Fara beint í efnið
Stafrænt Ísland Forsíða

Stafrænt Ísland

Tilkynning um slys

29. desember 2021

Þetta er önnur umsóknin sem gerð er í samstarfi við Sjúkratryggingar Íslands en áður var búið að setja í loftið umsókn um sjúkratryggingar. Þetta verkefni snerist um rafrænt ferli fyrir tilkynningu slysa til Sjúkratrygginga Íslands.

sjukra-wide

Aðstæður slysa eru margar, slysaflokkarnir og undirflokkarnir margir og aðstæður slysa óteljandi. Þessi umsókn einfaldar notendum að tilkynna slys, finna réttan flokk og passar að allar upplýsingar komi fram sem þarf til að tilkynningin standist skoðun.

Ekki er nægjanlegt að upplýsingar berist frá tilkynnanda um slysið, aðstæður, stað og tíma Ýmis konar viðbótargögn þurfa líka að fylgja með, mismörg eftir tegundum slysa en öll þurfa þau að skila sér. Sem dæmi um gögn má nefna læknisvottorð, dánarvottorð, áverkavottorð, samtal við bráðamóttöku og svo má áfram telja.

Áhersla var lögð á að hægt væri að skila inn tilkynningu um slys á sem auðveldastan og sem fljótlegastan hátt. Það er því ekki bara sá aðili sem slasast sem getur skilað inn tilkynningu í gegnum umsóknakerfið, heldur einnig aðstandandi eða vinnuveitandi, forsvarsvarsmaður íþróttafélags, björgunarsveitar, skólastjóri eða annar viðkomandi. Til þess að gera tilkynnanda auðveldara fyrir og flýta ferlinu er ekki gerð krafa um að skila öllum fylgiskjölum strax, heldur á tilkynnandi kost á því að skila inn tilkynningunni fyrst og svo viðeigandi fylgiskjölum seinna.

Þegar tilkynnandi hefur skilað inn tilkynningunni, getur hann séð stöðu tilkynningar og hvaða gögn eða skjöl vantar upp á til að klára tilkynninguna.

Þegar þriðji aðili á í hlut, eins og áðurnefndir vinnuveitandur, skólastjórnendur, forsvarsfólk íþróttafélags eða björgunarsveita eða aðrir ábyrgðaraðilar, þarf bæði sá slasaði eða einhver í forsvari fyrir hann sem og þriðji aðili að samþykkja tilkynninguna til að hún sé gild. Á þessum tímapunkti kemur inn svokölluð yfirferðarstaða umsóknar. Með yfirferðarstöðu er átt við að þegar sá slasaði eða forsvarsmaður hefur tilkynnt slysið, þá fær þriðji aðili tilkynningu og getur skráð sig inn í umsóknakerfið, skoðað tilkynninguna og samþykkt hana eða gert við hana athugasemd. Það sama á við þegar þriðji aðili tilkynnir slys fyrir hönd hins slasaða, þá þarf hinn slasaði að fara yfir tilkynninguna og samþykkja hana eða hafna.

Áskorun:

Stór áskorun hér var að fara í gegnum allar tegundir slysa, undirtegundir og flokka og leiðbeina notendum í rétta átt svo tilkynningar skili sér á réttan stað. Mikil og góð vinna var lögð í þessa greiningu með Sjúkratryggingum Íslands sem skilar sér í einföldu flæði sem leiðir notendur áfram á rétta braut.

Önnur stór áskorun var áðurnefnd yfirferðarstaða umsóknar, þar sem auðkenna þarf þriðja aðila útfrá tilkynningu sem hefur rétt á að samþykkja umsókn eða gera við hana athugasemd. Þarna þurftið að bæta við virkni í umsóknakerfið sem ekki hafði verið notað áður en gagnast mjög vel í þessu tilfelli og passar að umsóknin í heild sinni skil sínu hlutverki á skiljanlegan hátt til notenda.

Ávinningur:

Ávinningurinn er fyrst og fremst sparnaður á pappír og handavinnu. Rafræna ferlið er mikið skýrara fyrir notendum og leiðir þá áfram í rétta átt sem skilar sér þá í kjölfarið í fleiri umsóknum þar sem öll gögn eru rétt og gild.

Þjónustueigandi / samstarfsaðili:

  • Sjúkratryggingar Íslands

  • Stafrænt Ísland

Þróunarteymi:

  • Sendiráðið

  • Prógramm