Lekandi er kynsjúkdómur sem orsakast af bakteríunni Neisseria gonorrhoeae. Lekandi smitast oftast við beina snertingu slímhúða við kynlíf og getur bakterían tekið sér bólfestu í kynfærum, þvagrás, endaþarmi og hálsi. Þaðan getur bakterían borist í augu með sýktum vessa og valdið augnsýkingu hjá nýburum við fæðingu. Sýking í endaþarmi og hálsi er oftast einkennalaus. Komi einkenni fram er það oftast 1–7 dögum eftir smit en einkenni geta komið fram síðar.