Fyrirmæli til ákærenda
Ríkissaksóknari gefur út almenn fyrirmæli um meðferð ákæruvalds og hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá öðrum ákærendum, sbr. 21. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 2/2024 |
---|---|---|
20. febrúar 2024 | 20. febrúar 2024 | Kemur í stað RS: 9/2009 |
1. Almenn atriði
Fyrirmæli þessi eiga við um mál þar sem rannsókn beinist að broti barna sem voru ósakhæf á verknaðarstundu.
Markmið rannsóknar er að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt 14. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 telst barn sakhæft við lok 15. afmælisdags. Börn sem ekki hafa náð þeim aldri bera ekki refsiábyrgð og verður ekki refsað fyrir brot sín og teljast því ekki sakborningar í skilningi laga um meðferð sakamála.
Lögregla rannsakar því almennt ekki brot ósakhæfra barna en þarf engu að síður að ganga úr skugga um hvort barn hafi verið ósakhæft sökum aldurs á verknaðarstundu. Leiði rannsókn í ljós að svo hafi verið skal almennt hætta rannsókn málsins hjá lögreglu og senda tilkynningu til barnaverndarþjónustu.
Atvik máls geta engu að síður verið með þeim þætti að lögreglu beri að rannsaka brot ósakhæfra barna svo sem til að:
Leiða í ljós umfang brots
Ganga úr skugga um hvort aðrir kunna að eiga þátt í broti
Rannsaka þátt annarra í broti
Hafa uppá og/eða skila munum sem hafa verið andlag brots
Koma í veg fyrir áframhaldandi brot
Þegar lögregla rannsakar brot ósakhæfs barns skal lögregla, þegar hún fær slíkt mál til meðferðar, tilkynna það barnaverndarþjónustu og gefa henni kost á að fylgjast með rannsókn málsins, sbr. 18. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Nú kemur fram við rannsókn að barn undir 15 ára hafi gerst sekt um refsiverða háttsemi, skal gera barnaverndarþjónustu grein fyrir málavöxtum að lokinni rannsókn, sé þess óskað. Heimilt er að láta barnaverndarþjónustu í té upplýsingar og afrit rannsóknargagna enda varði þau beinlínis brot hins ósakhæfa barns, sbr. 3. mgr. 44. gr. barnaverndarlaga.
Lögregla skal hafa samstarf við barnaverndaryfirvöld hvort sem mál er til rannsóknar hjá lögreglu eða barnaverndarþjónustu og veita aðstoð við úrlausn mála, sé þess óskað, sbr. 20. barnaverndarlaga.
2. Skýrslutaka/viðtal hjá lögreglu af barni
Ef lögregla rannsakar brot barns sem fyrir liggur að var ósakhæft á verknaðarstundu er heimilt að taka skýrslu af barninu vegna málsins. Þegar skýrslutaka fer fram hjá lögreglu skal það almennt gert fyrir luktum dyrum, sbr. 62. gr. laga um meðferð sakamála.
Tilkynna ber um væntanlega skýrslutöku til barnaverndarþjónustu sem getur sent fulltrúa til að vera viðstaddan hana.
Lögregla skal einnig gera forráðamanni viðvart um skýrslutöku. Ef aðstæður eru sérstakar, s.s. vegna þroska barns, ungs aldurs þess eða alvarleika máls skal lögregla hafa samráð við forráðamenn og eftir atvikum gefa þeim kost á að vera viðstaddir skýrslutöku nema aðstæður mæli gegn því að mati lögreglu, sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 651/2009 um réttarstöðu handtekinna manna, yfirheyrslur hjá lögreglu o.fl. Ef forráðamaður neitar að tekin verði skýrsla af ósakhæfu barni skal lögregla láta við svo búið standa.
Æskilegt er að skýrslutaka af ósakhæfu barni sé í formi viðtals. Gæta skal fyllstu tillitssemi þegar tekin er skýrsla af barni. Skýrslutakan skal fara fram við aðstæður sem hæfa, sbr. 6. gr. sömu reglugerðar.
Barninu skal kynnt að því beri ekki skylda til að tjá sig um ætlað brot sitt en ef það kýs að tjá sig skal brýnt fyrir barninu að segja satt og rétt frá og draga ekkert undan sem máli kann að skipta. Eftir atvikum skal barninu kynnt inntak 117. gr. sakamálalaga. Barn undir 15 ára hefur ekki stöðu sakbornings og á því ekki rétt á að fá tilnefndan verjanda en þó er forráðamönnum barns heimilt að leita aðstoðar lögmanns á sinn kostnað sem má þá vera viðstaddur skýrslutöku/viðtal af barninu.
Gera skal skýrslu um skýrslutökuna með venjulegum hætti, sbr. 66. gr. laga um meðferð sakamála. Að jafnaði skal taka skýrslu upp með hljóði og mynd.
3. Þvingunarúrræði
Þvingunarúrræðum við rannsóknir sakamála verður almennt ekki beitt gagnvart ósakhæfum börnum nema í algjörum undantekningartilvikum, enda sé þá skýr og ótvíræð lagaheimild fyrir hendi.
3.1 Handtaka
Í algjörum undantekningartilvikum er heimilt að handtaka ósakhæft barn og færa það án samþykkis þess á lögreglustöð eða annan viðeigandi stað, s.s. í því skyni að halda uppi lögum og reglu, sbr. til hliðsjónar a. lið 1. mgr. 16. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Tilkynna skal forráðamönnum og barnaverndarþjónustu þegar í stað um slík afskipti lögreglu.
Handtaka skal vara í eins skamman tíma og unnt er og við aðstæður sem hæfa barni. Ekki má færa barn í fangaklefa eða biðstofu þar sem handteknir eru vistaðir til bráðabirgða nema önnur aðstaða sé ekki fyrir hendi. Ekki skal beita handjárnum eða öðrum búnaði sem lögreglan notar við valdbeitingu, nema brýna nauðsyn beri til og önnur úrræði verið fullreynd.
3.2 Önnur þvingunarúrræði laga um meðferð sakamála
Gagnvart ósakhæfu barni er heimilt að beita haldlagningu skv. IX. kafla laga um meðferð sakamála og öðrum þvingunarúrræðum, sem unnt er að beita gagnvart þeim sem ekki eru sakaðir í máli, s.s. húsleit og líkamsleit, sbr. 78. og 79 gr. laganna.
4. Skráning í LÖKE
Öll afskipti lögreglu af börnum og ungmennum skal skrá í LÖKE.
Þegar lögregla rannsakar brot ósakhæfs barns eða hefur afskipti af ósakhæfu barni vegna meints brots ber að skrá það brot sem til rannsóknar er í málseiningahluta LÖKE með hefðbundnum hætti. Hið ósakhæfa barn skal skrá inn sem málsaðila við brotabeltið. Við stöðu málsaðila skal skrá „Ósakhæft barn”.
Forráðamenn ósakhæfs barns skal skrá inn sem aukaaðila.
5. Lok máls og tilkynningar
Þegar lögregla hefur rannsakað brot ósahæfs barns að einhverju leyti og lögregla telur mál nægjanlega upplýst skal hætta rannsókn málsins að því er varðar þátt hins ósakhæfa og skrá þann lokaferil við viðeigandi málseiningu í LÖKE.
Tilkynning um ákvörðun um að hætta rannsókn skal senda til eftirfarandi aðila:
Forráðamanna ósakhæfs barns.
Brotaþola/kæranda eða forráðamanna ef hann er undir 18 ára.
Afrit af tilkynningu skal senda til barnaverndarþjónustu og eftir atvikum til lögmanna brotaþola/kæranda og ósakhæfs barns.
Í tilkynningu skal koma fram:
Heimfærsla til viðeigandi refsiákvæða ef við á.
Tilvísun til 4. mgr. 52. gr. laga um meðferð sakamála.
Leiðbeiningar um rétt á rökstuðningi ef hann fylgir ekki.
Upplýsingar um kærufrest og kæruleið til ríkissaksóknara.
Útgáfurdagur: | Gildistaka: | RS:1/2024 |
---|---|---|
20. febrúar 2024 | 20. febrúar 2024 |
Lögregla skal ávallt huga að því hvort rétt sé að beita vægara úrræði en nálgunarbanni eða brottvísun af heimili þegar viðkomandi hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn ákvæði 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Slíkt úrræði skal felast í því að lögregla geri samkomulag við sakborning um að hann undirriti yfirlýsingu í lok skýrslutöku sem felur efnislega í sér hið sama og nálgunarbann eða brottvísun af heimili þó án þess að formleg ákvörðun hafi verið tekin um slíkt. Í yfirlýsingunni skal tekið fram að ef ekki verður staðið við efni yfirlýsingarinnar kunni að koma til beitingar úrræða samkvæmt lögum nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili.
Þegar lögregla rannsakar brot gegn nálgunarbanni eða brottvísun af heimili getur verið nauðsynlegt vegna rannsóknarhagsmuna að leggja hald á síma, tölvur og aðra muni sem ætla má að sakborningur hafi notað við framningu brotanna og eftir atvikum í því skyni að þeir munir verði gerðir upptækir með dómi, sbr. 1. töluliður 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga.
Hraða ber málsmeðferð eins og kostur er við rannsókn brota gegn nálgunarbanni eða brottvísun af heimili. Ríkissaksóknari bendir á að ákvæði 143. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er ekki afdráttarlaust þannig að ekki verði frá því vikið. Er lögreglustjórum heimilt að líta til verndarhagmuna brotaþola í þessu efni og höfða mál þó ekki sé unnt að gera það í einu lagi fyrir öll þau brot sem til rannsóknar eru.
Þegar um ítrekuð brot sakbornings gegn nálgunarbanni er að ræða og ákvæði c. eða d. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála eru uppfyllt en ekki er talin ástæða til að sakborningur sæti gæsluvarðhaldi er rétt að gera kröfu um að sakborningur hafi á sér búnað (ökklaband) svo unnt sé að fylgjast með ferðum hans, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála.
Útgáfurdagur: | Gildistaka: | RS:5/2023 |
---|---|---|
12. október 2023 | 12. október 2023 |
1. Almenn atriði
Fyrirmæli þessi eru sett til að stuðla að og tryggja samræmda og skilvirka framkvæmd til að miðla gögnum og upplýsingum við meðferð mála hjá lögreglu og ákæruvaldi í því skyni að auka gagnsæi og hagkvæmni.
Um stafrænt pósthólf á gilda lög nr. 105/2021 um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt stjórnvalda.
Ákvarðanir, tilkynningar og önnur bréf í tengslum við rannsókn og meðferð sakamála skulu birt eða send með stafrænum hætti í gegnum stafrænt pósthólf á Ísland.is, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 105/2021, eða með öðrum öruggum stafrænum hætti, nema því verði ekki við komið.
2. Stafrænt pósthólf
Stafrænt pósthólf er lokað svæði á Ísland.is þar sem birtar eru og geymdar sértækar, persónulegar upplýsingar og skilaboð frá hinu opinbera til einstaklinga og fyrirtækja. Allt efni er vistað hjá þeim opinbera aðila sem býr það til en stafræna pósthólfið gerir einstaklingum og lögaðilum kleift að nálgast efni til skoðunar í gegnum mínar síður á Ísland.is.
Allir einstaklingar sem fá útgefna kennitölu og allir lögaðilar sem skráðir eru í fyrirtækjaskrá á hverjum tíma hafa aðgang að sínu eigin stafræna pósthólfi. Forráðamenn hafa aðgang að gögnum barna sinna í stafrænu pósthólfi að 18 ára aldri.
3. Birting í stafrænu pósthólfi
Þegar skjöl eru aðgengileg í pósthólfi teljast þau birt viðtakanda, sbr. 7. gr. laga nr. 105/2021. Gögn teljast hafa verið gerð aðgengileg í pósthólfi viðtakanda um leið og viðtakandi getur skoðað þau í nettengdu tæki. Ekki er nauðsynlegt að viðkomandi hafi skráð sig inn í pósthólfið og kynnt sér gögnin, heldur teljist gögnin birt frá og með því tímamarki sem þau voru gerð aðgengileg í pósthólfinu og viðkomandi hefði þar með getað kynnt sér gögnin.
Þar sem í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum er kveðið á um að gögn skuli birt á ákveðinn hátt, skal birting í stafrænu pósthólfi metin fullgild.
a) Hvaða skjöl skal birta í stafrænu pósthólfi
Allar ákvarðanir og tilkynningar samkvæmt lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008, sem og önnur bréf eða tilkynningar, til einstaklings eða lögaðila í tengslum við rannsókn og meðferð sakamáls, skal birta í stafrænu pósthólfi.
Óski einstaklingur eða lögaðili einnig eftir að fá gögn á annan hátt en í stafrænt pósthólf skal verða við því. Gögnin verða þó áfram aðgengileg stafrænt.
Afrit af málsgögnum skulu ekki gerð aðgengileg í stafrænu pósthólfi. Um rafræna afhendingu málsgagna vísast til kafla 4.
b) Framkvæmd:
Birting skjals í stafrænu pósthólfi skal framkvæmd í gegnum málaskrárkerfi lögreglu (LÖKE) ef skjalið heyrir undir mál í LÖKE, en annars í gegnum aðra skjalaveitu, s.s. GoPro, ef unnt er.
c) Hverjum skal birta í stafrænu pósthólfi:
Sakborningi
Brotaþola/kæranda, hafi hann hagsmuna að gæta
Forráðamanni sakbornings og brotaþola
Lögaðila sem skráður er í fyrirtækjaskrá
d) Hverjum skal ekki birta í stafrænu pósthólfi:
Einstaklingi sem ekki hefur íslenska kennitölu
Lögaðila sem ekki er skráður í fyrirtækjaskrá
Lögmanni sakbornings og brotaþola/kæranda
Barnaverndaryfirvöldum
Lögregluembættum, héraðssaksóknara og ríkissaksóknara
Nefnd um eftirlit með lögreglu
Dómstólum og öðrum opinberum aðilum
4. Aðrar stafrænar birtingar og rafrænn gagnaflutningur
Ákvarðanir, tilkynningar og önnur bréf, eða afrit af slíkum bréfum, sem ekki verða birt í stafrænu pósthólfi, sbr. kafli 3. d), skal senda rafrænt með öruggum hætti eins og Signet Transfer nema því verði ekki við komið.
Þegar tekin hefur verið ákvörðun um afhendingu málsgagna skulu þau afhent rafrænt með öruggum hætti ef mögulegt er.
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS:4/2023 |
---|---|---|
30. ágúst 2023 | 30. ágúst 2023 | Kemur í stað RS: 7/2017 |
I. Almenn atriði
Fyrirmæli þessi gilda um mál sem send eru öðru embætti til ákærumeðferðar. Ákvæði fyrirmælanna um frágang rannsóknargagna eiga að jafnaði einnig við innan embættis, frá rannsóknardeild til ákæranda, ef ákærumeðferð máls er hjá lögreglustjóra.
II. Frágangur rannsóknargagna og haldlagðir munir
1. Rannsóknargögn á pappír
Rannsóknargögn skal senda í frumriti. Ekki er nauðsynlegt að senda afrit af þeim nema óskað sé sérstaklega eftir því.
Skjali á erlendu tungumáli, sem telst vera mikilvægt málsgagn, skal að jafnaði fylgja þýðing á íslensku, unnin af löggiltum skjalaþýðanda.
Rannsóknargögn skulu vera í skjalakápu eða skjalamöppu, vandlega skjalmerkt og með skjalaskrá. Skjalaskrá skal jafnframt vistuð inn í LÖKE sem Word-skjal þannig að hægt verði að gera á henni breytingar hvað varðar uppröðun skjala og tilgreiningu blaðsíðutals.
Óskjalmerkt fylgiskjöl skulu vera aðgreind frá merktum rannsóknargögnum.
Rannsóknargögn, ásamt skjalaskrá, skulu samhliða skönnuð og vistuð í heild sem skjal í LÖKE.
2. Stafræn gögn
Öll stafræn gögn, svo sem myndefni, upptökur af skýrslutökum og gögn úr farsímum og tölvum, skulu fylgja rannsóknargögnum eða rafrænn aðgangur að þeim tryggður með öðrum hætti.
Lögreglustjóra er skylt að verða við beiðni viðtökuembættis um að útbúa afrit af stafrænum gögnum, sé þess óskað.
Merkja skal gögnin með viðeigandi málsnúmeri og auðkenna um efni.
3. Munir
Að frátöldu myndefni, svo sem úr eftirlitsmyndavélakerfi, skal að jafnaði ekki senda haldlagða muni með rannsóknargögnum.
Lögreglustjóri skal gæta þess að aflétta haldlagningu muna ef haldlagning hefur ekki lengur þýðingu fyrir mál.
III. Samantekt ákæranda
Máli skal fylgja lýsing á sakarefni málsins, mögulegri heimfærslu til refsiákvæða og stutt samantekt ákæranda um sönnunarstöðu þess, þ.m.t. hvort ákærandi telji málið líklegt til sakfellis.
Samantekt þessi, sem er vinnuskjal ákæruvaldsins, skal rituð á sérstakt skjal og ekki vera meðal skjalmerktra rannsóknargagna.
IV. Sakarkostnaðaryfirlit
Máli skal fylgja yfirlit sakarkostnaðar, yfirfarið af ákæranda, ásamt ljósriti af reikningum sem yfirlit tekur til.
V. Fylgibréf máls
Málið skal sent með dagsettu bréfi þar sem tilgreina skal málsnúmer lögreglu, að hverjum málið beinist og á hvaða lagagrundvelli mál er sent milli embætta. Samantekt ákæranda um málið, atriði er varðar sönnun þess eða heimfærslu til refsiákvæða skulu ekki rakin í bréfi þessu.
Ef sakborningur sætir gæsluvarðhaldi eða farbanni skal það tekið fram í bréfinu og upplýst hvenær því lýkur. Þegar þannig stendur á, skal málið berst viðkomandi embætti eigi síðar en 5 virkum dögum áður en gæsluvarðhald eða farbann rennur út. Sé það ekki unnt, skal haft samband við embættið, með hæfilegum fyrirvara, þar sem farið er yfir stöðu málsins og sammælst um hvernig best megi vinna að því.
VI. Skráning í málaskrá og sending málsgagna
Yfirfara skal skráningu máls í málaskrá (LÖKE) og gæta þess sérstaklega að brotaflokkar og sakborningar séu rétt skráðir.
