Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Rannsóknamiðstöð Íslands Forsíða
Rannsóknamiðstöð Íslands Forsíða

Rannsóknamiðstöð Íslands

Ómetanlegt tækifæri til að tengjast sérfræðingum í gegnum UK-Iceland Explorer námsstyrkinn

14. janúar 2026

Katrín Lea Elenudóttir, sem lauk nýverið meistaranámi í friðar- og öryggisfræðum við King’s College London, er ein þeirra sem hefur nýtt sér UK–Iceland Explorer námsstyrkinn fyrir framhaldsnám í Bretlandi. Næsti umsóknarfrestur rennur út 30. janúar 2026 kl. 15:00.

Katrín Lea segir reynsluna hafa verið bæði krefjandi og mjög hvetjandi og reynst henni mikilvægur stökkpallur fyrir feril í öryggis- og varnarmálum.

Hún segir að helsta hvatningin að fara í framhaldsnám í Bretlandi hafi verið löngun til að öðlast djúpan og þverfræðilegan skilning á því hvernig alþjóðlegur friður og öryggi séu tryggð með lögum og stefnumótun í gegnum nám hjá virtum skóla. „Námið stóð fullkomlega undir þeim væntingum,“ segir hún og nefnir sérstaklega tækifæri sem hún fékk í gegnum námið til að vinna verkefni með breska varnarmálaráðuneytinu, þar sem hún aðstoðaði Royal Air Force við að innleiða gervigreind í þjálfun leyniþjónustu. Þessi hagnýta reynsla hafi „kveikt áhuga á nýsköpun og tæknilausnum í varnarmálum“ sem mun líklega hafa mótandi áhrif á feril hennar í framtíðinni.

Ekki síður skipti máli að vera í hjarta Lundúna. Katrín segir að staðsetning skólans hafi gefið ómetanlegt aðgengi að sérfræðingum og áhrifafólki í alþjóðlegum öryggismálum. „Ég fékk að kynnast öryggis- og varnarmálum á heimsvísu, bæði fræðilega og í framkvæmd, með þátttöku í ráðstefnum þar sem ég átti samtöl við háttsetta aðila, meðal annars Valerii Zaluzhnyi, sendiherra Úkraínu, og François Hollande, fyrrverandi forseta Frakklands.“ Af ráðstefnunum stóð upp úr London Defence Conference þar sem hún átti samtal við George Robertson, fyrrverandi framkvæmdastjóra NATO. Að hennar mati hefur námið eflt handa mikið og opnað dyr þar sem það blandaði þétt saman fræðilegum grunni, raunverulegum verkefnum og tækifærum til að byggja upp alþjóðlegt tengslanet. Katrín starfar nú hjá EFTA í Lúxemborg og sér fram á frekari tækifæri í alþjóðlegum öryggismálum. Hún hefur einföld skilaboð til annara nemenda sem eru að huga að framhaldsnámi erlendis: „Ég hvet ykkur eindregið til að sækja um UK-Iceland Explorer styrkinn og nýta þetta einstaka tækifæri til að sækja ykkur hágæða menntun og njóta alls þess sem nám í Bretlandi býður upp á.“

Einstaklingar sem stefna á framhaldsnám til fullrar gráðu við háskóla í Bretlandi á skólaárinu 2026-2027 geta sótt um styrkinn til Rannís, sem annast umsýslu sjóðsins í samstarfi við Geimferðastofnun Bretlands og breska sendiráðið í Reykjavík.

Allar nánari upplýsingar um UK-Iceland Explorer og umsóknarform má finna á síðu sjóðsins. Tekið er á móti umsóknum til 30. janúar 2026 kl. 15:00 að íslenskum tíma.