Sérnám í taugalækningum
Uppbygging og framvindumat
Skipulögð fræðsla fyrir sérnámslækna fer fram á taugadeild.
Tvisvar í viku stýrir sérfræðilæknir kennslu fyrir námslækna. Sú kennsla tekur til fjölbreyttra viðfangsefna í taugalæknisfræði og er að miklu leyti tilfellamiðuð en einnig eru vísindagreinar lesnar og ræddar sem sérnámslæknir kynnir. Sérnámslækni ber að hafa kynnt 15 vísindagreinar í lok námstímans og skrá í logbók.
Einu sinni í viku stýrir sérfræðilæknir tilfellafundi taugalækna þar sem eitt tilfelli er tekið fyrir. Rætt er við sjúkling og hann skoðaður að viðstöddum læknanemum, námslæknum og sérfræðilæknum taugadeildar. Hver sérnámslæknir skal stýra a.m.k. tveimur slíkum fundum á námstímanum og skrá í logbók. Hann kynnir sér vel sögu og einkenni sjúklings og tekur þátt í umræðu um greiningu og meðferð.
Vikulega heldur sérnámslæknir fyrirlestur fyrir aðra lækna deildarinnar um tilfelli, sjúkdóm eða vísindagrein. Viðfangsefnið skal hafa tengingu við taugalæknisfræði en sérnámslæknir hefur annars frjáls efnistök. Hver sérnámslæknir skal halda að minnsta kosti 15 slíka fyrirlestra yfir námstímann og skrá í logbók
Þátttaka í kennslu og fræðslu
Sérnámslæknir skal taka virkan þátt í klínískri kennslu læknanema. Skal sérnámslæknir leitast við að nýta hvert námstækifæri í daglegum störfum og á vöktum. Sérnámslæknir skal einnig taka þátt í skipulagðri kennslu læknanema og skal hver sérnámslæknir hafa umsjón með a.m.k. 8 klíníkum læknanema á námstímanum og skrá í logbók.
Rannsóknarvinna
Námslæknar eru hvattir til þátttöku í vísindastarfi meðfram klínísku starfi (sjá logbók). Námslæknir skal hafa staðið fyrir a.m.k. einu gæðaverkefni í lok námstímabils.
Framvindumat
Tvisvar á ári (eins og mælt er með í evrópsku leiðbeiningunum) er lagt mat á framvindu sérnámslæknis með kennslustjóra og handleiðara/völdum sérfræðilækni. Þar er farið yfir logbók og þekking sérnámlæknis könnuð í undirgreinum taugalækninga (sjá logbók).Í viðtali er farið yfir umsagnir frá samstarfsfólki sérnámslæknis sem hann hefur safnað yfir tímabilið, umsagnir skulu koma frá sem flestum starfsstéttum (360-degree multisource feedback, MSF). Tvisvar á ári er sérnámslæknir metinn við að skoða sjúkling (sit-in) og setja upp meðferðaráætlun, matið er framkvæmt af kennslustjóra og handleiðara.
Handleiðsla
Hver sérnámslæknir skal hafa einn sérfræðilækni taugadeildar sem handleiðara í gegnum námstímann. Hvern mánuð skal fara fram fundur þeirra í milli. Handleiðslan snýst um að fylgja eftir eðlilegri þróun og þroska í starfi sem og samskiptum við sjúklinga og starfsfólk. Einnig er handleiðslan vettvangur til að ræða möguleika á sérhæfingu, rannsóknum, gæðaverkefnum og þau vandamál og áskoranir sem kunna að koma upp í starfi. Á hverjum fundi skal farið yfir logbók námslæknis og má þannig grípa inn í ef þörf er á þróun á einstaka sviðum. Skal handleiðari hafa sótt handleiðaranámskeið á vegum LSH eða frá annarri viðurkenndri kennslustofnun.
