Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Rannsóknamiðstöð Íslands Forsíða
Rannsóknamiðstöð Íslands Forsíða

Rannsóknamiðstöð Íslands

Tilnefningar til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands 2026

15. janúar 2026

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands verða afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum, 20. janúar næstkomandi. Verðlaunin eru veitt þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefna sem styrkt voru af Nýsköpunarsjóði námsmanna árið 2025.

Stjórn sjóðsins hefur valið sex öndvegisverkefni en aðeins eitt þeirra hlýtur viðurkenninguna. Forseti Íslands afhendir verðlaunin.

Verkefnin sem tilnefnd eru sem öndvegisverkefni eiga það sameiginlegt að vera vel unnin og frumleg en eru afar ólík innbyrðis og sýna vel þá fjölbreytni sem einkennir verkefni sem sjóðurinn veitir styrki til. Þessi fjölbreytni endurspeglar ennfremur það frjóa og margbreytilega starf og nám sem háskólanemar á Íslandi leggja stund á.

Verkefnin sem tilnefnd eru til verðlaunanna eru:

Efnisheimar

Efnisheimar er rannsóknar- og nýsköpunarverkefni um byggingarefni á Íslandi í sögulegu, menningarlegu og vistfræðilegu samhengi. Verkefnið tekur á raunverulegum áskorunum byggingariðnaðarins, svo sem háu kolefnisspori, mikilli innflutningsþörf og rofnu sambandi við staðbundna efnishefð. Markmiðið er að færa þá þekkingu aftur inn í samtímann og opna nýjar leiðir til sjálfbærari og staðbundnari mannvirkjagerðar.

Í verkefninu er saga íslenskra byggingarefna rakin frá landnámi til dagsins í dag og sýnt hvernig efnisval hefur ávallt verið samofið tæknilegum forsendum, aðstæðum og gildum samfélagsins. Sérstök áhersla er lögð á staðbundin efni og auðlindir og möguleika þeirra í nútímabyggingum með tilliti til loftslagsáhrifa, hringrásarhagkerfis og menningarlegrar sjálfsmyndar.

Efnisheimar byggir á blandaðri aðferðafræði þar sem vettvangsferðir, viðtöl, vinnustofur og umhverfisgreiningar eru fléttuð saman við söguleg gögn og upplýsingar um efnistilraunir sem gerðar hafa verið hérlendis. Verkefnið skoðar ekki aðeins tækifærin, heldur dregur einnig skýrt fram þá þröskulda sem standa í vegi fyrir aukinni notkun íslenskra byggingarefna, hvort sem þeir liggja í regluverki, þekkingarskorti, innviðum eða viðteknum viðhorfum.

Niðurstöður verkefnisins eru settar fram í stafrænum gagnagrunni, sýningu og opinni miðlun. Þannig verða Efnisheimar að verkfærakistu fyrir breytingar, þar sem rannsókn, innblástur og hagnýtar leiðir til nýrrar efnisnotkunar mætast.

Verkefnið unnu Bjarki Þór Wíum Sveinsson og Gísli Hrafn Magnússon nemendur í arkitektúr í LHÍ. Leiðbeinendur voru Anna Kristín Karlsdóttir hjá Lúdika arkitektar

Kortlagning grunnvatns á Reykjanesskaga

Markmið rannsóknarinnar var að kortleggja grunnvatnsstrauma á Reykjanesskaga með því að mæla leiðni (seltu) og greina anjónir í ferskvatni víðsvegar á skaganum, á sama tíma og þróað var verklag í kringum nýja rafknúna vatnsdælu. Tekin voru 24 sýni af grunnvatni víðsvegar á skaganum sumarið 2025 úr grunnum ferskvatns borholum. Í tíu borholum voru tekin sýni með nýju dælunni, sem fengið hefur viðurnefnið „Perlufestin“. Hún er einstaklega þægilegt og fyrirferðarlítið verkfæri til sýnatöku, ólíkt hefðbundnum vatnsdælum sem eru sverar, þungar, og knúnar áfram af stórum rafstöðvum. Perlufestin hentar vel til sýnatöku úr grönnum ferskvatnsholum sem ekki er hægt að koma hefðbundinni borholudælu í, og auðvelt að flytja hana fótgangandi milli staða sem eru annars óaðgengilegir. Leiðni og anjónir voru mældar í vatnssýnunum, og niðurstöður greininganna settar fram á kortum sem sýna dreifingu þeirra á skaganum. Niðurstöðum ber vel saman við fyrri rannsóknir á vatnafari skagans. Skýr skil eru milli vatnasvæða, sem tengjast mismunandi berggrunni á hverju svæði fyrir sig. Níunda eldgosið á Sundhnúkagígaröðinni hófst við framkvæmd rannsóknarinnar. Fjöldi sýna voru tekinn í návígi við gosstöðvarnar á meðan á því stóð, og þau borin saman við eldri gögn af svæðinu. Niðurstöður efnagreininga þeirra sýna benda ekki til þess að eldvirkin hafi markverð áhrif á efnasamsetningu grunnvatnsins, en lítil sem engin breyting er á efnainnihaldi grunnvatns á svæðinu frá upphafi mælinga

