Fara beint í efnið
Stafrænt Ísland Forsíða
Stafrænt Ísland Forsíða

Stafrænt Ísland

Stefna um notkun skýjalausna

Tilefni stefnumótunar

Tilgangur skýjastefnu hins opinbera er að setja fram og ná samræmdum markmiðum í notkun skýjalausna og útfærslum þeirra. Skýjalausnir eru nú þegar í notkun hjá mörgum opinberum aðilum og því brýnt að unnið sé að samræmingu þessara verkefna til hagræðingar og aukins öryggis.

Áherslur í stafrænni þjónustu og notendamiðaðri þjónustuhönnun hafa gert auknar kröfur til stofnana um hraða og skilvirka þjónustu. Skýjalausnir stytta afhendingartíma upplýsingatækniþjónusta og stuðla að hraðari, hagkvæmari og öruggari þróun og stafrænni þjónustu.

Skýjaþjónusta opnar einnig fyrir nýja notkunarmöguleika, m.a. á sviði gervigreindar og dýpri gagnagreininga, sem annars væri erfitt eða ómögulegt að hagnýta.

Mikilvægt er að nálgast stýringar og notkun skýjalausna með þeim hætti að eiginleikar þjónustunnar rýrni ekki, þ.m.t. sveigjanleiki, samningsstaða og nýsköpun. Sé ekki hugað að þessum eiginleikum í útfærslu og samningagerð er hætta á auknum óþarfa kostnaði, meiri áhættu og að tækifæri til nýsköpunar glatist.


Skýjaþjónusta

Með skýjaþjónustu (e. cloud computing / cloud services) er átt við þjónustu þar sem notandi getur sjálfur afgreitt sig á netinu eftir þörfum hverju sinni, hvað varðar notkun á tölvukerfum, tölvuumhverfum eða tölvuinnviðum.

Þannig er skýjaþjónusta sveigjanleg, aðgengileg, mælanleg, samnýtt og sjálfstýrð upplýsingatækniþjónusta. Notendur eru óháðir hver öðrum en samnýta tæknilega innviði sem eru á ábyrgð þjónustuveitandans.

Skýjaþjónusta þýðir hvorki að gögn ótengdra viðskiptavina séu sameiginleg né að þau séu opin öllum án takmarkana.


Alþjóðleg skilgreining á skýjaþjónustu

skilgreining skyjathjonustu
al skilgreining skyjathjonustu
alth skilgreining skyjathjonustu
althj skilgreining skyjathjonustu

Sýn

Ísland er meðal fremstu þjóða heims á sviði stafrænnar þjónustu og hagnýtingar upplýsingatækni. Með því að nýta sveigjanlegar og fjölbreyttar skýjaþjónustur þar sem við á, veita opinberir aðilar örugga, áreiðanlega og skilvirka þjónustu þar sem almenningur og fyrirtæki í landinu komast beint að efninu, hvar og hvenær sem er.

Nýsköpun er efld með að gera stofnunum mögulegt að nýta upplýsingatækni á sveigjanlegan hátt, lágmarka áhættu í kostnaði og nýta fjármuni með því að aðlaga þjónustur að notkun í rauntíma.


Markmið

Með hagnýtingu staðlaðra rekstrarumhverfa og þróaðra skýjalausna hjá hinu opinbera er stutt við öruggari, hagkvæmari og skilvirkari rekstur upplýsingakerfa.

  1. Aukið öryggi

  2. Betri þjónusta sem er skilvirk og hröð

  3. Meiri nýsköpun

Með aðgangi að stöðluðum rekstrarumhverfum byggðum á bestu mögulegu tækni, faglegum innkaupaaðferðum og aðgangi að sérfræðiþjónustu er hægt að gera þjónustu ríkisins framúrskarandi fyrir almenning og atvinnulíf.

Markmið 1 - Aukið öryggi

Hækka öryggisstig og viðhalda því fyrir þjónustur og gögn almennings, fyrirtækja og hins opinbera.