Rannsóknargögn og önnur málsgögn skulu send viðkomandi embætti í ábyrgðarpósti eða með öruggri boðsendingu. Samhliða sendingu málsgagna skal senda málið milli embætta í LÖKE.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS:3/2023 |
---|---|---|
31. mars 2023 | 31. mars 2023 | Kemur í stað RS: 13/2017 |
Háttsemi í starfi lögreglu
Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu tekur við erindum frá borgurum sem varða kærur á hendur starfsmanni lögreglu um ætlað refsivert brot í starfi og um kvörtun vegna ætlaðrar ámælisverðar starfsaðferðar eða framkomu starfsmanns lögreglu í starfi í samskiptum við borgara.
Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu greinir slík erindi og kemur þeim til viðeigandi meðferðar hjá héraðssaksóknara, ríkissaksóknara, lögreglustjóra og/eða ríkislögreglustjóra, eftir því sem við á.
Nú leitar borgari á lögreglustöð og telur á sér brotið af hálfu lögreglu og skal þá starfsmaður lögreglu, sem ekki hefur komið að máli viðkomandi borgara sem erindi lýtur að, veita leiðbeiningar um nefnd um eftirlit með störfum lögreglu, aðsetur nefndarinnar, netfang o.fl.
Netfang: nel@nel.is.
Aðsetur: Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu, Skuggasundi 3, 101 Reykjavík.
Símanúmer: 545 8800.
Nú berst lögreglustjóra ábending eða tilkynning um meint refsivert brot starfsmanns lögreglu, sem ætla má að bregðast þurfi skjótt við vegna rannsóknarhagsmuna, eða af öðrum ástæðum, og skal lögreglustjóri þá án tafar koma viðeigandi upplýsingum á framfæri við héraðssaksóknara, eða eftir atvikum ríkissaksóknara.
Í slíkum tilvikum tilkynnir héraðssaksóknari eða ríkissaksóknari til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu ef rannsókn máls hefur hafist vegna meints brots starfsmanns lögreglu. Hið sama á við ef slík ábending eða tilkynning berst til héraðssaksóknara
Berist héraðssaksóknara eða lögreglustjóra tilkynning um að starfsmaður lögreglu hafi viðhaft ámælisverða starfsaðferð eða framkomu í starfi eða um að borgari sé ósáttur við almenna starfshætti lögreglu skal án tafar framsenda nefndinni tilkynninguna til meðferðar.
Lögreglustjóri sem hefur móttekið tilkynningu frá borgara, sem framsenda ber nefnd um eftirlit með störfum lögreglu, eða er með öðrum hætti kunnugt um að slík tilkynning er komin fram, skal hlutast til um að tryggja sönnunargögn eftir því sem við á, s.s. með varðveislu mynd- og hljóðupptaka, eða annarra muna sem hafa sönnunargildi, eða með skráningu upplýsinga, m.a. um atvik, tækjabúnað eða vitni, sem tengjast máli og nýst getur við rannsókn eða aðra meðferð máls sem fellur undir fyrirmæli þessi.
Um málsmeðferð fer að öðru leyti eftir VII. kafla lögreglulaga nr. 90/1996 og reglum um nefnd um eftirlit með lögreglu nr. nr. 222/2017.
Refsivert brot starfsmanns lögreglu utan starfs lögreglu
Héraðssaksóknari rannsakar kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot utan starfs, varði brot þyngri refsingu en tveggja ára fangelsi, eða varði brot gegn ákvæði XXII. eða XXIII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
Ef rannsókn beinist að lögreglumanni eða öðrum starfsmanni sem starfar hjá héraðssaksóknara fer ríkissaksóknari með rannsóknina.
Vanhæfi lögreglustjóra til meðferðar máls
Brot skal að jafnaði rannsaka í umdæmi þar sem talið er að það hafi verið framið og ber lögreglustjóri ábyrgð á rannsókn sem fram fer í umdæmi hans. Hafi ætlað brot verið framið í umdæminu sem hinn grunaði starfar í ber lögreglustjóra að taka afstöðu til þess hvort hann sé vanhæfur til meðferðar málsins, sbr. 26. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Hafi hið ætlaða brot hins vegar verið framið í öðru umdæmi en hinn grunaði starfar í ætti lögreglustjóri, sem ábyrgð ber á rannsókn samkvæmt framangreindu, venjulega ekki að vera vanhæfur til meðferðar málsins.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 2/2023 |
---|---|---|
31. mars 2023 | 31. mars 2023 | Kemur í stað RS:1/2020 |
Samkvæmt lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber ákæruvaldinu að sjá um að brotaþolum sé tilkynnt um stöðu og afgreiðslu máls eins og hér segir:
1. Að kæru hafi verið vísað frá eða rannsókn máls hætt, sbr. 4. mgr. 52. gr. sml.
2. mgr. 40. gr. og 5. mgr. 52. gr. sml.
2. Að mál hafi verið fellt niður vegna sönnunarskorts, sbr. 145. gr. sml.
2. mgr. 40. gr. og 1. mgr. 147. gr. sml.
3. Að fallið hafi verið frá saksókn í máli, sbr. 146. gr. sml.
2. mgr. 40. gr. og 1. mgr. 147. gr. sml.
Jafnframt ber að kynna brotaþola rétt hans til að óska eftir rökstuðningi fyrir ofangreindum ákvörðunum og rétt hans til að kæra ákvörðun til ríkissaksóknara.
4. Að ákæra hafi verið gefin út í máli. Tilkynna skal þegar ákæra hefur verið birt nema brotaþoli hafi áður fengið vitneskju um hana.
3. mgr. 40. gr. sml.
5. Niðurstöðu dóms, jafnt héraðsdóms og áfrýjunardóms, eða afdrif máls að öðru leyti, enda hafi hagsmuna brotaþola ekki verið gætt fyrir dómi.
3. mgr. 40. gr. sml.
6. Lögregla eða ákærandi skal upplýsa brotaþola eða réttargæslumann um ef sakborningur eða ákærði hefur verið úrskurðaður í eða látinn laus úr gæsluvarðhaldi vegna gruns um brot gegn XXII.–XXIV. kafla almennra hegningarlaga eða atvik máls eru þannig að öðru leyti að telja verður mikilvægt fyrir brotaþola að vera upplýstur um það.
4. mgr. 97. gr. sml.
7. Ef héraðsdómi hefur verið áfrýjað skal ríkissaksóknari tilkynna brotaþola um það. Sama á við ef óskað hefur verið leyfis Landsréttar til að áfrýja dómi héraðsdóms skv. 2. mgr. 198. gr. og 5. mgr. þessarar greinar.
6. mgr. 199. gr. sml.
8. Ef sótt hefur verið um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar skal ríkissaksóknari tilkynna brotaþola um það, sem og ef fallist er á slíka beiðni.
6. mgr. 217. gr. sml.
Tilkynningar þessar skulu vera skriflegar.
Hlutverk réttargæslumanns er að gæta hagsmuna brotaþola og veita honum aðstoð í málinu, sbr. 45. gr. sml.
Til þess að rækja þetta hlutverk er mikilvægt fyrir réttargæslumann að fá sem gleggstar upplýsingar frá ákæruvaldinu um stöðu máls og afgreiðslu.
Þess vegna er hér með mælt fyrir um, enda ekki fyrirskipað berum orðum í sml., að tilkynna skal réttargæslumanni, hafi hann verið tilnefndur eða skipaður, sbr. 41. gr. og 42. gr. sml., eða lögmanni brotaþola, sbr. 43. gr. sml., um stöðu máls eða afgreiðslu þess jafnframt brotaþola sjálfum.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS:1/2023 |
---|---|---|
31. mars 2023 | 31. mars 2023 | Kemur í stað RS: 2/2021 |
I. Um sáttamiðlun
Uppbyggileg réttvísi (e. restorative justice) er heiti hugmyndafræði sem felur í sér að leitast er við að ná sáttum á milli brotamanns og brotaþola í kjölfar afbrots.
Sáttamiðlun (e. mediation, d. mægling) er sú aðferð sem oftast er beitt við þetta. Í sáttamiðlun felst að brotamaður og brotaþoli eru leiddir saman í því skyni að koma hinum brotlega í skilning um þau rangindi sem hann hefur viðhaft og fá hann til að friðmælast við brotaþola með það fyrir augum að þeir komist að samkomulagi um málalok.
Sáttamiðlun er mikilvæg í tilvikum þegar ungir einstaklingar eru grunaðir eða kærðir fyrir afbrot. Með sáttamiðlun gefist aukið tækifæri á því að bregðast við brotum ungmenna á uppbyggilegan hátt þannig að þau standi frammi fyrir afleiðingum gerða sinna og axli ábyrgð á þeim.
Þykir þetta vera til þess fallið að hafa aukin varnaðar- og uppeldisáhrif á viðkomandi ungmenni. Þá er það ekki síður til þess fallið að fá hlut brotaþola réttan þannig að tekið sé tillit til stöðu hans og brotaþoli fái viðurkenningu þess sem brotið hefur á honum á brotinu og að viðkomandi óski þess að sættir verði málalok.
Sáttamiðlun í sakamálum skal standa til boða í umdæmum allra lögreglustjóra.
II. Framkvæmd sáttamiðlunar
1. Inngangur
Ábyrgur ákærandi og lögreglufaglegur rannsóknarstjórnandi hvers máls skulu við greiningu og ákvörðun um meðferð máls, sbr. fyrirmæli RS: 2/2018 um rannsóknaráætlanir, kanna hvort sakarefni og umbúnaður máls uppfylli skilyrði til að vísa því til sáttamiðlunar. Ef þau skilyrði eru fyrir hendi er málinu úthlutað til verkefnastjóra sáttamiðlunar, en tilnefna skal a.m.k. einn slíkan við hvert lögregluembætti. Hlutverk verkefnastjóra sáttamiðlunar er að halda utan um sáttamiðlun almennt hjá embættinu, vera sáttamaður og útdeila verkefnum til annarra sáttamanna þar sem það á við. Nánar er fjallað um val á sáttamönnum, þjálfun þeirra og hlutverk í verklagsreglum ríkislögreglustjóra.
2. Sakarefni
Ákærandi metur hvort mál, sakarefni og málavextir, er til þess fallið að verða vísað til sáttamiðlunar. Við matið skiptir miklu að sérstök varnaðaráhrif mæli með slíkri meðferð og að almenn varnaðaráhrif mæli því ekki sérstaklega í mót. Sáttamiðlun kemur sérstaklega til greina í málum vegna brota á eftirgreindum ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940 (alm. hgl.) en ekki er um tæmandi talningu að ræða:
Þjófnaður (244. gr. alm. hgl.)
Gripdeild (245. gr. alm. hgl.)
Ólögleg meðferð á fundnu fé (246. gr. alm. hgl.)
Húsbrot (231. gr. alm. hgl.)
Hótun (233. gr. alm. hgl.)
Eignaspjöll (257. gr. alm. hgl.)
Minniháttar líkamsárás (217. gr. alm. hgl.)
Líkamsárás (1. mgr. 218. gr. alm. hgl.)
Nytjastuldur (259. gr. alm. hgl.)
Kynferðisleg áreitni (199. gr. alm. hgl.)
Kynferðisleg friðhelgi (199.gr. a. alm. hgl.)
Brot gegn blygðunarsemi (209. gr. alm. hgl.)
Áréttað er að samkvæmt 5. mgr. 146. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 getur ákærandi sent mál til ríkissaksóknara til ákvörðunar leiki vafi á heimild til þess að falla frá saksókn. Sáttamiðlun verður ekki beitt í málum sem varða brot á ákvæðum XXII. kafla alm. hgl., öðrum en 199. gr., 199.gr. a. og 209. gr. laganna, nema að fenginni heimild ríkissaksóknara. Sáttamiðlun verður almennt ekki beitt þegar mikill aðstöðumunur er á milli sakbornings og brotaþola, s.s. vegna aldurs og þroska.
3. Önnur skilyrði þess að máli verði vísað til sáttamiðlunar
Ákærandi má vísa máli til sáttamiðlunar ef;
a) málinu yrði annars lokið með skilorðsbundinni ákærufrestun eða
b) ætla má að refsing við brotinu færi ekki fram úr sektum, skilorðsbundnu fangelsi eða sex mánaða fangelsi.
Máli verður því aðeins vísað til sáttamiðlunar;
aa) að gerandi hafi játað brot og að málið sé talið nægilega upplýst og
ab) að gerandi og brotaþoli hafi samþykkt að málinu verði vísað til sáttamiðlunar. Ef gerandi eða brotaþoli er yngri en 18 ára skal lögráðamaður samþykkja að málið hljóti þessa meðferð.
4. Aldursmörk
Tiltekið aldurshámark geranda er ekki gert að skilyrði sáttamiðlunar, en áréttað skal að sáttamiðlun er sérstaklega æskilegur kostur í málum vegna brota ungmenna 15 - 21 árs.
5. Lok sáttamiðlunar
Sáttamaður tilkynnir ákæranda um málalok.
Ef sættir takast skal gert um það skriflegt samkomulag. Á grundvelli staðfestingar sáttamanns um efndir slíks samkomulags má ákærandi falla frá saksókn á grundvelli b. liðar 3. mgr. 146. gr. laga um meðferð sakamála.
Takist sættir ekki ber sáttamanni að endursenda ákæranda málið. Tekur ákærandi málið þá til viðeigandi meðferðar samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
6. Tímamörk
Ákvörðun ákæranda um að vísa máli til sáttamiðlunar skal að jafnaði liggja fyrir ekki síðar en 30 dögum eftir að mál berst lögreglu. Sáttamaður skal ljúka meðferð máls innan 30 daga frá þeim tíma, nema sérstakar aðstæður séu fyrir hendi.
Að fenginni tilkynningu sáttamanns um efndir samkomulags skal ákærandi ljúka máli tafarlaust og tilkynna um málalok samkvæmt 147. gr. laga um meðferð sakamála.
Hafi tilkynning um lok sáttameðferðar ekki borist ákæranda innan fjögurra vikna frá því máli var vísað til sáttameðferðar ber ákæranda að taka málið til viðeigandi afgreiðslu samkvæmt lögum um meðferð sakamála og tilkynna það sáttamanni.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 6/2021 |
---|---|---|
25. ágúst 2021 | 25. ágúst 2021 |
Skattrannsóknastjóri annast frumrannsókn allra skattalagabrota og aflar allra nauðsynlegra gagna áður en tekin er ákvörðun um hvort máli skuli vísað til lögreglu.
Máli skal vísað til lögreglu að lokinni frumrannsókn skattrannsóknarstjóra þegar:
rökstuddur grunur er um að fjárhæð samanlagðra vangreiddra og eða undandreginna skatta og eða gjalda vegna refsiverðra skattalagabrota nemi hærri fjárhæð en samtals 50 milljónum króna.
rökstuddur grunur er um að verknaður hafi verið framinn með sérstaklega vítaverðum hætti, eða við aðstæður sem auka mjög saknæmi brotsins, enda þótt fjárhæð samkvæmt 2. gr. a. nemi lægri fjárhæð en 50 milljónum króna.
fyrir liggur að aðili hafi áður verið dæmdur sekur fyrir sams konar brot, þrátt fyrir að fjárhæð samkvæmt 2. gr. a. nemi lægri fjárhæð en 50 milljónum króna, enda séu ítrekunaráhrif ekki fallin niður samkvæmt 3. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1940. Það sama á við ef aðila hefur innan fimm ára frá því að ætlað brot er framið verið úrskurðuð sekt af yfirskattanefnd eða ákvörðuð sekt af skattrannsóknarstjóra vegna slíkra brota.
Máli skal ekki vísað til lögreglu þegar þau viðmið eru uppfyllt er fram koma í 3. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, 3. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, 3. mgr. 20. gr. laga nr. 94/1996 eða 3. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, enda þótt undandreginn eða vangreiddur skattur samkvæmt 2. gr. a. nemi hærri fjárhæð en 50 milljónum króna, svo fremi að ætluð sekt samkvæmt ákvörðun skattrannsóknarstjóra nemi ekki hærri fjárhæð en 100 milljónum króna.
Skattrannsóknarstjóri og embætti héraðssaksóknara skulu hafa samráð um hvaða mál sæta rannsókn lögreglu. Ef upp kemur ágreiningur um hvaða mál skuli sæta rannsókn lögreglu sker ríkissaksóknari úr þeim ágreiningi.
Ofangreind fyrirmæli til héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra eru sett á grundvelli 2. mgr. 103 gr. og 2. mgr. 121. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, sbr. 5. og 11. gr. laga nr. 29/2021, um breytingu á lögum er varða rannsókn og saksókn vegna skattalagabrota. Við setningu fyrirmælanna var horft til eftirfarandi ummæla í greinargerð með frumvarpi að lögum 29/2021, sem héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra ber einnig að líta til við meðferð skattalagabrota:
Lagt er til að ríkissaksóknari gefi út almenn fyrirmæli á grundvelli 21. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, þar sem fram komi hvaða mál séu þess eðlis að rétt sé að þau verði send til rannsóknar hjá lögreglu. Við útgáfu þeirra fyrirmæla yrði stefnt að því að alvarlegri brotin yrðu rannsökuð hjá héraðssaksóknara og þar höfð hliðsjón af lögfestum heimildum skattrannsóknarstjóra til að leggja á sektir. Til viðbótar er rétt að taka fram að þar falli undir alvarleg brot gagnvart 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 en að auki yrði litið til þess hvort önnur brot sem ekki teldust stórfelld væru fléttuð saman við önnur alvarlegri brot, væru hluti af brotasamsteypu eða um væri að ræða ítrekuð brot sem eðlilegt er að færu til rannsóknar héraðssaksóknara.
Almennt verður að gera ráð fyrir að vanskilamálum yrði lokið innan skattkerfisins, þó með þeirri undantekningu að þau væru ekki ítrekuð eða teldust stórfelld. Með þessari breytingu er stefnt að því að færri brot fari til rannsóknar lögreglu. Þannig er gert ráð fyrir að sé um alvarleg brot að ræða verði þau almennt ekki tekin til rannsóknar hjá skattyfirvöldum en ekki er þó útilokað að við rannsókn skattrannsóknarstjóra komi í ljós að brot kynni að falla undir fyrirmæli ríkissaksóknara og er gert ráð fyrir því að málið geti verið sent til lögreglu þegar svo háttar til.
Jafnframt er gert ráð fyrir því að í einstökum tilvikum fari ríkissaksóknari með úrslitavald um ákvörðun þess hvort mál hljóti meðferð hjá lögreglu, rísi vafi um slíkt. Í frumvarpinu er því lagt til að ríkissaksóknari geti gefið skattrannsóknarstjóra fyrirmæli um að vísa einstökum málum til lögreglu, sem honum bæri að hlíta. Er þetta orðalag í samræmi við 3. mgr. 21. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 3/2021 |
---|---|---|
25. mars 2021 | 25. mars 2021 | Kemur í stað RS: 6/2020 með fylgiskjali |
Lögreglustjóri hefur almenna heimild til að ljúka máli, sem hann hefur ákæruvald um, með lögreglustjórasekt, það er vettvangssekt skv. 148. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála (sml.), sektarboði skv. 150. gr. og sektargerð skv. 149. gr. sömu laga.
