Policy of the Icelandic Transport Authority
You can find approved policies that are prepared by the Icelandic Transportation Authority. They are in the Icelandic language.
Mannauðsstefna Samgöngustofu styður heildarstefnu stofnunarinnar og byggir á gildunum; jákvæðni, fagmennska, traust og virðing.
Markmið mannauðsstefnu stofnunarinnar er að stjórnendur og starfsfólk stuðli að því að stefnu og hlutverki stofnunarinnar sé náð. Þannig bera þau sameiginlega ábyrgð á að veita sem besta þjónustu en um leið sinna öflugu eftirliti eins og lög og reglur kveða á um.
Áhersluþættir mannauðsstefnu Samgöngustofu
Ráðningar og starfslok;
Stöndum faglega að ráðningum starfsfólks til Samgöngustofu. Leitumst ávallt við að hafa á að skipa hæfu, áhugasömu og heiðarlegu starfsfólki. Ráðningar byggjast á hæfileikum, menntun og reynslu þess sem ráðinn er og hæfni viðkomandi til að sinna starfinu.
Móttaka nýliða og mentor;
Samgöngustofa leggur áherslu á að taka vel á móti nýju starfsfólki. Það er gert með því að standa vel að ráðningum, kynningu og móttöku nýliða og nýliðafræðslu. Í nýliðafræðslunni fær nýtt starfsfólk markvissa fræðslu um starfsemi stofnunarinnar en ekki síður um menningu Samgöngustofu. Á fyrstu vikum fær nýtt starfsfólk stuðning frá mentor.
Þjálfun, fræðsla og starfsþróunarmál;
Mikilvægi þekkingar er viðurkennt og því skal fræðsla og þjálfun vera markviss hjá Samgöngustofu. Litið er á aukna þekkingu sem fjárfestingu til framtíðar.
Starfsþróun er samstarfsverkefni okkar allra.
Samskipti og upplýsingaflæði;
Mikilvægt er að upplýsingagjöf sé skilvirk og góð og að unnið sé samkvæmt stefnu og áherslum stofnunarinnar. Markmiðum um skilvirka upplýsingagjöf náum við m.a. með reglulegum starfsmannfundum, góðu upplýsingaflæði á innri vef stofnunarinnar, fundargerðir settar inn í skjalakerfi og ekki síst með því að starfsfólk sýni frumkvæði í því að afla sér upplýsinga. Stjórnendur kynna mikilvægar ákvarðanir sem teknar eru og forsendur að baki ákvarðananna.
Fjölskylduvænn vinnustaður;
Samgöngustofu er umhugað um gott jafnvægi starfs og einkalífs starfsfólks. Stofnunin reynir eftir fremsta megni að taka tillit til þarfa starfsfólks til að sinna fjölskyldunni.
Vellíðan, vinnuaðstaða og starfsgleði;
Samgöngustofa skal stuðla að ánægju starfsfólks og jákvæðri líðan. Starfsfólki Samgöngustofu á að líða vel í vinnunni og upplifa jákvætt og uppbyggilegt vinnuumhverfi. Reynt skal að tryggja öllu starfsfólki gott starfsumhverfi sem fullnægir kröfum um öryggi, hollustu og vinnuvernd. Starfsfólk ber ábyrgð á því að leggja rækt við eigin heilsu. Stofnunin hefur að markmiði að viðhalda starfsánægju og mælir reglulega viðhorf starfsfólks til ýmissa þátta í starfinu.
Jafnrétti og virðing;
Samgöngustofa skal gæta fyllsta jafnréttis og að allt starfsfólk sé metið og virt að verðleikum. Hver einstaklingur skal metinn að verðleikum án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu. Þetta á við um rétt til starfa, kjara, aðstöðu, menntunar og setu í vinnuhópum.
Laun og umbun;
Hjá Samgöngustofu er starfsfólki greidd laun í samræmi við gildandi kjarasamninga og stofnanasamninga. Stefna Samgöngustofu er að öll kyn njóti sambærilegra kjara og réttinda fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf skv. jafnlaunastefnu.
Hér á eftir eru nánari skýringar á hverjum áhersluþætti fyrir sig.
Ráðningar og starfslok
Stöndum faglega að ráðningu nýs starfsfólks hjá Samgöngustofu. Leitumst ávallt við að hafa á að skipa hæfu, áhugasömu og heiðarlegu starfsfólki. Ráðningar byggjast á hæfileikum, menntun og reynslu þess sem ráðin er og hæfni viðkomandi til að sinna starfinu.
Við ráðningu á nýju starfsfólki þarf að liggja fyrir:
Starfslýsing og skýrar kröfur um menntun, reynslu og hæfni.
Við ráðningu skal taka það skýrt hver reynslutíminn sé, oftast 6 mánuðir.
Hverjir koma að ferlinu:
Mannauðsstjóri og næsti yfirmaður.
Hvernig er staðið að auglýsingu starfa fyrir Samgöngustofu:
Störf eru auglýst í gegnum Starfatorg, Alfreð, heimasíðu Samgöngustofu eða aðrar sértækar leiðir.
