Handbók farsældar - innleiðing farsældarlaganna á landsvísu
Þjónustuaðili:
Auk þessarar rafrænu útgáfu er einnig til PDF útgáfa af handbókinni.
Innleiðingarhringur farsældar
Innleiðingarhringur farsældarlaganna inniheldur sjö skref en gert er ráð fyrir því að það taki sveitarfélög og stofnanir mislangan tíma að ljúka hringnum. Að honum loknum er mikilvægt að setja saman ný markmið sem stuðla að því að viðhalda farsældinni í öllu starfi með börnum og fjölskyldum þeirra.
Skref innleiðingarhringsins eru: (sjá mynd, opnast í nýjum glugga)
Upphaf og undirbúningur
Stöðumat
Fræðsla
Aðgerðaáætlun
Framkvæmd
Lokamat, endurgjöf og verklagsreglur
Ný markmið og áframhald
Í ljósi þess að flest sveitarfélög og stofnanir eru þegar komin af stað í innleiðingu farsældarlaganna var ákveðið að tengja gátlista um stöðu innleiðingar við innleiðingarhring farsældar. Sveitarfélög og stofnanir geta nýtt gátlistana til að meta hvar þau eru stödd í innleiðingunni; þ.e. hvað er búið að gera, hvað vantar upp á og í kjölfarið gert aðgerðaáætlun út frá því.
Hægt er að nálgast gátlistana um stöðu innleiðingar bæði á pdf og rafrænu formi. Með því að fylla út rafræna formið samþykkir sveitarfélag/stofnun að deila svörum um stöðu innleiðingar með farsældarsviði BOFS. Það stuðlar að aukinni yfirsýn yfir stöðu innleiðingar og markvissari ráðgjöf af hálfu BOFS. Mælst er til þess að sveitarfélög/stofnanir nýti rafrænu útgáfuna.
Farsældarlögin fela í sér breytingar á ýmsum sviðum þegar kemur að þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Um er að ræða bæði verklags- og viðhorfsbreytingar í málefnum barna sem eru þó misumfangsmiklar eftir sveitarfélögum og stofnunum.
Hér á eftir er farið ítarlega yfir skrefin sjö ásamt gátlistum, leiðbeiningum og ítarefni sem styðja við innleiðingarferlið.
Hér er meginmarkmiðið að sveitarfélög/stofnanir setji það í forgang að innleiða farsæld og vinni eftir löggjöfinni. Sveitarfélög/stofnanir eru ólík hvað varðar stærð og skipulag sviða og/eða deilda sem koma að þjónustu við börn og fjölskyldur.
Mikilvægt er að skoða hvernig þörfum barna og foreldra er mætt í dag í núverandi skipulagi sveitarfélags/stofnunar. Leggja þarf mat á hindranir í stjórnsýslu sem geta flækt samvinnu á milli deilda/sviða þegar kemur að þjónustu við börn og foreldra. Skoða þarf boðleiðir og núverandi verklag á milli sviða/deilda og skýra og skilgreina samstarf, hlutverk og ábyrgð allra aðila. Einnig þarf að taka mið af samstarfssamningum sem geta verið á milli sveitarfélaga og stofnana um verkefni sem varða börn og fjölskyldur þeirra svo sem barnavernd, skólamál, félagsþjónustu og fleira.
Farsældarlögin taka til allrar þjónustu innan skólakerfisins: í leik-, grunn- og framhaldsskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Jafnframt er átt við þjónustu sem er veitt innan heilbrigðiskerfisins, á heilsugæslustöðvum, heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum, félagsþjónustu, barnaverndarþjónustu og þjónustu við fötluð börn, auk verkefna lögreglu. Allir sem stýra þjónustu við börn þurfa að tala saman og þekkja farsældina og samvinnuna sem hún felur í sér, bæði innan sveitarfélags/stofnunar en einnig við önnur kerfi og stofnanir.
