Viðurkenning réttingaverkstæða
Skjölun gagna við viðgerð á tjónaökutæki
Við viðgerð á tjónaökutæki gerir Samgöngustofa kröfu um að eftirfarandi gögn séu skjöluð:
Greinagerð um viðgerð
Burðarvirkisvottorð ásamt mæliblöðum
Hjólastöðuvottorð ásamt mæliblöðum
Reikningar fyrir viðgerð og varahlutum
Leiðbeiningar framleiðanda
Samgöngustofa getur óskað eftir tilgreindum gögnum við eftirlitsaðgerðir og/eða niðurfellingu á tjónaskráningu ökutækis.
Greinagerð um viðgerð og myndir
Rita skal stutta greinagerð fyrir hverja viðgerð á tjónaökutæki, þar skal koma fram fastanúmer ökutækis, hvar tjón varð á ökutæki, lýsing á verki, upptalning á helstu hlutum sem skipt var um eða lagfærðir og önnur atriði eftir atvikum. Til stuðnings á greinagerð skal skjala myndir af ökutækinu í gegnum viðgerðarferlið þar á meðal fyrir og eftir viðgerð. Gerð er krafa um ítarlegri greinagerð sé tjónaökutæki ekki fært í réttingarbekk.
Burðarvirkisvottorð
Við viðgerð á tjónaökutæki skal ávallt gefa út burðarvirkisvottorð sem fyllt er út af aðila sem hefur heimild til útgáfu á burðarvirkisvottorðum. Ásamt burðarvirkisvottorði skulu öll gögn og upplýsingar sem tilheyra burðarvirkismælingu vera skjöluð í 5 ár. Mæliblöð fyrir og eftir viðgerð, hvort sem um er að ræða handskrifuð mæliblöð eða gögn úr tölvu réttingabekks og skulu vera dagsett með upphafi og lok verks.
Sé tjón ökutækis þess eðlis að augljóst er að burðarvirki þess hafi ekki skekkst, sé innan marka framleiðanda og hægt sé að staðfesta það með gögnum út frá hjólastöðumælingu, myndum og ítarlegri greinagerð mælingarmanns er heimilt að gefa út burðarvirkisvottorð á þeim forsendum.
Útgáfuaðili skal geyma þau gögn í 5 ár og ber að afhenda þau óski Samgöngustofa eftir því. Athugið að það er aðeins heimilt að gefa út burðarvirkisvottorð með þessum forsendum í undantekningartilfellum fyrir ökutæki sem hafa ranglega verið skráð tjónaökutæki.
Hjólastöðuvottorð
Við viðgerð á tjónaökutæki skal ávallt gefa út hjólastöðuvottorð sem fyllt er út af aðila sem hefur heimild til útgáfu á hjólastöðuvottorðum. Ásamt hjólastöðuvottorði skulu öll gögn og upplýsingar sem tilheyra hjólastöðumælingu vera skjöluð í 5 ár. Mæliblöð fyrir og eftir hjólastillingu, hvort sem um er að ræða handskrifuð mæliblöð eða gögn úr tölvu hjólastillingartækis og skulu vera dagsett með upphafi og lok verks.
Reikningar
Við viðgerð á tjónaökutæki skal skjala alla reikninga sem viðkoma viðgerð og þeim varahlutum sem notaðir voru við viðgerð á ökutækinu. Á reikningum skal koma fram dagsetning og tegund ökutækis eða fastanúmer ökutækis. Ef varahlutir koma af öðru samskonar ökutæki skal koma fram fastanúmer þess ökutækis. Hafa skal í huga að við viðgerð á tjónaökutæki skal þannig gert við það að aksturseiginleikar þess og akstursöryggi sé ekki lakara en á sambærilegu ökutæki óskemmdu. Það er á ábyrgð verkstæðis að meta hvort að umskiptir varahlutir uppfylli kröfur framleiðanda.
Leiðbeiningar framleiðanda
Við viðgerð á tjónaökutæki skal ávallt fylgja leiðbeiningum framleiðanda þess um hvernig viðgerð á ökutæki skal fara fram. Krafa er gerð um að leiðbeiningar framleiðanda séu skjalaðar með öðrum gögnum sem við koma viðgerð ef tjón er þess eðlis að skipta þurfti um hluta burðarvirkis ökutækis. Ekki er gerð krafa um skjölun á leiðbeiningum framleiðanda fyrir algenga umskiptanlega hluti á borði við bretti, stuðara og hurðar.
Þjónustuaðili
Samgöngustofa