Starfslok
Leitumst við að taka samtal við þau sem hætta störfum hjá Samgöngustofu og greinum ástæður uppsagna.
Starfslok vegna aldurs; til þess að tryggja markvissa yfirfærslu þekkingar þarf að huga tímanlega að ferli vegna starfsloka.
Það er á ábyrgð yfirmanns að yfirfara verklagsreglur og starfslýsingar þegar starfsmaður lætur af störfum til að tryggja öryggi gagna.
Móttaka nýliða og „mentor“
Samgöngustofa leggur áherslu á að taka vel á móti nýju starfsfólki. Það er gert með því að standa vel að ráðningum kynningu og móttöku nýliða og nýliðafræðslu. Í nýliðafræðslunni fær starfsfólk markvissa fræðslu um starfsemi stofnunarinnar en ekki síður menningu Samgöngustofu. Á fyrstu vikum fær starfsfólk stuðning frá mentor.
Áður en nýr starfsmaður hefur störf hjá Samgöngustofu
Förum yfir gátlistann og tryggjum að starfsstöð sé tilbúin og allur aðbúnaður til staðar þegar starfsmaður hefur störf (sjá gátlista).
Tryggjum að aðgangskort sé virkt frá fyrsta degi.
Kynning á nýju starfsfólki
Kynnum nýjan starfsmann fyrir tilvonandi samstarfsfólki, ábyrgðin liggur hjá mannauðsstjóra og/eða næsta yfirmanni.
Setjum kynningu á nýju starfsfólki á innri vef Samgöngustofu um leið og hægt er.
Mentor
Stuðlum að því að þegar starfsmaður hefur störf sé næsti yfirmaður búinn að tilnefna „mentor“ sem hefur það hlutverk að kynna menningu Samgöngustofu fyrir nýjum starfsmanni og auðvelda honum við að ná félagslegri tengingu við samstarfsfólk.
Bjóðum upp á samtal (fastráðningarsamtal) við nýjan starfsmann eftir sex mánuði í starfi, þar sem farið er yfir frammistöðu hans og mögulega framtíð innan Samgöngustofu.
Þjálfun, fræðsla og starfsþróunarmál
Mikilvægi þekkingar er viðurkennt og því skal fræðsla og þjálfun vera markviss hjá Samgöngustofu. Litið er á aukna þekkingu sem fjárfestingu til framtíðar. Með starfsþróun er átt við að auka persónulega færni í starfi. Hún getur bæði falist í að ná árangri í því starfi sem viðkomandi gegnir í dag og því að færast á milli starfa og fá stöðuhækkun. Starfsþróun er samstarfsverkefni okkar allra.
Hlutverk og ábyrgð starfsfólks
Tryggjum skýrt skilgreint hlutverk og ábyrgð starfsfólk, jafnframt hvaða kröfur eru gerðar til menntunar og færni starfsfólks.
Stuðlum að því að fyrir starf liggi skýr starfslýsing þar sem megin verkefni koma fram og menntunar- og hæfniskröfur eru skilgreindar.
Leitumst við að hafa skýra verkferla fyrir öll megin störf.
Þjálfun og starfsþróun
Stuðlum að því að tekin séu starfsmannasamtöl ár hvert þar sem ræddar eru óskir og athugasemdir starfsfólks varðandi vinnustaðinn og skilaboðum komið til starfsmanns um hvers sé óskað af honum. Starfsmannasamtöl skulu líka leiða í ljós óskir starfsmanns um starfsþróun og fræðslu sem reynt verður að uppfylla eftir því sem aðstæður leyfa.
Leitumst við að stjórnendur geri þjálfunaráætlun fyrir öll störf sem taka mið af starfslýsingum.
Stjórnendur sem og starfsfólk sýni frumkvæði með því að koma með hugmyndir að námskeiðum og/eða fræðslu sem eflir viðkomandi í starfi.
Starfsþróunar og fræðsluhugmyndir
Stuðlum að því að starfsfólk geti kynnt sér störf annarra innan stofnunarinnar.
Deilum markvisst þekkingu, verum með fræðslu, kynningar, örnámskeið o.s.frv. innan sem utan sviðs.
Aukum samstarf við systurstofnanir og hagsmunaðila.
Eflum fræðslu á innri vef.
Setjum inn á innri vef Samgöngustofu upplýsingar um námskeið fyrir starfsfólk.
Samskipti og upplýsingaflæði
Mikilvægt er að upplýsingagjöf sé skilvirk og góð og að unnið sé samkvæmt stefnu og áherslum stofnunarinnar. Markmiðum um skilvirka upplýsingagjöf náum við m.a. með reglulegum starfsmannafundum, góðu upplýsingaflæði á innri vef stofnunarinnar, fundargerðir settar inn í skjalakerfi og ekki síst með því að starfsfólk sýni frumkvæði í því að afla sér upplýsinga. Stjórnendur kynna mikilvægar ákvarðanir sem teknar eru og forsendur að baki ákvarðananna.