  • Heildstætt áhættumat og flokkun gagna styður við viðeigandi vernd upplýsinga og kerfa

  • Verja upplýsingar einstaklinga, fyrirtækja og stofnana gegn innri og ytri ógnum

  • Minnka áhættu með stöðlun upplýsingakerfa, sjálfvirknivæðingu og sífelldri vöktun

  • Tryggja að kerfi geti staðist álag, árásir og aðra netvá með að hafa aðgang að afköstum og öryggisúrræðum

Markmið 2 - Betri þjónusta sem er skilvirk og hröð

Veita betri þjónustu til almennings og fyrirtækja og bæta nýtingu opinberra fjármuna.

  • Samnýta gögn og einfalda samskipti við stafrænar lausnir

  • Efla stafræna þjónustu við almenning og fyrirtæki

Færa stofnunum og starfsfólki þeirra öflugri og betri lausnir til að sinna verkefnum á skilvirkari máta og fá aðgang að auðlindum eftir þörfum.

  • Aðgengi að bestu lausnum á hverjum tíma

  • Auka áherslu á þróun og eflingu stofnana á eigin starfssviði

  • Auka áherslu á samhæfingu stofnana, s.s. með ferlum og gögnum

Lágmarka tíma vegna innleiðingar með stöðluðum stafrænum lausnum.

  • Samnýta einingar og þekkingu

  • Stytta afhendingartíma á þjónustum

  • Lágmarka þróunartíma

Nota skal staðlaðar lausnir til að geta aukið sjálfvirknivæðingu og
skilvirkni stofnana og þjónustu við einstaklinga og atvinnulífið.

Markmið 3 - Meiri nýsköpun

Gera stofnunum mögulegt að auka nýsköpun í starfsemi sinni, t.d. með að nota nýjar þjónustur á sviði gervigreindar, sjálfvirknivæðingar og gagnagreininga.

  • Notkun nýrra aðferða

  • Færa stofnunum ný verkfæri til umbótastarfs

Nota skal virkni viðeigandi skýjalausna að fullu til að veita stofnunum aðgang að þróuðum og öflugum verkfærum.


Leiðir að markmiðum

Til að samræma verklag og notkun á skýjaþjónustu hjá hinu opinbera skal fylgja eftirfarandi leiðum að markmiðum ólíkra þátta, s.s. ákvarðanatöku um notkun, fýsileika lausna, stöðlunar,
kostnaðar og vals á birgjum auk þekkingaruppbyggingar. Leiðirnar eru ætlaðar til leiðsagnar í þeim tilgangi að ná hámarksárangri í rekstri og opinberri þjónustu með því að hagnýta skýjaþjónustu.

  1. Skýjalausnir nýttar á sem skilvirkastan hátt

  2. Ákvarðanataka byggð á staðreyndum

  3. Skýjalausnir notaðar þar sem við á

  4. Traustir þjónustuaðilar og stjórn á kostnaði

  5. Staðlaðar vörur og þjónusta til framtíðar

  6. Verja upplýsingar og þjónustu

  7. Stöðugar mælingar og umbætur

  8. Samstarf og þjálfun


Leiðir að markmiðum - ítarlegri

  1. Skýjalausnir nýttar á sem skilvirkastan hátt. Hanna skal og setja upp lausnir á þann hátt að þær nýti þau verkfæri og verkferla sem boðið er upp á til að straumlínulaga og nútímavæða þjónustu. Huga skal að samnýtingu gagna meðal opinberra aðila og fyrirtækja
    frá upphafi til hagsbóta fyrir samfélagið, einstaklinga og fyrirtæki.

  2. Ákvarðanataka byggð á staðreyndum og virku áhættumati. Greina þarfir, tækifæri og áhættur út frá viðeigandi upplýsingum á hverjum tíma.

  3. Skýjalausnir notaðar þar sem við á. Velja skal skýjaþjónustu í samræmi við heildstætt áhættumat sem uppfyllir öryggisstig og áhættuþol. Almenna skýjaþjónustu skal nota nema annað sé sérstaklega rökstutt.

  4. Traustir þjónustuaðilar og stjórn á kostnaði. Eingöngu skal nota trausta og hæfa þjónustuaðila að loknu viðeigandi ferli við val og innkaup. Nauðsynlegt er að hafa stöðuga yfirsýn yfir kostnað til að nýta fjármagn á ábyrgan hátt. Samningar tryggi við samningslok fullan rétt á yfirfærslu og eignarhaldi gagna.

