á lesskilningi fyrir nemendur á öllum aldri en einnig samræmt mat einstakra þjóða. Eins og gera má ráð fyrir er töluverður samhljómur þar á milli og niðurstaðan því nokkuð hefðbundin og í samræmi við eldra flokkunarkerfi sem notað var við gerð samræmdra könnunarprófa á sínum tíma. Samkvæmt matsrammanum eru undirþættir lesskilnings fjórir og má sjá lýsingu á hverjum flokki fyrir sig hér:

    Bókstaflegur skilningur (B): Getan til að skilja og finna efnisatriði sem koma orðrétt fram í texta og/eða myndefni (t.d. svör við hver, hvar, hvenær, hvernig og hvað spurningum).

    Ályktunarhæfni (Á): Getan til að lesa á milli lína og draga ályktanir varðandi atriði sem ekki er sagt frá berum orðum í texta (t.d. svör við hvernig, hvers vegna og hvað ef spurningum, með notkun bakgrunnsþekkingar og vísbendinga innan og utan texta, með gerð forspár og með því að koma auga á aðalatriði í texta og draga efni hans saman).

    Djúpur lesskilningur (D): Getan til að greina, nýta sér, leggja mat á, túlka og samþætta upplýsingar í texta (t.d. með því að nýta sér þekkingu á einkennum textategunda, að greina afstöðu höfundar og með mati/gagnrýni, túlkun og samþættingu á efnisatriðum innan eða milli texta).

    Orða- og hugtakaskilningur (O): Orð og hugtök sem nemandinn hefur á færi sínu og gera honum kleift að skilja og nýta sér fjölbreytta texta í ræðu og riti.

    Hér er stuttur texti úr lestrarbókinni Heimur í hendi – Geimurinn (Snævarr Guðmundsson, 2018) og dæmi um spurningu úr hverjum flokki fyrir sig. Textinn er fræðitexti ætlaður nemendum á mið- og unglingastigi.