Virðing, traust, jákvæðni og fagmennska í samskiptum
Sýnum tillitssemi og jákvæðni í samskiptum.
Leggjum áherslu á hrós og uppbyggilega endurgjöf og að starfsfólk kunni að taka á móti slíku.
Leitumst við að sýna umburðarlyndi í samskiptum og virðum að mistök geti átt sér stað sem læra má af.
Sýnum samstarfsfólki áhuga og höfum frumkvæði að góðum samskiptum alls starfsfólks.
Markvisst upplýsingaflæði
Höldum reglubundna starfsmannafundi þar sem virkt upplýsingaflæði á sér stað.
Höldum reglubundna deildarfundi.
Stuðlum að gagnsæi og upplýsingagjöf, fundargerðir framkvæmdarstjórnar og sviða settar inn í skjalakerfi.
Starfsfólk sýni frumkvæði í því að afla sér upplýsinga.
Höldum örfundi um ýmis viðfangsefni.
Forstjóri sendir reglubundna pósta með gagnlegum og fræðandi upplýsingum.
Fjölskylduvænn vinnustaður
Samgöngustofu er umhugað um gott jafnvægi starfs og einkalífs starfsfólks. Stofnunin reynir eftir fremsta megni að taka tillit til þarfa starfsfólks til að sinna fjölskyldunni.
Sveigjanleiki
Sýnum sveigjanleika í vinnutíma þegar hægt er að koma því við þannig að hægt sé að bregðast við persónulegum aðstæðum/veikindum.
Sýnum sveigjanleika í starfi, sem gefur starfsfólki möguleika á því að sinna verkefnum heima við þegar á þarf að halda og aðstæður leyfa.
Skemmtanir
Stuðlum að þátttöku maka á skemmtunum/viðburðum á vegum Samgöngustofu.
Tökum virkan þátt í uppákomum Samgöngustofu og hvetjum fjölskylduna til þess að taka þátt þegar við á.
Vellíðan, vinnuaðstaða og starfsgleði
Samgöngustofa skal stuðla að ánægju starfsfólks og jákvæðri líðan. Starfsfólki Samgöngustofu á að líða vel í vinnunni og upplifa jákvætt og uppbyggilegt vinnuumhverfi. Reynt skal að tryggja öllu starfsfólki gott starfsumhverfi sem fullnægir kröfum um öryggi, hollustu og vinnuvernd. Starfsfólk ber ábyrgð á því að leggja rækt við eigin heilsu. Stofnunin hefur að markmiði að viðhalda starfsánægju og mælir hana reglulega.
Virðing, traust, jákvæðni og fagmennska í samskiptum
Berum virðingu fyrir ólíkum skoðunum og verum uppbyggileg í samræðum.
Stuðlum að vellíðan og ánægju starfsfólks með því að hrósa og veita uppbyggilega endurgjöf.
Sýnum samstarfsfólki áhuga og höfum frumkvæði að góðum samskiptum alls starfsfólks.
Vinnuaðstaða
Stuðla ber að góðu og heilsusamlegu vinnuumhverfi sem uppfyllir kröfur um öryggi, hollustu og vinnuvernd.
Fara skal yfir búnað og vinnuaðstöðu með reglubundnum hætti og tryggja nauðsynlega endurnýjun.
Hafa reglulega fræðslu og verklegar æfingar í rýmingu vinnustöðva, notkun neyðarbúnaðar, o.þ.h.
Vellíðan
Nýtum heilsustyrk til þess að auka hreyfingu og efla heilsu.
Hugum að reglulegri hreyfingu, hvetjum hvert annað til hreyfingar.
Ávallt skal reyna að hafa á boðstólum hollan, næringarríkan en jafnframt góðan mat.
Jafnrétti og virðing
Samgöngustofa skal gæta fyllsta jafnréttis og að starfsfólk sé metið og virt að verðleikum. Hver einstaklingur skal metinn að verðleikum án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu. Þetta á við um rétt til starfa, kjara, aðstöðu, menntunar og setu í vinnuhópum.
Jafnrétti
Við stöðuveitingar, tilfærslur í starfi eða val starfshópa skal gæta jafnréttissjónarmiða sem og annarra sjónarmiða s.s. reynslu og menntunar.
Leitast skal við að hafa kynjahlutfall sem jafnast á öllum sviðum og beina því til stjórnenda að hafa slíkt ávallt að leiðarljósi við stöðuveitingar og val í starfshópa.
Kynnum okkur jafnréttisáætlun Samgöngustofu.
Virðing, traust, jákvæðni og fagmennska í samskiptum
Komum fram við samstarfsfólk með jákvæðni og sýnum hvort öðru traust.
Berum virðingu fyrir hvert öðru, ólíkum skoðunum og störfum annarra.
Sýnum tillitssemi og umburðarlyndi.
Sýnum stofnunni og samstarfsfólki trúnað og traust og tölum ávallt jákvætt um samstarfsfólk og Samgöngustofu inn á við sem og út á við.