Leiðarljós farsældarlaganna er þverfaglegt samstarf innan þeirra kerfa sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu. Meginmarkmið laganna er að brjóta niður múra á milli kerfa og þá þurfa allir staðbundnir þjónustuveitendur að ganga í takt. Mikilvægt er að draga alla að borðinu þegar farsældarlögin eru kynnt og tryggja þarf samtal, strax í upphafi, við alla sem veita þjónustu í þágu barna innan marka sveitarfélagsins.
Víðtækt eignarhald þjónustuveitenda á innleiðingu verkefnisins getur skipt miklu máli þegar kemur að velgengni innleiðingarinnar. Með því að draga alla að borðinu í upphafi aukast líkurnar á því að innleiðingin gangi hraðar og betur fyrir sig. Ótvírætt er að góð samvinna í einstökum málum mun ekki nást nema jafnframt sé unnið að almennu samráði og samtali milli þjónustuveitenda. Allir þurfa að vera meðvitaðir um að þegar kemur að innleiðingu af þessari stærðargráðu, þar sem margir þjónustuveitendur koma saman, getur komið upp ágreiningur á öllum stigum og þar geta legið að baki áratuga langar ólíkar hefðir eða reynsla. Slíkan ágreining verður að leysa eins fljótt og auðið er.1 Mælt er með að skoða vel myndina Samstarfsaðilar um innleiðingu farsældarlaganna.
Í ljósi þess er mikilvægt að tilnefndur sé starfsmaður sem ber ábyrgð á innleiðingu farsældarlaganna. Sveitarfélög/stofnanir hafa sum farið þá leið að búa til stöðugildi í kringum innleiðingu farsældarlaganna á meðan önnur leggja þá ábyrgð á starfsmann sem er nú þegar í öðrum störfum hjá sveitarfélaginu/stofnuninni. Mikilvægt er að tryggja að ábyrgðaraðilinn hafi þann tíma, svigrúm og stuðning sem hann þarf til að vinna að innleiðingu farsældarlaganna. Hafa ber í huga að mikill munur getur verið á umfangi verkefna ábyrgðaraðila eftir stærð og eðli þjónustunnar sem viðkomandi sveitarfélag/stofnun er að sinna. Einnig eru sum sveitarfélög/stofnanir með samning við annað sveitarfélag/stofnanir sem sinna þjónustu við börn fyrir þau, þá er ábyrgðaraðili innleiðingar farsældar hjá því sveitarfélagi/stofnun ábyrgðaraðili hjá báðum.
Þá er einnig mikilvægt að ábyrgðaraðilar innleiðingar farsældarlaganna komi á fót stýrihópi farsældar. Stýrihóp farsældar skipar starfsfólk sveitarfélags/stofnunar með ólíkan bakgrunn og frá mismunandi sviðum sem koma að þjónustu við börn og fjölskyldur. Ábyrgðaraðili innleiðingar farsældarlaganna stjórnar og ber ábyrgð á vinnu stýrihóps á meðan á innleiðingarferli stendur.
Gátlisti
Sniðmát af skýrslu
Nytsamlegir hlekkir
Áður en ráðist er í breytingar er mikilvægt að átta sig á hvar sveitarfélagið/stofnunin stendur í dag hvað varðar innleiðingu á farsældarlögunum. Stýrihópur farsældar byrjar á því að svara meðfylgjandi gátlistum með það að markmiði að skilja betur hvar sveitarfélagið/stofnunin stendur. Ábyrgðaraðili innleiðingar farsældarlaganna og stýrihópurinn geta leitað upplýsinga utan hópsins gerist þess þörf og/eða fengið stuðning frá farsældarsviði BOFS.