  5. Staðlaðar vörur og þjónusta til framtíðar. Þjónustu skal nota á kvikan og skilvirkan hátt með sem minnstum áhrifum á umhverfið. Nýta skal alla möguleika skýjalausna til framþróunar. Ávallt skal sjálfvirknivæða eins og mögulegt er.

  6. Verja upplýsingar og þjónustu. Fara skal með ábyrgum hætti með upplýsingar og öryggi þjónustu. Móta skal högun kerfa frá upphafi út frá kröfum um öryggi og persónuvernd. Virða skal persónuvernd og innleiða tæknileg og skipulagsleg úrræði til að ná ásættanlegu
    áhættustigi og lágmarka notkun persónugreinanlegra upplýsinga.

  7. Stöðugar mælingar og umbætur. Fylgjast skal með ástandi, öryggi og kostnaði. Greina skal og uppfæra högun og lausnir svo hægt verði að hagnýta nýjar skýjaþjónustur þegar þær verða aðgengilegar.

  8. Samstarf og þjálfun. Þekkingaröflun og miðlun skal vera stöðug. Stuðla þarf að virku samfélagi þeirra sem nýta sér skýjalausnir þar sem þeir geta leitað sér aðstoðar, fræðslu og stuðlað er að samstarfi hagaðila.


Áherslur

Til að ná markmiðum þessarar stefnu eru settar fram áherslur í eftirfarandi flokkum sem fylgja þarf á öllum stigum notkunar:

  • Stjórnskipulag og högun

  • Skipulag og hæfni stofnana

  • Öryggi, persónuvernd og áhættustýring

  • Innkaup og kostnaðarstýring

  • Val og hönnun lausna

  • Rekstur lausna

Áhersla 1 - Stjórnskipulag og högun

Samræming, umsjón, eftirlit og eftirfylgni með umgjörð um notkun skýjalausna
skal vera á ábyrgð aðila sem styður við stofnanir og verkefni með ráðgjöf um högun og útfærslur og veitir leiðsögn um viðeigandi verklag við val, innkaup, uppsetningu og notkun skýjalausna.

Með þessu móti skal tryggja stöðugar umbætur án þess að upplýsingar eða tæknilausnir séu í hættu. Þannig geta stofnanir útfært eigin skýjaáætlanir og stefnur sem byggja á sameiginlegri aðferðafræði og forsendum svo tryggt sé að þær stuðli að þeim markmiðum stjórnvalda sem sett eru fram í þessari stefnu.

Áhersla 2 – Skipulag og hæfni stofnana

Stofnanir og opinberir aðilar skulu byggja upp nauðsynlegan skilning, færni og skipulag til að nýta skýjalausnir á hagkvæman og öruggan hátt. Stofnanir skulu greina eigin upplýsingakerfi og verkefni og taka ákvarðanir um þróun og útskipti í samræmi við markmið
þessarar stefnu.

Inn- og útgönguleiðum gagna og veittra þjónusta verði fækkað, út frá öryggissjónarmiðum,
og tilhögun skal vera til samræmis við best þekktar alþjóðlegar aðferðir.

Áhersla 3 – Öryggi, persónuvernd og áhættustýring

Öryggisstig skýjalausna í samanburði við hefðbundinn upplýsingatæknirekstur þarf að meta heildstætt með kerfisbundnu áhættumati til að meta núverandi rekstraráhættu og þá áhættu sem fólgin er í notkun skýjalausna.

Vernd kerfa og upplýsinga skal vera í samræmi við eðli, flokkun og mikilvægi gagna og þjónustu, óháð rekstrarfyrirkomulagi.
Í áhættumati skal tekið tillit til mikilvægis þjónustu og gagna.

Byggja skal á lágmörkun aðgangs og heimilda á öllum stigum.
Innbyggt og sjálfgefið öryggi og persónuvernd skal vera grundvallarskilyrði í hönnun upplýsingakerfa.

Tryggja skal viðnámsþol kerfa fyrir bilunum, árásum og öðrum ógnum.

