14. ágúst 2023
14. ágúst 2023
COVID-19 staðan í dag
Greiningar á SARS-CoV-2 veirunni sem veldur COVID-19 hafa aukist hérlendis undanfarið.
Sóttvarnalækni berast tilkynningar á veirugreiningum frá rannsóknarstofum og tölfræði klínískra greininga á heilbrigðisstofnunum, sem byggja gjarnan á hraðprófum utan sjúkrahúsa. Undanfarnar vikur hafa greinst um 30 tilfelli á viku sem er væg aukning frá því fyrr í sumar en töluvert færri en síðasta vetur (sjá graf, vika 32 var 7.-13. ágúst). Ljóst er að einhverjir nota heimapróf til greiningar eða gera engin próf svo þessar tölur sýna ekki heildarmynd smitaðra. Sjúkrahús gera hins vegar rannsóknir á þeim sem hafa einkenni eða eru grunaðir um að vera sýktir svo flest greind tilfelli koma þaðan. Sóttvarnalæknir hefur ekki upplýsingar um fjölda innlagðra með COVID-19 en fram hefur komið í viðtölum við starfsfólk Landspítala og heilsugæslu að innlögðum og veikum utan spítala virðist hafa fjölgað þó tölur séu enn lágar miðað við það sem var sl. vetur þegar síðasta stóra bylgja smita gekk yfir.
Í lok viku 31 (6. ágúst 2023) varð einnig vart við aukinn fjölda tilkynninga í flestum aldursflokkum á ESB/EES svæðinu skv. Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins (ECDC). Ekki varð almennt breyting á spítalainnlögnum eða andlátum. Hins vegar hefur löndum fækkað sem gera prófanir og senda inn tilkynningar svo taka þarf tölum með fyrirvara. Utan Evrópu hefur orðið vart við aukningu á tilfellum og spítalainnlögnum m.a. í Bandaríkjunum og Bretlandi og aukning á andlátum í Bandaríkjunum. Tölur eru þó lágar miðað við það sem var síðasta vetur.
Fólk með einkenni (kvefeinkenni, hálssærindi, hósta, hita, þreytu) er hvatt til að nota heimapróf og halda sig sem mest til hlés til að smita ekki aðra. Einstaklingar í áhættuhópum eða 60 ára og eldri ættu að hafa samband við sinn lækni ef þau telja sig hafa veikst af COVID-19, vegna mats m.t.t. möguleika á sértækri lyfjameðferð, og allir með einkenni sýkingar skyldu sýna sérstaka varúð í nánd við viðkvæma einstaklinga.
Í þeim löndum sem senda inn raðgreiningar á veirunni er XBB.1.5 enn algengasta afbrigðið. Önnur tilkynnt afbrigði eru eins og áður helst XBB og BA.2.75 en BQ.1 er sjaldgæft.
ECDC flokkar nú öll XBB.1.5-lík undirafbrigði með stökkbreytinguna F456L, sem áhugaverð afbrigði (e. variant of interest, VOI), sem stofnunin fylgist þá sérstaklega með. Útbreiðsla þessara afbrigða hefur aukist mest hlutfallslega í heiminum undanfarið og ástæða þess er e.t.v. að ónæmissvar vegna bólusetninga eða fyrri sýkinga hafi minni áhrif á þau. Ekki hefur orðið vart við meiri alvarleika veikinda vegna þessara undirafbrigða. Sjá nánar ECDC og WHO.
Ljóst er að SARS-CoV-2 veiran er enn í dreifingu og hefur gengið í misstórum bylgjum undanfarna 12 mánuði. Smittölur hérlendis eru nú lægri en þær voru síðasta sumar og mun lægri en veturinn þar á undan þegar omicron bylgjan skall fyrst á. Sama á við á meginlandi Evrópu, þótt tíðni smita, innlagna og andláta gangi í bylgjum hefur tilhneigingin verið niður á við miðað við sem áður var. Áfram verða eldri einstaklingar og áhættuhópar verst úti og því verður mælt með örvunarbólusetningu þessara hópa í haust til að lágmarka alvarleg veikindi og dauðsföll vegna COVID-19 en búast má við auknum fjölda smita á flensutímanum í haust og vetur. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag bólusetninga nú í haust verða birtar í september.
Sjá nánar:
Frá sóttvarnalækni um bólusetningar gegn COVID-19
Sóttvarnalæknir