Mælt er með að stýrihópurinn kynni sér gátlistana á fyrsta fundi sínum og svari þeim í sameiningu. Stýrihópurinn getur síðan skipt með sér verkum, þ.e. hver tekur að sér að finna svör í þeim tilvikum sem þeirra þarf að leita. Einnig er mælt með því að stýrihópurinn hafi gátlistana á sameiginlegu svæði þannig að allir aðilar stýrihópsins geti sett inn svör. Gott er að miða við ákveðna dagsetningu til að hafa lokið við að finna öll svör þannig að ábyrgðaraðili innleiðingar farsældarlaganna hafi tækifæri til að taka niðurstöðurnar saman. Á næsta fundi eru niðurstöðurnar svo kynntar og ræddar.
Þegar öllum gátlistum hefur verið svarað tekur ábyrgðaraðili innleiðingar farsældarlaganna niðurstöðurnar saman og fer yfir þær með stýrihópnum. Ábyrgðaraðilinn getur sent samantektina á farsældarsvið BOFS og óskað eftir stuðningi og/eða gagnlegum ábendingum. Stýrihópurinn byggir síðan aðgerðaáætlun um innleiðingu farsældarlaganna á þessum niðurstöðum.
Gátlistar
Gátlisti 2.3 Vinnsla persónuupplýsinga við samþættingu þjónustu rafrænn - (Word)
Gátlisti 2.4 Tengiliðir farsældar (heilsugæsla, sveitarfélög og framhaldsskólar) rafrænn - (Word)
Viðaukar og nytsamlegir hlekkir
Farsældarþjónusta útskýring – frá almennri til sérhæfðari þjónustu - Word
Reglugerð um tengiliði og málstjóra samþættingar þjónustu í þágu farsældar barna
Gátlisti farsældar í heilsueflandi leikskóla - PDF - Ath. hægt að nálgast rafrænt í kerfi heilsueflandi leikskóla
Gátlisti farsældar í heilsueflandi grunnskóla - PDF - Ath. hægt að nálgast rafrænt í kerfi heilsueflandi grunnskóla
Gátlisti farsældar í heilsueflandi framhaldsskóla - PDF - Ath. hægt að nálgast rafrænt í kerfi heilsueflandi framhaldsskóla
Kostnaðargreining vegna starfa tengiliða og málstjóra farsældar (myndband)
Mikilvægt er að fræðsla um farsældarlögin sé alltumlykjandi í innleiðingu farsældarlaganna hjá sveitarfélagi/stofnun. Fræðsla er grunnurinn að farsælli innleiðingu og það er mikilvægt að hún sé markviss og regluleg.
Mælt er með því að forgangsraða fræðslu um farsældarlögin fyrst til þeirra sem bera ábyrgð á og veita börnum og foreldrum þeirra þjónustu. Þekking á farsældarlögunum og þeirri ábyrgð sem þau setja á þjónustuveitendur er forsenda þess að foreldrar og börn fái rétta aðstoð, á réttum tíma frá réttum aðilum. Þegar nauðsynlegar breytingar hafa verið gerðar hjá sveitarfélagi/stofnun sem miða að því að innleiða farsældarlögin í allt stjórnkerfi og þjónustustofnanir er tímabært að kynna farsældarlögin fyrir börnum og foreldrum.
Fræðsla um farsældarlögin þarf að ná til alls starfsfólks sveitarfélags/stofnunar sem kemur með einhverjum hætti að þjónustu við börn. Kortlagning á starfsmannahópnum er góður undirbúningur og mikilvægt er að horfa á hópinn í víðu samhengi, allt frá þeim sem veita börnum þjónustu með beinum hætti til þeirra sem hafa ákvörðunarvald um fjárveitingar til þjónustu við börn.
Gagnlegt er að útbúa fræðsluáætlun þar sem fræðsla um farsældarlögin til mismunandi hópa er skipulögð og henni forgangsraðað. Hafa ber í huga að almenn fræðsla í stórum hópum til ólíkra aðila sem koma að þjónustu við börn er gagnleg á fyrstu stigum innleiðingar. Sérhæfðari fræðsla til minni hópa er einnig nauðsynleg og gefur tækifæri til ígrundunar viðfangsefnis og samtals um það sem er óljóst.