Einelti eða önnur óæskileg hegðun
Sýnum ekki óæskilega hegðun sem er ósanngjörn eða móðgandi.
Verum ekki meðvirk og tökum ekki þátt í áreitni eða einelti. Kvörtun skal koma á framfæri ef starfsfólk verður vitni af óæskilegri hegðun.
Tökum á vandamálum þegar þau koma upp og ræðum saman af heilindum og sanngirni.
Kynnum okkur stefnu og áætlun Samgöngustofu gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi.
Starfskjör og umbun
Hjá Samgöngustofu er starfsfólki greidd laun í samræmi við gildandi kjarasamninga og stofnanasamninga. Stefna Samgöngustofu er að öll kyn njóti sambærilegra kjara og réttinda fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf.
Laun
Við ráðningu skulu launakjör liggja fyrir.
Við ákvörðun launa skal huga sérstaklega að því að kynjum sé ekki mismunað. Stefna Samgöngustofu í launamálum er ennfremur að greiða laun sem eru innan sanngjarnra marka og í samræmi við sambærileg störf annars staðar í þjóðfélaginu og miða við kjarasamninga/stofnanasamninga. Við ákvörðun launa skal m.a. horft til jafnlaunastefnu stofnunarinnar.
Kjör
Samgöngustofa gerir stofnanasamninga við stéttarfélög starfsfólks.
Samgöngustofa stefnir að því að kjör starfsfólk verði ekki lakari en hjá sambærilegum starfsstéttum á almennum vinnumarkaði.
STE-0016 útg. Nr. 3
Samgöngustofa er öryggisstofnun samgangna á Íslandi og setur því öryggi í forgang, en stuðlar jafnframt að umhverfisvænum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum í lofti, láði og legi.
Samgöngustofa innleiðir, starfar eftir og viðheldur stjórnunarkerfi sem uppfyllir kröfur alþjóðlegra viðurkenndara staðla. Ástundar stöðugar umbætur á kerfinu til að auka öryggi, skilvirkni, sjálfbærni og lágmörkun umhverfisáhrifa, til hagsbóta fyrir samfélagið.
Samgöngustofa skuldbindur sig til að fara að lögum og öðrum ytri kröfum og leggur metnað sinn í að tryggja að því mikilvæga stjórnsýslu- og eftirlitshlutverki með samgöngum, sem henni hefur verið falið, sé sinnt af fagmennsku, skilvirkni og ábyrgð.
Samgöngustofa hafi á að skipa starfsfólki sem hefur þá þekkingu, leikni, hæfni sem krefst til að takast á við viðfangsefni stofnunarinnar með faglegum og ábyrgum hætti, þar sem gætt er jafnræðis og hlutleysis.
Samgöngustofa leggur sig fram um að veita viðskiptavinum, notendum og öðrum hagaðilum skilvirka, trausta og góða þjónustu, með jákvæðni, fagmennsku, traust og virðingu að leiðarljósi.
STE-0007 útg. Nr. 1
Í samræmi við skilgreint hlutverk Samgöngustofu skv. 1. gr. laga nr. 119/2012 er markmið Samgöngustofu að stuðla að öryggum, sjálfbærum, greiðum og hagkvæmum samgöngum. Samgöngustofa vill leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfi og heilsu starfsfólks stofnunarinnar sem og allra landsmanna. Samgöngustofa vill sýna gott fordæmi og efla vitund fólks um vistvænar samgöngur. Einnig hvetur Samgöngustofa alla til að sýna fyrirmyndar hegðun í umferðinni.
Leiðir
Starfsfólks er hvatt til að nota almenningssamgöngur eða vistænan ferðamáta til og frá vinnu sem oftast.
Starfsfólk Samgöngustofu sem tekur strætó, gengur eða hjólar til og frá vinnu getur skrifað undir samgöngusamning og fengið greiddan samgöngustyrk. Hámarksgreiðsla samgöngustyrks er 120.000 kr. pr. ár, mest greiddar 10.000 kr. hvern mánuð. Skilyrði fyrir greiðslu skv. skattmati ríkisskattstjóra, er að ferðast sé með vistvænum ferðamáta a.m.k. 80% af heildarfjölda ferða, það er að jafnaði fjórir dagar hverja heila vinnuviku. Hægt er að sækja um hálfan styrk nemi vistvænar ferðir a.m.k. 40% af heildarfjölda ferða eða tvo daga hverja heila vinnuviku.
Framtíðarsýn er að geta boðið upp á góða aðstöðu á vinnustað fyrir þau sem stunda vistvænar samgöngur, t.d. með góðu fatahengi, sturtu og traustu hjólastæði.
Starfsfólk notar bíla í eigu stofnunarinnar, strætisvagna eða leigubíla til að fara á fundi ef hentar, velja skal vistvænasta mátann hverju sinni.
Starfsfólk skal samnýta ferðir á vinnutíma eins og kostur er.
Þegar pantaðir eru leigu- eða bílaleigubílar skal óskað eftir vistvænum bílum.