Skilyrði er að viðurlög við broti fari ekki fram úr sekt að tiltekinni fjárhæð samkvæmt reglugerð sem dómsmálaráðherra setur, sviptingu réttinda eða upptöku eigna, enda sé brot tilgreint á skrá, sem ríkissaksóknari gefur út skv. 1. sbr. 3. mgr. 149. gr. sml.
Skráin hefur nú verið gefin út og telst hún hluti af leiðbeiningum þessum. Samkvæmt reglugerð nr. 205/2009, um lögreglustjórasektir, sbr. reglugerð nr. 551/2020, er miðað við að fjárhæð sektar fari ekki fram úr 1.000.000 krónum. Nú eru skilyrði uppfyllt til að ljúka máli með lögreglustjórasekt og lyktir máls eiga að færast í sakaskrá samkvæmt reglugerð um sakaskrá ríkisins og skal þá slíku máli lokið með sektargerð en ekki sektarboði.
Ríkissaksóknari áréttar að þrátt fyrir að brot sé ekki að finna á skránni kunni að vera eðlilegt að ljúka því með lögreglustjórasekt enda sé brot smávægilegt. Í slíku tilviki getur viðkomandi lögreglustjóri haft samband við embætti ríkissaksóknara og leitað heimildar til slíkrar lúkningar á málinu.
Áríðandi er að þau mál, sem ekki verður lokið með lögreglustjórasekt þrátt fyrir boð um slík málalok, verði lögð fyrir dómstóla án ástæðulausra tafa.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Fylgiskjal með RS: 3/2021
Gildir frá 25. mars 2021
Skrá yfir brot sem heimild samkvæmt 1. sbr. 3 mgr. 149. gr. laga um meðferð sakamála nær til.
1. Brot gegn almennum hegningarlögum (alm. hgl.).
1.1 Auðgunarbrot.
Brot sem tilgreind eru í 1. mgr. 256. gr. alm. hgl.:
Nú hefur eitthvert brot verið framið, sem varðar við 244.–250. gr., 253. eða 254. gr., en einungis er um smáræði að tefla, og má þá, ef sökunautur hefur ekki áður verið dæmdur fyrir auðgunarbrot, færa refsingu niður í sektir, eða jafnvel láta hana falla að öllu leyti niður.
Gert er ráð fyrir að heimild til að ljúka auðgunarbroti með lögreglustjórasekt verði aðallega beitt gagnvart búðaþjófnaði, sbr. fyrirmæli RS:5/2017 um afgreiðslu á máli vegna þjófnaðar í verslun, þótt sýnt sé að hin almenna heimild sé rýmri.
Hafi verið brotist inn á heimili fólks og verðmætum stolið eða tilraun gerð til slíks brots er óheimilt að ljúka máli með lögreglustjórasekt.
1.1.1 Verðmæti.
Að jafnaði verður ekki talið að um smáræði sé að tefla ef verðmæti þýfis nemur hærri fjárhæð en kr. 250.000. Hafa verður í huga að málsatvik kunna að vera með þeim hætti að ekki verður talið að um smáræði sé að tefla þótt verðmæti andlags brots sé innan við kr. 250.000. Má þá ekki ljúka máli með lögreglustjórasekt.
1.1.2 Sektarfjárhæðir.
Um búðaþjófnað, svo og önnur auðgunarbrot sem ljúka má með lögreglustjórasekt að teknu tilliti til málsatvika, gilda eftirfarandi leiðbeiningar:
Lágmark sektar er kr. 20.000 og hámark sektar kr. 500.000. Sektarfjárhæð skal nema tvöföldu verðmæti hins stolna, þó þannig að alltaf sé námundað að heilum tug (um heilan tug að ræða). Dæmi: ef stolið er verðmæti að fjárhæð kr. 34.000 þá er tvöföldun á þeirri fjárhæð kr. 68.000 og sektarfjárhæð því kr. 70.000.
Hafi brotaþoli lagt fram sanngjarna skaðabótakröfu sem sakborningur greiðir ekki verður máli ekki lokið með lögreglustjórasekt.
1.2 Eignaspjöll skv. 1. og 3. mgr. 257. gr. alm. hgl.
Tjón allt að kr. 30.000 leiðir til sektar að fjárhæð kr. 20.000 sem lækka má um helming hafi bætur verið inntar af hendi.
Þegar tjón vegna brots er meira en 30.000 skal sektarfjárhæð nema helmingi tjónsfjárhæðar. Lækka ber sekt um helming hafi bætur verið inntar af hendi.
Eignaspjöllum sem hafa í för með sér tjón allt að kr. 1.000.000 má ljúka með lögreglustjórasekt. Hámark sekta vegna eignaspjalla verður því kr. 500.000 samkvæmt framangreindu.
Hafi brotaþoli lagt fram sanngjarna skaðabótakröfu sem sakborningur greiðir ekki verður máli ekki lokið með lögreglustjórasekt.
1.3 Brot gegn 206. gr. alm. hgl.
1.3.1 Vændiskaup samkvæmt 1. mgr. 206. gr. alm. hgl.
Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots (eins tilviks). Sekt skal vera kr. 200.000.
1.3.2 Vændi auglýst samkvæmt 7. mgr. 206. gr. alm. hgl.
Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots (eins tilviks). Sekt skal vera kr. 100.000.
2. Brot á sérrefsilögum.
2.1 Brot gegn umferðarlögum og reglum settum samkvæmt heimild í þeim.
Sektir og önnur viðurlög vegna brota ákvarðast í samræmi við fyrirmæli og leiðbeiningar sem felast í viðaukum við reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim nr. 1240/2019 með síðari breytingum.
Heimilt er að víkja frá ákvæðum í viðaukum ef veigamikil rök mæla með því.
Þegar ákvörðun er tekin um sekt vegna brota á tveimur eða fleiri ákvæðum umferðarlaga, eða reglna settra samkvæmt þeim, skal sektin vera samtala sekta vegna hvers brots um sig. Samtala sekta má þó aldrei fara fram úr þeirri hámarksfjárhæð sem ákveðin er í reglugerð um lögreglustjórasektir, nú kr. 1.000.000.
Veita ber sakborningi 25% afslátt af sektarfjárhæð sem ákveðin er, ef sakborningur greiðir sektina ásamt sakarkostnaði að fullu innan 30 daga frá dagsetningu sektarboðs eða undirritun sektargerðar sem sakborningur hefur gengist skriflega undir.
Punktar vegna einstakra brota á ákvæðum umferðarlaga ákvarðast samkvæmt fyrirmælum í reglugerð um ökuferilsskrá og punktakerfi vegna umferðarlagabrota.
2.2 Brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni.
Sektarheimild nær til Kannabis (marihuana, hass og hassolíu, kannabisplantna), amfetamíns, LSD (lýsergíð), MDMA og skyldra efna („ecstasy“), kókaíns og efna sem falla undir 3. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.
Leiðbeiningar um sektarfjárhæðir:
A.
Grunnsekt (lágmarkssekt) kr. 50.000. Beitt einungis við allra smæstu brot:
Einungis skal reikna eina grunnsekt í hverju LÖKE-máli þrátt fyrir að sakborningur hafi í fórum sínum fleiri en eina tegund fíkniefna.
Fyrir fyrsta brot ungmennis má ef brot er mjög smávægilegt ákvarða lægri sekt en að framan greinir.
B.
Kaup efnanna og önnur öflun þeirra til eigin nota:
1. Kannabis
Grunnsekt að viðbættum kr. 4.000 fyrir hvert gramm eða hluta af grammi.
2. Kannabisplöntur
Grunnsekt að viðbættum kr. 50.000 fyrir fyrstu plöntu en kr. 100.000 fyrir hverja plöntu eftir það.
3. LSD
Grunnsekt að viðbættum kr. 10.000 fyrir hvern skammt (þynnu, töflu) eða hluta af skammti.
4. Amfetamín
Grunnsekt að viðbættum kr. 10.000 fyrir hvert gramm eða hluta af grammi.
5. MDMA og skyld efni
Grunnsekt að viðbættum kr. 15.000 fyrir hverja töflu eða hluta af töflu.
6. Kókaín
Grunnsekt að viðbættum kr. 25.000 fyrir hvert gramm eða hluta af því magni.
7. Efni sem falla undir 3. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni
Grunnsekt að viðbættum kr. 10.000 fyrir hverja töflu eða hluta af töflu.
C.
Vörslur:
Fyrir vörslur efnanna skal að jafnaði sekta eins og fyrir kaup, sbr. B. lið.
Þegar um nokkurt magn efnanna er að ræða ber að aðgæta hvort ekki sé líklegt að efnið hafi verið ætlað til sölu og rannsaka málið sérstaklega með tilliti til þess.
Við ítrekuð brot ætti og að kanna þetta atriði, eftir atvikum án tillits til efnismagns.
D.
Sala og hvers konar önnur afhending efnanna:
Sérhver sala leiði til ákæru.
Hvers konar önnur afhending:
1. Kannabis
Grunnsekt að viðbættum kr. 8.000 fyrir hvert gramm eða hluta af grammi.
Að jafnaði skal sama manni ekki gefinn kostur á að ljúka máli oftar en einu sinni samkvæmt 1. tl.
2. Amfetamín, LSD, kókaín og MDMA og skyld efni og efni sem falla undir 3. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.
Sérhver afhending efnanna leiðir til ákæru.
2.3 Brot gegn lyfjalögum nr. 100/2020.
1. mgr. 31. gr. og 1. mgr. 33. gr. Miðlun og sala lyfja án þess að vera skráður sem lyfjamiðlari hjá Lyfjastofnun og án þess að vera með lyfsöluleyfi.
1. Stinningarlyf. kr. 500 fyrir hverja töflu.
2.4 Brot gegn áfengislögum nr. 75/1998 og lögreglusamþykktum.
2.4.1 Framleiðsla, innflutningur, sala og veitingar áfengis:
1. og 2. mgr. 4. gr.:
Innflutningur, heildsala, smásala, veitingar og framleiðsla áfengis, sem fram fer í atvinnuskyni án leyfis samkvæmt lögunum.
Framleiðsla áfengis til einkaneyslu eða sölu og sala áfengis.
Grunnsekt skal vera 50.000.
Við ákvörðun sektar umfram grunnsekt skal hafa hliðsjón af lögbundnu áfengisgjaldi, sbr. 2. mgr. 27. gr. áfengislaga, sbr. 3. gr. laga um gjald af áfengi nr. 96/1995, sbr. lög nr. 93/1998.
Jafnframt skal áfengi sæta upptöku samkvæmt 1. og 3. mgr. 28. gr. áfengislaga, sem og áhöld og tæki sem í þeirri grein eru talin.
Alvarleg eða ítrekuð brot, sbr. 3. og 4. mgr. 27. gr., sæti ákæru.
Veiting áfengis með öðrum hætti en heimilt er samkvæmt lögunum, sbr. 26. gr.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 50.000 – 1.000.000.
7. gr.:
Eiga, flytja inn, útbúa eða smíða sérhæfð áhöld til að eima áfengi eða til að gera drykkjarhæft áfengi sem var ódrykkjarhæft, án leyfis samkvæmt lögunum.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 50.000 – 1.000.000.
2.4.2 Meðferð og neysla áfengis
1. mgr. 18. gr.:
Selja, veita eða afhenda áfengi þeim sem er yngri en 20 ára.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 20.000 – 100.000.
1. – 3. mgr. 19. gr.:
Önnur ólögmæt afhending, meðferð eða neysla áfengis.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000 – 50.000.
5. mgr. 19. gr.:
Láta viðgangast ólöglegan tilbúning áfengis, ólöglega sölu eða geymslu þess í húsum sínum eða á landi sínu.
Skip, bátar eða önnur flutningatæki notuð til geymslu, flutnings eða sölu ólöglegs áfengis.
Vörslur áfengis sem látið hefur verið af hendi andstætt lögunum.
Grunnsekt skal vera kr. 10.000.
Við ákvörðun sektar umfram grunnsekt skal hafa hliðsjón af lögbundnu áfengisgjaldi, sbr. 2. mgr. 27. gr. áfengislaga, sbr. 3. gr. laga um gjald af áfengi, sbr. 2. gr. laga nr. 93/1998.
21. gr.:
Valdið óspektum, hættu eða hneyskli á almannafæri, í bifreiðum eða öðrum farartækjum.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000 – 50.000.
Brot sem eingöngu varða við lögreglusamþykkt
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000 – 50.000.
2.5 Brot gegn tollalögum nr. 88/2005.
1. mgr. 170. gr. og 171. gr.
Meginregla
Við ákvörðun sektar skal hafa hliðsjón af aðflutningsgjaldi hinnar innfluttu vöru, að viðbættum 20% þeirrar fjárhæðar, auk þess sem varan, að andvirði allt að kr. 1.000.000 verði gerð upptæk skv. 1. mgr. 181. gr. tollalaga, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um lögreglustjórasektir.
Ólöglegur innflutningur áfengis og tóbaks
Við ákvörðun sektar skal hafa hliðsjón af útsöluverði sambærilegs áfengis/tóbaks hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins.
Um eftirgreindar vörur skal þó miða við tilgreindar fjárhæðir:
Áfengi yfir 31-50% | fyrir lítra | 6.000 kr. |
|
|
Áfengi 22-30% | fyrir lítra | 5.000 kr. |
|
|
Áfengi undir 22% | fyrir lítra | 3.500 kr. |
|
|
Vín, þ.m.t. freyðivín | fyrir lítra | 2.500 kr. |
|
|
Bjór 33 cl. 24 stk. | 1 kassi | 5.000 kr. |
|
|
Bjór 33 cl. | 1 stk | 200 kr. |
|
|
Bjór 50 cl. 24 stk. | 1 kassi | 6.000 kr. |
|
|
Bjór 50 cl. | 1 stk | 300 kr. |
|
|
Vindlingar (200 stk) Vindlar, smáir (t.d. Bacatello) | 1 karton fyrir 10 stk. | 6.500 kr. 500 kr. |
|
|
Vindlar, meðalstórir (t.d. Fauna) | fyrir 10 stk. | 800 kr. |
|
|
Vindlar, stórir (,,Kúbuvindlar") | fyrir 25 stk. | 8.000 kr. |
|
|
Munntóbak („snus") | fyrir 50 g | 500 kr. |
|
|
Neftóbak („snuff ") t.d. mentól | fyrir 50 g | 950 kr. |
|
|
Neftóbak („snuff ") t.d. mentól | fyrir 1 g | 25 kr. |
|
|
Ólöglegur innflutningur matvöru
Við ákvörðun sektar skal hafa til hliðsjónar aðflutningsgjald vöru að viðbættum 20% þeirrar fjárhæðar.
Um eftirgreindar vörur skal þó miða við tilgreindar fjárhæðir:
Fuglakjöt, beinlaust | fyrir 1 kg | 1.500 kr. |
|
|
Fuglakjöt, með beini | fyrir 1 kg | 700 kr. |
|
|
Svínakjöt | fyrir 1 kg | 1000 kr. |
|
|
Svínakjöt; lundir eða reykt | fyrir 1 kg | 2.000 kr. |
|
|
Nautakjöt; lundir | fyrir 1 kg | 3.000 kr. |
|
|
Nautakjöt | fyrir 1 kg | 1.500 kr. |
|
|
Salami pylsa | fyrir 1 kg | 1.500 kr. |
|
|
Skinka | fyrir 1 kg | 1.500 kr. |
|
|
Ostur | fyrir 1 kg | 1.000 kr. |
|
|
Ólöglegur innflutningur fæðubótarefna
Við ákvörðun sektar skal hafa hliðsjón af söluverði efnis, ef upplýsingar liggja fyrir um það.
Um eftirgreindar vörur skal þó miða við tilgreindar fjárhæðir:
Ripped fuel:
Ripped fuel (60 pillur í glasi) | fyrir 1 glas | 2.000 kr. |
Ripped fuel (120 pillur í glasi) | fyrir 1 glas | 4.000 kr. |
Ripped fuel (200 pillur í glasi) | fyrir 1 glas | 6.000 kr. |
Herbalife:
Við ákvörðun sektar vegna innflutnings eftirgreindra Herbalife vara, sem Lyfjastofnun hefur ekki heimilað innflutning á, skal miða við lágmarksfjárhæð 1.000-4.000 kr. fyrir hver 60 stk. af töflum eða 60 g af dufti:
Töflur | 60 stk. | 2.000-6.500 kr. |
Sleep Now |
|
|
N-R-G |
|
|
Cell-U-Loss |
|
|
Aminogen |
|
|
AM Replenishing |
|
|
PM Cleansing Formula |
|
|
Vita/Mineral/Herbs Formula 2 |
|
|
Formula 3/Cell-U-Loss |
|
|
Original Green |
|
|
|
|
|
Töflur | 60 stk. | 2.000-6.500 kr. |
Thermojetics Beige |
|
|
Thermojetics Formula 2 |
|
|
Thermojetics Green& Beige |
|
|
Mega Ginseng Blend |
|
|
Ultimate Prostate Formula |
|
|
Woman´s Choice |
|
|
Schizandra Plus |
|
|
Duft | 60 g | 2.000-6.500 kr. |
Thermojetics |
|
|
Thermojetics Formula 1 |
|
|
Thermojetics Lemon |
|
|
Thermojetics HRBL Peach |
|
|
Performance Protein |
|
|
Meginreglan um ákvörðun sektarfjárhæðar með hliðsjón af söluverði skal gilda um eftirgreindar Herbalife vörur, sem Lyfjastofnun hefur hafnað: Herbal Calmative (úði), Raw Guarana (te), Thermojetics Protein Bar (kex).
1. mgr. 172. gr.
Sektir skulu að lágmarki nema tvöföldum en að hámarki tíföldum aðflutningsgjöldum af því tollverði sem dregið var undan álagningu aðflutningsgjalda, sbr. 1. mgr. 172. gr.
2.6 Brot gegn siglingarlögum nr. 34/1985.
8. gr. Færsla á skipsbókum ekki í samræmi við lög og reglur.
Sekt kr. 50.000 – 100.000.
2.7 Brot gegn lögum nr. 35/2010, um lögskráningu sjómanna.
4. gr. sbr. 5. gr. Lögskráningarskylda skipstjóra varðandi áhöfn skips.
Sekt kr. 25.000 fyrir hvern skipverja sem vanrækt er að skrá í skiprúm eða úr skiprúmi.
2.8 Brot gegn lögum nr. 41/2003 um vakstöð siglinga og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
Brot á ákvæðum um tilkynningarskyldu.
