Skimun fyrir krabbameini
Samstarfsverkefni Evrópusambandsins um krabbameinsskimanir - EU CanScreen
Í aðgerðaáætlun Evrópusambandsins gegn krabbameinum er fjallað um nýtt verkefni tengt krabbameinsskimunum, EU CanScreen. Verkefnið er styrkt af Evrópusambandinu og á að stuðla að árangursríkum krabbameinsskimunum í öllum aðildarríkjum.
Verkefninu er ætlað að draga úr byrði krabbameina og auka jöfnuð í aðgengi að skimunum fyrir krabbameinum.
Markmið
Stuðla að hagkvæmri skimun fyrir brjóstakrabbameini, leghálskrabbameini og ristilkrabbameini þar sem gæði eru tryggð.
Auka gæði gagna, bæta eftirlit og tryggja jafnt aðgengi allra hópa að skimunum fyrir krabbameini.
Stuðla að samstarfi við önnur verkefni ESB til að tryggja sjálfbærni.
Kanna fýsileika þess að hefja undirbúning skimunar fyrir lungnakrabbameini, blöðruhálskirtilskrabbameini og magakrabbameini.
Þátttaka Íslands í verkefninu samræmist íslensku Krabbameinsáætluninni sem samþykkt var 2019 og aðgerðaráætlun sem samþykkt var á Alþingi í júní 2025. Í aðgerðaráætluninni er sett fram markmið um að hámarka árangur af lýðgrunduðum krabbameinsskimunum og til hvaða aðgerða þyrfti að grípa til þess að ná því markmiði. Auk þess fjallar aðgerðaráætlunin um bætta skráningu og sameiginlega gæðavísa.
Embætti landlæknis tekur þátt í tveimur vinnupökkum í EU CanScreen verkefninu:
Monitoring, þar sem meginmarkmiðið er að auka gæði gagna með því að samræma núverandi staðla og þróa nýja fyrir gögn og gagnadeilingar milli landa. Þannig verður auðveldara að bera saman gögn á milli landa og bera saman gæði og árangur skimana.
Risk based approaches, þar sem meginmarkmiðið er að auka skilning á hugtökum um áhættuskimun og koma með tillögur að mögulegri samþættingu slíkra nálgana í skimanaáætlunum.
Alls taka 29 lönd þátt í samstarfinu, 25 aðildarríki ESB, auk Úkraínu, Moldóvu, Noregs og Íslands. Verkefninu er stýrt af Háskólanum í Lettlandi og auk þess koma að því 28 leiðandi stofnanir, 61 önnur þátttökustofnun/-aðili og 7 samstarfsaðilar.
Heiti verkefnis: "Implementation of cancer screening programs (EU CanScreen)"
Tímaáætlun verkefnis: 1. júní 2024 til 31. maí 2028
Heildarstyrkur til verkefnisins: 38.749.935 evrur
Styrkur til embættis landlæknis: 234.180 evrur
Umsjón verkefnis: Háskólinn í Lettlandi (Latvijas Universitāte), netfang: screening@lu.lv
Vefsíða verkefnis: www.eucanscreen.eu
Skráningarnúmer Háskólans í Lettlandi: ZD2024/21709.
Verkefnisauðkenni: 101162959.
Fjármögnun: EU4Health program of the European Union
Þátttakendur - EU CanScreen


Þjónustuaðili
Embætti landlæknis