Samgöngustofa skal við bílakaup huga að eldsneytisgjafa og hafa hag umhverfisins og græn skref í huga.
Samgöngustofa hvetur starfsfólk til að fjölga síma- og fjarfundum eins og kostur er.
Samgöngustofa hvetur starfsfólk til að prufa fleiri en einn samgöngumáta til að ferðast til og frá vinnu og leggur þannig áherslu á fjölbreytileika samgangna.
Fyrir starfsfólk sem að jafnaði notar vistvænan samgöngumáta greiðir Samgöngustofa leigubílakostnað í neyðartilvikum á vinnutíma, t.d. vegna veikinda barna.
Samgöngustofa leggur sérstaka áherslu á lög og reglur um fyrirmyndahegðun þeirra sem stýra ökutækjum, skipum og flugvélum. Ölvun undir stýri skal aldrei líðast og starfsfólk Samgöngustofa ætti aldrei að láta slíkt líðast í sinni návist.
STE-0011 útg. Nr. 5
Samgöngustofa stefnir á að vera til fyrirmyndar í loftslagsmálum með því að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá starfseminni og þeim áhrifum sem losunin hefur í för með sér. Samgöngustofa vill leggja sitt af mörkum til að markmiðum Parísarsamningsins sé náð og taka þannig virkan þátt í baráttunni við loftslagsbreytingar.
Fram til 2030 mun Samgöngustofa draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um samtals 40% miðað við árið 2019. Samgöngustofa mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri en einnig er stefnt að því að kolefnisjafna alla eftirstandandi losun með kaupum á vottuðum kolefniseiningum, eða með öðrum viðurkenndum leiðum, frá og með árinu 2020.
Stefna þessi tekur mið af skuldbindingum Íslenskra stjórnvalda gagnvart Parísarsamningnum og yfirlýsingu stjórnvalda um samdrátt í losun GHL og kolefnishlutleysi.
Stefnan nær til samgangna á vegum Samgöngustofu, orkunotkunar, úrgangsmyndunar og umhverfisfræðslu. Stefnan nær til allrar starfsemi Samgöngustofu, byggingar, mannvirkja, farartækja, framkvæmda o.þ.h.
Loftslagsstefna Samgöngustofa er rýnd á hverju ári af umhverfishóp Samgöngustofu og markmið uppfærð með tilliti til þróunar í losun GHL á milli ára. Stefnan er samþykkt af forstjóra og framkvæmdastjórn og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað á heimasíðu Samgöngustofu.
STE-0012 útg. Nr 1
Tilgangur og markmið jafnlaunastefnu er að stuðla að jafnrétti í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Skulu einstaklingar fá greitt fyrir störf sín út frá verðmæti starfa óháð kyni. Stofnunin tekur mið af kröfum til starfa og greiðir laun eftir umfangi og eðli þeirra. Launaákvarðanir skulu vera í samræmi við kjara- og stofnanasamninga og launakerfi stofnunarinnar, studdar málefnalegum rökum sem tryggja að sömu laun og sömu kjör séu greidd fyrir sambærileg eða jafnverðmæt störf.
Til þess að fylgja jafnlaunastefnunni eftir skuldbindur Samgöngustofa sig til að:
Skjalfesta og viðhalda með eftirliti og stöðugum umbótum vottað jafnlaunastjórnunarkerfi í samræmi við kröfur staðalsins ÍST 85 og viðhalda jafnlaunavottun í samræmi við lög nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
Flokka störf út frá þeim kröfum sem þau gera og framkvæma árlega launagreiningu þar sem borin eru saman sömu eða jafnverðmæt störf og athugað hvort mælist óútskýrður kynbundinn launamunur. Kynna fyrir jafnréttisnefnd og öllu starfsfólki stofnunarinnar niðurstöður launagreiningar sem er til úttektar nema persónuverndarhagsmunir mæli gegn því.
Fylgja ávallt lögum, reglum, kjara- og stofnanasamningum sem í gildi eru á hverjum tíma og staðfesta árlega að þeim sé hlítt.
Framkvæma innri úttekt á öllum útgefnum skjölum sem tilheyra jafnlaunastjórnunarkerfi eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
Árlega skal setja jafnlaunamarkmið og rýna virkni jafnlaunastjórnunarkerfisins í rýni stjórnenda.
Hafa jafnlaunastefnu aðgengilega á ytri vef Samgöngustofu bæði fyrir starfsfólk og almenning.
Jafnlaunastefna Samgöngustofu nær til alls starfsfólks og er jafnframt launastefna. Mannauðsstjóri er fulltrúi jafnlaunastjórnunarkerfis og skal starfsfólk leita til hans með athugasemdir eða fyrirspurnir.
