Fara beint í efnið
Ríkissaksóknari Forsíða
Ríkissaksóknari Forsíða

Ríkissaksóknari

Skortur á almennu hæfi vararíkissaksóknara til að gegna embætti sínu

22. desember 2024

Helgi Magnús Gunnarsson uppfyllir ekki lengur almenn hæfisskilyrði til að gegna embætti vararíkissaksóknara

Skjaldarmerki

Samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal vararíkissaksóknari fullnægja lagaskilyrðum til skipunar í dómaraembætti við Hæstarétt. Í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla eru sett fram þau skilyrði sem hæstaréttardómari þarf að fullnægja og í 5. tölulið ákvæðisins er kveðið á um það hæfisskilyrði að viðkomandi hafi ekki sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða almennt að njóta.

Ríkar kröfur eru gerðar til málsmeðferðar ákæruvaldshafa vegna réttaröryggissjónarmiða, sambærilegar og gerðar eru til málsmeðferðar dómara. Ákæruvaldið verður að njóta trausts og verður almenningur og aðilar sakamáls að geta treyst því að ákærendur leysi úr málum á hlutlægan hátt. Endurspeglast þetta í þeim áskilnaði sem gerður er til hæfis ríkissaksóknara og vararíkissaksóknara.

Í bréfi dómsmálaráðherra til ríkissaksóknara, dags. 9. september sl., kemur fram að ráðherra geri ekki athugasemdir við þær efnislegu forsendur sem lágu til grundvallar áminningu sem ríkissaksóknari veitti Helga Magnúsi Gunnarssyni vararíkissaksóknara þann 25. ágúst 2022. Í áminningarbréfinu kom fram að háttsemi Helga Magnúsar utan starfs hans hafi verið ósæmileg og ósamrýmanleg starfinu. Hafi háttsemi hans varpað rýrð á störf hans sem vararíkissaksóknari, á embætti ríkissaksóknara og ákæruvaldið almennt, sbr. 14. og 21. gr. laga nr. 70/1996. Í bréfinu var lögð á það áhersla að vararíkissaksóknari er staðgengill ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvalds hér á landi og að honum beri því að vera öðrum ákærendum fyrirmynd í allri sinni framgöngu.

Í áminningarbréfinu var vísað til þess að umfjöllun Helga Magnúsar, sem var tilefni áminningarinnar, væri til þess fallin að draga úr trausti til vararíkissaksóknara, embættis ríkissaksóknara og ákæruvaldsins, en umfjöllunin beindist m.a. að brotaþolum í kynferðisbrotamálum, hælisleitendum og samkynhneigðum karlmönnum.

Í nefndu bréfi dómsmálráðherra er lýst því mati ráðherrans að ummæli Helga Magnúsar á árinu 2024, sem leiddu til þess að ríkissaksóknari vísaði máli hans til ráðherra, hafi ekki einungis verið óviðeigandi og í ósamræmi við stöðu hans sem embættismanns, heldur séu þau til þess fallin að grafa undan trúverðugleika ríkissaksóknaraembættisins og ákæruvaldsins í heild. Í bréfinu er tiltekið að ummælin beindust meðal annars að innflytjendum og flóttafólki, tilteknum samtökum og einstaklingi sem starfar sem lögmaður. Þá sé um ítrekaða háttsemi að ræða sem var jafnframt sama eðlis og Helgi Magnús var áminntur fyrir tveimur árum áður.

Það liggur fyrir að Helgi Magnús hefur rýrt það traust sem hann, og allir aðrir ákærendur, verða almennt að njóta enda kemur það skýrt fram í bréfi dómsmálaráðherra. Telur ríkissaksóknari þar með einsýnt að Helgi Magnús uppfyllir ekki lengur almenn hæfisskilyrði til að gegna embætti vararíkissaksóknara. Er í þessu sambandi vísað til 2. mgr., sbr. 1. mgr. 20. laga nr. 88/2008, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 50/2016 og 1. mgr. 25. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 1. mgr. 50. gr. laga nr. 50/2016.

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 20. gr. laga nr. 88/2008 ber ríkissaksóknari ábyrgð á ákvörðunum þeirra sem við embætti hans starfa. Með vísan til framangreindrar lagaskyldu og þeirrar afstöðu ríkissaksóknara að Helgi Magnús fullnægi ekki lengur almennum hæfisskilyrðum til að gegna embætti vararíkissaksóknara telur ríkissaksóknari sér ekki heimilt að úthluta verkefnum sem varða meðferð ákæruvalds til Helga Magnúsar, hvað þá að fela honum þá ábyrgð að vera staðgengill ríkissaksóknara.

Ríkissaksóknari

Hafðu samband

Sími: 444 2900

Netfang: saksoknari@saksoknari.is

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga er opið frá
9 til 12 og 13 til 15

Föstudaga er opið frá 9 til 12

Heim­il­is­fang

Suðurlandsbraut 4, 6. hæð

108 Reykjavík

Kennitala 530175-0229