Verkefnið var unnið af Alexöndru K Hafsteinsdóttur nema í Jarðfræði við HÍ. Leiðbeinendur voru Sveinborg Hlíf Gunnarsdóttir, Finnbogi Óskarsson, Auður Agla Óladóttir og Sigurður Garðar Kristinsson jarðfræðingar hjá Íslenskum orkurannsóknum

Lífkol: brú milli fiskeldis og landbúnaðar

Íslenskur landbúnaður er að stórum hluta háður innfluttum áburði. Á sama tíma fellur til fiskeldismykja í vaxandi fiskeldi á Íslandi sem er yfirleitt fargað þrátt fyrir hátt næringarefnainnihald. Verkefnið snýst um að nýta þessa hliðarafurð með lífkolun og meta hvort lífkol úr fiskeldismykju geti verið nýtt sem jarðvegsbætandi efni. Með lífkolun er mykjunni breytt í stöðugt kolefnisríkt efni sem getur bætt jarðvegseiginleika og frjósemi og skapað nýjan farveg fyrir vannýtt hráefni.

Framkvæmd var sex vikna pottatilraun þar sem bornir voru saman meðferðarhópar með mismunandi hlutföllum lífkola úr saltvatns og ferskvatnsfiskeldismykju auk viðarlífkola. Markmið tilraunarinnar var að meta áhrif lífkola úr fiskeldismykju á plöntuvöxt og jarðvegseiginleika og bera niðurstöður saman við viðarlífkol. Mæld voru meðal annars sýrustig og vatnsinnihald í jarðvegi, vöxtur og uppskera plantna og efnainnihald hráefna.

Niðurstöður sýndu að lífkol úr ferskvatnsfiskeldismykju og viðarlífkol höfðu jákvæð áhrif á vöxt en lífkol úr saltvatnsfiskeldismykju leiddu til affalla og minni uppskeru sem tengdist háu saltmagni. Þungmálmar og salt mældust í sumum lífkolum en skiluðu sér þó ekki í ætan hluta plantna. Heildarniðurstöður benda til að uppruni og efnasamsetning hafi áhrif á notagildi lífkola og að lífkol úr ferskvatnsfiskeldismykju geti verið raunhæfur kostur sem jarðvegsbætandi efni, en frekari rannsóknir eru nauðsynlegar til að meta langtímaáhrif og fýsileika.

Verkefnið er hluti af Matvælasjóðsverkefninu Jarðvegsbætandi lífefni í umsjón Íslenska sjávarklasans og var unnið af Ásdísi Öglu Sigurðardóttur nema í Matvælafræði við HÍ. Leiðbeinendur voru Jónas Baldursson og Katrín Hulda Gunnarsdóttir hjá Matís

TENGJA - nýting á bakvatni hitaveitu í almannaþágu

Jörðin undir fótum okkar á Íslandi er einstök. Hin mikla eldfjallavirkni skapaði eyjuna og gaf henni jarðhita sem mótar lífið hér enn í dag. Í Reykjavík veitir hitinn sem streymir undir yfirborðinu okkur skjól frá kuldanum og er stöðug áminning um krafta náttúrunnar. En jafnvel þar sem þessi náttúruauðlind virðist endalaus, þarf að nýta hana af ábyrgð. Á hverjum degi er miklu magni af umfram jarðvarma úr hitaveitukerfinu, sem enn inniheldur dýrmæta varmaorku, hent út í sjó. Þetta er ekki aðeins tap á varma, heldur glatað tækifæri til að bæta lífsgæði borgarbúa yfir vetrartímann.

Tengja varð til út frá þeirri hugmynd að hægt væri að endurheimta umfram jarðhita og umbreyta honum í auðlind fyrir nærsamfélagið. Verkefnið miðar að því að nýta orkuna sem fer til spillis og beina henni inn í almenningsrými með því að búa til einingar, upphitaða bekki sem bjóða fólki að setjast niður, hvílast og tengjast hvert öðru.

Bekkirnir eru meira en bara staður til að tylla sér; þeir eru lítil hlý svæði á köldum dögum, augnablik þæginda sem rjúfa vetrarkuldann og hvetja fólk til að njóta útiveru saman. Við þekkjum öll hversu erfitt það getur verið að fara út í kuldanum; Tengja vill vera stoppið á leiðinni, staðurinn sem gefur þér smá hvatningu til að fara í göngutúr - jafnvel samkomustaður, ef svo má að orði komast.

Með því að umbreyta því sem áður var úrgangur í sameiginlega auðlind sýnir Tengja hvernig nýsköpun og umhverfisábyrgð geta farið saman. Niðurstaðan er framtíðarsýn um Reykjavík þar sem hlýjan finnst ekki aðeins innanhúss heldur einnig á götum og torgum borgarinnar, þar sem hún dregur fólk saman og lífgar upp á almenningsrými yfir köldustu mánuði ársins.

Með stuðningi Nýsköpunarsjóð námsmanna og í samstarfi við Veitur var fyrsta frumgerð Tengja sett upp við Bæjarháls 1.

Verkefnið var unnið af Janek Beau, Max Greiner, Katlu Taylor og Tuma Valdimarssyni nemum í Hönnun, umhverfi og áskoranir í LHÍ. Leiðbeinendur voru Heimir Tryggvason hjá Veitur og Jón Helgi Hólmgeirsson lektor í hönnunardeild LHÍ

Vöktun á útbreiðslu gufupúða á háhitasvæðum

Á háhitasvæðum í vinnslu eru heitt vatn og gufa unnin úr jörðu í gegnum borholur, og er gufan nýtt til þess að knýja túrbínur til raforkuframleiðslu. Með tímanum getur vinnsla leitt til þess að gufumagn eykst og s.k. gufupúði myndast vegna þrýstingslækkunar í jarðhitakerfinu. Til þessa hefur engin bein leið verið til að vakta þróun slíkrar gufupúðamyndunar önnur en stakar mælingar í borholum. Í nýlegri grein Pilar Sánchez-Pastor o.fl. (2023) er sýnt fram á aðferð sem notar s.k. jarðsuð til þess að fylgjast samfellt með breytingum í gufumagni í jarðhitakerfum. Jarðsuð er hægt að mæla með jarðskjálftamælum, og er forsenda aðferðarinnar sú að jarðskjálftabylgjur ferðast hægar í gegnum gufumettuð svæði en vatnsmettuð.

Markmið verkefnisins var að nýta og þróa áfram þessa aðferð út frá samfelldum mælingum á jarðsuði. Í verkefninu voru þróuð forrit til gagnaúrvinnslu og myndrænnar framsetningar, og var þeim beitt á 3 ár af jarðskjáftagögnum frá nokkrum jarðskjálftastöðvum í nágrenni vinnslusvæðis jarðhita á Hellisheiði. Vel tókst að endurskapa fyrri niðurstöður sem eru í samræmi við mælda þrýstingslækkun og landsig af völdum vinnslunnar á svæðinu. Verkefnið sýndi því fram á að þessa aðferð sé hægt að nýta til þess að fylgjast samfellt með breytingum í gufumagni á jarðhitasvæðum á hagkvæman hátt. Næstu skref eru að þróa og prófa aðferðina á öðrum jarðhitasvæðum í nýtingu

Verkefnið vann Hugo Alejandro Arteaga Vivas nemandi í Jarðeðlisfræði við HÍ. Leiðbeinandi var Þorbjörg Ágústsdóttir Jarðeðlisfræðingur, sérfræðingur í jarðskjálftarannsóknum hjá Íslenskum Orkurannsóknum og Egill Árni Guðnason Jarðeðlisfræðingur hjá Íslenskum Orkurannsóknum

Þrívíddarprentuð æfingalíkön fyrir sónar

Þróað var æfingalíkan til að æfa ómun og fínnálarsýnatöku á hnútum í skjaldkirtli en þar þarf að beita vissri tækni og getur sýnatakan verið flókin í framkvæmd, meðal annars vegna hættu á ástungu æða í hálsi. Því er nauðsynlegt að læknir sem framkvæmir ómskoðun og sýnatöku í skjaldkirtli hafi hlotið viðeigandi þjálfun.

