Fara beint í efnið

Endurgreiðslur vegna ofgreiddra bóta frá Tryggingastofnun ríkisins

Sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra sér um innheimtu á kröfum TR þegar skuldari hefur ekki sinnt ítrekuðum boðum TR um greiðslu.


Innheimtuferli

Þegar krafa er stofnuð birtist hún í heimabanka skuldara.  Innheimtubréf eru send í pósthólf viðkomandi á island.is.  
Ef krafan fæst ekki greidd 30 dögum eftir að innheimtubréf hefur verið sent og ekki er samið um kröfuna er greiðsluáskorun birt af stefnuvotti. 

Eftirfarandi úrræði koma til, til að knýja á um greiðslur:

Greiðsludreifing 

Þegar frádrætti af greiðslum hjá TR verður ekki komið við þá er hægt að semja við sýslumanninn á Norðurlandi vestra um að greiðsludreifingu. 

Beiðni um greiðsludreifingu þarf að berast skriflega á netfangið innheimta@syslumenn.is eða með bréfi til embættis Sýslumannsins á Norðurlandi vestra. Þá er einnig hægt að greiða með greiðslukorti. 
Meginreglan er að greiðslum sé skipt til allt að 12 mánaða samkvæmt beiðni skuldara en að jafnaði ekki lengur en til 36 mánaða, séu sérstakar aðstæður fyrir hendi.  Lágmarksfjárhæð mánaðarlegra greiðslna í greiðsludreifingu er 10.000 krónur. 

Millifærslur

Athugið að hægt er að greiða kröfu á bankareikning  0159-26-267, kennitala 660914-0990.  IBAN: IS81 0159 2600 0267 6609 1409 90   SWIFT (BIC) NBIIISRE

Tilgreina þarf kennitölu og nafn skuldara við greiðslu í banka.

Vextir

Hafi krafa vegna ofgreiddra bóta ekki verið greidd 12 mánuðum frá því að hún stofnaðist er Tryggingastofnun skylt að reikna 5,5% ársvexti á eftirstöðvar kröfu.

Vextir eru ekki reiknaðir ef samningur um endurgreiðslu liggur fyrir og viðkomandi stendur í skilum með þær greiðslur.

Álag

Heimilt er að bæta 15% álagi á fjárhæð ofgreiddrar kröfu komi í ljós að bótaþegi hafi gefið upp rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar.

Dánarbú

Dánarbú tekur við öllum fjárhagslegum skyldum hins látna við andlát hans. Almenna reglan er sú að kröfur eru innheimtar hjá dánarbúum. Undantekningarnar eru ef dánarbúi hefur verið lokið sem eignalausu eða það tekið til opinberra skipta. Ef dánarbúið hefur hins vegar verið lýst eignalaust eða tekið til opinberra skipta eru opinberar kröfur ekki innheimtar.

Umsókn um niðurfellingu krafna

Tryggingastofnun hefur heimild til að fella niður uppgjörskröfur að hluta eða öllu leyti ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Við mat um umsókn um niðurfellingu er einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um að greiðslur til sín væru réttmætar. Umsóknir um niðurfellingar verða að vera skriflegar og vel rökstuddar. 

Umsókn um niðurfellingu ofgreiðslukröfu

Kæruleiðir

Hægt er að óska rökstuðnings, endurupptöku eða kæra niðurstöðu til Úrskurðarnefndar velferðarmála innan 3ja mánaða frá því að ákvörðun Tryggingastofnunar er dagsett. 
Lesa má nánar um kæruleiðir hjá Úrskurðarnefnd velferðarmála.

Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en frestar aðför. Hafi ákvörðun Tryggingastofnunar verið kærð skal senda staðfestingu um það til Sýslumannsins á Norðurlandi vestra á netfangið innheimta@syslumenn.is

Ákvarðanir Tryggingastofnunar um endurkröfu má finna inni á mínar síður á heimasíðu þeirra.