Fyrsta brot kr. 25.000 - 60.000 eftir atvikum.
Annað brot kr. 60.000 - 1.000.000 eftir atvikum.
2.9 Brot gegn lögum nr. 47/2003 um eftirlit með skipum.
Fyrri málsliður 1. mgr. 9. gr. Haffærisskírteini eða skoðunarvottorð ekki meðferðis en skip haffært.
Sekt kr. 15.000 - 60.000.
2.10 Brot gegn lögum nr. 30/2007 um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa.
5. mgr. 8. gr. Atvinnuskírteini til vélstjóra og skipstjórna ekki meðferðis en réttindi eru fyrir hendi eða réttindi útrunnin.
Sekt kr. 15.000 - 50.000.
12. gr. Vanmönnun í áhöfn.
Sekt kr. 50.000 fyrir hvern mann sem vantar.
2.11 Brot gegn vopnalögum nr. 16/1998 og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
1. mgr. 5. gr. Innflutningur skotvopna, skotfæra, sprengiefnis og skotelda án leyfis.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000-1.000.000.
4. mgr. 5. gr. Innflutningur og framleiðsla óleyfilegra skotvopna.
Sekt kr. 50.000 fyrir hvert vopn.
5. mgr. 5. gr. Innflutningur og framleiðsla eftirlíkinga vopna.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000-100.000.
1. mgr. 12. gr. Eign eða notkun skotvopns án skotvopnaleyfis.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000-1.000.000.
16. gr. Ráðstöfun skotvopns í eigu dánarbús innan 12 mánaða til aðila sem hefur leyfi til að eiga slíkt skotvopn.
Sekt kr. 10.000 fyrir hvert skotvopn sem vanrækt er að ráðstafa.
1. mgr. 20. gr. Skylda til að hafa skotvopnaleyfi meðferðis og sýna það ef lögregla krefst þess (leyfi fyrir hendi).
Sekt kr. 10.000.
2. mgr. 20. gr. Lánsheimild ekki meðferðis.
Sekt kr. 10.000.
1. mgr. 21. gr. Almenn varúðarregla. Bann við vopnaburði á almannafæri. Tilhögun flutnings og burðar skotvopna.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000-100.000.
2. mgr. 21. gr. Bann við meðferð skotvopna undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 20.000-1.000.000.
4. mgr. 21. gr. Bann við að hleypa af skoti að nauðsynjalausu yfir veg, úr ökutæki, á almannafæri og annars staðar þar sem hætta getur stafað af.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000-1.000.000.
5. mgr. 21. gr. Skoti hleypt af á eða yfir landi án leyfis landeiganda eða ábúanda.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000-100.000.
23. gr. Vörslur skotvopna og skotfæra.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000-1.000.000.
1. mgr. 30. gr. Vopnaburður á almannafæri.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000-1.000.000.
2. mgr. 30. gr. Innflutningur, framleiðsla, eign eða vörslur annarra óleyfilegra vopna en skotvopna.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000-1.000.000.
32. gr. Sala skotelda til barna.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000-1.000.000.
33. gr. Skoteldum skotið upp utan leyfilegs tíma.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000-1.000.000
38. gr. Breytingar á skotvopni.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000-1.000.000.
Að jafnaði skal ákært við aðra ítrekun á framangreindum ákvæðum laganna.
2.12 Brot gegn lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
1. mgr. 6. gr.
Um friðun villtra dýra (og þar af leiðandi bann við veiðum og eggjatöku m.a., sbr. 2. mgr. 1. gr.), nema annað sé tekið fram í lögunum.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000-1.000.000.
9. gr.
Áskilnaður um eiginleika skotvopna sem nota má við veiðar ekki uppfylltur. Tæki, efni og annað það sem óheimilt er að nota við veiðar.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brots kr. 10.000-1.000.000.
1. mgr. 11. gr.
Veiðar stundaðar án þess að viðkomandi hafi aflað sér veiðikorts.
Sekt kr. 20.000.
Veiðikort ekki meðferðis en viðkomandi hefur fengið það útgefið.
Sekt kr. 10.000.
2.13 Brot gegn lögum nr. 40/2015, um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum.
Sektir ákvarðist eftir eðli og umfangi brota kr. 10.000-1.000.000.
2.14 Lög um náttúruvernd nr. 60/2013.
1. mgr. 28. gr. Meðferð elds.
1. mgr. 31. gr. Akstur utan vega.
71. gr. Áletranir á náttúrumyndanir.
72. gr. Auglýsingar utan þéttbýlis.
Sektir ákvarðist eftir eðli og umfangi brota kr. 10.000-1.000.000.
2.15 Brot gegn lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs.
4. mgr. 9. gr., sbr. 68. gr. Óheimil losun úrgangs. Opin brennsla úrgangs.
Sekt ákvarðist eftir eðli og umfangi brots kr. 50.000-1.000.000.
Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots (eins tilviks). Stórfelld ásetningsbrot sæta ákæru.
2.16 Lög nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga.
3. og 4. mgr. 6. gr., sbr. a. lið 1. mgr. 27. gr. Útlendingur vinnur án atvinnuleyfis lögum samkvæmt.
Grunnsekt verði kr. 10.000. Sekt hækki um kr. 5.000 fyrir hvern mánuð umfram þann fyrsta sem ákærði hefur starfað hér á landi án atvinnuleyfis lögum samkvæmt.
2. mgr. 6. gr., sbr. a. lið 2. mgr. 27. gr. Útlendingur án atvinnuleyfis ráðinn til starfa.
Grunnsekt verði kr. 100.000 fyrir hvern mann sem ráðinn er til starfa miðað við byrjaðan mánuð. Sekt hækki um kr. 50.000 fyrir hvern mánuð umfram þann fyrsta sem starfskraftar útlendings hafa verið nýttir.
Fyrir gróf brot og ítrekuð brot skal krefjast fangelsisrefsingar. Ástæða kann að vera til að krefjast sektar að auki samkvæmt 2. mgr. 49. gr. almennra hegningarlaga að uppfylltum skilyrðum sem þar eru tilgreind. Telja skal brot gróft ef sekt næmi meira en kr. 1.000.000 samkvæmt ofangreindum viðmiðunarreglum.
2.17 Lög nr. 80/2016 um útlendinga.
h. liður 2. mgr. 116. gr. Maður hefur í vörslum sínum falsað vegabréf, fölsuð skilríki eða falsaða vegabréfsáritun.
Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots (eins tilviks). Sekt skal vera kr. 150.000.
2.18 Lög nr. 28/2017 um farþegaflutninga og farmflutninga á landi.
4. gr. Vöntun á rekstrarleyfi.
Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots (eins tilviks). Sekt skal vera kr. 50.000.
2.19 Lögreglulög nr. 90/1996.
19.gr. Brot gegn skyldu til að hlýða fyrirmælum lögreglu.
Sekt ákvarðist eftir eðli og umfangi brota kr. 10.000-1.000.000.
2.20 Brot gegn lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og reglugerð nr. 585/2007, með síðari breytingum.
1. mgr. 5. gr. Dvöl ungmenna á veitingastað sem hefur leyfi til áfengisveitinga.
6. gr. Dyravarsla.
7. gr., 12. gr., 17. gr. Rekstur leyfisskyldrar starfsemi án tilskilins leyfis.
3. mgr. 22. gr., sbr. 26. gr. áfengislaga nr. 75/1998. Misbeiting leyfishafa sem hefur leyfi til veitingar áfengis á leyfi sínu.
Sektir ákvarðist eftir eðli og umfangi brota kr. 50.000-1.000.000.
2.21 Brot gegn samþykktum sveitarfélaga um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Sekt ákvarðast eftir eðli og umfangi brota kr. 10.000-1.000.000.
2.22 Brot gegn lögum nr. 134/2001 um leigubifreiðar og reglugerð nr. 397/2003, með síðari breytingum.
1. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. rgl. Vöntun á auðkennum á bifreið.
Sekt kr. 10.000.
6. gr. Akstur án þess að hafa atvinnuleyfi.
Sektarheimild nær einungis til fyrsta brots. Sekt skal vera kr. 50.000.
4. málsl. 2. mgr. 6. gr., sbr. 2. mgr. 2. gr. rgl. Atvinnuskírteini ekki meðferðis.
Sekt kr. 5.000.
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 5/2020 |
---|---|---|
28. maí 2020 | 28. maí 2020 | Kemur í stað RS: 2/2020 |
I Ákvörðun sekta og svipting ökuréttar við samspil ölvunar- og fíkniefnaakstursbrota:
Þegar um það er að ræða að ökumaður er samtímis undir áhrifum áfengis og fíkniefna (concursus idealis) telur ríkissaksóknari rétt að honum sé gerð sekt hvort tveggja fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur, sbr. 98. gr umferðarlaga nr. 77/2019, en að honum sé á hinn bóginn aðeins gerð ein svipting og að miða skuli sviptinguna við hvort ölvunar- eða fíkniefnaaksturinn eigi að leiða til lengri sviptingar. Þessi afstaða ríkissaksóknara varðandi ökuréttarsviptingar byggir á dómafordæmum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 335/2008 og 222/2015.
Þegar ákvarða þarf ökumanni refsingu og viðurlög samtímis fyrir fleiri en eitt ölvunar- og/eða fíkniefnaakstursbrot, án þess að brotin séu framin samtímis í einum og sama verknaðinum, telur ríkissaksóknari rétt að honum sé gerð sekt fyrir hvert og eitt brotanna, sbr. 98. gr umferðarlaga nr. 77/2019, og að honum sé gerð ein einföld svipting fyrir það brot sem leiðir til lengstu sviptingarinnar og að auki hálf svipting fyrir hvert það brot sem umfram er. Þessi afstaða ríkissaksóknara varðandi ökuréttarsviptingar byggir á dómafordæmum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 335/2008, 9/2009 og 298/2013.
Þar til reglugerð um vanhæfismörk hefur tekið gildi, sbr. 6. mgr. 48. gr. umferðarlaga, telur ríkissaksóknari að breyttu breytanda sömu sjónarmið geta átt við þegar um er að ræða ákvörðun sviptingar ökuréttar við samspil ölvunar-, fíkniefna- og/eða lyfjaaksturs. Í því samhengi má minna á að ekki er um að ræða ítrekunaráhrif milli 2. mgr. 48. gr. annars vegar og 49 gr. og 50. gr. hins vegar, sbr. 7. mgr. 101. gr. umferðarlaganna og dóm Hæstaréttar í máli nr. 9/2009.
II Ákvörðun refsingar þegar um er að ræða a.m.k. aðra ítrekun ölvunar- eða fíkniefnaaksturs og sviptingaraksturs, þ.e. brot gegn 49. eða 50. gr. og 1. mgr. 58. gr. umfl.
Ríkissaksóknari telur rétt, með hliðsjón af dómafordæmum Hæstaréttar, sjá einkum dóma í málum nr. 162/2006, 178/2009, 571/2011 og 720/2014, að full refsing komi fyrir bæði brotin. Ekki hefur verið um samræmda framkvæmd að ræða hjá ákærendum hvað þetta varðar, þ.e. sumir hafa talið að helminga ætti refsinguna fyrir annað brotið.
Dæmi:
· 49. gr./50. gr. = 30 dagar og 58. gr. = 30 dagar => alls 60 dagar. Rétt
· 49. gr./50. gr. = 30 dagar og 58. gr. = 15 dagar => alls 45 dagar. Rangt
III Tiltaka skal í ákæru magn áfengis og fíkniefna, sem mæld hafa verið í blóði eða útöndunarlofti ökumanns:
Ríkissaksóknari óskar þess að ákærendur tilgreini í ákærutexta það magn áfengis og/eða fíkniefna (öll efni) sem mæld hafa verið í blóði eða útöndunarlofti ökumanns. Slík tilgreining eykur skýrleika ákærunnar og felur auk þess í sér mikið hagræði fyrir dómara og ákærendur hjá ríkissaksóknara sem fara yfir dóma héraðsdóms.
IV Lyfjaakstur, sbr. 2. mgr. 48. gr. umfl. – Ákvörðun viðurlaga:
Sekt og svipting ökuréttar skal ákvarðast eins og sekt og svipting vegna brota gegn 50. gr. þegar um lítið magn er að ræða, í dag kr. 100.000 og svipting í 6 mánuði.
V Taka þvagsýna og viðurlög við að neita að gefa lögreglu þvagsýni:
Að mati ríkissaksóknara hefur lögregla heimild til að taka þvagsýni ef ótvírætt samþykki sakbornings liggur fyrir, sbr. 4. mgr. 52. gr. umfl. Rétt er að um samþykkið sé bókað í skýrslu sem sakborningur undirritar eða yfirlýsing sakbornings þar um sé tekin upp. Hins vegar er ekki lengur refsivert að vera með fíkniefni í þvagi við akstur skv. nýjum umferðarlögum og telur ríkissaksóknari að eftir gildistöku laga nr. 77/2019 eigi taka þvagsýna að heyra til undantekninga og einskorðast að meginstefnu til við þau tilvik þar sem grunur er um akstur undir áhrifum og lögregla hefur ekki staðið sakborning að akstri. Telja verður að í slíkum tilvikum séu þvagsýni mikilvæg sönnunargögn ekki síst þegar sakborningur ber því við að hafa neytt áfengis eða fíkniefna eftir að akstri lauk. Neiti sakborningur við þessar aðstæður að gefa þvagsýni telur ríkissaksóknari rétt að beita hann sektum og sviptingu ökuréttar sbr. 1. mgr. 94. gr. og 1. mgr. 101. gr. umfl. Ekki verði beitt viðurlögum í öðrum tilvikum þegar sakborningur neitar að gefa þvagsýni.
VI Sektir lögaðila/flytjanda vegna brota á umferðarlögum sem varða aksturs- og hvíldatíma og notkun ökurita:
Með hliðsjón af ákvæði 19. gr. c. almennra hegningarlaga og athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum 66/2006, telur ríkissaksóknari ljóst að um hlutlæga refsiábyrgð flytjanda/lögaðila sé að ræða og að heimilt sé að gera lögaðila sekt/senda sektarboð fyrir brot gegn ákvæðum 1. mgr. 55. gr., 1. mgr. 56. gr. og 92. gr. umferðarlaga ef uppfyllt er það skilyrði að brotið hafi annaðhvort orðið til hagsbóta fyrir flytjanda eða getað orðið til hagsbóta fyrir hann, sem er nú yfirleitt raunin. Þá liggur það almennt ljóst fyrir í þessum málum að um sök (ásetning eða gáleysi) er að ræða af hálfu einhvers á vegum lögaðilans, sbr. áskilnað 19. gr. c. almennra hegningarlaga.
VII Sektir lögreglu og meðalhófsreglan:
Lögregla skal ávallt gefa sakborningi kost á að undirgangast sekt hjá lögreglu (vettvangssekt, sektarboð, sektargerð) áður en ákvörðun er tekin um útgáfu ákæru. Gildir þá einu hvort viðkomandi játaði brot sitt skýlaust á vettvangi eður ei. Staðfesting á að sakborningi hafi verið gefinn kostur á að undirgangast sekt hjá lögreglu fyrir útgáfu ákæru skal liggja fyrir í hverju máli.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur | Gildistaka: | RS: 3/2020 |
---|---|---|
18. mars 2020 | 18. mars 2020 |
Í kjölfar sameiginlegs vinnufundar lögreglu og ákæruvalds á Laugabakka 13.-14. mars 2019, um meðferð kynferðisbrota, starfaði vinnuhópur sem hafði það verkefni að útbúa verkferla fyrir ákærendur. Þeir verkferlar liggja nú fyrir. Ríkissaksóknari leggur hér með fyrir ákærendur að vinna í samræmi við verkferlana við meðferð allra sakamála, þ.e. ekki einungis við meðferð kynferðisbrotamála.
Verkferlarnir, sem fylgja fyrirmælum þessum, varða:
· Ákærufrestun og boðunarbréf vegna ákærufrestunar
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 4/2019 |
---|---|---|
19. desember 2019 | 19. desember 2019 | Kemur í stað RS: 1/2017 |
Í kjölfar fundar ríkissaksóknara og dómstólasýslunnar 12. desember sl. hefur ofangreint samkomulag verið uppfært og undirritað af ríkissaksóknara og formanni stjórnar dómstólasýslunnar.
Hér með eru ákvæði nefnds samkomulags, að því leyti sem þau snúa að ákæruvaldinu, gerð að fyrirmælum ríkissaksóknara til þeirra sem fara með ákærumál fyrir héraðsdómstólunum.
Samkomulagið er fylgiskjal með þessum fyrirmælum.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | Uppfært: | RS: 3/2018 |
---|---|---|---|
2. október 2018 | 2. október 2018 | 31. mars 2023 |
Með hliðsjón af því sem fram kemur í meðfylgjandi skýrslu starfshóps sem ríkissaksóknari skipaði um meðferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaða sakborninga og/eða brotaþola er að ræða, sem afhent var ríkissaksóknara í júní 2018, hefur ríkissaksóknari ákveðið að gefa út eftirgreindar leiðbeiningar til lögreglu og ákærenda um meðferð slíkra mála í því skyni að tryggja jafnræði hvað varðar aðgengi að réttarvörslukerfinu og málsmeðferð þegar fatlað fólk á í hlut.
Bent er á að leiðbeiningar þessar geta einnig átt við um meðferð annarra mála þegar fatlaðir eiga hlut að máli.
Þegar upp kemur grunur um kynferðisbrot og sakborningur eða brotaþoli er fatlaður einstaklingur er mikilvægt að geta aðlagað rannsókn að hverju máli fyrir sig með það í huga að fatlað fólk er margbreytilegur hópur og þarfir hvers og eins mismunandi.
Þá er jafnframt mikilvægt að taka ekki völdin af fólki, forðast forræðis- og verndarhyggju og virða vilja og óskir viðkomandi. Góður og vandaður undirbúningur fyrir skýrslutökur í slíkum málum skiptir mjög miklu máli og mikilvægt er að framkvæmdin sé með þeim hætti að sem skýrastur framburður fáist.
Skilgreining:
Samkvæmt 2. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir er fötlun og fatlað fólk skilgreint með sambærilegum hætti og í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í ákvæðinu segir:
Fötlun: Afleiðing skerðinga og hindrana af ýmsum toga sem verða til í samspili fólks með skerðingar og umhverfis og viðhorfa sem hindra fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Skerðingar hlutaðeigandi einstaklings eru langvarandi og hindranirnar til þess fallnar að viðkomandi verði mismunað vegna líkamlegrar, geðrænnar eða vitsmunalegrar skerðingar eða skertrar skynjunar.
