Mannauðstorg ríkisins: Starfsumhverfi ríkisins
Kjara- og mannauðssýsla ríkisins, Fjársýsla ríkisins, forstöðumenn og stéttarfélög
Hlutverk kjara- og mannauðssýslu ríkisins, Fjársýslu ríkisins, forstöðumanna og stéttarfélaga við meðferð mannauðsmála hjá ríkinu.
Innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins fer Kjara- og mannauðssýsla með stefnumörkun mannauðsmála ríkisins. Hún setur viðmið varðandi mannauðsstjórnun, túlkar ákvæði starfsmannalaga og leiðbeinir um framkvæmd kjarasamninga.
Kjara- og mannauðssýsla sinnir einnig starfsþróun og fræðslumálum ríkisstarfsmanna, málefnum forstöðumanna og stjórnenda. Hún er í samstarfi við samtök launafólks og samtök sveitarfélaga um launa- og kjaramál sem og umbætur á vinnumarkaði. Kjara- og mannauðssýsla fer með vinnuveitendahlutverk ríkisins og hefur leitt Samninganefnd ríkisins við gerð kjarasamninga.
Fjársýslan er þjónustu- og þekkingarstofnun á sviði opinberra fjármála.
Fjársýslan veitir ríkisaðilum og ráðuneytum þjónustu varðandi mannauðs- og launamál. Þar má nefna ráðgjöf í mannauðsmálum, upplýsingagjöf og fræðslu á þessu sviði.
Fjársýslan sinnir sömuleiðis launaafgreiðslu, launakeyrslum, launaþjónustu og þróun mannauðs- og launakerfa ríkisins.
Fjársýslan veitir fjármálatengda þjónustu til ríkissjóðs og ríkisaðila og annast umsýslu fjármuna. Þá hefur hún yfirumsjón með bókhaldi og uppgjörum ríkissjóðs og tryggir tímanlegar og áreiðanlegar upplýsingar um fjármál ríkisins.
Forstöðumenn stofnana ríkisins fara með fyrirsvar um réttindi og skyldur starfsmanna sinna. Almennt verður ákvörðunum þeirra í starfsmannamálum hvorki skotið til hlutaðeigandi fagráðuneytis né fjármála- og efnahagsráðuneytis.
Framsal valds
Samkvæmt 50. gr. starfsmannalaga geta forstöðumenn framselt vald sitt til annarra stjórnenda stofnunar enda sé það gert skriflega og tilkynnt starfsfólki stofnunar.
Stéttarfélög eru frjáls félagasamtök sem hafa það aðal verkefni að gæta hagsmuna félagsmanna sinna, m.a. með því að semja um laun og önnur starfskjör í kjarasamningum fyrir hönd félagsmanna og leiðbeina þeim um túlkun þeirra. Hvert stéttarfélag fer með eigið samningsumboð nema það kjósi að hafa samflot eða framselja samningsumboðið til heildarsamtaka sinna. Stundum er gerður kjarasamningur við fleiri stéttarfélög en eitt í einu.
Kveðið er á um stéttarfélög í stjórnarskránni og í alþjóðasamningum eins og Mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur er á Íslandi.
Aðild og félagsgjöld
Aðild að stéttarfélagi er yfirleitt bundin við starfsvettvang, ákveðið fag eða menntun, t.d. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Sjúkraliðafélag Íslands, Flugvirkjafélag Íslands. Starfsfólk ríkisins er í þeim stéttarfélögum sem gert hafa kjarasamninga við ríkið og getur ekki verið í stéttarfélagi sem ekki hefur gert samning við ríkið.
Einungis eitt stéttarfélag skal hafa rétt til samningsgerðar við ríkið fyrir hverja starfsstétt samkvæmt lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
Í auglýsingu starfa hjá ríkinu er mikilvægt að tilgreina hvaða stéttarfélagi viðkomandi starf tilheyrir.
Samkvæmt kjarasamningum greiðir starfsfólk mánaðarlega félagsgjald af launum sínum til stéttarfélags síns og innheimtir launagreiðandinn félagsgjaldið sé þess óskað. Stéttarfélag ákveður félagsgjald sitt sem er yfirleitt ákveðin prósenta af launum, oft um eða yfir 1% af heildarlaunum.
Á meðan kjarasamningar eru í gildi ríkir svokölluð friðarskylda en hún grundvallast á því meginsjónarmiði að samninga beri að halda. Í friðarskyldunni felst að á meðan kjarasamningar eru í gildi eru aðilar þeirra bundnir af þeim. Því getur starfsfólk í stéttarfélögum með gildandi kjarasamninga ekki skipt um stéttarfélag á meðan nema hætta störfum í viðkomandi starfi.
Trúnaðarmenn stéttarfélaga
Trúnaðarmaður er tengiliður milli félagsmanna á vinnustað og launagreiðanda annars vegar og milli félagsmanns og stéttarfélags hins vegar. Trúnaðarmaður stendur ekki einn og er stjórn og starfsfólk stéttarfélags honum til aðstoðar við að leysa úr þeim erindum sem upp kunna að koma og heyra undir starfssvið stéttarfélagsins. Traust og gott samband launagreiðanda og trúnaðarmanna stuðlar að góðum starfsanda á vinnustað.
Helsta hlutverk trúnaðarmanna samkvæmt V. kafla starfsmannalaga
Trúnaðarmaður skal gæta þess að vinnuveitandi og fulltrúar hans haldi kjarasamning og réttur starfsfólks sé í hvívetna virtur, einkum um orlof, vinnuvernd, öryggi og hollustuhætti.
Starfsfólki ber að snúa sér til trúnaðarmanns með umkvartanir sínar. Ber trúnaðarmanni að rannsaka málið þegar í stað er umkvartanir berast eða hann hefur ástæðu til að ætla að gengið sé á rétt starfsfólks eða stéttarfélags á vinnustöð hans af hálfu vinnuveitanda. Komist trúnaðarmaður að þeirri niðurstöðu að umkvartanir eða grunur eigi við rök að styðjast ber honum að krefja vinnuveitanda eða umboðsmann hans um lagfæringu.
Trúnaðarmaður á rétt á að rækja skyldur sínar í vinnutíma enda geri hann yfirmanni sínum grein fyrir erindi sínu hverju sinni.
Gefa skal trúnaðarmanni upplýsingar um ef staða losnar á vinnustað hans eða í ráði er að bæta við starfsfólki. Jafnframt skal láta honum í té upplýsingar um ráðningarkjör og hverjir sækja um starfið.
Trúnaðarmaður skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hafi valist til þessa trúnaðarstarfs.
Óheimilt er að flytja trúnaðarmann í lægri launaflokk meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns.
Sé trúnaðarmaður valinn úr hópi starfsfólks sem ráðnir eru með uppsagnarfresti skal hann að öðru jöfnu sitja fyrir um að halda vinnunni.
Góð vinnuregla er að kynna nýtt starfsfólk fyrir trúnaðarmanni.
Samkomulag um trúnaðarmenn
Við flest stéttarfélög eða samtök þeirra hafa verið gerð samkomulög um trúnaðarmenn. Neðangreint samkomulag við BHM (þá BHMR) var gert árið 1989 og er sambærilegt við önnur slík samkomulög.
Finnurðu ekki það sem þig vantar?
Hvernig getum við aðstoðað?
Mannauðstorg ríkisins
Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.