Mikilvægt er að gera ráð fyrir þátttöku barna og ungmenna þegar kynningar og fræðsla til þeirra er skipulögð, t.d. á hvaða formi slík fræðsla er, efnistök og uppbygging. Gott er að kynna sér vel verkfærakistu um þátttöku barna á vegum UNICEF hér í nytsamlegum hlekkjum.
Vakin er athygli á því að ábyrgðaraðili innleiðingar farsældarlaganna í samvinnu við stjórnendur ber ábyrgð á að þjónustuveitendur sveitarfélags/stofnunar fái nauðsynlega fræðslu. Hægt er að nýta eftirfarandi stuðningsefni frá BOFS í fræðslunni eða sem grunn til að byggja á. Einnig getur starfsfólk farsældarsviðs BOFS aðstoðað við skipulagningu fræðslunnar og efnistök ef óskað er eftir því.
Sniðmát
Nytsamlegir hlekkir
Aðgerðaáætlun um innleiðingu farsældar útlistar með skýrum hætti markmið sveitarfélagsins/stofnunarinnar vegna innleiðingar farsældar. Ábyrgðaraðili innleiðingar farsældarlaganna og stýrihópur hafa umsjón með gerð aðgerðaáætlunar og velja aðgerðirnar út frá niðurstöðum allra þátta stöðumatsins. Mikilvægt er að þær aðgerðir sem settar eru í aðgerðaáætlun séu skýrar og vel skilgreindar, að þeim fylgi tímarammi og að umsjónarmaður sé tilnefndur fyrir hverja og eina aðgerð.
Umsjónarmaður aðgerðarinnar er ekki með það hlutverk að koma aðgerðinni í framkvæmd upp á eigin spýtur heldur er honum ætlað að vera talsmaður aðgerðarinnar og hafa yfirumsjón með henni. Sá sem tilnefndur er sem umsjónarmaður aðgerðar þarf að vera upplýstur um hlutverk sitt og hvaða væntingar eru gerðar til hans og vinnunnar. Einnig gæti verið viðeigandi að setja saman verkefnahópa sem vinna sérstaklega að ákveðnum aðgerðum áætlunarinnar í samvinnu við umsjónarmenn aðgerða.
Aðgerðir í aðgerðaáætlun um innleiðingu farsældarlaganna geta til að mynda tekið til þátta sem snúa að auknu samstarfi ólíkra þjónustueininga sem koma að þjónustu við börn, stigskiptingu farsældarþjónustu og gerð úrræðalista sveitarfélags/stofnunar, tilnefningu tengiliða og málstjóra farsældar og verklagi sem snýr að hlutverkum og verkefnum þeirra. Einnig ætti aðgerðaáætlun að innihalda fræðsluáætlun sem snýr að fræðslu fyrir þjónustuveitendur og fræðslu til barna og foreldra um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna.
Sumar aðgerðir koma til með að vera umfangsmeiri og tímafrekari en aðrar en þá er mikilvægt að skilgreina vel markmið með aðgerðinni og brjóta niður í minni viðráðanlegri þætti sem allir miða að því að ná lokamarkmiðinu.
Þegar drög að aðgerðaáætlun eru tilbúin er sveitarfélagi/stofnun velkomið að senda hana til farsældarsviðs BOFS (farsaeld@bofs.is) sem getur þá veitt endurgjöf og aðstoð við einstaka þætti.
Mælt er með því að aðgerðaáætlun sé lögð fyrir sveitarstjórn og/eða fastanefndir sveitarfélaga, eða yfirstjórnir stofnana og hún samþykkt formlega en það er mikilvægur liður í eignarhaldi innleiðingarinnar. Einnig er mælst til þess að aðgerðaáætlun sé kynnt fyrir íbúum sveitarfélagsins og þjónustuþegum stofnana, t.d. á heimasíðu sveitarfélagsins/stofnunarinnar.
