Handbók farsældar - innleiðing farsældarlaganna á landsvísu
Þjónustuaðili:
Auk þessarar rafrænu útgáfu er einnig til PDF útgáfa af handbókinni.
Innleiðingarhringur farsældar
Innleiðingarhringur farsældarlaganna inniheldur sjö skref en gert er ráð fyrir því að það taki sveitarfélög og stofnanir mislangan tíma að ljúka hringnum. Að honum loknum er mikilvægt að setja saman ný markmið sem stuðla að því að viðhalda farsældinni í öllu starfi með börnum og fjölskyldum þeirra.
Skref innleiðingarhringsins eru: (sjá mynd, opnast í nýjum glugga)
Upphaf og undirbúningur
Stöðumat
Fræðsla
Aðgerðaáætlun
Framkvæmd
Lokamat, endurgjöf og verklagsreglur
Ný markmið og áframhald
Í ljósi þess að flest sveitarfélög og stofnanir eru þegar komin af stað í innleiðingu farsældarlaganna var ákveðið að tengja gátlista um stöðu innleiðingar við innleiðingarhring farsældar. Sveitarfélög og stofnanir geta nýtt gátlistana til að meta hvar þau eru stödd í innleiðingunni; þ.e. hvað er búið að gera, hvað vantar upp á og í kjölfarið gert aðgerðaáætlun út frá því.
Hægt er að nálgast gátlistana um stöðu innleiðingar bæði á pdf og rafrænu formi. Með því að fylla út rafræna formið samþykkir sveitarfélag/stofnun að deila svörum um stöðu innleiðingar með farsældarsviði BOFS. Það stuðlar að aukinni yfirsýn yfir stöðu innleiðingar og markvissari ráðgjöf af hálfu BOFS. Mælst er til þess að sveitarfélög/stofnanir nýti rafrænu útgáfuna.
Farsældarlögin fela í sér breytingar á ýmsum sviðum þegar kemur að þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Um er að ræða bæði verklags- og viðhorfsbreytingar í málefnum barna sem eru þó misumfangsmiklar eftir sveitarfélögum og stofnunum.
Hér á eftir er farið ítarlega yfir skrefin sjö ásamt gátlistum, leiðbeiningum og ítarefni sem styðja við innleiðingarferlið.

Það að viðhalda farsældinni í öllu starfi með börnum og fjölskyldum er eilífðarverkefni þar sem ákvæði laganna geta tekið breytingum sem og aðstæður og umhverfi barna og fjölskyldna. Því þarf stöðugt að vera að endurskoða í því skyni að tryggja að unnið sé í anda farsældarlaganna í sveitarfélögum/stofnunum.
Í því samhengi er mikilvægt að ábyrgðaraðili innleiðingar farsældarlaganna, ásamt stýrihópi farsældar, setji niður ný markmið og nýja áætlun um hvernig viðhalda á farsældinni í öllu starfi sveitarfélags/stofnunar sem viðkemur þjónustu við börn. Huga þarf til að mynda að þáttum eins og starfsmannabreytingum hjá þeim sem bera ábyrgð á og veita farsældarþjónustu, uppfærslu úrræðalista og fræðslu til foreldra og barna.
Svæðisbundin farsældarráð eru mikilvægur hlekkur í mótun nýrra markmiða. Samkvæmt 5. gr. laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna ber sveitarfélögum að skipa svæðisbundið farsældarráð. Ráðin skipa fulltrúar þjónustuveitenda á vegum ríkis og sveitarfélaga sem gegna lykilhlutverki í að tryggja farsæld barna á ákveðnu svæði. Farsældarráðunum er ætlað að skapa samráðsvettvang og áætlanagerð varðandi aðgerðir í þágu barna. Einnig skal farsældarráð hafa samráð við fulltrúa notenda á viðkomandi svæði, t.d. með þátttöku ungmennaráða við gerð aðgerðaáætlunar og forgangsröðun aðgerða. Því er mikilvægt að huga vel að skipan og vinnu farsældarráða sem sveitarfélagið/stofnunin tilheyrir.
Eitt af hlutverkum svæðisbundinna farsældarráða er að vinna aðgerðaáætlun þar sem fram kemur forgangsröðun aðgerða um farsæld barna til fjögurra ára. Aðgerðaáætlunin tekur mið af þingsályktun um stefnu um farsæld barna og framkvæmdaáætlun ríkisins sem og niðurstöðum farsældarþings. Sveitarfélög vinna skýrslur um framvindu áætlana um svæðisbundna forgangsröðun aðgerða á tveggja ára fresti. Áætlanir og skýrslur skulu sendar til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV).
Með tilkomu mælaborðs farsældar geta farsældarráðin og aðrir aðilar sem koma að þjónustu við börn nýtt tölfræðigögn sem til eru með markvissum hætti, m.a. við forgangsröðun aðgerða og mat á áhrifum aðgerða opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga. Í mælaborðinu eru tekin saman tölfræðigögn sem varpa ljósi á farsæld barna á Íslandi með heildstæðum hætti. Mælaborðið byggir á fimm grunnstoðum farsældar og markmið þess er að veita yfirsýn yfir stöðu farsældar barna á Íslandi á hverjum tíma, með áherslu á viðkvæma hópa og samfélagslegar áskoranir. Jafnframt er því ætlað að fylgjast með þróun farsældar yfir tíma og aðstoða við að leggja mat á árangur innleiðingar farsældarlaganna. Í því samhengi er bent á nýjan verkefna- og kynningarstjóra sem kemur til með að vinna að verkefnum sem tengjast velferð barna og ungmenna á Íslandi. Hann mun vinna náið með Menntavísindastofnun Háskóla Íslands, sveitarfélögum landsins, mennta- og barnamálaráðuneytinu og öðrum aðilum sem tengjast Íslensku æskulýðsrannsókninni.
Á vormánuðum 2024 var fyrsti samningur um myndun svæðisbundinna farsældarráða undirritaður af mennta- og barnamálaráðherra og framkvæmdarstjóra Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi þegar Vesturland varð fyrsti landshlutinn til að sameinast um farsældarráð. Hér að neðan, í nytsamlegum hlekkjum, er hægt að finna frétt sem birt var á vef Stjórnarráðsins við undirritun samningsins.
Taka ber fram að vinna í kringum svæðisbundin farsældarráð er enn í mótun og útfærslur geta verið ólíkar eftir landssvæðum. Framangreindar upplýsingar geta því tekið breytingum með aukinni þekkingu og reynslu af slíkri vinnu. Sveitarfélög, sem hafa ekki starfrækt svæðisbundið farsældarráð, eru hvött til að skoða hver ávinningur þeirra er með samstarfi við önnur nærliggjandi sveitarfélög um myndun og samvinnu svæðisbundinna farsældarráða.

Gátlisti
Nytsamlegir hlekkir
Stuðningsefni fyrir tengiliði og málstjóra farsældar (Farsæld - eyðublöð)
Farsældarþing 2023 – upptaka
Myndband: Kynning á Mælaborði farsældar barna











