Fara beint í efnið

29. apríl 2024

Mælaborð með upplýsingum um þátttöku í brjósta- og leghálsskimun

Gagnvirkt mælaborð með upplýsingum um þátttöku í krabbameinsskimunum hefur nú verið birt á vef embættis landlæknis.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Mælaborðinu er fyrst og fremst ætlað að bæta aðgengi að tölulegum upplýsingum um þátttöku í brjósta- og leghálsskimun. Í því má sjá upplýsingar um þátttökuhlutfall, fjölda skimana, endurinnköllunarhlutfall í brjóstaskimun og hlutfall tilvísana í leghálsspeglun. Mögulegt er að skoða þátttöku eftir völdum bakgrunnsbreytum.

Mælaborðið verður þróað áfram og uppfært árlega. Samhliða því verða gefnar út ársskýrslur eins og undanfarin tvö ár.

Mælaborðið byggir á gögnum úr skimunarskrá sem er gagnagrunnur og upplýsingakerfi og inniheldur gögn um boð í skimun, mætingu og niðurstöður skimana allra kvenna sem komið hafa í skimanir.

Krabbameinsskimun er skipulögð rannsókn á hópi einkennalausra einstaklinga en á á Íslandi er skimað á landsvísu fyrir legháls- og brjóstakrabbameini. Til þess að árangur skimunar sé góður er reglubundin þátttaka skimunarhópsins nauðsynleg en með því að greina krabbamein á frumstigi/forstigi er mögulegt að lækka nýgengi sjúkdómsins, sem skimað er fyrir og/eða bæta lifun.

Frekari upplýsingar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is