22. apríl 2024
22. apríl 2024
Bið eftir völdum skurðaðgerðum – uppfært mælaborð í apríl 2024
Gagnvirkt mælaborð sem sýnir bið eftir völdum skurðaðgerðum hefur nú verið uppfært á vefnum.
Mælaborðið byggir á:
Innsendum gögnum frá sjúkrastofnunum um fjölda sem bíður eftir völdum skurðaðgerðum, fjölda lokinna aðgerða og biðtíma eftir aðgerð. Með biðtíma er átt við þann tíma sem líður frá því að einstaklingur er metinn í þörf fyrir tiltekna skurðaðgerð þar til aðgerðin hefur verið framkvæmd.
Miðlægum gagnagrunni biðlistaupplýsinga um liðskipti á hné og mjöðm.
Síðasta gagnainnköllun var í janúar 2024 og sýna því nýjustu gildin í mælaborðinu fjölda sem beið eftir skurðaðgerð í janúar 2024 sem og fjölda sem lauk aðgerð á tímabilinu frá 1. janúar 2023 til 31. desember 2023.
Samantekt
Heilt yfir hefur skurðaðgerðum fjölgað frá árinu 2023 og biðlistar styst. Jákvæð þróun hefur verið á bið eftir skurðaðgerð og hlutfall þeirra sem beðið hafa lengur en þrjá mánuði eftir skurðaðgerð hefur lækkað í flestum aðgerðaflokkum. Staðan er þó enn sú að of margir bíða umfram viðmið embættisins um ásættanlegan biðtíma í öllum nema þremur aðgerðaflokkum. Viðmið embættis landlæknis um ásættanlegan biðtíma kveður á um að 80% sjúklinga komist í aðgerð innan 90 daga. Þetta viðmið á ekki við þegar um er að ræða skurðaðgerðir sem metnar eru í brýnum forgangi t.d. vegna lífsógnandi sjúkdóma.
Óvirk bið
Vert er að benda á að í sumum tilvikum uppfyllir fólk ekki heilsufarsleg skilyrði um að gangast undir aðgerð eða óskar sjálft eftir að bíða lengur þegar því er boðin aðgerð. Í slíkum tilvikum eiga aðgerðaraðilar að skrá beiðnir sem óvirkar og teljast viðkomandi einstaklingar þá ekki vera á biðlista. Þegar fólk óskar aftur eftir að komast í aðgerð eru beiðnir virkjaðar á ný og þá á tími sem beiðnir voru óvirkar að dragast frá biðtíma. Á Landspítala er notast við skráningarkerfi sem takmarkar möguleika á að draga þennan óvirka tíma frá í uppgjöri á biðtíma. Biðtími reiknast þá frá þeim degi þegar beiðni um aðgerð var gerð upphaflega og tekur ekki tillit til þess að einstaklingar hafi ekki verið í virkri bið allan tímann. Af þessum sökum er biðtími ekki birtur fyrir liðskiptaaðgerðir á hné eða mjöðm á Landspítala, þar sem hann gefur ekki rétta mynd af raunverulegum biðtíma. Þótt þetta vandamál varðandi mat á biðtíma sé ekki nýtilkomið virðast áhrifin af því hafa orðið meiri nú, þegar margir af þeim sem vilja komast í aðgerð við allra fyrsta tækifæri hafa þegið aðgerð utan sjúkrahúss í gegnum samninga Sjúkratrygginga. Biðtímaútreikningar verða skoðaðir með fulltrúum Landspítala og tölur uppfærðar eins og hægt er. Frekari gögn um liðskiptaaðgerðir sérstaklega má sjá í mælaborði á vef embættisins sem uppfært er mánaðarlega.
Frekari upplýsingar
Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis
kjartan.h.njalsson@landlaeknir.is