Fara beint í efnið

Við getum bjargað lífi annarra með því að gefa þeim líffæri. Í öðrum tilvikum getum við lengt ævi fólks og bætt heilsu þess og líðan með líffæragjöf.

Við erum sjálfkrafa líffæragjafar

Íslendingar byggja löggjöf sína um líffæragjafir á ætluðu samþykki og verða því allir þegnar sjálfkrafa líffæragjafar við andlát, hafi þeir ekki áður lýst sig andvíga líffæragjöf. Þeir sem kunna að vera andvígir því að gefa líffæri geta skráð það á Mínum síðum á Heilsuveru. Einnig má leita aðstoðar heimilislækna og hjúkrunarfræðinga heilsugæslunnar við að skrá afstöðu.

Hver sem orðinn er 18 ára getur gefið samþykki til brottnáms líffæris eða lífrænna efna úr eigin líkama svo lengi sem lífi og heilsu líffæragjafa er ekki stofnað í augljósa hættu.

Skrá afstöðu til líffæragjafar á Heilsuveru - Mínar síður

Ígræðsla líffæris bjargar lífi og eykur lífsgæði

Árangur af líffæraígræðslum er yfirleitt góður. Ígræðsla líffæris bjargar ekki einungis lífi heldur eykur líka lífsgæði. Margir lifa eðlilegu lífi með ígrætt líffæri, stunda vinnu og líkamsrækt. Nokkur dæmi eru um að konur með ígrætt líffæri eignist börn.

Upplýsum ástvini og aðstandendur

Líffæragjöf er heilbrigðis- og samfélagsmál sem mælt er með að fólk ræði við sína nánustu svo afstaða þess til málsins sé ljós, hver svo sem hún er. Upplýst umræða auðveldar ástvinum og nánum aðstandendum að taka erfiðar ákvarðanir, standi þeir frammi fyrir því síðar.

Lög um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar gilda um réttindi líffæragjafa þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar.

Lög um brottnám líffæra

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis

Tengt efni