20. júlí 2023
20. júlí 2023
Yfirstaðin nóróveiru hópsýking tengd veitingastað í Reykjavík
Óvenjumargar tilkynningar um meltingartengd einkenni fóru að berast til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og sóttvarnalæknis tengdar helginni 8.-9. júlí 2023 og dögunum þar á eftir. Einnig skapaðist mikil umræða um slík veikindi á samfélagsmiðlum.
Mjög margir tengdu einkenni sín við að hafa borðað mat á ákveðnum veitingastað í Reykjavík en um 110-120 manns tilkynntu veikindi. Strax og grunur vaknaði um matarborna hópsýkingu hóf Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og sóttvarnalæknir rannsókn til að finna orsökina og stöðva útbreiðslu. Erfitt reyndist í fyrstu að fá sýni frá fólki til ræktunar en eftir að nægilegur sýnafjöldi fékkst og gerðar voru endurteknar rannsóknir á sýnunum var ljóst að um hópsýkingu af völdum nóróveiru væri að ræða.
Gott samstarf var milli allra aðila sem komu að þessari rannsókn þar með talið rekstraraðila veitingastaðarins. Þá sýndu niðurstöður rannsókna ekki að sýkingarvaldar væru í matvælum.
Það sem var óvenjulegt við þessa hópsýkingu var sá mikli fjöldi sem veiktist. Þess ber þó að geta að fleiri meltingartengdar sýkingar eru í gangi í þjóðfélaginu sem tengjast ekki þessari hópsýkingu, en erfitt getur verið að aðgreina og finna uppruna slíkra sýkinga.
Málinu telst nú lokið af hálfu sóttvarnalæknis.
Sóttvarnalæknir