Geðrækt
Geðrækt - námsefni
Vinir Zippýs
Vinir Zippýs (Zippy's Friends) er námsefni í félags- og tilfinningafærni fyrir börn á yngsta stigi í grunnskóla en einnig hafa margir leikskólar nýtt efnið fyrir elstu börnin. Bresku samtökin Partnership for Children halda utan um námsefnið á heimsvísu en það er kennt í yfir 30 löndum víða um heim að Íslandi meðtöldu.
Vinir Zippýs hafa verið kenndir í íslenskum skólum frá árinu 2007. Námsefnið hefur verið mjög vinsælt og er á meðal þess efnis sem mest hefur verið nýtt við lífsleiknikennslu og þjálfun félags- og tilfinningafærni meðal yngstu barnanna í grunnskólum.
Námsefnið inniheldur sex námsþætti sem hver felur í sér fjórar kennslustundir. Alls er því gert ráð fyrir 24 kennslustundum í námsefninu og fá kennarar nákvæmar kennsluleiðbeiningar, tilbúin heimaverkefni og ýmislegt aukaefni til að nýta við kennsluna. Nauðsynlegt er að sækja námskeið hjá embætti landlæknis til að fá leyfi til að nýta námsefnið við kennslu.
Í námsefninu er gert ráð fyrir aðkomu foreldra með heimaverkefnum að loknum hverjum námsþætti eða eftir fjórðu hverja kennslustund. Foreldrar fá einnig kynningarefni um námsefnið og kennarar eru hvattir til að kynna umfjöllunarefni þess fyrir þeim.
Lesa má nánar um Vini Zippýs í skýrslu embættis landlæknis um námsefni og heildarskólanálgun til að efla félags- og tilfinningafærni barna í skólastarfi. Þar kemur fram að Vinir Zippýs er meðal þess námsefnis sem er hvað best stutt rannsóknum af því námsefni í félags- og tilfinningafærni sem stendur skólum til boða á Íslandi. Einnig má benda á stutta grein um áhuga og nýtingu á Vinum Zippýs í íslenskum skólum sem birtist í Netlu – veftímariti um uppeldi og menntun.
Frekari upplýsingar
Beiðni um aðgang að Vinum Zippýs
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis