Fara beint í efnið

Málefni vararíkissaksóknara

5. september 2024

Vegna umfjöllunar um þá ákvörðun ríkissaksóknara að vísa máli Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara til dómsmálaráðherra, vill ríkissaksóknari koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Skjaldarmerki

Með bréfi, dags. 9. ágúst 2022, barst ríkissaksóknara fyrirspurn dómsmálaráðuneytisins f.h. dómsmálaráðherra um það til hvaða viðbragða ríkissaksóknari hygðist grípa vegna ummæla vararíkissaksóknara á opinberum vettvangi. Í bréfi ráðuneytisins var áréttað mikilvægi þess að embætti ríkissaksóknara njóti bæði virðingar og trausts almennings og að hafið sé yfir vafa að við meðferð mála hjá embættinu sé hvers kyns mismunun og hlutdrægni hafnað. Þá kom fram að ráðuneytið teldi mikilvægt að siðareglur ákærenda væru í heiðri hafðar. Áréttað var að ríkissaksóknari er næsti yfirmaður vararíkissaksóknara og að það væri ríkissaksóknara að ákveða til hvaða viðbragða embættið gripi gagnvart honum. Þá kom fram að dómsmálaráðherra ber stjórnskipulega ábyrgð á skipun vararíkissaksóknara og að endingu yrði embættismanni í þessar stöðu ekki vikið úr embætti nema með fulltingi ráðherra.

Með bréfi, dags. 17. ágúst 2022, upplýsti ríkissaksóknari dómsmálaráðuneytið um að ríkissaksóknari hefði sent vararíkissaksóknara tilkynningu um mögulega áminningu sem síðan varð að veruleika eftir að vararíkissaksóknari hafði komið að sínum sjónarmiðum og andmælum þar að lútandi.

Þann 25. ágúst 2022 veitti ríkissaksóknari vararíkissaksóknara áminningu skv. 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að höfðu samráði við dómsmálaráðherra. Í áminningarbréfinu kom m.a. fram að með tjáningu sinni, ummælum og orðfæri í opinberri umræðu, á samfélagsmiðlinum Facebook, hafi háttsemi vararíkissaksóknara utan starfs hans verið ósæmileg og ósamrýmanleg starfinu og að sú háttsemi hafi varpað rýrð á störf hans sem vararíkissaksóknari, á embætti ríkissaksóknara og ákæruvaldið almennt, sbr. 14. og 21. gr. laga nr. 70/1996. Í bréfinu var lögð á það áhersla að vararíkissaksóknari er staðgengill ríkissaksóknara sem er æðsti handhafi ákæruvalds hér á landi og að honum beri því að vera öðrum ákærendum fyrirmynd í allri sinni framgöngu.

Í áminningarbréfinu var vísað til þess að umfjöllun vararíkissaksóknara væri til þess fallin að draga úr trausti, til vararíkissaksóknara, embættis ríkissaksóknara og ákæruvaldsins, en umfjöllunin beindist m.a. að brotaþolum í kynferðisbrotamálum, hælisleitendum og samkynhneigðum karlmönnum.

Með áminningarbréfinu var vararíkissaksóknara gefinn kostur á að bæta ráð sitt með því að ítreka ekki háttsemi af því tagi sem lýst var í bréfinu ellegar kynni það að leiða til þess að honum yrði veitt lausn frá embætti, sbr. VI. kafla laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Vararíkissaksóknari bætti ekki ráð sitt í kjölfar áminningarinnar. Þvert á móti voru ummæli hans og orðfæri í opinberri umræðu, í starfi hans sem vararíkissaksóknari, einkum í júlí 2024, enn og aftur með þeim hætti að hann sýndi af sér háttsemi sem er ósæmileg og ósamrýmanleg starfi hans og sú háttsemi varpaði rýrð á störf hans sem vararíkissaksóknari, á embætti ríkissaksóknara og ákæruvaldið almennt, sbr. 14. og 21. gr. laga nr. 70/1996. Ummæli vararíkissaksóknara beindust m.a. að innflytjendum og flóttafólki, einkum frá Miðausturlöndum. Var það mat ríkissaksóknara að þessi framkoma vararíkissaksóknara og framganga væri í andstöðu við siðareglur fyrir ákærendur, sbr. fyrirmæli ríkissaksóknara nr. 14/2017, en í inngangi siðareglnanna segir:

Óhlutdrægni, sjálfstæði og heilindi eru einkunnarorð ákæruvaldsins. Mikilvægt er að ákærendur standi undir trausti og virðingu almennings. Í því felst að ákærendur þurfa í störfum sínum að haga framkomu sinni og framgöngu á faglegan og viðeigandi hátt, auk þess sem ákærendur verða í frítíma sínum að forðast að gera nokkuð það sem varpað getur rýrð á störf þeirra hjá ákæruvaldinu eða á ákæruvaldið almennt.