Fatlað fólk: Fólk með langvarandi líkamlega, geðræna eða vitsmunalega skerðingu eða skerta skynjun sem verður fyrir ýmiss konar hindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku til jafns við aðra ef aðstoðar nýtur ekki við.
Rannsókn kynferðisbrotamála þegar fatlaðir eiga í hlut:
Þegar lögregla hefur rannsókn á kynferðisbroti og grunur vaknar um, eða upplýsingar liggja fyrir um, að sakborningur eða brotaþoli sé fatlaður, þarf að afla eins ítarlegra upplýsinga og mögulegt er um fötlunina. Lögregla getur m.a. aflað upplýsinga hjá hinum fatlaða sjálfum, hjá réttindagæslumanni fatlaðra á hverju svæði fyrir sig, hjá lækni, félagsþjónustu eða öðrum meðferðaraðila eða hjá fjölskyldu hins fatlaða einstaklings. Þó þarf að gæta þess að málið kann að vera þannig vaxið að ekki sé rétt að afla slíkra upplýsinga hjá fjölskyldumeðlimi t.d. ef hagsmunir hans og hins fatlaða einstaklings fara ekki saman. Gæta þarf að því að samþykki sé til staðar fyrir öflun þessara gagna hjá sakborningi eða brotaþola sjálfum eða þeim sem eru bærir til að veita samþykki fyrir þeirra hönd.
Meta þarf hvort fötlun sakbornings eða brotaþola kalli á sérstakar ráðstafanir af hálfu lögreglu. Meðal annars getur komið til greina að óska eftir því að skýrslutaka verið tekin fyrir dómi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 59. gr. sml. Þá kann að vera til hagsbóta að taka skýrsluna annars staðar en á lögreglustöð. Ef taka á skýrslu á lögreglustöð skal meta hvort það sé gert í sérútbúnu skýrslutökuherbergi þar sem slíkt er fyrir hendi. Þegar um mikla fötlun er að ræða getur komið til greina að rannsakandi hitti hinn fatlaða einstakling áður en formleg skýrslutaka fer fram. Eftir atvikum getur verið nauðsynlegt að rannsakandi fái fræðslu frá fagaðila um fötlun viðkomandi áður en skýrslutaka fer fram eða jafnvel að fagaðili sé viðstaddur skýrslutökuna. Það er þó alltaf rannsakandi sem stýrir skýrslutökunni og spyr spurninga.
Tryggja þarf aðkomu verjanda og/eða réttargæslumanns á fyrstu stigum. Þegar taka á skýrslu af fötluðum brotaþola eða sakborningi skal eftir atvikum bjóða honum að hafa með sér hæfan stuðningsaðila. Gæta þarf þess að stuðningsaðilinn sé ekki vitni í málinu og er hlutverk slíks stuðningsaðila eingöngu að veita andlegan og tilfinningalegan stuðning. Stuðningsaðili getur verið réttindagæslumaður fatlaðs fólks, félagsráðgjafi, annar aðili með sérþekkingu á málefnum fatlaðs fólks eða aðili sem hinn fatlaði treystir.
Liggi ekki fyrir nýlegar upplýsingar eða mat á fötlun þarf að kanna hvort ástæða sé til þess að óska eftir nýju mati. Jafnframt þarf að meta hvort rétt sé að dómkveðja matsmann í því skyni. Er þetta sérstaklega mikilvægt þegar rannsókn beinist að því hvort fatlaður einstaklingur hafi orðið fyrir kynferðisbroti með því að sakborningur hafi misnotað sér fötlun hans. Einnig er nauðsynlegt að afla þessara upplýsinga þegar vafi leikur á því hvort sakborningur telst sakhæfur.
Eftir atvikum er rétt að taka ítarlegar skýrslur af þeim sem standa hinum fatlaða einstaklingi næst til að fá sem besta innsýn í atvik máls og aðstæður. Þetta geta verið foreldrar og aðrir fjölskyldumeðlimir, starfsfólk í búsetuúrræði, ráðgjafar o.s.frv.
Í þeim tilvikum þar sem fötlun er mikil, sérstaklega þegar um mikla þroskahömlun eða skyldar skerðingar, s.s. einhverfu, er að ræða, getur komið til greina að fá réttarsálfræðilegt mat á þroska viðkomandi og framburði hans.
Með lögum nr. 61/2022 voru lögfest ákvæði í lög um meðferð sakamála nr. 88/2008 sem kveða á um að bjóða skuli fötluðum sakborningi og vitni að hafa með sér hæfan stuðningsaðila við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi.
Einnig var lögfest heimild dómara til að kveðja til kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku af fötluðu vitni. Sjá 1. og 2. mgr. 61. gr., 1. mgr. 113. gr. og 2. mgr. 123. gr. laga nr. 88/2008.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 2/2018 |
---|---|---|
8. júní 2018 | 8. júní 2018 |
1. Inngangur
Ríkissaksóknari hefur ákveðið að gefa út fyrirmæli þessi um gerð rannsóknaráætlana og greiningu sakamála til þess að samræma verklag hvað þessi atriði varðar og auðvelda þeim sem bera ábyrgð að hafa eftirlit með rannsóknum sakamála.
Nauðsynlegt er, til þess að tryggja þessa skipan, að lögreglustjórar ákveði í upphafi rannsóknar hvers máls hverjir hjá embætti þeirra séu ábyrgir ákærendur og lögreglufaglegir rannsóknarstjórnendur (aðalrannsakarar). Í samræmi við fyrirmæli þessi skal það koma fram í rannsóknaráætlun hverjir gegna þessu hlutverki í hverju máli og að það sé jafnframt skráð í málaskrárkerfi.
Rannsóknaráætlun skal vera skrifleg greinargerð þar sem fram koma upplýsingar um atvik máls, heiti brots og heimfærslu háttseminnar sem rannsókn beinist að til refsiákvæða. Í rannsóknaráætlun skal því lýst hvað gera þarf, hver framkvæmi það, hvernig og af hverju, allt í því skyni að ná tilteknum markmiðum innan tilsetts tímaramma.
Ábyrgur ákærandi í hverju máli er sá sem er ábyrgur fyrir að tryggja framgang og gæði rannsóknar sakamáls, þ.e.a.s. að rannsókn verði sá grundvöllur sem mælt er fyrir um í 53. gr. sakamálalaga nr. 88/2008, sem og að öðrum ákvæðum sakamálalaga og mannréttindaákvæðum sé fylgt.
Aðalrannsakari er lögreglumaður sem að mati lögreglustjóra hefur hlotið þjálfun og reynslu til þess að stjórna aðgerðarlegri og tæknilegri framkvæmd rannsókna í því máli sem um ræðir. Hann er ábyrgur ásamt ákæranda fyrir framgangi og gæðum rannsóknarinnar.
2. Markmið
Meginmarkmiðið með rannsóknaráætlun er að ná sem bestum árangri í rannsókn sakamáls með notkun viðeigandi úrræða, mannafla og tíma.
Rannsóknaráætlun á að leiða til betri faglegrar stjórnunar og eftirlits með framvindu máls frá því að kæra berst þar til málið er tilbúið til ákærumeðferðar.
Notkun rannsóknaráætlunar er grunnur að vandaðri ákvarðanatöku og þar með auknum gæðum rannsókna, styttri málsmeðferðartíma og réttri niðurstöðu.
3. Tegundir mála
3.1 Almennt
Allar lögreglurannsóknir eiga að vera markmiðsstýrðar og ganga samkvæmt áætlun. Það ræðst af því hversu stórt og flókið mál er hversu umfangsmikil og nákvæm áætlunin þarf að vera.
3.2 Mál þar sem ber að gera rannsóknaráætlun
Rannsóknaráætlun ber að gera við rannsókn á manndrápum, nauðgunarbrotum, kynferðisbrotum gegn börnum, brotum í nánum samböndum, mansali, stórfelldum fíkniefnabrotum, skipulagðri glæpastarfsemi sem hefur alþjóðlegar tengingar, málum sem varða alvarlegar líkamsárásir, efnahagsbrotum og stærri fjármunabrotum.
Undanskilin eru mál sem eru svo einföld og augljós að gerð rannsóknaráætlunar er talin algerlega ónauðsynleg að mati ákæranda og aðalrannsakara. Ákvörðun um að ekki skuli gera rannsóknaráætlun skal liggja fyrir skriflega, s.s. með skráningu í LÖKE. Breytist aðstæður og málið reynist vera flóknara en í upphafi var talið skal gera rannsóknaráætlun.
4. Form rannsóknaráætlunar
Rannsóknaráætlun skal vera skrifleg og á því formi sem fylgir fyrirmælum þessum en formið einnig aðgengilegt í LÖKE.
Rannsóknaráætlun er innanhúss vinnuskjal og ekki hluti af rannsóknargögnum máls.
5. Hvenær áætlun og greining skal liggja fyrir
Rannsóknaráætlun og greining sakamáls skal gerð eins fljótt og mögulegt er eftir að kæra hefur verið móttekin eða eftir að lögregluembætti hefur stofnað til sakamáls að eigin frumkvæði.
Rannsóknaráætlun skal vera skjal sem unnt er að uppfæra og breyta í samræmi við framvindu máls. Við greiningu sakamáls skal m.a. litið til þess hvort atvik máls séu með þeim hætti að lögregla eigi tafarlaust að bregðast við vegna rannsóknarhagsmuna eða til að koma í veg fyrir frekari brot, m.a. með því að gera öðrum yfirvöldum, s.s. barnaverndaryfirvöldum, viðvart um atvik að því marki sem lög heimila.
6. Gerð og uppfærsla rannsóknaráætlunar
Ákærandi er, ásamt aðalrannsakara, ábyrgur fyrir því að gerð sé rannsóknaráætlun og á að hafa aðgang að áætluninni alla málsmeðferðina.
Rannsóknaráætlun á að gera og uppfæra í nánu samstarfi ábyrgs ákæranda í málinu og aðalrannsakara málsins. Að öllu jöfnu er það aðalrannsakari sem ritar rannsóknaráætlunina.
7. Efni og innihald
Rannsóknaráætlanir verða að lágmarki að fela í sér eftirfarandi:
7.1 Greining á þeim atvikum sem rannsókn á að beinast að.
7.2 Viðeigandi refsiákvæði sbr. liður 1.
7.3 Grundvallaratriði sett fram af ákæranda um sönnun í samræmi við þau refsiákvæði sem við eiga.
7.4 Yfirlit yfir nauðsynleg skref rannsóknarinnar með tilliti til sönnunar, þ.m.t. þvingunarráðstafanir, og eðlilegrar forgangsröðunar í þágu rannsóknarinnar.
7.5 Yfirlit yfir verkefni rannsakenda og ákærenda, hvenær framkvæma eigi hvert verkefni og innan hvaða tímamarka. Ef tímamörk eru ekki haldin skal skrá ástæðu þess og hvaða áhrif það hefur fyrir málið.
7.6 Þörf á gögnum frá utanaðkomandi aðilum (sérfræðiálit/matsgerðir, læknisvottorð o.þ.h.) skal setja inn í rannsóknaráætlunina, ásamt upplýsingum um hvernig því sé fylgt eftir að afla þeirra.
7.7 Setja skal tímafrest um það hvenær vænta megi að rannsókn ljúki og ákvörðun um það hver hafi umsjón með því að öllum verkþáttum sé lokið, þar með talið skjallegum frágangi málsins.
7.8 Það skal koma fram í áætluninni hver taki við ábyrgð á framgangi málsins ef/þegar ákærandi eða aðalrannsakari er fjarverandi.
8. Skýrslutökur
Framburður sakbornings og vitna er í flestum málum þýðingarmestu rannsóknargögnin. Áætlanir um skýrslutökur skulu vera hluti af sérhverri rannsóknaráætlun.
Góður og ígrundaður undirbúningur að skýrslutöku sparar tíma og eykur gæði og afrakstur skýrslutökunnar, auk þess sem vel undirbúin skýrslutaka tryggir faglegri yfirheyrsluskýrslu.
Yfirheyrandi skal hafa góða þekkingu á staðreyndum í málinu, viðeigandi refsiákvæðum og helstu sönnunaratriðum. Fyrir skýrslutöku þarf yfirheyrandi að hafa skilning á:
markmiði skýrslutöku
því sem þarf að upplýsa
því sem bera þarf sérstaklega undir, kynna og gagnspyrja þann um sem er yfirheyrður.
Í mikilvægum og krefjandi skýrslutökum er æskilegt að yfirheyrandi ráðfæri sig við ábyrgan ákæranda í málinu um framgang yfirheyrslu og form yfirheyrslu.
Það á að vera markmið við rannsóknir sakamála að takmarka fjölda yfirheyrsluskýrslna. Því markmiði verður helst náð með góðu skipulagi hverrar skýrslutöku.
9. Bjargir
Mannafli eða mannaflaþörf, tæki, búnaður og annað þess háttar, skal vera hluti af rannsóknaráætlun. Skipulagning og möguleiki á að sjá fyrir sér gang og þróun málsins er þýðingarmikið fyrir stjórnun og skipulag á mannafla. Aðalrannsakari skal skilgreina eins fljótt og mögulegt er mannaflaþörf við rannsókn máls. Brýnt er að endurmeta bjargir um leið og tilefni er til.
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 1/2018 |
---|---|---|
25. maí 2018 | 25. maí 2018 |
Ríkissaksóknari telur afar brýnt að tryggja þá framkvæmd að krafa um gæsluvarðhald, þar með talin krafa um framlengingu gæsluvarðhalds, berist héraðsdómara með það löngum fyrirvara að dómari hafi hæfilegan tíma til að fara yfir kröfuna og gögn sem henni fylgja og geti kveðið upp úrskurð áður en fyrra gæsluvarðhald rennur sitt skeið á enda.
Til að tryggja þessa framkvæmd beinir ríkissaksóknari hér með þeim fyrirmælum til allra ákærenda að krafa um framlengingu gæsluvarðhalds sé að öllu jöfnu send héraðsdómara og verjanda sólarhring áður en fyrra gæsluvarðhald rennur út.
Jafnframt verði fangelsisyfirvöldum tilkynnt um fyrirhugaða gæsluvarðhaldskröfu á netfangið gaeslahh@fangelsi.is.
Ef svo vill til að krafa er sett fram með svo skömmum fyrirvara að fyrra gæsluvarðhald rennur út áður en dómara gefst ráðrúm til að kveða upp nýjan úrskurð skal sakborningur handtekinn á meðan beðið er uppkvaðningar úrskurðar á staðnum (í héraðsdómi), ef bið er stutt, eða færður í fangaklefa á lögreglustöð til vistunar ef um lengri tíma er að ræða.
Tilkynna skal ríkissaksóknara þegar í stað um tilvik sem þessi og senda gögn og skýringar með tilkynningunni á netfangið saksoknari@saksoknari.is.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 14/2017 |
---|---|---|
8. nóvember 2017 | 8. nóvember 2017 |
I. Inngangur
Óhlutdrægni, sjálfstæði og heilindi eru einkunnarorð ákæruvaldsins.
Mikilvægt er að ákærendur standi undir trausti og virðingu almennings. Í því felst að ákærendur þurfa í störfum sínum að haga framkomu sinni og framgöngu á faglegan og viðeigandi hátt, auk þess sem ákærendur verða í frítíma sínum að forðast að gera nokkuð það sem varpað getur rýrð á störf þeirra hjá ákæruvaldinu eða á ákæruvaldið almennt.
Í því skyni að efla fagleg vinnubrögð og sjálfstæði ákæruvaldsins og auka traust gagnvart ákærendum gefur ríkissaksóknari út fyrirmæli þessi um siðareglur fyrir ákærendur.
Siðareglurnar eru til fyllingar öðrum reglum um siði og faglega breytni í starfi, þar með talið Evrópskum leiðbeiningarreglum um siði og breytni opinberra ákærenda frá árinu 2005 „Búdapestreglurnar“, lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, einkum 14., 15. og 21. gr., lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008, sér í lagi III. kafla, sem og almennum siðareglum starfsmanna ríkisins nr. 491/2013.
Ætlast er til að ákærendur kynni sér siðareglurnar og leiðbeiningarnar við þær og tileinki sér í störfum sínum.
Ríkissaksóknari, lögreglustjórar og héraðssaksóknari skulu sjá til þess að ákærendur þekki reglurnar og að þær séu ávallt eðlilegur þáttur í störfum þeirra. Æskilegt er að siðareglurnar verði almennt til umræðu og umfjöllunar á vettvangi ákærenda.
II. Siðareglur
1. Hlutlægni og sjálfstæði
Ákærendur skulu haga störfum sínum á þann hátt að réttaröryggis og vandaðrar málsmeðferðar sé gætt í samræmi við lög og réttarframkvæmd. Þeir skulu vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar.
Ákærendur taka ekki við fyrirmælum frá öðrum stjórnvöldum um meðferð ákæruvalds, nema sérstaklega sé kveðið á um það í lögum og skulu vinna störf sín óháð hvers konar þrýstingi og óviðeigandi áhrifum.
Á ákæruvaldinu hvílir lögum samkvæmt sú skylda að sýna hlutlægni í störfum sínum og ber ákæruvaldið ábyrgð á að upplýsa hvort tveggja um atriði sem horft geta til sýknu og sektar sakbornings.
Með vísan til laga og réttarframkvæmdar er átt við að ákærendur skulu virða allar reglur og kröfur sem leiða af stjórnarskrá, lögum og mannréttindareglum sem íslenska ríkið er skuldbundið af. Réttarframkvæmdin felur einnig í sér þau grunngildi og réttindi sem réttarríkið byggir á, þar með talið réttaröryggi, jafnræði að lögum og grundvallarréttindi einstaklinga.
Ákærendur skulu vera öðrum óháðir og mega ekki láta þrýsting eða óviðeigandi áhrif frá til dæmis öðrum stjórnvöldum, stofnunum, ríkjum, hagsmunaaðilum eða fjölmiðlum hafa áhrif á mat við ákvarðanatökur og meðferð mála.
Þær kröfur sem gerðar eru til ákærenda, hvort tveggja um hlutlægni og sjálfstæði, hafa fyrst og fremst þýðingu við meðferð einstakra mála og takmarka ekki að ákærendur taki þátt í faglegum umræðum sem tengjast verkefnum réttarvörslukerfisins.
2. Háttsemi og framkoma í starfi – hlutleysi, heilindi og virðing
Ákærendur skulu haga störfum sínum og framkomu þannig að hlutleysi ákæruvaldsins verði ekki dregið í efa.
Telji ákærandi sig vanhæfan til að fara með einstakt mál eða að draga megi hæfi hans í efa skal hann þegar í stað upplýsa yfirmann sinn um það.
