Um ákæruvaldið
Hlutverk ákærenda er að tryggja, í samvinnu við lögreglu, að þeir sem afbrot fremja verði beittir lögmæltum viðurlögum, þ.e. refsingum (sekt eða fangelsi) og/eða refsikenndum viðurlögum, s.s. sviptingu ökuréttar. Ákærendur taka ákvörðun um hvort sakamálarannsókn skuli fara fram eða ekki en það er lögregla sem sinnir rannsóknum sakamála. Ákærendur taka ekki við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum um meðferð ákæruvalds
Ríkissaksóknari
Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds. Embættið sinnir samræmingu og eftirliti með framkvæmd ákæruvaldsins hjá öðrum stofnunum sem hafa slíkt vald.
Héraðssaksóknari
Héraðssaksóknari ákærir í málum sem lögregla rannsakar. Þetta eru alvarleg brot eins og manndráp og stórfelldar líkamsmeiðingar, kynferðisbrot, stórfelld fíkniefnabrot og brot í opinberu starfi.
Embættið rannsakar og fer með ákæruvald í málum sem varðar efnahagsbrot og brot á skattalöggjöf.
Einnig rannsakar héraðssaksóknari og fer með ákæruvald í málum sem varða brot starfsmanna lögreglu í starfi og brot gegn lögreglu/valdstjórninni.
Lögreglustjórar
Lögreglustjórar eru níu talsins um allt land. Embættin rannsaka og fara með ákæruvald vegna allra annarra brot en þeirra sem héraðssaksóknari fer með.
Rannsókn lögreglu
Ákærendur ákveða hvort sakamál verði rannsakað eða ekki. Reglan er sú að það á ekki að rannsaka mál nema það liggi fyrir rökstuddur grunur um að refsiverð háttsemi hafi verið framin. Lögregla rannsakar svo málið. Markmið rannsóknarinnar er:
Að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákærandi geti ákveðið hvort það eigi að gefa út ákæru á hendur einstaklingi.
Afla gagna til að undirbúa mál fyrir dómstólum.
Ábyrgð vegna rannsókna
Ákærendur eiga að leiðbeina lögreglunni um hvernig rannsóknin eigi að fara fram og ganga úr skugga um að farið sé eftir lögum.
Ákærendur eiga að tryggja að gætt sé að grundvallarmannréttindum þeirra sem rannsóknin beinist að.
Ákærendum ber að hafa í heiðri þá grundvallarreglu að ekki má færa fram gögn sem aflað hefur verið með ólöglegum eða óheiðarlegum hætti.
Höfða mál eða fella mál niður
Höfða mál eða fella mál niður
Þegar mál hefur verið rannsakað hjá lögreglu ákveða ákærendur hvað sé gert næst. Meginreglan er að það eigi að höfða mál á hendur þeim grunaða ef rannsóknin sýndi að það eru næg gögn til að sakfella viðkomandi. Ef svo er ekki, er ekki ákært. Þá er málið látið niður falla.
Önnur málalok
Falla frá saksókn
Ákærandi getur ákveðið að falla frá saksókn þótt hann telji gögnin nægja til þess að sakborningur verði sakfelldur. Ákærandi hefur takmarkaða heimild til þess að gera þetta og verður að beita þessu úrræði af varfærni.
Fresta því að gefa út ákæru
Ákærandi má fresta því að gefa út ákæru þegar sakborningur hefur játað brot sitt. Þetta gildir helst um brot barna og ungmenna á aldrinum 15 til 21 árs.
Mál afgreitt hjá lögreglustjóra
Ákærendur hjá lögreglustjórum geta lokið málum án þess að leggja þau fyrir dómstól með ákæru. Í slíkum tilvikum greiðir sakborningur sekt og í sumum tilvikum er hann einnig sviptur ökurétti og/eða er gert að sæta upptöku ákveðinna eigna. Það eru aðallega mál vegna umferðarlagabrota og fíkniefnalagabrota sem lokið er með þessum hætti.
Siðareglur
Að tilhlutan Evrópuráðsins hefur Ráðstefna evrópskra ríkissaksóknara sett leiðbeinandi siðareglur fyrir ákærendur sem nefndar hafa verið Búdapestreglurnar. Þær má nálgast hér. Ákæruvaldið á Íslandi hefur jafnframt sett sér eigin siðareglur sem eru til fyllingar öðrum reglum um siði og faglega breytni ákærenda, þ.á m. Búdapestreglunum. Hér má nálgast þær.