Verkefni ríkissaksóknara
Ríkissaksóknari flytur mál ákæruvaldsins í Landsrétti og í Hæstarétti Íslands og tekur ákvörðun um hvort áfrýja skuli málum af hálfu ákæruvaldsins.
Ríkissaksóknari sinnir líka eftirfarandi verkefnum:
Ríkissaksóknari gefur út almenn fyrirmæli um meðferð ákæruvalds og getur gefið öðrum ákærendum fyrirmæli um einstök mál sem verður að hlíta.
Ríkissaksóknari hefur eftirlit með framkvæmd símahlustana lögreglu og sérstakra rannsóknaraðferða lögreglu.
Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um hvort það eigi að áfrýja málum af hálfu ákæruvaldsins. Embættið annast líka ýmis önnur atriði varðandi áfrýjun mála:
Tekur við áfrýjunaryfirlýsingum og beiðnum um áfrýjunarleyfi frá þeim sem hafa verið dæmdir og óska eftir því að áfrýja.
Gefur út áfrýjunarstefnur og sér um að þær séu birtar ákærðum.
Undirbýr og annast frágang á gögnum sem lögð eru fyrir Landsrétt og Hæstarétt í svonefndu ágripi málsgagna.
Ríkissaksóknari getur endurskoðað ákvarðanir lögreglustjóra eða héraðssaksóknara um að fella niður mál. Embættið getur tekið ákvörðun um hvort sækja eigi einhvern til saka úr höndum lögreglustjóra og héraðssaksóknara og gefið út ákæru í viðkomandi máli.
Ef lögreglustjóri og héraðssaksóknari ákveða að fella mál niður getur sá sem á hagsmuna að gæta í því máli kært ákvörðunina. Ríkissaksóknari endurskoðar þá ákvarðanir lögreglustjóra og héraðssaksóknara.
Ríkissaksóknari heldur sakaskrá fyrir landið allt þar sem skráð eru úrslit sakamála.
Veita umsagnir um mál vegna beiðna um endurupptöku sakamála.
Veita umsagnir um lagafrumvörp á sviði refsiréttar og sakamálaréttarfars.
Sinna alþjóðlegum samskiptum fyrir hönd ákæruvaldsins.
Sinna réttarbeiðnum frá erlendum yfirvöldum og málum vegna kröfu um framsal/afhendingu erlendra og íslenskra ríkisborgara.
Halda námskeið fyrir nýja ákærendur og skipuleggja endurmenntun ákærenda.
Halda utan um tölfræði vegna starfsemi ákæruvaldsins.
Ríkissaksóknari hefur eftirlit með framkvæmd hlustana lögreglu og sérstakra rannsóknaraðferða lögreglu.