Handbók farsældar - innleiðing farsældarlaganna á landsvísu
Þjónustuaðili:
Auk þessarar rafrænu útgáfu er einnig til PDF útgáfa af handbókinni.
Innleiðingarhringur farsældar
Innleiðingarhringur farsældarlaganna inniheldur sjö skref en gert er ráð fyrir því að það taki sveitarfélög og stofnanir mislangan tíma að ljúka hringnum. Að honum loknum er mikilvægt að setja saman ný markmið sem stuðla að því að viðhalda farsældinni í öllu starfi með börnum og fjölskyldum þeirra.
Skref innleiðingarhringsins eru: (sjá mynd, opnast í nýjum glugga)
Upphaf og undirbúningur
Stöðumat
Fræðsla
Aðgerðaáætlun
Framkvæmd
Lokamat, endurgjöf og verklagsreglur
Ný markmið og áframhald
Í ljósi þess að flest sveitarfélög og stofnanir eru þegar komin af stað í innleiðingu farsældarlaganna var ákveðið að tengja gátlista um stöðu innleiðingar við innleiðingarhring farsældar. Sveitarfélög og stofnanir geta nýtt gátlistana til að meta hvar þau eru stödd í innleiðingunni; þ.e. hvað er búið að gera, hvað vantar upp á og í kjölfarið gert aðgerðaáætlun út frá því.
Hægt er að nálgast gátlistana um stöðu innleiðingar bæði á pdf og rafrænu formi. Með því að fylla út rafræna formið samþykkir sveitarfélag/stofnun að deila svörum um stöðu innleiðingar með farsældarsviði BOFS. Það stuðlar að aukinni yfirsýn yfir stöðu innleiðingar og markvissari ráðgjöf af hálfu BOFS. Mælst er til þess að sveitarfélög/stofnanir nýti rafrænu útgáfuna.
Farsældarlögin fela í sér breytingar á ýmsum sviðum þegar kemur að þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Um er að ræða bæði verklags- og viðhorfsbreytingar í málefnum barna sem eru þó misumfangsmiklar eftir sveitarfélögum og stofnunum.
Hér á eftir er farið ítarlega yfir skrefin sjö ásamt gátlistum, leiðbeiningum og ítarefni sem styðja við innleiðingarferlið.

Þegar ábyrgðarmaður innleiðingar farsældarlaganna og stýrihópur sveitarfélagsins/stofnunarinnar telur sig hafa uppfyllt allar aðgerðir aðgerðaáætlunar þá eru niðurstöður teknar saman í lokamat. Á þessu stigi er gagnlegt að fylla aftur út gátlistana í skrefi 2, bera saman niðurstöður við fyrra mat og sjá hvort tilætluðum árangri sé náð.
Eftir lokamat og endurgjöf frá BOFS er mælt með því að sveitarfélag/stofnun setji sér verklagsreglur um vinnslu mála samkvæmt farsældarlögunum. Verklagsreglurnar taka þá til þátta eins og vinnslu og meðferðar persónuupplýsinga, samráðs við aðrar stofnanir og almenna þjónustuveitendur og hvernig þjónustuveitendur bera sig að þegar þeir sjá að þörfum barna er ekki mætt. Einnig gæti verið gagnlegt að setja verklagsreglur um vinnslu tengiliða og málstjóra farsældar í samþættingu þjónustu, flutning mála frá einu stigi til annars og fræðslu til barna og foreldra um farsældarlögin og hvernig hægt er að nálgast þjónustuna o.fl. Mælt er með á þessu stigi að óskað sé eftir endurgjöf frá farsældarsviði BOFS farsaeld@bofs.is. Sveitarfélagið/stofnunin getur þá brugðist við og gert breytingar út frá endurgjöfinni ef tilefni er til.
Mælt er með því að ábyrgðaraðili innleiðingar farsældarlaganna, í samráði við stýrihópinn, kynni verklagsreglur sveitarfélagsins/stofnunarinnar fyrir öllum sem stýra og sinna þjónustu við börn. Einnig er mælt með að niðurstöðunum sé gert hátt undir höfði og þær kynntar út á við til samfélagsins, til dæmis á vefsíðu og/eða samfélagsmiðlum sveitarfélags/stofnunar, með kynningum eða í fréttatilkynningu. Sum sveitarfélög hafa kosið að halda sérstakan farsældardag með öllum þeim sem veita þjónustu við börn hjá sveitarfélaginu. Slíkir dagar skapa vettvang fyrir kynningar og umræður ítengslum við nýtt verklag og nýja hugsun út frá farsældarlögunum.












