Fara beint í efnið

2. september 2024

Breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu – kvartanir vegna heilbrigðisþjónustu

Hinn 1. september 2024 öðluðust gildi breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007, varðandi meðal annars kvartanir vegna heilbrigðisþjónustu.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Sem fyrr er heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Sú breyting verður að niður fellur heimild til að kvarta vegna ótilhlýðilegrar framkomu heilbrigðisstarfsfólks í tengslum við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þess í stað skal beina athugasemdum sjúklings vegna þjónustu eða framkomu heilbrigðisstarfsfólks á heilbrigðisstofnun, starfsstofu heilbrigðisstarfsmanna eða annars staðar þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt, til yfirstjórnar viðkomandi heilbrigðisstofnunar eða þeirra sem bera ábyrgð á þjónustunni. Sjá 28. gr. laga um réttindi sjúklinga, nr. 74/2008.

Þá varð sú breyting að:
Landlæknir ákveður hvort kvörtun sem berst gefi nægar ástæður til rannsóknar og hvort líklegt sé að niðurstöður rannsóknar geti leitt til aukinna gæða og aukins öryggis heilbrigðisþjónustu. Landlæknir skal upplýsa kvartanda um framvindu og niðurstöður máls innan hæfilegs tíma.

Jafnfram varð sú breyting að:
Varði kvörtun atvik sem er eða hefur verið til rannsóknar landlæknis á grundvelli 10. gr. og 10. gr. a, eða tilefni er til að rannsaka á þeim grundvelli, getur landlæknir vísað kvörtun frá.

Enn fremur gildir frá 1. september 2024 að ef „meira en fjögur ár liðin frá því að þau atvik gerðust sem eru tilefni kvörtunar er landlækni rétt að vísa kvörtun frá nema sérstakar ástæður mæli með því að hans mati að kvörtun sé tekin til meðferðar.“

Kvartanir samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu, sem bárust embætti landlæknis fyrir 1. september 2024, verða afgreiddar samkvæmt lögunum eins og þau voru fyrir 1. september 2024. Kvartanir sem berast frá og með 1. september 2024 verða unnar í samræmi við breytingarnar sem öðluðust gildi 1. september 2024.

Breytingarnar hafa ekki verið færðar inn í heildartexta laga um landlækni og lýðheilsu en þær má sjá á vef Alþingis. Sjá þar einnig breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007 og breytingar á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997.

Frekari upplýsingar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is