16. júní 2021
16. júní 2021
Tíðni sjálfsvíga 2020
Reglulega hefur komið upp umræða á undanförnum misserum hvort tíðni sjálfsvíga hafi aukist í kórónuveirufaraldrinum. Eðlilegt er að áhyggjur vakni af andlegri heilsu þegar samfélagslegar hremmingar ganga yfir og vissulega var ýmislegt sem faraldrinum fylgdi sem gat haft neikvæð áhrif á andlega líðan.
Reglulega hefur komið upp umræða á undanförnum misserum hvort tíðni sjálfsvíga hafi aukist í kórónuveirufaraldrinum. Eðlilegt er að áhyggjur vakni af andlegri heilsu þegar samfélagslegar hremmingar ganga yfir og vissulega var ýmislegt sem faraldrinum fylgdi sem gat haft neikvæð áhrif á andlega líðan. Sem dæmi má nefna takmarkanir á samneyti milli fólks, atvinnumissi og áhyggjur af eigin heilsu og annarra. Aftur á móti benda gögn einnig til þess að jákvæðar breytingar hafi orðið á öðrum áhrifaþáttum andlegrar heilsu, svo sem minni áfengisneyslu ásamt því sem hærra hlutfall fólks átti auðvelt með að ná endum saman.
Opinber tölfræði um sjálfsvíg byggir á dánarmeinaskrá landlæknis. Fjöldi sjálfsvíga tekur til andláta þar sem undirliggjandi dánarorsök á dánarvottorði er skráð vísvitandi sjálfsskaði (ICD-10 kóðar: X60-X84). Skráningu dánarmeina er ekki hægt að ljúka fyrr en öll gögn og krufningaskýrslur frá réttarmeinafræðideild Landspítala hafa borist embætti landlæknis.
Samkvæmt bráðabirgðatölum urðu 47 sjálfsvíg árið 2020, 15 meðal kvenna og 32 meðal karla. Ef miðað er við árið á undan má ekki sjá breytingu á fjölda sjálfsvíga meðal karla en nokkru fleiri sjálfsvíg urðu hins vegar meðal kvenna árið 2020 en 2019. Við túlkun þessara niðurstaðna ber þó að setja ákveðinn fyrirvara. Í fyrsta lagi eru sjálfsvíg á Íslandi fá ef eingöngu er miðað við fjölda tilvika þar sem þjóðin er fámenn. Þetta gerir það að verkum að flóknara getur verið að lesa í þær breytingar sem verða yfir tíma þar sem litlar breytingar á fjölda sjálfsvíga geta haft mikil áhrif á tölfræðina. Vegna þessa er mikilvægt að túlka tölur einstakra ára af varúð enda getur verið um tilviljanakennda sveiflu að ræða. Til þess að jafna sveiflur milli ára og draga fram langtímaþróun sjálfsvíga getur verið heppilegra að notast við meðaltöl nokkurra ára heldur en tíðni hvers árs.
Síðastliðinn áratug (2011-2020) hafa að meðaltali 39 sjálfsvíg orðið árlega hér á landi en þegar litið er til einstakra ára hefur fjöldinn verið á bilinu 27 til 49. Hæpið væri þó að tala um fækkun eða fjölgun sjálfsvíga í þeim tilfellum þar sem árin á eftir sýndu breytingar í gagnstæðar áttir – ef fá sjálfsvíg urðu eitt árið mátti yfirleitt sjá fjölgun það næsta og öfugt. Þegar á heildina er litið má því ekki sjá teljandi breytingar á sjálfsvígstíðni á Íslandi síðastliðinn áratug.
Svipað mynstur má sjá ef litið er á fjölda sjálfsvíga á hverja 100.000 íbúa. Síðastliðinn áratug hefur tíðnin verið á bilinu 8,5 til 15,1 hér á landi en að meðaltali 11,6. Árið 2020 var þessi tala 12,8. Sjálfsvíg eru alla jafna tíðari meðal karla en kvenna. Ef horft er til karla hefur spönnin undanfarinn áratug verið frá 13,7 til 21,6 en 1,2 til 8,7 meðal kvenna. Árið 2020 urðu 17 sjálfsvíg á 100.000 íbúa meðal karla og 8,4 meðal kvenna. Mikilvægt er að halda áfram að fylgjast með þróun sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna hér á landi og vinna markvisst að fækkun þeirra.
Árið 2018 skilaði þverfaglegur starfshópur á vegum embættis landlæknis ítarlegum tillögum til heilbrigðisráðherra um aðgerðir til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Aðgerðaáætlunin var samþykkt og verkefnastjóri ráðinn tímabundið til embættis landlæknis til að fylgja henni eftir í samvinnu við helstu stofnanir og hagsmunasamtök á þessu sviði. Sú vinna stendur enn yfir og snýr að margvíslegum þáttum, svo sem að auka eftirfylgd í kjölfar sjálfsvíga, draga úr aðgengi að hættulegum efnum og aðstæðum, bæta þjónustu við sérstaka áhættuhópa og efla geðrækt í skólum. Einnig hafa verið unnar leiðbeiningar til fjölmiðla um ábyrga umfjöllun þar sem mikilvægt er að opinber umræða um sjálfsvíg sé fagleg og til þess fallin að vekja von og auka líkur á því að leita sér hjálpar.
Ábyrg og fræðandi umfjöllun um sjálfsvígshegðun þar sem einblínt er á batasögur og hjálparúrræði geta haft þau áhrif að einstaklingar í vanlíðan leiti sér hjálpar. Þessi áhrif eru kölluð „Papageno áhrif", eftir Papageno úr Töfraflautu Mozarts, sem íhugar sjálfsvíg en hættir við eftir að hafa verið bent á aðrar uppbyggilegar leiðir.
Hafir þú áhyggjur af líðan þinni eða annarra er hægt að hafa samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717, á netspjalli 1717.is , eða í síma Píeta samtakanna, 552-2218. Þessi úrræði eru opin allan sólarhringinn. Einnig er hægt að ræða við hjúkrunarfræðing á netspjalli heilsuvera.is alla virka daga frá kl. 8:00 til 22:00 og frá kl. 10:00-16:00 og 19:00-22:00 á frídögum. Í þessu myndbandi má sjá nánari umfjöllun um þessi úrræði.
Móttaka vegna bráðs geðræns vanda er opin allan sólarhringinn á Landspítala. Hún er staðsett á bráðamóttöku geðþjónustunnar á fyrstu hæð í geðdeildarbyggingunni við Hringbraut kl. 12:00-19:00 virka daga og kl. 13:00-17:00 á frídögum. Utan þess tíma er hún staðsett á bráðamóttökunni í Fossvogi.Til bráðamóttöku getur fólk leitað með áríðandi mál af geðrænum toga án þess að eiga pantaðan tíma.Sími bráðamóttöku geðþjónustunnar: 543 4050 á þeim tíma sem opið er.Sími Landspítala: 543 1000.
Í neyðartilvikum skyldi alltaf hringja í 112.
Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri geðræktar
Netfang: sigrun@landlaeknir.is