Fara beint í efnið

Sorgarstyrkur

Almennt

Sorgarstyrkur er greiddur foreldrum sem verða fyrir barnsmissi. Hann er ætlaður foreldrum sem eru í fullu námi, utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi. Foreldri getur átt rétt á sorgarstyrk í allt að:

  • 6 mánuði frá þeim degi sem það verður fyrir barnsmissi við andlát barns yngra en 18 ára.

  • 3 mánuði frá þeim degi er andvanafæðing á sér stað eftir 22 vikna meðgöngu.

  • 2 mánuði frá þeim degi er fósturlát á sér stað eftir 18 vikna meðgöngu.

Foreldrar sem eru í launuðum störfum í meira en 25% starfshlutfalli geta átt rétt á sorgarleyfi.

Lesa meira um rétt til sorgarstyrks

Upphæðir

97.085 krónur er mánaðarlegur sorgarstyrkur til foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

222.494 krónur er mánaðarlegur sorgarstyrkur til foreldris í fullu námi, það er, 75 – 100% námi.

Umsókn

Sækja um sorgarstyrk hjá Fæðingarorlofssjóði.

Nauðsynleg fylgigögn

  • Læknisvottorð eða staðfesting frá sjúkrahúsi þar sem tímalengd meðgöngu kemur fram og móðerni og faðerni barnsins, það er, hverjir eru foreldrar barnsins.

  • Hafi foreldri skilað umsókn um fæðingarorlof áður en til fósturláts eða andvanafæðingar kom gæti þurft að skila nýrri tilkynningu um tilhögun sorgarstyrks.

Tímabil sorgarstyrks

Foreldri er heimilt að skipta greiðslutímabili sorgarstyrks á fleiri en eitt tímabil. Lágmarkstímabil er tvær vikur í senn.

Greiðslur

Greitt er eftir á fyrir undanfarandi mánuð.

Dæmi: Foreldri sem hefur þegið sorgarstyrk í janúar fær greitt síðasta virka dag þess mánaðar.

Tekjumissir bættur

Foreldri getur verið heimilt að fá tekjumissi bættan sem greiðsla sorgarstyrks bætir ekki. Þá er miðað við að vinnuveitandi megi bæta mismun á greiðslu sorgarstyrks og meðaltals heildarlauna síðustu 2 mánuði fyrir barnsmissi, andvanafæðingu eða fósturlát.

Greiðslur frá vinnuveitanda sem eru ætlaðar fyrir annað tímabil en það sem foreldri fær greiddan sorgarstyrk koma ekki til frádráttar styrknum.

Eftirlit

Mánaðarlega er framkvæmt eftirlit sem felst í því að keyrðar eru saman upplýsingar um greiðslur frá Vinnumálastofnun við skrár skattyfirvalda.

Leiðrétting á greiðslum

Of háar greiðslur

Hafi foreldri fengið hærri greiðslur frá Vinnumálastofnun en því bar samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum ber foreldri að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Fella skal niður álagið færi foreldri rök fyrir því að því verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Mikilvægt að tilkynna um breytingar

Mikilvægt er að foreldri tilkynni um öll þau tilvik sem leitt geta til of hárra greiðslna frá stofnuninni. Þá er með talið ef breytingar verða á tekjum eða tímabili sorgarstyrks.

Hægt er að tilkynna með því að senda póst á: faedingarorlof@vmst.is

Lesa meira

Lög um sorgarstyrk

Þjónustuaðili

Vinnu­mála­stofnun