Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Handbók vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Leiðbeiningar vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils

Hér má nálgast pdf útgáfu af leiðbeiningunum.

Matssvið Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu

17. mars – 11. apríl 2025

    Stöðu- og framvindupróf í lesskilningi

    Lesskilningur er mikilvæg undirstöðufærni í námi. Góður lesskilningur er forsenda þess að hægt sé að skilja og tileinka sér efni texta á meðan slakur lesskilningur getur haft víðtæk áhrif á framvindu og frammistöðu í námi. Góður lesskilningur felst í skilningi einstakra orða, setninga og málsgreina, svo og skilningi stærri heilda eins og efnisgreina eða kafla sem síðan þarf að fella saman við eigin hugmyndir, þekkingu og sjónarmið. Góður lesskilningur er byggður á góðum málskilningi sem aftur hvílir t.d. á góðum hugtakaskilningi og fjölbreytilegum orðaforða sem þarf að fá að vaxa og dafna í takt við hækkandi aldur nemenda og síauknar kröfur í námi. Góður lesskilningur er einnig háður góðri lestrar- eða umskráningarfærni og því mikilvægt að hugað sé að báðum þáttum læsis í lestrarkennslu.

    Með því að leggja stöðu- og framvinduprófin reglulega fyrir fást upplýsingar um stöðu og þróun lesskilnings nemenda. Niðurstöður þeirra gefa vísbendingar um það að hve miklu leyti nemandinn er fær um að nýta sér lestur og málskilning sinn til að tileinka sér almennt innihald texta námsefnis og að njóta ávinningsins af lestri í fjölbreyttum tilgangi.

    Við gerð staðlaðs námsmats þarf að gæta þess að niðurstöður endurspegli vel þá hæfni sem prófinu er ætlað að mæla og að inntak prófsins sé í samræmi við það sem besta þekking segir til um. Grunnurinn að stöðu- og framvinduprófi í lesskilningi eru hæfniviðmið aðalnámskrár sem lúta að lestri og lesskilningi. Aðalnámskrá setur almenn viðmið um nám og skólastarf og er umfram allt stefnumótun fyrir nám nemenda. Útlistun hennar á einstökum námsgreinum er því of almennt orðuð til að hún gagnist með fullnægjandi hætti til stuðnings við gerð kennsluáætlana, námsefnis og við námsmat. Því þarf ávallt að leita fanga í fræðilegum grunni námsgreina til að útfæra námsmat, líkt og gerist með námsgögn og kennslu. 

    Þar sem lesskilningur er flókið fyrirbæri og margir þættir sem mynda undirstöður hans, getur verið gott að notast við líkan eða líkön sem endurspegla þessa fjölmörgu þætti. Líkön eru tilraun til að ná utan um fyrirbæri og skýra t.d. orsakasamhengi milli einstakra þátta innan líkansins.

    Við gerð stöðu- og framvinduprófsins í lesskilningi var stuðst við nokkur líkön um lestur og lestrarnám. Einkum var stuðst við líkan Tunmers og Hoovers (2019) sem er sérstaklega aðgengilegt vegna þess að þar er lögð áhersla á sjónarhorn kennarans. Það byggir líka á einfalda lestrarlíkaninu eftir Hoover og Gough (1990) sem margir kennarar þekkja úr námi sínu og starfi. Hjá höfundum líkansins kemur það margoft fram í skrifum þeirra að líkaninu sé ætlað að styðja við gagnrýna hugsun um lestur og lestrarkennslu, matsviðmið, mat, námskrárgerð og kennslu. Því er jafnframt ætlað að hjálpa kennurum að öðlast samhengi og skilning á hugrænum kröfum og lestri og lestrarnámi sem gagnast þeim við val á verkefnum til lestrarkennslu.

    Líkan Tunmers og Hoovers: Hugrænar undirstöður lesskilnings.

    Líkanið skiptist í tvo meginþætti, málskilning og sjónrænan orðaforða. Málskilningurinn nær m.a. yfir öll orð sem einstaklingur hefur skilning á en sjónræni orðaforðinn nær yfir öll orð sem hann getur lesið af nákvæmni og án umhugsunar. Góður sjónrænn orðaforði er ein meginforsenda lesfiminnar. Tengsl lesskilnings og góðrar lesfimi eru því náin. 

    Einn styrkleiki líkansins, líkt og eldri útgáfu þess í einfalda lestrarlíkaninu, er að það getur gefið vísbendingar um viðbrögð við lestrarvanda af ólíkum toga. Sé líkanið skoðað út frá mögulegum lestrarvanda, þá þarf að hafa það í huga að grunnfærni, t.d. eins og skortur á bókstafsþekkingu, er forsenda æðri færni eins og þeirrar að geta beitt hljóðaaðferðinni við lestur. Að sama skapi getur skortur á orðaforða og bakgrunnsþekkingu komið niður á málskilningi og þar með lesskilningi. Grunnfærni er alltaf forsenda æðri færni og ef hún er ekki til staðar eru undirstöður lestrar og lesskilnings ekki traustar. Þættirnir eru þó ekki alltaf háðir hver öðrum og oft mikilvægt að vinna með fleiri en einn undirstöðuþátt á sama tíma; t.d. bókstafsþekkingu og orðskilning ef þörf krefur.