Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Um stjórnartíðindi

Um útgáfu Stjórnartíðinda gilda lög um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað nr. 15/2005.

Um lagabirtingu og Stjórnartíðindi:


Réttaráhrif birtingar:

Fyrirmælum, er felast í lögum, auglýsingum, reglugerðum, samþykktum eða öðrum slíkum ákvæðum almenns efnis, má eigi beita fyrr en birting í Stjórnartíðindum hefur farið fram, nema þau geymi ákvæði algerlega einkamálaeðlis og aðilar hafi komið sér saman um að skipti þeirra skuli fara eftir óbirtum fyrirmælum. Óbirt fyrirmæli binda þó stjórnvöld frá gildistöku þeirra. Birt fyrirmæli skulu binda alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt ef þau geyma ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína.

Birtingarformið sem réttaráhrif Stjórnartíðindaútgáfunnar verða bundin við er PDF-snið, en einnig verður boðið upp á efnið í HTML-formi.

Hvað skal birta:

Dómsmálaráðuneytið gefur út Stjórnartíðindi sem skiptast í A, B og C deild. Í Stjórnartíðindum skal birta öll lög, stjórnvaldsfyrirmæli og samninga við önnur ríki, svo og auglýsingar varðandi gildi þeirra.

Í A-deild Stjórnartíðinda skal birta lög öll, auglýsingar og aðrar tilkynningar almenns efnis sem út eru gefnar af æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins, svo og reglur sem Alþingi kann að setja um framkvæmd almennra málefna í þingsályktunum, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2005.

Í B-deild Stjórnartíðinda skal birta reglugerðir, samþykktir og auglýsingar sem gefnar eru út eða staðfestar af ráðherra, reikninga sjóða, ef svo er mælt í staðfestum skipulagsákvæðum þeirra, úrslit alþingiskosninga sem tilkynnt hafa verið á árinu og heiðursmerki, nafnbætur og heiðursverðlaun sem ríkisstjórnin veitir. Einnig skal þar birta reglur sem stjórnvöldum og opinberum stofnunum, öðrum en ráðuneytum, er falið lögum samkvæmt að setja, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 15/2005.

Í C-deild Stjórnartíðinda skal birta samninga við önnur ríki og auglýsingar varðandi gildi þeirra, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 15/2005.

Aðgangur:

 Vefur Stjórnartíðinda er opinn öllum án endurgjalds. Lesendur geta skoðað og flokkað auglýsingar ásamt því að leita í öllum útgefnum auglýsingum frá árinu 2001. Hægt er að fá Stjórnartíðindi útprentuð gegn greiðslu kostnaðar af prentun þeirra og sendingu samkvæmt gjaldskrá.

Auglýsendur:

Þeir sem auglýsa í Stjórnartíðindum geta útbúið og sent inn auglýsingarnar rafrænt. Hér má sjá leiðbeiningar. Þeir fá uppfærða yfirsýn yfir allar auglýsingar sínar hvort heldur innsendar, í vinnslu eða útgefnar. Sækja þarf um aðgang til að senda inn auglýsingar.

Þjónusta:

Starfsfólk Stjórnartíðinda svarar fyrirspurnum og ábendingum varðandi rafræna innsendingu auglýsinga á netfanginu stjornartidindi@dmr.is og í síma 545 9000. Sama á við um þá sem ætla að panta áskrift að Stjórnartíðindum í prentaðri útgáfu.

Lög, reglugerðir og gjaldskrá:

Lög nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað
Reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005
Gjaldskrá fyrir Stjórnartíðindi nr. 45/2016

Saga:

Á þjóðveldistímanum 930-1262 voru lög kunngjörð þannig á Íslandi að lögsögumaður skyldi segja upp lög á hverju þingi, þingfararbálk árlega, en aðra þætti löggjafarinnar svo, þannig að lögsögu allri skyldi lokið á þremur sumrum. Eftir lok þjóðveldisins voru lög einnig almennt birt á Alþingi, allt þar til það var aflagt með tilskipun frá 11. júlí 1800. Lög voru birt í Landsyfirdóminum eftir 1800, en hann var stofnaður þegar Alþingi var lagt niður. Jafnframt birtingu þessari fyrir land allt, voru lögin einnig birt í héruðum, fyrst á leiðarþingum goðanna og síðan á manntalsþingum. Þinglestur laga í héraði var þó ekki lögboðinn fyrr en með konungsbréfi 7. desember 1827, er lögleiddi hér danska tilskipun frá 8. október 1824 um það efni.
Í 10. gr. stjórnarskrárinnar frá 1874 var svo fyrir mælt, að konungur skyldi annast birtingu laga, en eigi var þar kveðið nánar á um birtingaraðferð. Samkvæmt lögum nr. 11/1877, hófst útgáfa Stjórnartíðinda og þar með nýir birtingarhættir og áttu öll lög eftirleiðis að birtast í þeim, enda skyldi sú birting vera „skuldbindandi fyrir alla“, sbr. 1. gr. laganna. Hafa lög síðan verið birt með þeim hætti hér á landi.
Í 27. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segir: „Birta skal lög. Um birtingarháttu og framkvæmd laga fer að landslögum.“ Þau lög eru nú nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.
Í ársbyrjun 2002 var ákveðið að gera Stjórnartíðindi einnig aðgengileg á netinu og er nú hægt að nálgast þar öll mál frá og með 2001 sem birt hafa verið í A og B deild Stjórnartíðinda og frá og með 1995 í C deild.
Með opnun Stjórnartíðindavefsins, 8. nóvember 2005, var stigið nýtt skref í birtingarsögunni, þar sem réttaráhrif birtingar urðu bundin við hina rafrænu útgáfu, skv. 7. gr. laga nr. 15/2005.
Í apríl 2025 var vefur Stjórnartíðinda færður undir Ísland.is og frá þeim tíma er aðeins tekið á móti efni til birtingar í gegnum vefgátt.

Tenglar:

Lagasafn
Reglugerðasafn
Réttarheimildir
Lögbirtingablað
Danmörk
Færeyjar
Grænland
Finnland
Noregur
Svíþjóð
Önnur Evrópulönd: Legal Gazettes in Europe 
Stjórnartíðindi Evrópusambandsins: Official Journal of the European Union

Gjaldskrá Stjórnartíðinda og breyting á henni, nr. 1127/2022.