STE-2699 útg. Nr. 3
Samgöngustofa hefur jafnrétti alls starfsfólks að leiðarljósi í störfum sínum. Hver einstaklingur skal metinn að verðleikum án tillits til uppruna, þjóðernis, litarháttar, trúarbragða, stjórnmálaskoðana, kynferðis, kynhneigðar, aldurs, efnahags, ætternis, fötlunar, heilsufars eða annarrar stöðu. Samgöngustofa leggur sérstaka áherslu á jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og fer stofnunin eftir lögum nr. 150/2020 (jafnréttislög). Áherslan á jafnrétti kynjanna skal vera sýnileg í allri starfsemi stofnunarinnar. Skipa skal jafnréttisfulltrúa og jafnréttisnefnd sem hefur það hlutverk að endurskoða árlega jafnréttisáætlun og fara yfir stöðu jafnréttismála innan stofnunarinnar.
Í öllu starfi Samgöngustofu skal unnið gegn viðhorfum sem leiða til aðstöðumunar kynjanna í þjóðfélaginu. Jafnréttismál og leiðir til að vinna að jafnri stöðu kynjanna skal vera virkur þáttur í mannauðsstefnu Samgöngustofu.
Jafnréttisáætlun er aðgengileg öllu starfsfólki á innra neti. Í áætluninni koma fram markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki Samgöngustofu þau réttindi sem kveðið er á um í jafnréttislögunum.
Leiðarljós Samgöngustofa vill laða að sér, þjálfa og halda í hæft og hæfileikaríkt starfsfólk með því að bjóða upp á gott vinnuumhverfi, góðan starfsanda og verkefni sem höfða til starfsfólks. Skal jafnrétti og jafnræði kynjanna virt í hvívetna og öll kyn skulu hafa jöfn tækifæri til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.
Markmið jafnréttisáætlunar Samgöngustofu gagnvart starfsfólki
Tilgangur jafnréttisáætlunar gagnvart starfsfólki er að tryggja jafnrétti kynjanna innan stofnunarinnar, að jafna stöðu og virðingu kynjanna og að stjórnendur og starfsfólk sé meðvitað um mikilvægi þess að allir fái notið sín óháð kyni. Rannsóknir sýna að vinnuandi og framlegð er meiri á vinnustöðum þar sem jafnrétti ríkir og mannauður er samansettur af öllum kynjum.
Launajafnrétti Stefna Samgöngustofu er að öll kyn skuli njóta sambærilegra kjara og réttinda fyrir jafn verðmæt og sambærileg störf. Við ákvörðun launa skal huga sérstaklega að því að kynjum sé ekki mismunað. Laun og aðrar ákvarðanir sem hafa áhrif á kjör skulu byggjast á málefnalegum forsendum, óháð kyni.
Til að framfylgja markmiði skal mannauðsstjóri meta árlega hvort laun uppfylli stefnu um launajafnrétti. Þá getur jafnréttisfulltrúi óskað eftir slíkri endurskoðun í tengslum við ákveðna starfsmenn telji fulltrúi tilefni til.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Að launagreiðslur Samgöngustofu uppfylli 18.gr. laga nr. 150/2020. Óheimilt er að mismuna konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. | Greina laun starfsfólks og athuga hvort kynbundinn launamunur sé til staðar. Ef svo reynist vera skal taka málið fyrir á fundi framkvæmdarstjórnar. Einnig skal kynna niðurstöður fyrir jafnréttisnefnd | Mannauðsstjóri | Í september ár hvert eða þegar úttekt á jafnlaunastjórnunar-kerfi stofnunarinnar fer fram |
Að Samgöngustofa haldi vottun skv. jafnlaunastaðli ÍST 85. | Greina laun skv. ÍST 85. | Mannauðsstjóri | Standast árlega úttekt Vottunar hf. Úttekt framkvæmd sept. – nóv. |
Ráðning og þróun í starfi
Tryggja skal jafnrétti við ráðningar og hæfasti umsækjandinn sem völ er á hverju sinni, ráðinn. Í öllum auglýsingum á vegum Samgöngustofu skal gæta jafnræðis allra hópa og jafnrar virðingu kynjanna. Í atvinnuauglýsingum skal koma fram að störf standa opin jafnt konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá. Vinna skal markvisst að því að jafna kynjahlutfall innan mismunandi sviða og verkefna og meðal stjórnenda.
Í mannauðsstefnu Samgöngustofu er lögð áhersla á endurmenntun, símenntun og starfsþróun í starfi. Það er stefna Samgöngustofu að allt starfsfólk njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþróunar.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Jafnt aðgengi að störfum | Auglýst störf eru ókyngreind, þ.e.a.s. ekki er sérstaklega óskað eftir umsóknum frá einungis körlum eða einungis konum, auglýsingar og kynningarefni höfði jafnt til kynjanna | Mannauðsstjóri | Alltaf |
Vinna að því að jafna kynjahlutfall innan stofnunarinnar | Gæta skal sérstaklega að jafnréttis-sjónarmiðum við ráðningar eða tilfærslur í störfum | Mannauðsstjóri | Alltaf |
Jöfn tækifæri til framgangs í starfi | Greina kynjahlutfall í stjórnunarstörfum innan stofnunarinnar. Gera jafnréttisnefnd grein fyrir niðurstöðu | Mannauðsstjóri | September ár hvert |
Jafn aðgangur að endurmenntun og símenntun | Árlega skal farið yfir þátttöku starfsfólks í námskeiðum og greina eftir kynjum | Mannauðsstjóri | Júní ár hvert |
Jafnvægi starfs og einkalífs
Gert er ráð fyrir því að foreldrar ungra barna taki sér það fæðingarorlof sem þeir eiga rétt á samkvæmt lögum og eru feður sérstaklega hvattir til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs. Stofnunin hvetur allt fólk til að vera heima hjá veikum börnum. Kjarasamningar kveða á um að foreldrar eigi rétt á að vera frá vinnu tólf daga á ári (96 klst.) vegna veikinda barna sinna yngri en 13 ára. Því til viðbótar er það stefna Samgöngustofu að reyna að koma til móts við aðstæður og þarfir starfsfólks þegar maki, foreldrar eða barn veikist eða slasast lífshættulega t.d. með sveigjanlegri vinnutíma. Þá skal starfsmaður eiga kost á launalausu leyfi við þær aðstæður sem hér greinir, umfram það sem tilgreint er um launað leyfi. Ákvörðun um slíkt skal tekin í hverju tilfelli fyrir sig. Þá er skilningur fyrir því að starfsfólk geti þurft að sækja ýmsa þjónustu á vinnutíma og er slíkt heimilað innan skynsamlegra marka. Þá ber að leitast við að halda yfirvinnu starfsfólks innan eðlilegra marka.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Að starfsfólk nýti sér rétt til fæðingarorlofs og veikindadaga barna | Ljóst er að konur nýta frekar rétt sinn og því skal sérstaklega hvetja karla til að nýta sér fæðingarorlof og veikindadaga barna | Mannauðsstjóri í samstarfið við jafnréttisnefnd | Langtímaverkefni, sem hafa skal í huga reglulega (t.d. fyrir næstu starfsdaga) |
Að yfirvinna sé innan eðlilegra marka og uppræta kynbundinn mun þar á | Fara yfir fjölda yfirvinnustunda og kyngreina. | Forstjóri og mannauðsstjóri | Desember ár hvert, árið skoðað í heild sinni. |
Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni
Koma skal fram við alla samstarfsfélaga af virðingu. Kynferðisleg áreitni, einelti og annað ofbeldi er ekki liðið. Vísað er til skilgreiningar á kynbundinni kynferðislegri áreitni og kynbundnu ofbeldi í 2. gr. jafnréttislaga sem skilgreindar eru þannig:
Kynbundin áreitni
:
Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
Kynferðisleg áreitni
: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu þess sem fyrir henni verður, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
Kynbundið ofbeldi: Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.
Starfsmaður sem verður fyrir einhvers konar misrétti skal leita til mannauðsstjóra, yfirmanns eða trúnaðarmanns og ber þeim aðila að aðstoða starfsmanninn tafarlaust í því máli. Verði starfsfólk vitni að slíku athæfi, t.a.m. kynferðislegu áreiti, einelti eða öðru ofbeldi skal tilkynna slíkt til mannauðsstjóra, næsta yfirmanns eða trúnaðarmanns. Ef yfirmaður er kærður vegna ætlaðrar kynferðislegrar áreitni á hann ekki, sbr. 14. grein jafnréttislaga að taka neinar ákvarðanir sem snerta kæranda. Kærandi skal engan skaða bera af ráðstöfunum sem gripið er til í því skyni.
Unnið skal markvisst að því að skapa menningu jafnréttis innan Samgöngustofu. Í því felst að skapa umhverfi þar sem hægt er að ræða opinskátt um menningu og staðalmyndir og hvernig hægt er að stuðla að fordómalausu samfélagi. Þannig skal umræða um kynferðislega áreitni og skilgreining þar á vera hluti af umræðum á hentugum vettvangi. Verklagsreglur um meðferð mála er varða kynferðislega áreitni skal vera aðgengileg í starfsmannahandbók og á innra neti og öllu starfsfólki ljóst hvert hægt er að leita eftir hjálp.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Að öllum sé ljóst að kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni sé aldrei liðin | Fræðsla um kynbundið ofbeldi, kynbundna og kynferðislega áreitni. Stefna ávallt aðgengileg á innri vef og í starfsmannahandbók | Jafnréttisnefnd í samstarfi við mannauðsstjóra | Alltaf |
Að hægt sé að taka faglega á málum sem gætu komið upp | Vinna skv. verklagsreglum. | Jafnréttisnefnd í samstarfi við mannauðsstjóra | Alltaf aðgengilegar |
Að efla meðvitund starfsfólks og yfirmanna | Ræða kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni, skilgreiningar og meðferð mála á á hentugum vettvangi, vinna með efnið og kynna vel fyrir starfsmönnum og ræða úrbætur á framkvæmdarstjórnarfundi | Jafnréttisnefnd í samstarfi við mannauðsstjóra | Langtímaverkefni |
Kynjasamþætting Litið er til fræðsluefnis Jafnréttisstofu hvað kynjasamþættingu varðar og skal gæta hennar við alla stefnumótun og áætlanagerð Samgöngustofu. Til að ná því markmiði þarf fyrst og fremst að fræða starfsfólk og yfirmenn sérstaklega.