Sniðmát
Umsjónarmaður aðgerða og verkefnahópar, í samvinnu við stýrihóp, halda utan um framkvæmd einstakra aðgerða og tryggja þeim framgöngu í takt við það sem útlistað er í aðgerðaáætlun.
Mikilvægt er að fylgjast vel með og meta framvindu verkefnis reglulega til að greina frávik frá aðgerðaáætlun þannig að unnt sé að bregðast við með aðgerðum svo sett markmið náist.
Ábyrgðaraðilar aðgerða leita til ábyrgðaraðila innleiðingar farsældarlaganna ef einhverjar hindranir koma upp við framkvæmd þeirra aðgerða. Einnig geta þeir virkjað stýrihóp farsældar ef þess gerist þörf.
Hafa ber í huga að ábyrgðaraðili innleiðingar farsældarlaganna hefur greiðan aðgang að ráðgjöf og stuðningi frá farsældarsviði BOFS (farsaeld@bofs.is) á meðan á framkvæmdaskrefi stendur.
Þegar ábyrgðarmaður innleiðingar farsældarlaganna og stýrihópur sveitarfélagsins/stofnunarinnar telur sig hafa uppfyllt allar aðgerðir aðgerðaáætlunar þá eru niðurstöður teknar saman í lokamat. Á þessu stigi er gagnlegt að fylla aftur út gátlistana í skrefi 2, bera saman niðurstöður við fyrra mat og sjá hvort tilætluðum árangri sé náð.
Eftir lokamat og endurgjöf frá BOFS er mælt með því að sveitarfélag/stofnun setji sér verklagsreglur um vinnslu mála samkvæmt farsældarlögunum. Verklagsreglurnar taka þá til þátta eins og vinnslu og meðferðar persónuupplýsinga, samráðs við aðrar stofnanir og almenna þjónustuveitendur og hvernig þjónustuveitendur bera sig að þegar þeir sjá að þörfum barna er ekki mætt. Einnig gæti verið gagnlegt að setja verklagsreglur um vinnslu tengiliða og málstjóra farsældar í samþættingu þjónustu, flutning mála frá einu stigi til annars og fræðslu til barna og foreldra um farsældarlögin og hvernig hægt er að nálgast þjónustuna o.fl. Mælt er með á þessu stigi að óskað sé eftir endurgjöf frá farsældarsviði BOFS farsaeld@bofs.is. Sveitarfélagið/stofnunin getur þá brugðist við og gert breytingar út frá endurgjöfinni ef tilefni er til.
Mælt er með því að ábyrgðaraðili innleiðingar farsældarlaganna, í samráði við stýrihópinn, kynni verklagsreglur sveitarfélagsins/stofnunarinnar fyrir öllum sem stýra og sinna þjónustu við börn. Einnig er mælt með að niðurstöðunum sé gert hátt undir höfði og þær kynntar út á við til samfélagsins, til dæmis á vefsíðu og/eða samfélagsmiðlum sveitarfélags/stofnunar, með kynningum eða í fréttatilkynningu. Sum sveitarfélög hafa kosið að halda sérstakan farsældardag með öllum þeim sem veita þjónustu við börn hjá sveitarfélaginu. Slíkir dagar skapa vettvang fyrir kynningar og umræður ítengslum við nýtt verklag og nýja hugsun út frá farsældarlögunum.
Það að viðhalda farsældinni í öllu starfi með börnum og fjölskyldum er eilífðarverkefni þar sem ákvæði laganna geta tekið breytingum sem og aðstæður og umhverfi barna og fjölskyldna. Því þarf stöðugt að vera að endurskoða í því skyni að tryggja að unnið sé í anda farsældarlaganna í sveitarfélögum/stofnunum.