Ákærendur skulu framkvæma störf sín af heiðarleika og án þess að hugsa um eigin hagsmuni. Þá skulu ákærendur hvorki taka við gjöfum eða öðrum hlunnindum í tengslum við störf sín né heldur láta gjafir af hendi.
Ákærendur skulu meta álitaefni og taka ákvarðanir af fordómaleysi og án fyrirfram gefinna skoðana. Ákærendur skulu umgangast aðra án fordóma af nokkru tagi og sýna jafnt brotaþolum, vitnum, sakborningum, ákærðum og dómfelldum, sem og öðrum, tillitssemi og virðingu.
Hlutleysisreglan felur í sér að við ákvarðanatökur skulu ákærendur líta framhjá eigin hagsmunum, skoðunum og fordómum.
Ákærendur skulu gæta þess í framkomu sinni og framgöngu að rýra ekki traust og trú almennings á hlutleysi ákæruvaldsins og skulu leggja sig fram um að framkoma þeirra á opinberum vettvangi sé tilhlýðileg og í samræmi við stöðu þeirra. Skulu þeir í störfum sínum tileinka sér faglega, viðeigandi og virðulega framkomu og gæta þess að klæðaburður þeirra og framganga sé með þeim hætti að það dragi ekki athygli frá þeim verkefnum sem ákærandinn er að sinna.
Það er í andstöðu við siðareglur þessar að ákærendur láti hafa áhrif á sig í störfum sínum með gjöfum, hlunnindum eða öðrum ívilnunum. Á sama hátt er það í andstöðu við siðareglurnar að ákærendur reyni að hafa áhrif á störf og ákvarðanir annarra með sambærilegum hætti. Siðareglurnar hindra þó ekki að í einstaka tilvikum sé tekið við minni háttar gjöfum, sem ekki eru til þess fallnar að draga í efa óhlutdrægni ákærandans eða sjálfstæði hans í starfi hjá ákæruvaldinu. Á það til að mynda við um viðurkenningar fyrir kennslu og fyrirlestra, svo og hefðbundnar kurteisisgjafir í tengslum við embættisheimsóknir.
3. Framkoma utan starfs
Ákærendur skulu gæta þess að framkoma og framganga þeirra utan starfs sé ekki til þess fallin að rýra traust til ákæruvaldsins.
Ákærendur þurfa jafnt í störfum sínum og utan starfsins að koma fram af virðuleika og velsæmi. Ákærendur þurfa að forðast að hafast nokkuð það að í frítíma sínum sem þeim er til vanvirðu og álitshnekkis eða getur varpað rýrð á störf þeirra og dregið úr trausti almennings gagnvart þeim.
Á þetta jafnt við framkomu ákærendanna sjálfra og hverja þeir umgangast í frítíma sínum. Það getur til dæmis talist óæskilegt að ákærandi birti á samfélagsmiðlum eða með öðrum hætti upplýsingar eða myndefni af sér og/eða vinnufélögum sínum sem er til þess fallið að draga úr virðingu þeirra.
Einnig getur það talist óæskilegt að ákærandi umgangist brotamenn í frítíma sínum. Þá þurfa ákærendur að gæta þess sérstaklega, taki þeir þátt í opinberri umræðu, starfi stjórnmálaflokka eða öðru slíku, að þátttaka þeirra og framganga sé með þeim hætti að hlutleysi þeirra sem ákærenda verði ekki dregið í efa.
4. Skilvirkni og gæði
Ákærendum ber að hraða meðferð mála eftir því sem kostur er en gæta um leið að vandaðri málsmeðferð.
5. Kunnátta og fagmennska
Ákærendur, bæði stjórnendur og aðrir, skulu viðhalda og efla faglega þekkingu sína og færni til að takast á við lögfræðileg viðfangsefni í takt við þróun og framfarir á hverjum tíma. Stjórnendur skulu sjá til þess að ákærendum gefist kostur á endurmenntun til þess að viðhalda og efla þekkingu sína og færni.
Ákærendur, bæði stjórnendur og aðrir, skulu leggja sitt af mörkum til að innan ákæruvaldsins ríki starfsmenning sem einkennist af því að verkefnum sé mætt af víðsýni og á faglegum grundvelli.
6. Þagnarskylda
Ákærendum er skylt að sýna trúnað og gæta þagmælsku um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu eða vegna starfs síns og leynt eiga að fara vegna lögmætra almanna- eða einkahagsmuna.
Ákærandi má aðeins fletta upp í þeim skrám og kerfum, sem hann hefur aðgang að starfs síns vegna, ef það hefur þýðingu fyrir verkefni sem hann vinnur að.
Ákærendum er með öllu óheimilt að nýta sér í eigin þágu og/eða annarra hverjar þær trúnaðarupplýsingar sem þeir fá vitneskju um í störfum sínum.
Þagnarskyldan gildir um atriði sem trúnaður skal ríkja um og helst hún áfram eftir að starfi lýkur. Sú skylda sem lögð er á ákærendur í siðareglunum um trúnað og þagmælsku getur verið víðtækari en hin lögbundna þagnarskylda.
Þagnarskyldan á einnig við meðal starfsfélaga og er ákærendum hvorki ætlað að deila trúnaðar-upplýsingum með starfsfélögum sínum né skoða mál sem aðrir hafa til meðferðar nema það hafi einhvern faglegan tilgang. Ákærendur verða ávallt er þeir ræða mál tengd störfum sínum að hafa í huga hverja þeir eigi í samskiptum við og hverjir kunni að vera áheyrendur að því sem sagt er.
7. Upplýsingagjöf til almennings og fjölmiðla
Þegar ákærendur veita almenningi eða fjölmiðlum upplýsingar um sakamál í þágu almannahagsmuna skulu þeir gæta að persónuverndarsjónarmiðum, mögulegri hættu á sakarspjöllum, rannsóknarhagsmunum og öðrum atriðum sem taka ber tillit til við upplýsingagjöf.
Þegar ákærendur koma fram fyrir hönd embættis við upplýsingagjöf ber þeim að taka mið af þeim viðmiðum sem embættið hefur sett sér um miðlun upplýsinga.
Ákærendum ber ávallt að gæta hófs í upplýsingagjöf um einstök mál til almennings og fjölmiðla og gæta að kröfum um hlutleysi og óhlutdrægni ákæruvaldsins. Þegar leitað er eftir upplýsingum frá ákærendum um einstök mál ber þeim að leggja mat á hvort upplýsingarnar varði almannahag og hvort réttmætt sé að veita þær að teknu tilliti til persónuverndarsjónarmiða, rannsóknarhagsmuna, mögulegra sakarspjalla og annarra atriða.
Ákærendur skulu að jafnaði einungis veita upplýsingar sem eru almenns eðlis og forðast að gefa upplýsingar sem eru persónugreinanlegar. Þá þurfa ákærendur að gæta að því að upplýsingar sem virðast almennar geta mögulega verið raktar á auðveldan hátt til einstakra málsaðila, svo sem vegna fyrri fréttaflutnings, nándar í samfélaginu eða á annan hátt.
8. Eftirfylgni
Ríkissaksóknari, héraðssaksóknari og lögreglustjórar skulu tryggja að siðareglur þessar séu kynntar öllum ákærendum og bera þeir stjórnunarlega ábyrgð á því að reglunum sé fylgt.
Verði ákærandi var við eða berist upplýsingar um háttsemi annars ákæranda sem er í andstöðu við siðareglur þessar, þá er honum rétt að benda viðkomandi á það með viðeigandi hætti eða eftir atvikum gera stjórnanda grein fyrir því.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 12/2017 |
---|---|---|
6. mars 2017 | 6. mars 2017 | Kemur í stað RS: 1/2012 |
Ríkissaksóknari hefur eftirlit með því að gögnum sem aflað hefur verið á þann hátt er greinir í 80.–82. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála (sml) sé eytt og að tilkynnt sé um lok aðgerðar skv. 1. og 2. mgr. 85. gr. laganna, sbr. lög nr. 103/2016.
Ríkissaksóknara ber að setja reglur um hvernig eftirlitinu skuli háttað og skal þar meðal annars koma fram hvernig tryggt verði að unnt sé að upplýsa eftir á hver eða hverjir hafi haft aðgang að upplýsingum sem aflað hefur verið með aðgerð skv. 80.–82. gr. sml.
Ríkissaksóknari beinir því eftirgreindum fyrirmælum/reglum til lögreglustjóra og héraðssaksóknara:
Lögreglustjórum og héraðssaksóknara er óheimilt að afla þeirra gagna sem tilgreind eru í 80. – 82. gr. sml, nema að undangenginni skráningu allra upplýsinga og gagna sem málaskrárkerfi lögreglu, LÖKE gerir ráð fyrir undir liðnum „Rannsóknarúrræði“. Þar undir á m.a. að setja inn afrit af úrskurðarorði héraðsdóms og úrskurði héraðsdóms í heild sinni. Þá skal setja þar inn upplýsingaskýrslur eða önnur skjöl sem öflun gagnanna byggir á, svo sem samþykki rétthafa skv. 2. málslið 1. mgr. 84. gr., sbr. 80. gr. sml. Sama gildir um ákvörðun um að taka upp hljóð, taka myndir af fólki og fylgjast með því í þágu rannsóknar, sbr. 2. mgr. 82. gr. sml.
Ákvörðun um aðgerðir á grundvelli 2. mgr. 82. gr. sml skal tekin af ákæranda eða öðrum stjórnanda rannsóknar og skal sú ákvörðun rökstudd. Rökstuðningurinn skal fylgja gögnum málsins.
Ákvörðun um að hlustun skuli beinast að nýju símanúmeri hjá hlustunarþola skal tekin af ákæranda og skal sú ákvörðun rökstudd. Rökstuðningurinn skal fylgja gögnum málsins.
Lögreglustjórar og héraðssaksóknari skulu halda skrá um alla meðferð þeirra upplýsinga sem aflað hefur verið skv. 80.–82. gr. sml þar sem fram komi hverjir hafa haft aðgang að umræddum gögnum, hvaða afrit hafi verið gerð af gögnunum og hver hafi fengið þau í hendur. Umrædd skrá skal fylgja rannsóknargögnum máls og skal sá sem rannsókn stýrir staðfesta rétt efni hennar með áritun á hana auk þess starfsmanns sem fær afrit af gögnunum í hendur í hvert sinn Skráin skal höfð til hliðsjónar þegar gögnum er eytt og merkt við eyðinguna og tímasetningu hennar í þar til gerðan reit. Þá skal halda skrá yfir alla þá sem fá hlustunaraðgang að framangreindum upplýsingum þar sem fram komi hvað sé hlustað á, hvenær og af hverjum. Þegar LÖKE býður upp á skráningu ofangreinds skal skráningin fara þar fram.
Þegar aðgerð skv. 80.–82. gr. sml er lokið skulu lögreglustjórar og héraðssaksóknari sjá til þessað þeim sem aðgerð beindist að, sem og og eiganda eða umráðamanni fjarskiptatækis, húsnæðis eða farartækis, sé tilkynnt með sannanlegum hætti um aðgerð svo fljótt sem verða má, enda sé tryggt að það skaði ekki rannsókn sakamáls. Skýrslu lögreglu eða bréf um tilkynningu ber að setja inn í LÖKE og færa í viðeigandi reit undir liðnum „Rannsóknarúrræði“.
Aldrei má líða lengri tími en 12 mánuðir frá því að aðgerð lauk þar til tilkynnt eru um hana.
Lögregla og ákærendur skulu annast um eyðingu þeirra gagna sem tilgreind eru í 80. – 82. gr. sml eins og hér segir:
Ef gögnin hafa að geyma samtöl eða önnur samskipti sakbornings við verjanda sinn eða upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. sml tekur til, skal sá lögreglumaður sem stýrir rannsókn annast um að þeim gögnum sé eytt þegar í stað.
Sé rannsókn hætt skv. 4. mgr. 52. gr. sml eða mál fellt niður samkvæmt 145. gr. sml skal sá ákærandi sem tekur ákvörðunina gefa lögreglu fyrirmæli um að eyða gögnum. Gæta skal að því að kærufrestur sé liðinn og að ákvörðun, sé hún kærð, hafi verið staðfest af ríkissaksóknara, áður en eyðing er framkvæmd.
Þegar ákært er í máli er óheimilt að eyða umræddum gögnum fyrr en endanlegur dómur hefur verið upp kveðinn í málinu. Saksóknari sem fer með málið fyrir Hæstarétti gefur lögreglustjóra/héraðssaksóknara fyrirmæli um að eyða gögnum. Þegar dómi héraðsdóms er ekki áfrýjað skal sá ákærandi við embætti ríkissaksóknara sem les yfir dóminn og áritar hann gefa lögreglustjóra/héraðssaksóknara fyrirmæli um eyðingu.
Lögreglustjórar og héraðssaksóknari skulu skrá undir „Rannsóknarúrræði“ í LÖKE, í þar til gerða reiti, dagsetningar þegar gögnum er eytt og þegar þolendum aðgerða hefur verið tilkynnt um aðgerðina. Ekki er heimilt að skrá eyðingu eða tilkynningu fyrr en gengið hefur verið úr skugga um að öllum gögnum hafi verið eytt og öllum þolendum aðgerðanna hafi verið tilkynnt um þær.
Þeim hluta gagna sem gerð hafa verið að rannsóknargögnum máls í tilvikum sem lýst er undir b. og c. liðum hér að framan, skal ekki eyða heldur varðveita þau með öðrum gögnum málsins.
Lögreglustjórar og héraðssaksóknari skulu tilnefna einn yfirmann við embætti sitt sem tengilið við ríkissaksóknara varðandi eftirlit með símahlustunum og skyldum úrræðum og annan til vara. Tengiliðurinn og varamaður hans skulu vera í þeirri stöðu að geta gefið starfsmönnum embættanna sem í hlut eiga fyrirmæli um eyðingu gagna og tilkynninngar skv. 2. mgr. 85. gr. sml.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 11/2017 |
---|---|---|
25. janúar 2017 | 25. janúar 2017 | Kemur í stað RS: 3/2014 |
I. Ákvörðun um að vísa frá kæru:
1. málsl. 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála (sml.):
Lögregla vísar frá kæru um brot ef ekki þykja efni til að hefja rannsókn út af henni.
Rannsókn hefst ekki í máli.
Heimildin á við ef sýnt þykir að kæra á ekki við rök að styðjast, svo sem ef ekki er um refsiverða háttsemi að ræða, sök er fyrnd o.fl. Ef tilkynnandi mætir á lögreglustöð skal að jafnaði taka skýrslu af honum og gefa máli málsnúmer. Þyki kæra fjarstæðukennd, s.s. vegna ástands kæranda, nægir upplýsingaskýrsla eða rafræn skrá í dagbók (LÖKE) um mætingu tilkynnanda á lögreglustöð og frásögn um meint afbrot. Berist kæra bréflega skal skrá erindið með viðeigandi hætti.
Lögregla tekur ákvörðun um að vísa frá kæru. Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut eiga að máli kost á að tjá sig áður en ákvörðun er tekin, sbr. lokamálslið 4. mgr. 52. gr. sml. Heimildin tekur jafnt til mála sem heyra undir ákæruvald ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og lögreglustjóra.
Tilkynna skal þeim sem hagsmuna hafa að gæta um ákvörðun og leiðbeina um kæruheimild og kærufrest til ríkissaksóknara, sbr. 5. mgr. 52. gr. sml. Tilkynningu skal senda í A-pósti og skal þess gætt að afrit af tilkynningu sé jafnframt sent til lögmanns viðkomandi ef það á við. Skráning á lokaferli í málaskrá (Löke) skal fara fram sem næst þeim tíma þegar ákvörðun er tekin og tilkynning er send út.
Lögreglu er skylt, ef þess er óskað, að rökstyðja í stuttu máli ákvörðun, sbr. 8. mgr. 52. gr. sml. Ávallt er heimilt að veita rökstuðning samhliða tilkynningu. Nú er kæru vísað frá og sakarefni í máli varðar meint brot gegn XXII. almennra hegningarlaga og skal þá röstuðningur vera samhliða tilkynningu. Hið sama á við ef um er að ræða mál og sakarefni í því varðar meint brot starfsmanns lögreglu gegn XIV. kafla sömu laga.
II. Ákvörðun um að hætta rannsókn:
2. málsl. 4. mgr. 52. gr. sml.:
Sé rannsókn hafin getur lögregla einnig hætt henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist eða brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað.
Skilyrði hér er að rannsókn sé hafin. Með því er meðal annars átt við að kæra hafi verið nánar yfirfarin með hliðsjón af tiltækum gögnum, öðrum rannsóknarathöfnum og eftir atvikum skýrslutökum.
Hér má í fyrsta lagi hætta rannsókn teljist ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi rannsókn. Ákvæðið er matskennt og ekki tæmandi. Í dæmaskyni er tilgreint að heimildin geti átt við, ef í ljós kemur að kæra reynist ekki á rökum reist. Um það atriði má vísa að hluta til I. liðar. Til viðbótar má nefna að ekki sé vitað hver sakborningur er, eða atvik máls þykja með þeim hætti að frekari rannsókn sé ekki talin líkleg til að bæta þar úr svo sem óskýrir eða misvísandi framburðir. Þá kann að vera að ekki þjóni tilgangi að taka skýrslur af fleiri vitnum, þótt til staðar séu, enda þyki sýnt af gögnum málsins að það upplýsist ekki frekar.
Í öðru lagi má hætta rannsókn ef brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt að rannsókn muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað. Hér verður að leggja til grundvallar að brot teljist smávægilegt með hliðsjón af broti og ætluðu umfangi rannsóknar. Þannig verður að meta heildstætt alla efnisþætti ákvæðisins.
Mat á því hvort brot teljist smávægilegt ræðst meðal annars af fjárverðmæti þýfis, eignatjóni og/eða öðrum afleiðingum brots. Brot þar sem líkleg viðurlög væri fangelsi eða há fésekt kæmi þannig ekki til álita hér. Sakaferill kemur einnig til skoðunar í þessu sambandi svo sem síbrotamenn.
Við mat á því hvað teljist óeðlileg fyrirhöfn og kostnaður þarf að skoða væntanlega framhaldsrannsókn, svo sem fjölda áætlaðra yfirheyrslna, umfang tæknirannsóknar, umfang gagnaöflunar og úrvinnslu gagna, ferðalög með tilliti til staðsetningu vitna eða annarra rannsóknarathafna, samskipti við útlönd eða hvort þörf sé á aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga.
Lögregla tekur ákvörðun um að hætta rannsókn. Heimildin tekur jafnt til mála sem heyra undir ákæruvald ríkissaksóknara, héraðssaksóknara og lögreglustjóra. Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut eiga að máli kost á að tjá sig áður en ákvörðun er tekin, sbr. lokamálslið 4. mgr. 52. gr. sml.