Æfingalíkön eru gjarnan notuð við þjálfun fyrir ómskoðanir og hafa þann kost að hægt er að æfa nemendur þannig að þau nái viðeigandi færni og öryggi áður en þau óma raunverulega sjúklinga. Fjöldaframleidd líkön eru oftast afar einfaldar útgáfur af þeim líkamshluta eða líffærum sem skal óma og geta verið dýr. Því vaknaði sú hugmynd að með þrívíddarprentun væri unnt að fá hagkvæm æfingalíkön sem líkja nákvæmlega eftir undirliggjandi líffærafræði og væru sérsniðin að þeirri ómskoðun sem ætti að æfa hverju sinni. Markmið verkefnisins var því að þrívíddarprenta slíkt æfingalíkan úr efnum sem líkja eftir raunverulegum vef eftir tölvusneiðmyndum af sjúklingi með hnút í skjaldkirtli. Efnisval miðaði að því að líkanið hefði rétta hljóðfræðilega eiginleika til að líkja eftir raunverulegum líffærum á sónar.

Verkefninu var skipt í þrjá hluta. Fyrst var prentað einfalt líkan til þess að prófa samspil mismunandi efna og ákvarða hver þeirra líktust helst mjúkvef, æðum og skjaldkirtli á sónarmynd. Niðurstöður voru nýttar til að prenta frumgerð eftir tölvusneiðmyndum þar sem hálsinum hafði verið skipt í hluta og hvert líffæri prentað úr mismunandi efni. Eftir prófanir á frumgerð var hálsinum skipt í tvennt, helmingur hafði hljóðfræðilega eiginleika sem líkja eftir raunverulegum líffærum á sónarmynd og hinn helmingurinn var glær svo hægt væri að sjá undirliggjandi líffæraskipan.

Niðurstöður gáfu góða raun og benda til að unnt sé að þrívíddarprenta æfingalíkön úr þessum efnum fyrir háls og fleiri líkamshluta. Þau æfingalíkön fyrir sónar sem hafa áður verið þrívíddarprentuð úr efnum sem líkja eftir vefjum eru mun einfaldari að gerð og voru ekki prentuð eftir tölvusneiðmyndum. Þetta er því eftir því sem við best vitum fyrsta æfingalíkanið fyrir sónar sem er þrívíddarprentað eftir tölvusneiðmyndum af hálsi og mun nýtast í kennslu og áframhaldandi þróun á samskonar æfingalíkönum, til dæmis fyrir aðra líkamshluta sem og frekari rannsóknum á hljóðfræðilegum eiginleikum efnanna.

Verkefnið var unnið í samstarfi milli Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar Háskóla Íslands, verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík, heilbrigðistækniseturs Háskólans í Reykjavík og Læknadeildar Háskóla Íslands.

Verkefnið var unnið af Altina Tinna Zogaj nemanda í Læknisfræðilegri verkfræði við HÍ og Guðbjörgu Láru Magnúsdóttur nemanda í heilbrigðisverkfræði við HR

Leiðbeinendur voru Valgerður Guðrún Halldórsdóttir lektor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands og Dr. Paolo Gargiulo forstöðumaður heilbrigðistæknisetur HR og prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Nánar um Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands

Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands voru fyrst veitt árið 1996. Í stjórn sjóðsins 2023-2026 sitja; Björgvin Stefán Pétursson, formaður, skipaður án tilnefningar, Sævar Helgi Bragason, tilnefndur af vísindanefnd Vísinda- og tækniráðs, Ásdís Jóhannesdóttir, tilnefnd af Samtökum iðnaðarins, Alexandra Briem, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Erla Guðbjörg Hallgrímsdóttir, tilnefnd af Landssamtökum íslenskra stúdenta.

Árlega velur stjórn Nýsköpunarsjóðs námsmanna um 10 verkefni sem unnin eru á árinu sem úrvalsverkefni. Af þeim eru svo 4-6 verkefni valin sem öndvegisverkefni og hljóta þau tilnefningu til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands. Stjórn sjóðsins byggir mat sitt á verkefnum á mati fagráða sjóðsins, en þau eru sex, sjá nánar á vefsvæði sjóðsins.

  • fagráð á sviði félagsvísinda, lögfræði og menntavísinda

  • fagráð á sviði lífvísinda, klínískar rannsókna og lýðheilsu

  • fagráð á sviði hugvísinda og lista

  • fagráð á sviði náttúru- og umhverfisvísinda

  • fagráð á sviði raunvísinda og stærðfræði

  • fagráð á sviði verkfræði og tæknivísinda