Fara beint í efnið
Persónuvernd Forsíða
Persónuvernd Forsíða

Persónuvernd

Um málþing haldið þann 19. október 2012

23. október 2012

Þann 19. október sl. fór fram ráðstefna á vegum Persónuverndar og innanríkisráðuneytis, í samstarfi við Lagadeild HÍ og Mannréttindastofnun. Yfirskrift ráðstefnunnar var Nýjar ógnir við friðhelgi einkalífs og meðferð persónuupplýsinga. Á ráðstefnunni voru flutt ýmis erindi er varða persónuvernd, m.a. um samfélagsmiðla, heilbrigðisupplýsingar og forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu. Þá flutti innanríkisráðherra lokaorð.

Um málþing haldið þann 19. október 2012

Þann 19. október sl. fór fram ráðstefna á vegum Persónuverndar og innanríkisráðuneytis, í samstarfi við Lagadeild HÍ og Mannréttindastofnun. Yfirskrift ráðstefnunnar var Nýjar ógnir við friðhelgi einkalífs og meðferð persónuupplýsinga. Á ráðstefnunni voru flutt ýmis erindi er varða persónuvernd, m.a. um samfélagsmiðla, heilbrigðisupplýsingar og forvirkar rannsóknarheimildir lögreglu. Þá flutti innanríkisráðherra lokaorð.

Á ráðstefnunni voru rædd ýmis álitaefni er tengjast persónuvernd. Var í því sambandi sérstaklega hugað að þeim tækninýjungum sem orðið hafa síðustu áratugi og hvernig þær hafa áhrif á þær reglur sem gilda um persónuvernd. Sjö sérfróðir aðilar héldu erindi og verða þau hér tíunduð í stuttu máli. Auk þess má finna hér tengla á glærur hvers fyrirlesara fyrir sig.

Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, fjallaði um þá dóma sem fallið hjá Mannréttindadómstólnum í tengslum við persónuvernd. Fjallaði hann einkum um 8. gr. Mannréttindasáttmálans og hvernig dómstóllinn hefði túlkað ákvæðið, m.a. út frá neikvæðum og jákvæðum skyldum ríkis, söfnun upplýsinga og notkun þeirra hjá hinu opinbera, hvenær skerðing á réttinum sé réttlætanleg o.fl.

Maria Michaleidou, sérfræðingur hjá Persónuverndarskrifstofu Evrópuráðsins, fjallaði um samning Evrópuráðsins um vernd einstaklinga varðandi vélræna vinnslu persónuupplýsinga (nr. 108). Hún fjallaði um þá tækniþróun sem orðið hefur frá því að samningurinn tók gildi, þá möguleika sem að samningurinn byði upp á og þær breytingar á lagaumhverfi sem Evrópuráðið væri nú að skoða.

Sigrún Jóhannesdóttir, forstjóri Persónuverndar, fjallaði um áhrif reglna Evrópusambandsins á íslenskan rétt. Einnig fjallaði Sigrún um drög að nýrri reglugerð Evrópusambandsins um persónuvernd og þær breytingar sem lagðar væru til á núgildandi fyrirkomulagi innan EES. Breytingarnar lúta m.a. að rýmkun landfræðilegu gildissviði evrópskrar löggjafar á þessu sviði, auknum rétti einstaklinga og að sjálfstæði Persónuverndarstofnanna verði eflt.

Björn-Erik Thon, forstjóri norsku Persónuverndarinnar, fjallaði um úttekt norsku stofnunarinnar á Facebook. Björn fór yfir hvernig úttektinni hefði verið háttað, en stofnunin hefur m.a. lagt spurningar fyrir fyrirtækið sem hefur verið svarað. Þá fór hann yfir helstu hættur sem felast í samskiptamiðlum almennt, m.a. um þá söfnun upplýsinga sem þar fer fram, varðveislu þeirra og aðgengileika. Þá fjallaði hann einnig um notkun andlitsgreiningartækja sem sífellt virðast færast í vöxt.

Björg Thorarensen, prófessor og formaður stjórnar Persónuverndar, fjallaði um vernd stjórnarskrár Íslands á friðhelgi einkalífs og meðferð persónuupplýsinga. Björg fjallaði um þau skilyrði sem stjórnaskrá setur fyrir skerðingu á friðhelgi einkalífs skv. 71. gr. stjórnarskrárinnar. Þá fjallaði Björg einnig um hvernig ákvæði 71. gr. hefur verið túlkað í framkvæmd, m.a. í s.k. gagnagrunnsdómi og nýlegu máli Persónuverndar um hina s.k. PIP-

brjóstapúða.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, fjallaði um samband friðhelgi einkalífs og forvirkra rannsóknarheimilda lögreglu. Í erindi sínu lýsti Stefán hvernig lögreglan framkvæmdi forvirkar rannsóknir á ýmsum sviðum. Þá fór hann yfir þær heimildir sem til staðar væru og þær takmarkanir sem lögreglunni væru settar.

Sigurður Guðmundsson, prófessor við Læknadeild HÍ og fyrrverandi landlæknir, fjallaði um meðferð persónuupplýsinga í heilbrigðiskerfinu. Fjallaði Sigurður m.a. um tilgang með skráningu heilbrigðissupplýsinga annars vegar í sjúkraskrá og hins vegar í gagnagrunna. Þá fjallaði Sigurður einnig um eftirlit með skráningu slíkra upplýsinga, siðareglur lækna og fyrirhugað frumvarp um vísindarannsóknir.

Að lokum flutti innanríkisráðherra loka

orð. Taldi hann að erindi fyrirlesaranna og því sem komið hefði fram hér á ráðstefnunni væri áhugavert. Í máli hans kom m.a. huga þyrfti að samspili réttar einstaklingsins til friðhelgi einkalífs og skyldunnar til að veita upplýsingar, t.d. í tengslum við læknismeðferð. Þá fjallaði ráðherrann einnig um forvirkar rannsóknarheimildir og hvatti til ítarlegra umræðna um hvernig þeim heimildum lögreglu skyldi háttað. Taldi ráðherrann að mikilvægt væri að koma í veg fyrir að ungt fólk tæki þátt í skipulagðri glæpastarfsemi.

Persónuvernd

Hafa samband

postur@personuvernd.is

Sími: 510 9600

Afgreiðslu­tími

Virka daga frá 9 til 12 og 13 til 15

Símatími lögfræðinga er alla fimmtudaga frá 9 til 12

Stað­setning

Laugavegur 166, 4. hæð

105 Reykjavík, Ísland

Kennitala: 560800-2820