Skylt er að tilkynna um ákvörðun kæranda, sakborningi, brotaþola og öðrum þeim sem hagsmuna hafa að gæta, og jafnframt leiðbeina þeim um kæruheimild og kærufrest til ríkissaksóknara, sbr. 5. mgr. 52. gr. sml. Tilkynningu skal senda í A-pósti og skal þess gætt að afrit af tilkynningu sé jafnframt sent til lögmanns viðkomandi ef það á við. Skráning á lokaferli í málaskrá (Löke) skal fara fram sem næst þeim tíma þegar ákvörðun er tekin og tilkynning er send út.
Lögreglu er skylt, ef þess er óskað, að rökstyðja í stuttu máli ákvörðun, sbr. 8. mgr. 52. gr. sml. Ávallt er heimilt að veita rökstuðning samhliða tilkynningu. Nú er rannsókn hætt og sakarefni í máli varðar meint brot gegn XXII. almennra hegningarlaga og skal þá röstuðningur vera samhliða tilkynningu. Hið sama á við ef um er að ræða mál og sakarefni í því varðar meint brot starfsmanns lögreglu gegn XIV. kafla sömu laga.
III. Ákvörðun um að fella mál niður:
1. mgr. 57. gr. laga um meðferð sakamála:
Nú telur lögregla að rannsókn sé lokið og gögn komin fram sem geti leitt til saksóknar og sendir hún ákæranda þá rannsóknargögnin, nema lögreglustjóri megi sjálfur höfða mál skv. 1. og 4. mgr. 24. gr.
145. gr. laga um meðferð sakamála:
Þegar ákærandi hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið athugar hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Ef hann telur það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa en ella höfðar hann mál á hendur sakborningi skv. 152. gr., sbr. þó 146. gr.
Rannsókn hefur farið fram og telst lokið í skilningi ákvæðanna. Ákærandi tekur ákvörðun um að fella mál niður í samræmi við málshöfðunarheimild, mati á sönnun og eða lagaatriðum. Teljist rannsókn ekki lokið verður mál ekki fellt niður á grundvelli 145. gr. sml.
Ekki er skylt að gefa þeim sem hlut eiga að máli kost á að tjá sig áður en ákvörðun er tekin, sbr. 1. málslið 1. mgr. 147. gr. sml.
Skylt er að tilkynna um ákvörðun, sakborningi og brotaþola, enda liggi fyrir hver hann er, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 147. gr. sml. Sé ákvörðun kæranleg skal leiðbeina um kæruheimild og kærufrest til ríkissaksóknara, sbr. almennar reglur stjórnsýsluréttar. Tilkynningu skal senda í A-pósti og skal þess gætt að afrit af tilkynningu sé jafnframt sent til lögmanns viðkomandi ef það á við. Skráning á lokaferli í málaskrá (Löke) skal fara fram sem næst þeim tíma þegar ákvörðun er tekin og tilkynning er send út.
Héraðssaksóknara og lögreglustjóra er skylt að rökstyðja í stuttu máli ákvörðun um að fella mál niður sé þess óskað. Ávallt er heimilt að veita rökstuðning samhliða tilkynningu. Nú er mál fellt niður og sakarefni í því varðar meint brot gegn XXII. almennra hegningarlaga og skal þá röstuðningur vera samhliða tilkynningu. Hið sama á við ef um er að ræða mál og sakarefni í því varðar meint brot starfsmanns lögreglu gegn XIV. kafla sömu laga.
IV. Skráning í málaskrá og haldlagðir munir:
Við lokaafgreiðslu máls skal yfirfara skráningu máls í málaskrá (LÖKE) og gæta þess sérstaklega að brotaflokkar og sakborningar séu rétt skráðir. Við lokaafgreiðslu máls skal lögreglustjóri eða héraðssaksóknari gæta þess að aflétta haldlagningu muna, eftir því sem við á, sbr. 1. og 2. mgr. 72. gr. sml. Lögreglustjóri sem hefur farið með rannsókn máls annast framkvæmd þess að aflétta haldlagningu, þar með talið úrvinnslu á því hverjum ber að afhenda muni eftir haldlagningu.
V. Kærðar ákvarðanir til ríkissaksóknara:
Lögreglustjóri eða héraðssaksóknari skal senda ríkissaksóknara afrit rannsóknargagna eigi síðar en innan tveggja vikna frá því beiðni um gögn berst frá ríkissaksóknara nema annað sé ákveðið af ríkissaksóknara.
Lögreglustjóri eða héraðssaksóknari skal samhliða veita ríkissaksóknara skýringar um hvaða megin sjónarmið og rannsóknargögn voru einkum lögð til grundvallar hinni kærðu ákvörðun, auk athugasemda vegna kærunnar eftir því sem við á. Hafi ákvörðun verið rökstudd þegar tilkynning um niðurfellingu var send út eða síðar þá nægir almennt að vísa til þess rökstuðnings.
Lögreglustjóra eða héraðssaksóknara er ávallt skylt að veita ríkissaksóknara aðrar upplýsingar vegna meðferðar máls á kærustigi ef ríkissaksóknari telur þess þörf.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 10/2017 |
---|---|---|
25. janúar 2017 | 25. janúar 2017 | Kemur í stað RS: 2/2014 |
Skrá skal mál í málaskrá ákæruvaldsins þegar ferillinn ákærumeðferð er skráður á mál í málaskrá lögreglu.
Með ákærumeðferð er átt við málsmeðferð ákæranda sem leiðir til útgáfu ákæru, niðurfellingar máls, niðurfellingu saksóknar eða skilorðsbundinnar ákærufrestunar.
Skráning á ferlinum ákærumeðferð skal fara fram um leið og mál kemur til meðferðar hjá ákæranda.
Ákærandi sem fer með mál eða starfsmaður á skrifstofu ákæranda, sem forstöðumaður hefur falið það verkefni, skráir mál til ákærumeðferðar.
Skráning ferla í málaskrá ákæruvaldsins skal fara fram sem næst rauntíma.
Heimilt er að halda skrá um mál sem er til meðferðar hjá ákæranda í öðru málaskrár- eða skjalaskráningarkerfi samhliða skráningu í málaskrá ákæruvaldsins.
Skrá skal að lágmarki eftirfarandi ferla í málaskrá ákæruvaldsins:
Úthlutun til starfsmanns
Saksóknarákvörðun (ákæra, niðurfelling, niðurfelling saksóknar eða skilorðsbundin ákærufrestun)
Þingfesting
Skrá skal þingfestingardag
Skrá skal málsnúmer í héraðsdómi
Málsmeðferð fyrir héraðsdómi
Skrá skal tegund málsmeðferðar (viðurlagaákvörðun, játningarmál, aðalmeðferð)
Aðrir ferlar
Skrá skal aðra ferla eftir því sem við á undir rekstri máls eða aðra meðferð þess hjá ákæranda (framhaldsákæra, frávísun frá héraðsdómi, fallið frá ákærulið o.fl.)
Heimilt er að skrá viðbótarupplýsingar í athugasemdareit ef það horfir til frekari skýringar á meðferð eða stöðu máls. Gæta skal vandvirkni í orðalagi.
Lokastig skráningar á ferlum hjá lögreglustjórum og héraðssaksóknara eru eftirfarandi:
Málsmeðferð í héraði – undirflokkur (viðurlagaákvörðun, játningarmál eða aðalmeðferð).
Niðurfelling máls.
Niðurfelling saksóknar.
Skilorðsbundin ákærufrestun
Skrifstofa ríkissaksóknara annast skráningu ferla eftir að mál hefur verið dómtekið fyrir héraðsdómi.
Skrifstofa ríkissaksóknara annast skráningu ferla vegna kærðra ákvarðana lögreglustjóra eða héraðssaksóknara um lokaafgreiðslur mála.
Þegar gefin er út ein ákæra vegna brota sem skráð eru í fleiri en einu máli skal sameina málin í málaskrá ákæruvaldsins undir einu af LÖKE-málsnúmerunum.
Lögreglustjórar og héraðssaksóknari skulu skanna inn í LÖKE skjöl sem tilheyra máli, enda hafi þau ekki þegar verið skráð með rafrænum hætti. Með skjölum er t.d. átt við áverkavottorð, matsgerðir, reikninga, niðurfellingarbréf, ákærur, bréf til dómstóla, bréfasamskipti við lögmenn eða stofnanir o.fl.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 9/2017 |
---|---|---|
25. janúar 2017 | 25. janúar 2017 | Kemur í stað RS: 1/2013 |
1. gr.
Aðgangur sakbornings, brotaþola o.fl. sem málið snertir
Heimila má sakborningi og brotaþola aðgang að rannsóknargögnum sakamáls sem er lokið nema sérstök sjónarmið til verndar sakborningi, vitnum eða öðrum aðilum mæli gegn því. Sama gildir um hvern þann sem sýnir fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta. Um lagaheimild vísast til 6. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. síðari breytingar.
Máli er lokið samkvæmt 1. mgr. þegar rannsókn þess hefur verið hætt, það hefur verið fellt niður vegna sönnunarstöðu, fallið hefur verið frá saksókn í því, máli hefur verið lokið með lögreglustjórasátt eða endanlegur dómur gengið.
Heimild til aðgangs að gögnum máls nær ekki til gagna eða hluta gagna sem geyma viðkvæmar persónuupplýsingar varðandi annan en þann sem óskar að kynna sér gögnin nema viðkomandi sýni fram á að hann hafi lögvarinna hagsmuna að gæta. Um takmarkanir á heimild til upplýsinga gilda að öðru leyti ákvæði 6. – 10. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og 16. – 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eftir því sem við getur átt.
2. gr.
Aðgangur annarra
Lögreglu, ákærendum, dómurum og fangelsisyfirvöldum er heimill aðgangur að öllum gögnum máls til notkunar í störfum sínum.
Heimila má tryggingafélögum og lögmönnum, sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta, aðgang að gögnum máls með takmörkunum samkvæmt 3. mgr. 1. gr. þessara reglna.
Heimila má ráðuneytum og öðrum stjórnvöldum aðgang að gögnum máls sem greinilega varðar hlutverk þeirra og eftirlitsskyldu lögum samkvæmt.
3. gr.
Afritun gagna
Heimila má þeim, sem fær aðgang að gögnum máls samkvæmt þessum reglum, að ljósrita þau eða afrita að því marki sem nauðsynlegt telst til að gæta hagsmuna sinna með þeim takmörkunum sem leiðir af 3. mgr. 1. gr. og 2. mgr. 3. gr. þessara reglna.
Afritun á hljóð- og mynddiskum af skýrslutökum er að jafnaði óheimil. Hið sama á við um aðrar myndupptökur eða önnur gögn á stafrænu formi sem geyma viðkvæmar persónuupplýsingar. Ef heimilaður er aðgangur að hljóð- og mynddiskum eða öðrum stafrænum gögnum sem geyma viðkvæmar persónuupplýsingar þá skal lögreglustjóri veita nauðsynlega aðstoð og aðstöðu fyrir afspilun.
Um ljósrit og afrit af gögnum gilda að öðru leyti ákvæði 18. gr. upplýsingalaga eftir því sem við getur átt.
4. gr.
Málsmeðferð
Lögreglustjóri í því umdæmi þar sem rannsóknargögn eru geymd eða héraðssaksóknari ákveður hvort orðið skuli við beiðni um aðgang að þeim gögnum.
Beiðni um aðgang að gögnum skal að jafnaði vera skrifleg þar sem fram koma upplýsingar um hver óskar eftir gögnum, hvaða gögnum óskað er eftir og hvar og hvenær beiðni er sett fram. Ef óskað er eftir gögnum munnlega þá skal leitast við að fá beiðnina setta fram skriflega. Ef ekki reynist unnt að fá skriflega beiðni þá skal rita minnisblað um munnlega beiðni og skal það tilgreina sömu upplýsingar og áskilið er að komi fram í skriflegri beiðni um aðgang að gögnum. Að öðru leyti vísast til 27. gr. upplýsingalaga eftir því sem við getur átt.
Gæta skal sérstaklega að almennri leiðbeiningarskyldu og málshraða stjórnvalda, sbr. 7. og 9. gr. stjórnsýslulaga.
Ákvörðun lögreglustjóra eða héraðssaksóknara um að synja beiðni um aðgang að gögnum máls eða takmarka hann að nokkru leyti skal tilkynnt aðila skriflega og rökstudd í samræmi við V. kafla stjórnsýslulaga. Kæra má synjun eða takmörkun lögreglustjóra eða héraðssaksóknara á því að veita aðgang að gögnum til ríkissaksóknara sem tekur fullnaðarákvörðun í málinu. Kæra skal borin fram innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina. Að öðru leyti vísast til 19. gr. stjórnsýslulaga eftir því sem við getur átt.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 6/2017 |
---|---|---|
25. janúar 2017 | 25. janúar 2017 | Kemur í stað RS: 11/2009 |
Samkvæmt a. til d. liðum 3. mgr. og 4. mgr. 146. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála (sml.) er lögreglustjóra og héraðssaksóknara heimilt að falla frá saksókn þegar svo stendur á sem lýst er í málsgreinunum.
Hvað varðar túlkun á orðalaginu “…aðrar sérstakar ástæður mæla með því að fallið sé frá saksókn…” sbr. d. liður 3. mgr. 146. gr., bendir ríkissaksóknari á að ákvæðið leysti af hólmi þrjá töluliði 2. mgr. 113. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, þ.e. c-, e- og f-lið, en f. liður heimilaði ákæranda að falla frá saksókn „ef sérstaklega stendur á og telja verður að almannahagsmunir krefjist ekki málshöfðunar.“ Í handbók dómsmálaráðuneytisins um meðferð opinberra mála, frá 1992, segir um þetta ákvæði „Sem dæmi um þetta má nefna ef langt er liðið síðan brot var framið, án þess þó að refsikrafa sé fyrnd, og sakborningur hefur síðan hegðað sér óaðfinnanlega, ef telja má að álit manna á verki hafi breyst sökunauti i hag síðan refsiákvæðið var sett eða óvenju miklar málsbætur eru.“
Ríkissaksóknari telur því að ákærendur hafa nokkuð svigrúm til mats um þau atriði sem tilgreind eru í d-lið 3. mgr. 146. gr. sml þegar tekin er ákvörðun um hvort falla beri frá saksókn.
Ríkissaksóknari leggur hins vegar áherslu á að lögreglustjórum og héraðssaksóknara beiti heimildinni til að falla frá saksókn af varfærni og jafnframt að leiki vafi á beitingu hennar þá beri að senda ríkissaksóknara málið til ákvörðunar. Minnt er á meginreglu 2. mgr. 146. gr. sml. um að falla megi frá saksókn þegar beita má ákvæðum 56. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um ákærufrestun.
Forsenda þess að niðurfellingu saksóknar sé beitt er að rannsókn máls sé lokið, mál teljist upplýst og að ákæruvaldið telji að sakborningur hafi framið refsivert brot. Niðurfellingu saksóknar verður að jafnaði ekki beitt nema játning sakbornings liggi fyrir.
Aldrei má skírskota til heimildar um að fella niður saksókn í málum þegar við eiga ákvæði 4. mgr. 52. gr. sml. um frávísun kæru eða ákvörðun um að hætta rannsókn eða ákvæði 145. gr. sml. um niðurfellingu máls með hliðsjón af sönnunarstöðu að rannsókn lokinni.
Skylt er að tilkynna ákvörðun um niðurfellingu saksóknar sakborningi og brotaþola enda liggi fyrir hver hann er, sbr. 1. mgr. 147. gr. sml. Sömuleiðis ber að tilkynna ríkissaksóknara ákvörðunina, sbr. 23. og 24. gr. sml. Tilkynningu skal fylgja eitt eintak af gögnum máls.
Í tilkynningu skal heimfæra brot undir viðeigandi lagaákvæði. Þá skal vísa til þeirrar lagagreinar sem ákvörðun um niðurfellinu saksóknar styðst við, svo og tilheyrandi staflið 3. mgr. 146. gr. sml., sé byggt á þeirri grein.
Ekki er skylt að rökstyðja ákvörðunina frekar en að framan greinir, en taka skal fram að viðkomandi geti kært ákvörðunina til ríkissaksóknara innan mánaðar.
Ef sakborningur er yngri en 18 ára skal lögregla eða héraðssaksóknari kveðja viðkomandi til sín ásamt lögráðamanni og kynna þeim ákvörðunina.
Eftirfarandi er dæmi um orðalag tilkynningar til sakbornings:
Í upphafi tilkynningar er skírskotað til þess sakarefnis sem rannsakað hefur verið, t.d. ætlaðs þjófnaðarbrots, en síðan segir:
Rannsókn málsins er nú lokið og hafa rannsóknargögn verið yfirfarin með hliðsjón af 145. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Ákæruvaldið telur að ætluð háttsemi yðar varði við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Hér með tilkynnist, með vísan til a. liðar 3. mgr. 146. gr. laga um meðferð sakamála, að ákveðið hefur verið að falla frá saksókn á hendur yður út af ætluðu broti.
Unnt er að kæra ákvörðunina til ríkissaksóknara innan mánaðar, sbr. 2. mgr. 147. gr. laga um meðferð sakamála.
Hafi munir, sem gera skal upptæka verið haldlagðir í þágu rannsóknar málsins, er rétt að leita eftir því, þegar sakborningur er yfirheyrður, hvort hann fallist á að afsala sér þeim. Samþykki hann það ekki verður máli ekki lokið með niðurfellingu saksóknar, en reynt að ljúka því með sektargerð, í þeim tilvikum sem það á við, þar sem hið haldlagða verður gert upptækt.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 5/2017 |
---|---|---|
25. janúar 2017 | 25. janúar 2017 | Kemur í stað RS: 8/2009 |
Uppfært: 31. mars 2023 |
Samkvæmt RS: 3/2021 eru auðgunarbrot, sem getið er í 1. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, á skrá yfir brot sem ljúka má með lögreglustjórasekt. Eins og þar kemur fram er gert ráð fyrir því að heimildinni sé fyrst og fremst beitt gagnvart búðaþjófnaði þótt hin almenna heimild sé rýmri.
Þrátt fyrir þessa heimild, sem bundin er því skilyrði að einungis sé um smáræði að tefla, þ.e. ef verðmæti þýfis nemur ekki hærri fjárhæð en kr. 250.000, og að sökunautur hafi ekki áður verið dæmdur fyrir auðgunarbrot, sbr. 1. mgr. 256. gr. almennra hegningarlaga, kann að vera rétt að beita niðurfellingu saksóknar og/eða fresta ákæru til refsingar skilorðsbundið með hliðsjón af brotaferli kærða.
