Handbók farsældar - innleiðing farsældarlaganna á landsvísu
Þjónustuaðili:
Auk þessarar rafrænu útgáfu er einnig til PDF útgáfa af handbókinni.
Innleiðingarhringur farsældar
Innleiðingarhringur farsældarlaganna inniheldur sjö skref en gert er ráð fyrir því að það taki sveitarfélög og stofnanir mislangan tíma að ljúka hringnum. Að honum loknum er mikilvægt að setja saman ný markmið sem stuðla að því að viðhalda farsældinni í öllu starfi með börnum og fjölskyldum þeirra.
Skref innleiðingarhringsins eru: (sjá mynd, opnast í nýjum glugga)
Upphaf og undirbúningur
Stöðumat
Fræðsla
Aðgerðaáætlun
Framkvæmd
Lokamat, endurgjöf og verklagsreglur
Ný markmið og áframhald
Í ljósi þess að flest sveitarfélög og stofnanir eru þegar komin af stað í innleiðingu farsældarlaganna var ákveðið að tengja gátlista um stöðu innleiðingar við innleiðingarhring farsældar. Sveitarfélög og stofnanir geta nýtt gátlistana til að meta hvar þau eru stödd í innleiðingunni; þ.e. hvað er búið að gera, hvað vantar upp á og í kjölfarið gert aðgerðaáætlun út frá því.
Hægt er að nálgast gátlistana um stöðu innleiðingar bæði á pdf og rafrænu formi. Með því að fylla út rafræna formið samþykkir sveitarfélag/stofnun að deila svörum um stöðu innleiðingar með farsældarsviði BOFS. Það stuðlar að aukinni yfirsýn yfir stöðu innleiðingar og markvissari ráðgjöf af hálfu BOFS. Mælst er til þess að sveitarfélög/stofnanir nýti rafrænu útgáfuna.
Farsældarlögin fela í sér breytingar á ýmsum sviðum þegar kemur að þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Um er að ræða bæði verklags- og viðhorfsbreytingar í málefnum barna sem eru þó misumfangsmiklar eftir sveitarfélögum og stofnunum.
Hér á eftir er farið ítarlega yfir skrefin sjö ásamt gátlistum, leiðbeiningum og ítarefni sem styðja við innleiðingarferlið.

Mikilvægt er að fræðsla um farsældarlögin sé alltumlykjandi í innleiðingu farsældarlaganna hjá sveitarfélagi/stofnun. Fræðsla er grunnurinn að farsælli innleiðingu og það er mikilvægt að hún sé markviss og regluleg.
Mælt er með því að forgangsraða fræðslu um farsældarlögin fyrst til þeirra sem bera ábyrgð á og veita börnum og foreldrum þeirra þjónustu. Þekking á farsældarlögunum og þeirri ábyrgð sem þau setja á þjónustuveitendur er forsenda þess að foreldrar og börn fái rétta aðstoð, á réttum tíma frá réttum aðilum. Þegar nauðsynlegar breytingar hafa verið gerðar hjá sveitarfélagi/stofnun sem miða að því að innleiða farsældarlögin í allt stjórnkerfi og þjónustustofnanir er tímabært að kynna farsældarlögin fyrir börnum og foreldrum.
Fræðsla um farsældarlögin þarf að ná til alls starfsfólks sveitarfélags/stofnunar sem kemur með einhverjum hætti að þjónustu við börn. Kortlagning á starfsmannahópnum er góður undirbúningur og mikilvægt er að horfa á hópinn í víðu samhengi, allt frá þeim sem veita börnum þjónustu með beinum hætti til þeirra sem hafa ákvörðunarvald um fjárveitingar til þjónustu við börn.
Gagnlegt er að útbúa fræðsluáætlun þar sem fræðsla um farsældarlögin til mismunandi hópa er skipulögð og henni forgangsraðað. Hafa ber í huga að almenn fræðsla í stórum hópum til ólíkra aðila sem koma að þjónustu við börn er gagnleg á fyrstu stigum innleiðingar. Sérhæfðari fræðsla til minni hópa er einnig nauðsynleg og gefur tækifæri til ígrundunar viðfangsefnis og samtals um það sem er óljóst.
Mikilvægt er að gera ráð fyrir þátttöku barna og ungmenna þegar kynningar og fræðsla til þeirra er skipulögð, t.d. á hvaða formi slík fræðsla er, efnistök og uppbygging. Gott er að kynna sér vel verkfærakistu um þátttöku barna á vegum UNICEF hér í nytsamlegum hlekkjum.
Vakin er athygli á því að ábyrgðaraðili innleiðingar farsældarlaganna í samvinnu við stjórnendur ber ábyrgð á að þjónustuveitendur sveitarfélags/stofnunar fái nauðsynlega fræðslu. Hægt er að nýta eftirfarandi stuðningsefni frá BOFS í fræðslunni eða sem grunn til að byggja á. Einnig getur starfsfólk farsældarsviðs BOFS aðstoðað við skipulagningu fræðslunnar og efnistök ef óskað er eftir því.