Í því samhengi er mikilvægt að ábyrgðaraðili innleiðingar farsældarlaganna, ásamt stýrihópi farsældar, setji niður ný markmið og nýja áætlun um hvernig viðhalda á farsældinni í öllu starfi sveitarfélags/stofnunar sem viðkemur þjónustu við börn. Huga þarf til að mynda að þáttum eins og starfsmannabreytingum hjá þeim sem bera ábyrgð á og veita farsældarþjónustu, uppfærslu úrræðalista og fræðslu til foreldra og barna.
Svæðisbundin farsældarráð eru mikilvægur hlekkur í mótun nýrra markmiða. Samkvæmt 5. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna ber sveitarfélögum að skipa svæðisbundið farsældarráð. Ráðin skipa fulltrúar þjónustuveitenda á vegum ríkis og sveitarfélaga sem gegna lykilhlutverki í að tryggja farsæld barna á ákveðnu svæði. Farsældarráðunum er ætlað að skapa samráðsvettvang og áætlanagerð varðandi aðgerðir í þágu barna. Einnig skal farsældarráð hafa samráð við fulltrúa notenda á viðkomandi svæði, t.d. með þátttöku ungmennaráða við gerð aðgerðaáætlunar og forgangsröðun aðgerða. Því er mikilvægt að huga vel að skipan og vinnu farsældarráða sem sveitarfélagið/stofnunin tilheyrir.
Eitt af hlutverkum svæðisbundinna farsældarráða er að vinna aðgerðaáætlun þar sem fram kemur forgangsröðun aðgerða um farsæld barna til fjögurra ára. Aðgerðaáætlunin tekur mið af þingsályktun um stefnu um farsæld barna og framkvæmdaáætlun ríkisins sem og niðurstöðum farsældarþings. Sveitarfélög vinna skýrslur um framvindu áætlana um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða á tveggja ára fresti. Áætlanir og skýrslur skulu sendar til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV).
Með tilkomu mælaborðs farsældar geta farsældarráðin og aðrir aðilar sem koma að þjónustu við börn nýtt tölfræðigögn sem til eru með markvissum hætti, m.a. við forgangsröðun aðgerða og mat á áhrifum aðgerða opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga. Í mælaborðinu eru tekin saman tölfræðigögn sem varpa ljósi á farsæld barna á Íslandi með heildstæðum hætti. Mælaborðið byggir á fimm grunnstoðum farsældar og markmið þess er að veita yfirsýn yfir stöðu farsældar barna á Íslandi á hverjum tíma, með áherslu á viðkvæma hópa og samfélagslegar áskoranir. Jafnframt er því ætlað að fylgjast með þróun farsældar yfir tíma og aðstoða við að leggja mat á árangur innleiðingar farsældarlaganna. Í því samhengi er bent á nýjan verkefna- og kynningarstjóra sem kemur til með að vinna að verkefnum sem tengjast velferð barna og ungmenna á Íslandi. Hann mun vinna náið með Menntavísindastofnun Háskóla Íslands, sveitarfélögum landsins, mennta- og barnamálaráðuneytinu og öðrum aðilum sem tengjast Íslensku æskulýðsrannsókninni.
Á vormánuðum 2024 var fyrsti samningur um myndun svæðisbundinna farsældarráða undirritaður af mennta- og barnamálaráðherra og framkvæmdarstjóra Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi þegar Vesturland varð fyrsti landshlutinn til að sameinast um farsældarráð. Hér að neðan, í nytsamlegum hlekkjum, er hægt að finna frétt sem birt var á vef Stjórnarráðsins við undirritun samningsins.
Taka ber fram að vinna í kringum svæðisbundin farsældarráð er enn í mótun og útfærslur geta verið ólíkar eftir landssvæðum. Framangreindar upplýsingar geta því tekið breytingum með aukinni þekkingu og reynslu af slíkri vinnu. Sveitarfélög, sem hafa ekki starfrækt svæðisbundið farsældarráð, eru hvött til að skoða hver ávinningur þeirra er með samstarfi við önnur nærliggjandi sveitarfélög um myndun og samvinnu svæðisbundinna farsældarráða.