Svefn og hvíld - ráðleggingar embættis landlæknis
Fræðsluátak um mikilvægi svefns 2021
Í október 2021 voru staðreyndir, ráð og áskoranir varðandi svefn sýnileg á samfélagsmiðlum með það að markmiði að hvetja fólk til að huga að góðum nætursvefni. Fólk var hvatt til þess að setja svefninn í forgang og stuðla þannig að betri líðan.
Hægt var að fylgjast með á samfélagsmiðlum undir merkinu #sofumbetur
Svefnvenjur
Í fyrstu vikunni var áhersla á mikilvægi góðra svefnvenja.
Góðar svefnvenjur eru mikilvægar þegar kemur að góðum nætursvefni. Æskilegt er að fara alltaf að sofa á svipuðum tíma á hverju kvöldi og fara á svipuðum tíma á fætur á morgnana. Góðar kvöldvenjur eru einnig æskilegar til að koma huga og líkama í ró fyrir svefninn.
Með því að koma okkur upp rólegum og notalegum kvöldvenjum komum við líkama og huga í ró, sem getur stuðlað að betri nætursvefni. Ef við gefum okkur tíma í að slaka aðeins á, draga úr áreiti og gera eitthvað rólegt fyrir svefninn verður að öllum líkindum auðveldara að sofna. Það er til að mynda hægt að lesa góða bók, fara í bað eða eiga notalega kvöldstund með fjölskyldu og vinum.
Með því að fara að sofa á svipuðum tíma alla daga og á fætur á svipuðum tíma getum við bætt svefninn til muna. Það verður bæði auðveldara að sofna og gæði svefnsins verða meiri. Það er allt í lagi að vaka fram eftir einstaka sinnum, en ef við gerum það of oft byrjar það að hafa áhrif á svefngæðin.
Með því að hafa svefnumhverfið notalegt og rólegt ýtum við undir betri nætursvefn. Æskilegt er að hafa hitastigið hvorki of heitt né kalt, eða á bilinu 16 - 19°C. Einnig skiptir máli að hafa myrkur í herberginu sem ýtir undir framleiðslu svefnhormóna sem láta okkur finna fyrir syfju. Það skiptir því máli að vera með góð gluggatjöld. Þá er einnig gott að takmarka áreiti frá raftækjum þar sem þú sefur og því getur verið gott ráð að taka síma og tölvur ekki með þangað.
Góðar svefnvenjur stuðla að góðum nætursvefni. Þær auðvelda okkur að sofna á kvöldin og vakna á morgnanna. Með því að gera alltaf það sama fyrir svefninn byrjum við að tengja þá athöfn við það að fara að sofa.
Áskorun vikunnar
Bætum svefnvenjurnar. Förum að sofa og á fætur á svipuðum tíma alla daga vikunnar.
Notum þessa viku til að bæta svefnvenjur okkar. Skorum á okkur sjálf að fara að sofa á svipuðum tíma öll kvöld vikunnar ásamt því að fara á fætur á svipuðum tíma alla morgna, óháð því hversu mikið eða vel við sváfum nóttina á undan. Með því að gera þetta munum við smám saman eiga auðveldara með að sofna og getum bætt nætursvefninn til muna.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis