Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Kynning og marklýsing

Taugalæknisfræði er sú sérgrein læknisfræðinnar sem fjallar um taugasjúkdóma fullorðinna. Nám til sérfræðiréttinda í taugalækningum tekur að minnsta kosti 60 mánuði að loknu kandídatsári með tilvísan í reglugerð nr. 856/2023.

Á taugalækningadeild meðferðarsviðs Landspítala-háskólasjúkrahúss, Reykjavík, býðst 12-36 mánaða upphafssérnám, en sérnámslæknir þarf að ljúka námi erlendis til sérfræðiréttinda í taugalækningum. Uppbygging námsins byggist á marklýsingu evrópsku sérfræðisamtakanna fyrir taugalækningar

Námstími: 2 ár

Markýsing

Um er að ræða 24 mánaða upphafssérnám í taugalæknisfræði. Sérnámið byggir á klínískri vinnu á starfsstöðvum taugalækningadeildar, þátttöku í fundum, teymisvinnu, námsskeiðum og annarri hliðstæðri starfsemi á sviðinu og í tengslum við sérnámið, á þátttöku í vöktum námslækna og skipulagðri menntun samkvæmt námsáætlun.

Klínísk þjálfun í taugalæknisfræði fer fram á taugalækningadeild á lyflækningaeiningu meðferðarsviðs Landspítala. Námslæknir sinnir þar störfum á legudeild, dag- og göngudeildarvinnu og ráðgjafarþjónustu fyrir bráðamóttöku og aðrar deildir spítalans í samráði við sérfræðilækna taugadeildar. Fyrsta námsárið snýr að undirstöðuatriðum taugalækninga og skal þá námslæknir fá góða þjálfun í sögutöku, taugaskoðun, greiningu og meðferðaráætlun sjúklinga með taugasjúkdóma. Á fyrsta námsári er mest áhersla lögð á legudeildarstörf, dagdeildarþjónustu og ráðgjafarþjónustu en eftir því sem líður á námstímann skal námslæknir fá vaxandi ábyrgð í störfum sínum og sinna flóknari tilfellum.

Markmið sérnámsins

(sjá annars marklýsingu frá evrópsku sérfræðisamtökunum)

  • Að námslæknir öðlist góða og víðtæka þekkingu á taugasjúkdómum fullorðinna, orsökum þeirra, einkennum, faraldsfræði, gangi og horfum.

  • Að námslæknir öðlist góða þekkingu á meðferð og eftirfylgd helstu taugasjúkdóma fullorðinna.

  • Að námslæknir geti framkvæmt taugaskoðun og lagt mat á niðurstöður hennar.
    Að námslæknir geti með viðtölum, skoðun og gagnaöflun úr sjúkraskrá aflað fullnægjandi upplýsinga um þá þætti sem skipta máli til sjúkdómsgreiningar.

  • Að námslæknir geti skráð góða sjúkrasögu eftir sögu og skoðun þar sem fram kemur túlkun og tillaga að meðferðarplani.

  • Að námslæknir geti forgangsraðað verkefnum eftir bráðleika einkenna.

  • Að námslæknir hafi góða þekkingu á móttöku sjúklinga með brátt blóðþurrðarslag, þekki vel ábendingar og frábendingar segaleysandi- og innæðameðferðar og geti fylgt verklagi fumlaust og af öryggi.

  • Að námslæknir hafi gott vald á mænuholsástungu og geti framkvæmt inngripið án aðstoðar, þekki ábendingar þess, mögulega fylgikvilla og viðbrögð við þeim, ásamt því að geta túlkað niðurstöður rannsóknar. Námslæknir skyldi framkvæma a.m.k. 20 mænuholsástungur yfir námstímann.

  • Að námslæknir þekki ábendingar, frábendingar og gagnsemi heilarita, tauga- og vöðvarita og hafi grunnþekkingu í framkvæmd og túlkun slíkra rannsókna.

  • Að námslæknir geti átt árangursrík samskipti við sjúklinga og aðstandendur, geti veitt þeim viðeigandi upplýsingar og fræðslu og greint þeim frá erfiðum niðurstöðum.

  • Að námslæknir þekki mikilvægi þvegfaglegrar teymisvinnu, sé fær um að vinna í og leiða teymi. Að námslæknir nýti sér krafta annarra starfsstétta á árangursríkan hátt og geti átt góð samskipti við aðrar starfsstéttir.

  • Að námslæknir öðlist reynslu af kennslu og þjálfun læknanema og líti á það sem hluta af starfi sínu.

  • Að námslæknir sé fær um að semja og halda skipulagðan fyrirlestur þannig að efnið komist vel til skila fyrir lækna, aðrar fagstéttir og almenning.

  • Að námslæknir geti nýtt gagnreynda læknisfræði til að leggja mat á fræðilegan grunn ólíkra meðferðarúrræða.