Markmið | Aðgerð | Ábyrgð | Tímarammi |
Efla fræðslu um jafnréttismál | Fræðsla um samþættingu – yfirmenn kynni sér bæklinginn Jöfnum leikinn: kynjasamþætting og jafnréttisáætlanir | Jafnréttisnefnd í samstarfi við mannauðsstjóra | Árlega |
Jafnréttisfulltrúi og jafnréttisnefnd
Jafnréttisnefnd er tengiliður milli starfsfólks og yfirstjórnar, nefndin fylgir eftir aðgerðaráætlun jafnréttisáætlunar stofnunarinnar og tekur þátt í að fara yfir árleg gögn varðandi stöðu kynjanna innan Samgöngustofa. Nefndin vinnur í umboði yfirstjórnar og skal hafa formlegan fundarvettvang. Nefndin skal skipuð a.m.k. fjórum starfsmönnum, þar af einn jafnréttisfulltrúi. Hlutverk jafnréttisnefndar er að fylgjast með framkvæmd jafnréttisáætlunar, fara í september ár hvert yfir tölfræðileg gögn um stöðu kynjanna innan Samgöngustofu og endurskoða jafnréttisáætlunina í heild sinni á a.m.k þriggja ára fresti. Nefndin skal einnig taka þátt í kynningu á áætluninni gagnvart starfsmönnum, ásamt breytingum sem síðar kunnu að vera. Jafnréttisnefnd getur ávallt kallað til mannauðsstjóra inn á fundi sína og óskað eftir gögnum.
Greinagerð til Jafnréttisstofu
Árlega skal Jafnréttisstofu send greinargerð um framvindu jafnréttisáætlunar. Einnig skal árlega kynna stöðu mála fyrir starfsmönnum, ýmist með fræðslu og fyrirlestri eða stuttri greinargerð á innri vef.
Endurskoðun Jafnréttisáætlun skal endurskoða a.m.k. á þriggja ára fresti, næst árið 2025 og er það í höndum jafnréttisnefndar en það er á ábyrgð mannauðsstjóra að hafa forgöngu um starfið.
Jafnréttisáætlun þessi gildir frá 16. desember 2022.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu
STE-0014 útg. Nr. 1
Samgöngustofa er öryggisstofnun samgangna á Íslandi. Samskiptastefnan felur í sér áætlun um samskipti innan stofnunar og utan, við fjölmiðla, viðskiptavini og almenning. Stefnan styður stefnumörkun og skuldbindingar stofnunarinnar og hafi gildin jákvæðni, fagmennska, traust og virðing að leiðarljósi.
Samgöngustofa skal vera til fyrirmyndar í samskiptum og vanda til allrar upplýsingagjafar. Starfsfólk, fjölmiðlar, hagaðilar og almenningur fái réttar, skýrar og skiljanlegar upplýsingar um mál sem það varðar og njóti nauðsynlegra leiðbeininga og markvissrar fræðslu. Aðgangur að upplýsingum sem varða starfsemi Samgöngustofu sé greiður í samræmi við gildandi lög um stofnunina, upplýsingalög, stjórnsýslulög og lög um persónuvernd.
Samgöngustofa ræktar tengsl við hagaðila og á við þá stöðug og virk samskipti. Stofnunin hefur frumkvæði að upplýsingamiðlun eftir því sem tilefni er til, setur upplýsingar fram tímanlega, með margvíslegum hætti og eins og viðeigandi er hverju sinni út frá þörfum notandans.
Forstjóri Samgöngustofu ber heildarábyrgð á samskiptastefnunni og endurskoðun hennar. Samskiptastjóri ber ábyrgð á samræmdri upplýsingamiðlun og fylgir samskiptastefnunni eftir. Stjórnendur sýna gott fordæmi og bera ábyrgð á að skapa aðstæður fyrir góð samskipti og upplýsingagjöf. Allt starfsfólk skal við störf sín taka mið af stefnunni og samskipti inn á við og út á við grundvallast á gildum Samgöngustofu.
STE-0002 útg. Nr. 1
Equal pay certification
Samgungstofa has received an official equal pay certification, which is a certification that the organization operates a pay system that meets the requirements of the equal pay standard ÍST 85:2012.
The equal pay system of Samgöngustofa covers all the staff of the agency. With the implementation of the standard, Samgöngustofa has established a management system that ensures that procedures and decisions in salary matters are based on objective considerations and do not include gender-based discrimination. The policy of the Icelandic Transport Authority is that all staff, regardless of gender, enjoy equal pay and the same benefits for the same or equally valuable work, so that there is no unreasonable wage difference.
Samgöngustofa places great emphasis on equalizing the status of men and women. Equal pay certification is an important confirmation of that.