Til samræmingar eru hér settar fram almennar leiðbeiningar um annars vegar afgreiðslu þessara mála með tilliti til heimilda um niðurfellingu saksóknar og ákærufrestunar og hins vegar heimildar til að ljúka máli með lögreglustjórasekt. Rétt þykir að vekja hér athygli á Fyrirmælum RS: 1/2023 um sáttamiðlun, sem taka til þjófnaðarbrota almennt og þykir mjög álitlegur kostur vegna brota ungra afbrotamanna.
Kærði er á aldrinum 15-17 ára þegar brot er framið og játar sök:
Fyrsta afgreiðsla: Fallið frá saksókn skv. a- og d- liðum 3. mgr. 146. gr. sml.
Önnur afgreiðsla: Ákærufrestun í 2 ár.
Þriðja afgreiðsla: Sektargerð, sbr. RS: 3/2021. Minnt er á ákvæði 4. mgr. 56. gr. almennra hegningarlaga.
Fjórða afgreiðsla: Ákæra.
Ákærufrestun er að jafnaði útilokuð hafi kærði áður hlotið ákærufrestun fyrir annað hegningarlagabrot.
Kærði er 18 ára eða eldri þegar brot er framið og játar sök:
Fyrsta afgreiðsla: Fallið frá saksókn skv. a- og d- liðum 3. mgr. 146. gr. sml.
Önnur afgreiðsla: Sektargerð, sbr. RS: 3/2021.
Þriðja afgreiðsla: Ákæra.
Þrátt fyrir ofangreint kann að vera ástæða til að falla frá saksókn eða ljúka máli með ákærufrestun, allt eftir atvikum ef brot er óverulegt og persónulegar aðstæður kærða jafnframt sérstakar.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 4/2017 |
---|---|---|
25. janúar 2017 | 25. janúar 2017 | Kemur í stað RS: 5/2009 |
Málshraðareglan er ein af grundvallarreglum réttarfars sem víða kemur fram í lögum og tryggð er sérstaklega í 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Hefur vægi reglunnar sífellt verið að aukast eins og fjölmörg dómafordæmi sýna. Markmið ákvæða um eðlilegan málshraða eru til þess fallin að bæta réttarstöðu sakborninga og brotaþola auk þess að styrkja réttaröryggi borgaranna. Brot á ákvæðum sem tryggja eðlilegan málshraða kemur fram í ávítum á ákæruvaldið, mildun refsinga sakborninga og jafnvel niðurfellingu mála fyrir Hæstarétti. Er slíkt ekki ásættanlegt.
Hraða skal málum þar sem sakarefni tekur til líkamlegs og kynferðislegs ofbeldis. Í sérstökum forgangi skulu þó vera nauðgunarmál, mál sem varða ofbeldi gagnvart börnum og ofbeldi í nánum samböndum sem og mál þar sem gerendur eru yngri en 18 ára.
1. janúar og 30 júní ár hvert skulu héraðssaksóknari og lögreglustjórar senda ríkissaksóknara lista yfir stöðu mála og málsmeðferðartíma vegna rannsóknar og ákærumeðferðar í nauðgunarmálum (194. gr. alm. hgl.), alvarlegum kynferðisbrotum gegn börnum (1. mgr. 200. gr., 1. mgr. 201. gr. og 1. mgr. 202. gr. alm. hgl.) og í málum sem varða ofbeldi í nánum samböndum (218. gr. b. alm.hgl.).
Rannsókn fjármuna- og efnahagsbrota er annars eðlis en rannsókn ofbeldis- og kynferðisbrota en sönnunargögn liggja þar mun meira skriflega fyrir en í hinum fyrrnefndu málaflokkum. Efnahagsbrot eru iðulega umfangsmikil og flókin og rannsókn þeirra getur teygt sig á milli landa. Því er almennt viðurkennt að þau geti tekið mun lengri tíma en önnur mál. Mikilvægast er hins vegar að unnið sé að rannsókn þessara mála með eðlilegum hraða og að ekki myndist óútskýrðar eyður í rannsókninni.
1. janúar og 30. júní ár hvert skal héraðssaksóknari senda ríkissaksóknara heildaryfirlit yfir stöðu mála á saksóknarsviði II (efnahagsbrot).
Héraðssaksóknari og lögreglustjórar skulu eigi sjaldnar en árlega setja sér markmið um meðferð sakamála, bæði um vönduð og markviss vinnubrögð við rannsóknir einstakra mála og ekki síður um málshraða. Markmiðssetning skal send ríkissaksóknara til samþykktar.
Markmið ákæruvaldsins er að tryggja málsmeðferð þar sem saman fara gæði og eðlilegur hraði við rekstur máls. Með því er verið að sinna þeirri meginskyldu laga og kröfu samfélagsins um að afbrotamenn verði beittir lögmæltum viðurlögum.
Ráðstafanir til að stytta meðferðartíma mála mega aldrei vera á kostnað gæða og réttaröryggis.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 2/2017 |
---|---|---|
25. janúar 2017 | 25. janúar 2017 | Kemur í stað RS: 1/2009 |
Skipta skal ákæruskjalinu í eftirfarandi þætti:
1. Fyrirsögn.
2. Embættisheiti þess handhafa ákæruvalds sem gefur út ákæruna.
3. Dómstóllinn sem málið er höfðað fyrir.
4. Nafn ákærða, heimilisfang og kennitala.
5. Lagaheiti brotsins, sem ákærða er gefið að sök, eða önnur skilgreining á brotinu.
6. Atvikalýsing.
7. Röksemdir sem málsókn er byggð á, ef þörf krefur (undantekning).
8. Refsiákvæði.
9. Kröfur.
10. Útgáfustaður og dagsetning.
11. Undirskrift.
Til skýringar um hvern þátt fyrir sig:
1. Fyrirsögn.
Í fyrirsögn skal vera heiti skjalsins ÁKÆRA.
2. Embættisheiti o.fl.
Með eftirfarandi orðalagi kunngerir lögreglustjóri eða héraðssaksóknari ákvörðun sína um málshöfðun:
“Lögreglustjórinn í ......... gjörir kunnugt:”
3. Dómstóllinn o.fl.
Hér skal tilgreint að höfða beri sakamál fyrir tilteknum héraðsdómi. Orðalag skal vera: “Að höfða ber sakamál fyrir Héraðsdómi ....... á hendur”.
Rétt þykir að nota hér orðalagið “Að höfða ber” en ekki “Að höfðað er”. Ástæðan er sú að fyrrgreinda orðalagið er í betra samræmi við 142. gr. og fyrri málslið 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála (sml). Við útgáfu ákæru hefur ákærandinn farið yfir rannsóknargögn, kannað viðeigandi lagaákvæði og komist að því að höfða beri sakamál. Þetta orðalag undirstrikar að málshöfðunin er ákveðin á grundvelli sml., en er ekki háð einstaklingnum sem kunngerir um málshöfðunina. Að lokinni framangreindri könnun hafi ákærandinn staðið frammi fyrir því, að miðað við fyrirliggjandi rannsóknargögn og þau lagaákvæði sem við ættu, hafi borið að höfða sakamál.
4. Nafn ákærða o.fl.
Dæmi:
“Jóni Sigurði Jónssyni, kennitala 123406-5559,
Hverfisgötu 200, Reykjavík.
Gæta skal þess að hafa fullt nafn hins ákærða í ákæru.
Ef hann er heimilislaus þá komi það fram (án lögheimilis).
5. Lagaheiti brotsins o.fl.
Mikilvægt er, að athæfi ákærða sé gefið heiti í inngangi atvikalýsingar. Nota ber lagaheiti brotanna eða hefðbundin heiti þeirra í refsirétti, þegar þau eru fyrir hendi, t.d. þjófnaður, skjalafals, líkamsárás, nytjastuld. Þar sem ekki nýtur við sérstakra heita á broti eins og t.d. er raunin varðandi ýmis sérrefsilagabrot, skal leitast við að gefa brotinu heiti miðað við löggjöfina sem brotið er gegn, t.d. umferðarlagabrot, tollalagabrot, fíkniefnalagabrot, áfengislagabrot, skotvopnalagabrot.
6. Atvikalýsing.
Atvikalýsingu skal hefja á heiti brotsins, t.d. “fyrir þjófnað”, og síðan skal lýsi í hverju brotið er fólgið; “með því að hafa stolið” eða “fyrir umferðalagabrot, með því að hafa mánudaginn 23. desember 2016 ekið bifreiðinni”.
Sagnorð skal hafa í lýsingarhætti þátíðar, núliðinni tíð, framsöguhætti, t.d. “með því að hafa stolið, ekið, slegið”. Áréttað er að ekki er nauðsynlegt að hafa alla atvikalýsingu í einni setningu án þess að setja punkt.
Mikilvægt er að brotalýsing sé nákvæm og í samræmi við hina raunverulegu háttsemi og enn fremur að lýsingin samsvari efnisatriðum viðkomandi refsilagaákvæðis. Hafa ber þó í huga að nauðsynlegt getur verið að hafa atvikalýsingu að einhverju leyti opna.
7. Refsiákvæði.
Færsla brota til refsiákvæða skal vera nákvæm (gr., mgr., málslið, töl.) og koma á eftir atvikalýsingu.
Dæmi um orðalag:
Telst þetta varða við ...
Framangreint brot ákærða telst varða við ...
Framangreind brot ákærða teljast varða við ...
Ef um nokkur brot er að ræða í sömu ákæru og kaflaskipti er gleggra að hafa heimfærsluna á eftir hverri brotalýsingu fyrir sig í stað þess að hafa heimfærslu allra brotanna í einu lagi á eftir brotalýsingunum.
8. Kröfur.
Fyrst skal gera kröfu um refsingu og greiðslu sakarkostnaðar. Síðan aðrar kröfur, um upptöku, sviptingu ökuréttar o.s.frv. og loks skal tilgreina ótvírætt einkaréttarkröfur og kröfur allsherjarréttar eðlis, sbr. f-liður 1. mgr. 152. gr. sml. Nefna skal þau lagaákvæði sem upptökukrafa og sviptingarkrafa byggist á.
Dæmi um orðalag: Þess er krafist, að ákærði verði dæmdur til refsingar og til að sæta upptöku á framangreindum 10 flöskum af vodka, samkvæmt. Ef um svokallaða skylduupptöku er að ræða, svo sem varðandi fíkniefni samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, nægir að krefjast upptöku með vísan til viðeigandi lagaákvæðis og óþarfi að krefjast þess að ákærði sæti upptöku á hinu haldlagða fíkniefni. Dæmi: “... og að gerð verði upptæk framangreind 5 kg af hassi samkvæmt ...” Ef á hinn bóginn er um að ræða heimild til upptöku, svo sem er t.d. í 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga, er rétt að það komi fram í kröfugerðinni: “og að ákærði verði dæmdur til að sæta upptöku á ... samkvæmt heimild í 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“
9. Útgáfustaður og dagsetning.
Dæmi: Skrifstofa lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, 24. janúar 2017.
10. Undirskrift.
Héraðssaksóknari, varahéraðssaksóknari og lögreglustjórar skulu sjálfir undirrita þau ákæruskjöl sem út eru gefin við embætti þeirra. Við embætti héraðssaksóknara er saksóknurum heimilt að undirrita ákæruskjöl. Hið sama á við um löglærða aðstoðarlögreglustjóra við embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Suðurnesjum. Við önnur lögreglustjóraembætti er staðgenglum lögreglustjóra heimilt að undirrita ákæruskjöl í fjarveru lögreglustjóra. Ákærendur sem fara með mál fyrir héraðsdómi undirrita svo sem tíðkast hefur fylgibréf með ákærum fyrir hönd héraðssaksóknara eða lögreglustjóra.
Sömu reglur skulu að jafnaði gilda um undirritun greinargerða í kærumálum til Hæstaréttar.
Eftir því sem við á þá eiga reglur þessar einnig við þegar ríkissaksóknari gefur út ákæru.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
Útgáfudagur: | Gildistaka: | RS: 1/2016 |
---|---|---|
17. maí 2016 | 17. maí 2016 |
Ríkissaksóknari vekur athygli lögreglu og ákærenda á nýföllnum dómum Hæstaréttar í málum nr. 291/2016 og 297/2016, en í dómunum eru gerðar athugasemdir við þá framkvæmd lögreglu að rannsaka gögn í haldlögðum farsímum án þess að samþykki eiganda eða dómsúrskurður liggi fyrir. Um þetta segir í nefndum dómum:
H 291/2016:
„Það athugast að sóknaraðili hefur gert tilraun til þess að rannsaka efnisinnihald umrædds farsíma án þess að fyrir liggi samþykki varnaraðila eða dómsúrskurður. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir njóta friðhelgi einkalífs heimilis og fjölskyldu og má ekki skerða einkalíf manns nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Þótt heimilt sé að haldleggja hlut án dómsúrskurðar, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008, verður 68. gr. laganna ekki skilin á þann veg að lögregla geti rannsakað efnisinnihald raftækja án þess að fyrir liggi úrskurður dómara. Aðstæður þær sem hér um ræðir eru efnislega sambærilegar þeim sem ákvæði 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 84. laga nr. 88/2008 taka til og samkvæmt lögjöfnun frá þeim er ljóst að lögreglu ber að afla dómsúrskurðar til þess að rannsaka efni farsímans.“
H 297/2016:
„Það athugast að sóknaraðili hefur rannsakað efnisinnihald umrædds farsíma án þess að fyrir liggi samþykki varnaraðila eða dómsúrskurður. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar skulu allir njóta friðhelgi einkalífs heimilis og fjölskyldu og má ekki skerða einkalíf manns nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Þótt heimilt sé að haldleggja hlut án dómsúrskurðar, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008, verður 68. gr. laganna ekki skilin á þann veg að lögregla geti rannsakað efnisinnihald raftækja án þess að fyrir liggi úrskurður dómara. Aðstæður þær sem hér um ræðir eru efnislega sambærilegar þeim sem ákvæði 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 84. laga nr. 88/2008 taka til og samkvæmt lögjöfnun frá þeim er ljóst að lögregla hefði þurft dómsúrskurð til þess að rannsaka efni farsímans. Samkvæmt þessu hafa aðgerðir sóknaraðila brotið gegn friðhelgi einkalífs varnaraðila. Er rannsókn lögreglu að þessu leyti aðfinnsluverð.“
Ríkissaksóknari telur að með hliðsjón af þessum dómum Hæstaréttar, sem samtals 5 dómarar dæma, verði ekki hjá því komist að breyta framkvæmd lögreglu þegar kemur að rannsókn haldlagðra muna (raftækja) eins og síma og tölva, þrátt fyrir að ekki sé kveðið á um það með skýrum hætti í lögum um meðferða sakamála að þörf sé á samþykki eða úrskurði.
Ríkissaksóknari beinir því hér með þeim fyrirmælum til lögreglu að afla dómsúrskurðar í kjölfar haldlagningar ef ekki liggur fyrir samþykki eiganda eða haldlagningarþola raftækja (símar, tölvur, tölvudrif, o.s.frv.) fyrir því að rannsaka/skoða gögn í tækjunum.
Lagatilvísun í kröfugerðinni yrði þá lögjöfnun frá ákvæðum 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 84. gr. laga nr. 88/2008, sbr. nefndir dómar Hæstaréttar.
Þegar gerð er krafa fyrir dómi um heimild til húsleitar er rétt að gera jafnframt kröfu um að lögreglu verði heimilað að rannsaka og afrita gögn í raftækjum, s.s. tölvu og síma, sem finnast kunna á vettvangi og tilheyra sakborningi, og þarf þá dómari í hverju tilviki að meta hvort sakarefnið sé með þeim hætti að réttlætanlegt sé að heimila þá skerðingu á friðhelgi einkalífs sem skoðun á gögnum síma og tölva og annarra slíkra raftækja óneitanlega er.
Þar til heimild til skoðunar liggur fyrir getur lögregla þurft að gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja efnisinnihald raftækjanna og koma í veg fyrir að hægt að komast inn í raftækin í gegnum netið og breyta efnisinnihaldi þeirra.
Ríkissaksóknari telur hins vegar ekki heimilt að afrita innihald síma t.a.m. fyrr en úrskurður liggur fyrir.
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari
10. janúar 2014 | RS: 1/2014 | |
---|---|---|
SJF/ |
Ríkissaksóknari beinir þeim fyrirmælum til lögreglustjóra, að við skýrslutöku af brotaþola/kæranda í málum þar sem höfðun sakamáls er háð kröfu brotaþola sé það bókað með skýrum hætti að brotaþoli krefjist þess að sakamál verði höfðað á hendur kærða, sbr. 144. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Er hér einkum um að ræða sakamál sem varða ætluð brot gegn 230.-232. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Tilefni þessara fyrirmæla er m.a. dómur Hæstaréttar í máli nr. 389/2013 frá 14. nóvember 2013. Í því máli var maður ákærður fyrir húsbrot, eignaspjöll og líkamsárás gegn fyrrum sambýliskonu sinni. Héraðsdómur Suðurlands vísaði frá þeim hluta ákærunnar sem laut að húsbroti og eignaspjöllum með þeim rökum að ekki hafi legið fyrir skýr refsikrafa þess sem misgert var við innan sex mánaða frestsins sem tilgreindur er í 3. mgr. 144. gr. sakamálalaga.
Meint brot voru framin 11. ágúst 2011 og var tekin skýrsla af kæranda sama dag. Í samantekt af skýrslutökunni kom ekki fram að kærandi hefði sett fram kröfu um að sakamál yrði höfðað gegn ákærða og hlustaði dómari þá á yfirheyrsluna sjálfa. Krafan kom ekki heldur fram í upptökunni. Við skýrslutöku 13. júlí 2012 gerði brotaþoli hins vegar refsikröfu á hendur kærða.
Hæstiréttur tók fram í sínum dómi að þótt fallist sé á með ákæruvaldinu að kærandi hafi borið fram kæru á hendur ákærða fyrir umrædd brot í fyrstu skýrslutöku, komi þar ekki fram að hún krefðist þess að sakamál yrði höfðað á hendur honum vegna þeirra. Úr því hefði fyrst verið bætt ellefu mánuðum síðar og fresturinn þá liðinn.
Niðurstaða héraðsdóms um frávísun ákæruliða sem lutu að húsbroti og eignaspjöllum var því staðfest.
Telja verður að þessi dómur Hæstaréttar feli í sér breytingu frá fyrri túlkun réttarins sem fram kemur í Hæstaréttarmáli nr. 259/1991 (1992 bls. 825) og var áréttuð í máli nr. 440/1992 (1993 bls. 906).
Reykjavík, 10. janúar 2014
Sigríður J. Friðjónsdóttir
ríkissaksóknari