Handbók farsældar - innleiðing farsældarlaganna á landsvísu
Þjónustuaðili:
Auk þessarar rafrænu útgáfu er einnig til PDF útgáfa af handbókinni.
Innleiðingarhringur farsældar
Innleiðingarhringur farsældarlaganna inniheldur sjö skref en gert er ráð fyrir því að það taki sveitarfélög og stofnanir mislangan tíma að ljúka hringnum. Að honum loknum er mikilvægt að setja saman ný markmið sem stuðla að því að viðhalda farsældinni í öllu starfi með börnum og fjölskyldum þeirra.
Skref innleiðingarhringsins eru: (sjá mynd, opnast í nýjum glugga)
Upphaf og undirbúningur
Stöðumat
Fræðsla
Aðgerðaáætlun
Framkvæmd
Lokamat, endurgjöf og verklagsreglur
Ný markmið og áframhald
Í ljósi þess að flest sveitarfélög og stofnanir eru þegar komin af stað í innleiðingu farsældarlaganna var ákveðið að tengja gátlista um stöðu innleiðingar við innleiðingarhring farsældar. Sveitarfélög og stofnanir geta nýtt gátlistana til að meta hvar þau eru stödd í innleiðingunni; þ.e. hvað er búið að gera, hvað vantar upp á og í kjölfarið gert aðgerðaáætlun út frá því.
Hægt er að nálgast gátlistana um stöðu innleiðingar bæði á pdf og rafrænu formi. Með því að fylla út rafræna formið samþykkir sveitarfélag/stofnun að deila svörum um stöðu innleiðingar með farsældarsviði BOFS. Það stuðlar að aukinni yfirsýn yfir stöðu innleiðingar og markvissari ráðgjöf af hálfu BOFS. Mælst er til þess að sveitarfélög/stofnanir nýti rafrænu útgáfuna.
Farsældarlögin fela í sér breytingar á ýmsum sviðum þegar kemur að þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Um er að ræða bæði verklags- og viðhorfsbreytingar í málefnum barna sem eru þó misumfangsmiklar eftir sveitarfélögum og stofnunum.
Hér á eftir er farið ítarlega yfir skrefin sjö ásamt gátlistum, leiðbeiningum og ítarefni sem styðja við innleiðingarferlið.

Hér er meginmarkmiðið að sveitarfélög/stofnanir setji það í forgang að innleiða farsæld og vinni eftir löggjöfinni. Sveitarfélög/stofnanir eru ólík hvað varðar stærð og skipulag sviða og/eða deilda sem koma að þjónustu við börn og fjölskyldur.
Mikilvægt er að skoða hvernig þörfum barna og foreldra er mætt í dag í núverandi skipulagi sveitarfélags/stofnunar. Leggja þarf mat á hindranir í stjórnsýslu sem geta flækt samvinnu á milli deilda/sviða þegar kemur að þjónustu við börn og foreldra. Skoða þarf boðleiðir og núverandi verklag á milli sviða/deilda og skýra og skilgreina samstarf, hlutverk og ábyrgð allra aðila. Einnig þarf að taka mið af samstarfssamningum sem geta verið á milli sveitarfélaga og stofnana um verkefni sem varða börn og fjölskyldur þeirra svo sem barnavernd, skólamál, félagsþjónustu og fleira.
Farsældarlögin taka til allrar þjónustu innan skólakerfisins: í leik-, grunn- og framhaldsskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Jafnframt er átt við þjónustu sem er veitt innan heilbrigðiskerfisins, á heilsugæslustöðvum, heilbrigðisstofnunum og sjúkrahúsum, félagsþjónustu, barnaverndarþjónustu og þjónustu við fötluð börn, auk verkefna lögreglu. Allir sem stýra þjónustu við börn þurfa að tala saman og þekkja farsældina og samvinnuna sem hún felur í sér, bæði innan sveitarfélags/stofnunar en einnig við önnur kerfi og stofnanir.
Leiðarljós farsældarlaganna er þverfaglegt samstarf innan þeirra kerfa sem veita börnum og fjölskyldum þjónustu. Meginmarkmið laganna er að brjóta niður múra á milli kerfa og þá þurfa allir staðbundnir þjónustuveitendur að ganga í takt. Mikilvægt er að draga alla að borðinu þegar farsældarlögin eru kynnt og tryggja þarf samtal, strax í upphafi, við alla sem veita þjónustu í þágu barna innan marka sveitarfélagsins.
Víðtækt eignarhald þjónustuveitenda á innleiðingu verkefnisins getur skipt miklu máli þegar kemur að velgengni innleiðingarinnar. Með því að draga alla að borðinu í upphafi aukast líkurnar á því að innleiðingin gangi hraðar og betur fyrir sig. Ótvírætt er að góð samvinna í einstökum málum mun ekki nást nema jafnframt sé unnið að almennu samráði og samtali milli þjónustuveitenda. Allir þurfa að vera meðvitaðir um að þegar kemur að innleiðingu af þessari stærðargráðu, þar sem margir þjónustuveitendur koma saman, getur komið upp ágreiningur á öllum stigum og þar geta legið að baki áratuga langar ólíkar hefðir eða reynsla. Slíkan ágreining verður að leysa eins fljótt og auðið er.1 Mælt er með að skoða vel myndina Samstarfsaðilar um innleiðingu farsældarlaganna.
Í ljósi þess er mikilvægt að tilnefndur sé starfsmaður sem ber ábyrgð á innleiðingu farsældarlaganna. Sveitarfélög/stofnanir hafa sum farið þá leið að búa til stöðugildi í kringum innleiðingu farsældarlaganna á meðan önnur leggja þá ábyrgð á starfsmann sem er nú þegar í öðrum störfum hjá sveitarfélaginu/stofnuninni. Mikilvægt er að tryggja að ábyrgðaraðilinn hafi þann tíma, svigrúm og stuðning sem hann þarf til að vinna að innleiðingu farsældarlaganna. Hafa ber í huga að mikill munur getur verið á umfangi verkefna ábyrgðaraðila eftir stærð og eðli þjónustunnar sem viðkomandi sveitarfélag/stofnun er að sinna. Einnig eru sum sveitarfélög/stofnanir með samning við annað sveitarfélag/stofnanir sem sinna þjónustu við börn fyrir þau, þá er ábyrgðaraðili innleiðingar farsældar hjá því sveitarfélagi/stofnun ábyrgðaraðili hjá báðum.
Þá er einnig mikilvægt að ábyrgðaraðilar innleiðingar farsældarlaganna komi á fót stýrihópi farsældar. Stýrihóp farsældar skipar starfsfólk sveitarfélags/stofnunar með ólíkan bakgrunn og frá mismunandi sviðum sem koma að þjónustu við börn og fjölskyldur. Ábyrgðaraðili innleiðingar farsældarlaganna stjórnar og ber ábyrgð á vinnu stýrihóps á meðan á innleiðingarferli stendur.












