28. febrúar 2023
28. febrúar 2023
Þrjú ár liðin frá fyrstu COVID-19 greiningu á Íslandi
Í dag 28. febrúar eru þrjú ár liðin frá því að fyrsta COVID-19 smitið greindist hérlendis en viðkomandi hafði komið erlendis frá. Fyrsta innanlandssmitið var síðan staðfest 6. mars 2020. Gripið var til margvíslegra aðgerða til að stemma stigu við dreifingu smita og lágmarka afleiðingar faraldursins hérlendis. Öllum takmörkunum var síðan aflétt í lok febrúar 2022 en þá var bylgja ómíkron afbrigðisins (BA.1/BA.2) í hámarki. Eftir að ómíkrón bylgjan gekk yfir fór greiningum fækkandi en minni bylgja annars undirafbrigðis (BA.5) kom fram í júlí 2022.
Fjölmörg undirafbrigði ómíkron hafa komið fram en ekki valdið verulegri bylgju smita síðan sl. sumar. Enn greinast 100–120 manns hér vikulega en flest opinber COVID-19 próf eru um þessar mundir tekin á sjúkrahúsum. Um 56% íbúa landsins hafa greinst með COVID-19 frá upphafi. Þá hefur meirihluti fólks yfir sextugu fengið örvunarbólusetningu. Andlát á Íslandi vegna COVID-19 frá upphafi faraldurs eru 263 samtals. Sjá nánari tölfræði á covid.is.
Skv. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) er COVID-19 enn yfirlýstur heimsfaraldur og ógn við lýðheilsu í heiminum. Tæplega 7 milljónir manna hafa látist vegna COVID-19 frá upphafi faraldurs og enn greinast tugir þúsunda á hverjum sólarhring. Í Evrópu er ástandið stöðugt og fjöldi smita, innlagna á sjúkrahús og andláta almennt lág samanborið við undanfarið ár þó ástandið sé mismunandi eftir löndum.
Í vikulegri samantekt sóttvarnalæknis á vef embættis landlæknis má finna upplýsingar um stöðu COVID-19 á Íslandi auk annarra öndunarfærasýkinga sem herja á landsmenn á flensutíma.
Sóttvarnalæknir