Úrræði ríkissaksóknara vegna háttsemi vararíkissaksóknara á grundvelli laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins voru á þessu stigi tæmd, en með starfsmannamál vararíkissaksóknara hefur ávallt verið farið í samræmi við ákvæði framangreindra laga.

Í ljósi þeirrar stöðu sem upp var komin tilkynnti ríkissaksóknari vararíkissaksóknara með bréfi, dags. 29. júlí sl., að mál hans yrði sent dómsmálaráðherra til meðferðar. Í tilkynningunni kom m.a. fram að tjáning vararíkissaksóknara hefði gefið þeim einstaklingum, samtökum og hópum fólks sem tjáning hans beindist að, tilefni til að efast um hlutleysi vararíkissaksóknara, embættis ríkissaksóknara og ákæruvaldsins, ef til þess kæmi að málefni þeirra væru til umfjöllunar hjá ákæruvaldinu.

Með bréfi ríkissaksóknara til dómsmálaráðherra sama dag var máli vararíkissaksóknara vísað til meðferðar hjá dómsmálaráðherra sem er stjórnvaldið sem skipaði vararíkissaksóknara í embættið og getur veitt lausn frá því embætti samkvæmt VI. kafla laga nr. 70/1996.

Áréttað er að ekki var um persónulegt ágreiningsmál á milli ríkissaksóknara og vararíkissaksóknara að ræða en sú rangfærsla hefur ítrekað komið fram í umfjöllun um málið. Málið laut að því að ríkissaksóknara, sem næsta yfirmanni vararíkissaksóknara, bar að fylgja eftir þeirri áminningu sem vararíkissaksóknari fékk á árinu 2022 í samræmi við lög nr. 70/1996 auk þess sem ríkissaksóknari ber ábyrgð á því að ákæruvaldið njóti traust almennings og að ávallt sé unnið eftir einkunnarorðum ákæruvaldsins um óhlutdrægni, sjálfstæði og heilindi.

Þá telur ríkissaksóknari rétt að gera grein fyrir því að ríkissaksóknari og ríkislögreglustjóri brugðust strax við þegar vararíkissaksóknara og ríkissaksóknara fóru að berast tölvupóstar frá tilteknum einstaklingi sem fólu í sumum tilvikum í sér hótanir í garð vararíkissaksóknara og fjölskyldu hans. Var gripið til þeirra ráðstafana sem gerðar eru í tilvikum sem þessum en ríkissaksóknara var ekki kunnugt um að vararíkissaksóknara þættu þær ráðstafanir ekki fullnægjandi fyrr en hann lýsti þeirri skoðun sinni í fjölmiðlum nýverið.

Viðkomandi einstaklingur var síðar ákærður og sakfelldur fyrir refsiverðar hótanir (brot gegn valdstjórninni) í garð vararíkissaksóknara og fjölskyldu hans, en um var að ræða eftirgreind sakarefni, sbr. dómur Landsréttar í máli nr. 634/2022:

Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa á tímabilinu 16. janúar til 26. janúar 2021 sent vararíkissaksóknara 6 tölvupósta í vinnutengt netpóstfang hans með líflátshótunum í garð hans og í sumum tilvikum einnig fjölskyldu hans. Telst þetta varða 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa mánudaginn 7. mars 2022 í afgreiðslurými á embætti ríkissaksóknara ítrekað hótað vararíkissaksóknara lífláti. Telst þetta varða 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ríkissaksóknara er ekki kunnugt um að umræddur einstaklingur hafi, síðan þau atvik áttu sér stað sem fjallað er um í ofangreindum dómi, haft uppi frekari líflátshótanir gagnvart vararíkissaksóknara eða að hann hafi nálgast eða setið um heimili hans, hvað þá linnulaust í 3 ár, líkt og ætla mætti af ummælum vararíkissaksóknara og umfjöllun fjölmiðla.

Ríkissaksóknari

Hafðu samband

Sími: 444 2900

Netfang: saksoknari@saksoknari.is

Opnun­ar­tími

Mánudaga til fimmtudaga er opið frá
9 til 12 og 13 til 15

Föstudaga er opið frá 9 til 12

Heim­il­is­fang

Suðurlandsbraut 4, 6. hæð

108 Reykjavík

Kennitala 530175-0229