Handbók vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils
Þjónustuaðili:
Leiðbeiningar vegna stöðlunar á stöðu- og framvinduprófum Matsferils
Hér má nálgast pdf útgáfu af leiðbeiningunum.
Matssvið Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu
17. mars – 11. apríl 2025
Hjálpargögn í stærðfræðiprófi
Rissblöð og skriffæri: Nauðsynlegt er fyrir nemendur að hafa hjá sér rissblað og skriffæri til útreikninga. Mikilvægt er að rissblöðum sé eytt með öruggum hætti eftir hverja próffyrirlögn.
Reiknivélar á unglingastigi: Reiknivélar eru leyfðar í 8., 9. og 10. bekk. Nota má eigin reiknivél eða reiknivél á skjá inni í viðmóti prófakerfis.
Engar reiknivélar á yngsta og miðstigi: Reiknivélar á þessum stigum eru ekki leyfðar svo hægt sé að tryggja réttmæti prófanna við að meta talnaleikni í þessum árgöngum.
Google Translate (GT): Nemendum með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og sem verið hafa skemur en fjögur ár í íslensku málumhverfi, stendur til boða að nota GT í stærðfræðiprófi í öðru tæki. Þetta á líka við um nemendur með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn sem eru búnir að vera lengur en fjögur ár í íslensku málumhverfi og hafa vanist því að nota GT í stærðfræðinámi sínu. Heppilegast er að nota Ipad þar sem auðvelt er að læsa vefsíðunni. Sækja þarf smáforritið Google Translate í Ipad og ræsa það með „guided access“. Ef „guided access“ hefur ekki verið sett upp þarf að vera búið að ganga frá því í tíma. Athugið að samkvæmt athugunum hjá MMS þýðast 15-20% stærðfræðihugtaka ekki nákvæmlega eða rétt.
Upplestur á stærðfræðiprófi: Kennari má lesa upp texta á prófi fyrir nemanda en ekki útskýra hugtök eða fyrirbæri sem könnuð eru á prófinu til að hafa ekki áhrif á niðurstöður nemanda.
Hjálpargögn í lesskilningsprófi
Eins og hefur fram hefur komið er ekki boðið upp á upplestur í lesskilningsprófi þar sem verið er að kanna að hvaða marki nemendur geta nýtt lestrarfærni sína til að tileinka sér efni texta. Prófakerfið býður upp á nokkra möguleika sem geta gert lesturinn aðgengilegri eða þægilegri. Þessi verkfæri eru:
Lestrarstika eða lestrargluggi: Lestrarstikuna er hægt að stækka og minnka. Hún getur t.d. hjálpað nemendum að fara ekki línuvillt á skjá.
Áherslupennar: Í prófakerfinu er boðið upp á áherslupenna í mörgum litum. Notkun þeirra getur t.d. hjálpað nemendum að finna atriði í texta sem skipta máli.
Bakgrunnslitur á skjá: Hægt er að breyta bakgrunnslit í viðmóti en þessi möguleiki getur t.d. nýst nemendum sem eru vanir að lesa af skjá með dökkum bakgrunni.
Stækkun á letri: Hægt er að stækka letur en það getur komið sér vel þar sem tæki og skjáir geta verið mismunandi.
Athugið að mikilvægt er að nemendur fái þjálfun í að velja sér verkfæri sem henta þeim og venjast því að nota þau ÁÐUR en að próftöku kemur með því að fara eins oft og þarf í gegnum sýnisprófið.