Fara beint í efnið

Handbók farsældar - innleiðing farsældarlaganna á landsvísu

Auk þessarar rafrænu útgáfu er einnig til PDF útgáfa af handbókinni.

    Samvinna BOFS og UNICEF á Íslandi um gerð handbókar farsældar

    Eitt af meginmarkmiðum farsældarlaganna er að tryggja réttindi barna í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist, einkum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Samningurinn, sem oft er nefndur Barnasáttmálinn, varð að lögum á Íslandi í febrúar 2013. Markmiðið með lögfestingunni var að tryggja að honum væri beitt í auknum mæli og hefði bein áhrif á íslenskt samfélag.

    Verkefnið Barnvæn sveitarfélög styður við innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í alla stjórnsýslu og starfsemi. Barnvæn sveitarfélög byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative (CFCI), sem hefur verið innleitt í þúsundir sveitarfélaga um allan heim frá 1996. Í lok árs 2019 var undirritaður samstarfssamningur á milli MRN og UNICEF á Íslandi um innleiðingu verkefnisins undir formerkjum Barnvænt Ísland. Áætlað var að á næsta áratugi frá undirritun hafi íslensk stjórnvöld, þar með talið öll sveitarfélög á Íslandi hafið markvissa innleiðingu Barnasáttmálans og tileinkað sér barnaréttindanálgun í sínum verkefnum, stefnumótun og ákvörðunum.

    Hugtakið „farsæld barns“ er lykilhugtak í farsældarlögunum en það er skilgreint sem „aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðilegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar“.

    Við túlkun hugtaksins skal meðal annars taka mið af:

    6. gr. Barnasáttmálans um líf og þroska en þar er áhersla lögð á að sérhvert barn hafi meðfæddan rétt til lífs og að tryggja skuli öllum börnum aðstæður þar sem þeim getur liðið vel og fái tækifæri til að þroskast og dafna.

    Auk 6. gr. Barnasáttmálans liggja eftirfarandi greinar að baki öllum fimm grunnstoðum farsældar:

    2. gr. Öll börn eru jöfn

    Öll börn eiga að njóta allra réttinda Barnasáttmálans án tillits til hver þau eru, hvar þau búa, hvaða tungumál þau tala, á hvað þau trúa, hvernig þau hugsa og líta út, af hvaða kyni þau eru, hvort þau eru fötluð, rík eða fátæk og án tillits til þess hvað fjölskylda þeirra gerir eða trúir á. Aldrei skal koma fram við barn af óréttlæti.

    3. gr. Það sem barninu er fyrir bestu

    Þegar fullorðnir taka ákvarðanir eiga þeir að hugsa um hvaða áhrif þær hafa á börn og eiga að gera það sem er best fyrir þau. Stjórnvöld eiga að tryggja að foreldrar verndi börn sín og gæti þeirra eða aðrir í þeirra stað þegar þörf er á. Stjórnvöld eiga að sjá til þess að fólk sem ábyrgt er fyrir börnum hafi hagsmuni þeirra alltaf að leiðarljósi og staðir sem ætlaðir eru börnum uppfylli einnig þær skyldur.

    12. gr. Virðing fyrir skoðunum barna

    Börn eiga rétt á því að tjá sig frjálslega um öll málefni sem hafa áhrif á líf þeirra. Fullorðnir eiga að hlusta og taka mark á þeim.

    Eins og fram hefur komið byggir handbók farsældar á handbók Barnvænna sveitarfélaga. Þar sem töluverð samlegðaráhrif eru við innleiðingu farsældarlaganna og Barnvænna sveitarfélaga hefur gefist vel að vinna þessi tvö verkefni samhliða. Það ber að taka fram að handbækurnar eru sjálfstæðar en tala vel saman og auðvelda þannig sveitarfélögum sem kjósa að vinna samhliða að innleiðingu farsældarlaganna og Barnvænna sveitarfélaga. Í handbók farsældar er því að finna vísanir í handbók Barnvænna sveitarfélaga.  

    Nytsamlegir hlekkir