Áhersla 4 – Innkaup og kostnaðarstýring

Stofnanir og aðrir opinberir aðilar skulu greina þarfir og kröfur í upphafi. Innkaup á þjónustum skulu vera sameiginleg, þar sem það á við, í hagræðingarskyni. Kostnaður skal vera fyrirsjáanlegur og sýnileiki tryggður fyrir kaupendur. Kostnaðarhvatar skulu reglulega rýndir og samningar geri ráð fyrir ítrun á högun á samningstíma.

Þjónustuaðili uppfylli viðeigandi skilyrði í samræmi við mikilvægi og flokkun þeirrar vinnslu sem um ræðir, þ.m.t. öryggisvottanir, vinnsluákvæði, þjónustustig, lögsögu og eignarhald upplýsinga og kerfa.

Samningar skulu tryggja fullt eignarhald kaupenda á gögnum sem þeir setja í þjónustuna og að við lok samnings eða útleiðingu skal vera mögulegt að færa gögn til annars þjónustuaðila eða til kaupanda.
Innkaup skulu tryggja opinberum stofnunum aðgang að hæfum og til þess bærum bjóðendum og gera stofnunum mögulegt að nota nýjustu mögulegu þjónustur og sérfræðiþekkingu á hverjum tíma.

Áhersla 5 – Val og hönnun lausna

Velja skal staðlaðar lausnir sem krefjast lágmarksaðlögunar til að uppfylla kröfur notenda og lágmarka þróunar- og afhendingartíma. Rekstrarumhverfi skal útfæra með eins stöðluðum og fullunnum þjónustum og hægt er og hámarka nýtingu á virkni innan umhverfisins.

Hönnun og aðlögun skal framkvæma í samræmi við kröfur notenda. Mæta skal breytingum í notkun og álagi með því að nota skalanleika í þjónustum og með sem sjálfvirkustum hætti.

Atburði, gögn og virkni skal vera hægt að samnýta á staðlaðan hátt af öðrum kerfum og þjónustum. Tryggja skal varðveislu gagna í samræmi við gildandi kröfur hverju sinni og tryggja að gögn séu skilahæf til viðeigandi aðila eftir því sem við á.

Áhersla 6 – Rekstur lausna

Rekstrarlegt hagræði og öryggi næst með stöðlun og sjálfvirknivæðingu. Tryggja skal stöðugar umbætur, vöktun og eftirlit með kostnaði, öryggi og samningsstöðu gagnvart þjónustuaðilum. Lausnir skulu vera rýndar með tilliti til þess hvort þær uppfylli og samræmist kröfum notenda og hagaðila.

Hluti af stöðugri vöktun skal snúa að hæfni og getu þjónustuaðilans til að sinna þeim verkefnum sem honum eru falin í samræmi við mikilvægi og áhættumat þeirra verkefna.

Sérhæfðir skýjaþjónustuaðilar eru gjarnan hæfari en minni aðilar í að innleiða og starfrækja tæknileg upplýsingaöryggisúrræði þar sem að upplýsingaöryggi er grunnþáttur í rekstri og orðspori þeirra.


Næstu skref

Skýjastefnu hins opinbera er ætlað að vera leiðarljós í áframhaldandi samræmdri uppbyggingu og skipulagi notkunar á skýjalausnum hjá opinberum aðilum á Íslandi.

Í kjölfar birtingar stefnunnar verður sett fram aðgerðaáætlun sem styður við markmið hennar og veitir opinberum aðilum leiðsögn og aðstoð við að byggja upp sínar eigin skýjaáætlanir. Slík leiðsögn er hluti af umgjörð stafrænnar þjónustu ríkisins sem stofnanir munu nota til að útbúa eigin stefnumótun í upplýsingatækni og stafrænum umbreytingum.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið ber ábyrgð á stefnunni og heyrir hún undir málaflokk 5.3 og 6.1 í fjármálaáætlun. Framkvæmd stefnunnar og aðgerða er hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu í náinni samvinnu við stofnanir ríkisins og önnur ráðuneyti, sveitarfélög og fyrirtæki. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gerst aðili að stefnunni fyrir hönd sveitarfélaga og vinnur að framgangi hennar meðal sveitarfélaga landsins.