25. febrúar 2025
25. febrúar 2025
Vinna hafin við landsskrár um sykursýki og hjarta- og æðasjúkdóma
Embætti landlæknis vinnur nú að því að koma á fót miðlægum, landsþekjandi gagnagrunnum um sykursýki annars vegar og um hjarta- og æðasjúkdóma hins vegar.

Verkefnið er hluti af JACARDI (Joint action: cardiovascular diseases and diabetes), evrópsku samvinnuverkefni sem miðar að því að draga úr byrði vegna sykursýki og hjarta- og æðasjúkdóma, bæði gagnvart einstaklingum og stofnunum. Alls taka 18 lönd þátt í verkefninu og munu skila af sér 142 verkefnum sem tengjast nýjungum í forvörnum, gagnaskráningu, skimun, meðferðarúrræðum, sjálfsumönnun og þátttöku á vinnumarkaði.
Sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómar eru hvoru tveggja útbreidd heilsufarsvandamál á Íslandi. Árið 2016 var áætlað að um sjö prósent Íslendinga glímdu við sykursýki og nýleg rannsókn sýnir að algengi sykursýki 2 hafi tvöfaldast í nær öllum aldurshópum á tímabilinu 2005-2018. Þessa aukningu má að einhverju leyti rekja til mikillar hækkaðrar meðalþyngdar Íslendinga á sama tímabili, en há líkamsþyngd er meðal þekktra áhættuþátta fyrir sykursýki 2.
Á síðustu árum hefur mátt rekja um fjórðung allra dauðsfalla á Íslandi til hjarta- og æðasjúkdóma en dánartíðni hefur farið lækkandi síðustu áratugi vegna betri meðferðar og hagstæðra breytinga á lifnaðarháttum. Vísbendingar eru um að það hægi þó á þeim árangri sem náðst hefur, meðal annars vegna hækkandi meðalaldurs og breytinga á lifnaðarháttum sem endurspeglast meðal annars í aukningu á sykursýki 2.
Á Íslandi er ekki til miðlæg landsskrá um öll sem hafa greinst með hjarta- og æðasjúkdóma, en rafræn skráning á hjartaáföllum meðal einstaklinga á aldrinum 25 til 74 ára hefur átt sér stað frá árinu 1981 í hjartaáfallaskrá, heilbrigðisskrá á ábyrgð landlæknis sem er rekin af Hjartavernd.
Að sama skapi er engin miðlæg landsskrá til um þau sem greinst hafa með sykursýki á Íslandi, en árið 2018 skilaði starfshópur heilbrigðisráðuneytisins skýrslu þar sem var sterklega mælt með stofnun landsskrár um sykursýki.
Með stofnun þessara landsskráa verður hægt að fylgjast með stöðu og þróun þessara sjúkdóma á Íslandi, sem og helstu áhættuþáttum. Þá verður einnig einfaldara að gera samanburð við fleiri lönd í Evrópu, nýta gögnin við mótun stefnu og forgangsröðun verkefna, sem og efla vísindarannsóknir á sviðinu.
Að verkefninu koma fulltrúar frá embætti landlæknis, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Landspítala, Hjartavernd og Háskóla Íslands. Verkefnin eru enn á byrjunarstigi en þeim lýkur árið 2027. Með þátttöku í JACARDI hefur embætti landlæknis fengið styrk sem nemur rúmlega 340 þúsund evrum. Styrkurinn er fjármagnaður af Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í gegnum Heilbrigðisáætlun Evrópusambandsins (EU4Health).
Tengiliður verkefnis er Urður Ýrr Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri
urdur.brynjolfsdottir@landlaeknir.is