Sérnám í réttarmeinafræði
Kynning og marklýsing
Meinafræðideild Landspítalans býður upp á skipulagt sérnám í réttarmeinafræði, sem samþykkt var af mats- og hæfisnefnd í maí 2018.
Námstími: 1,5 ár
Um er að ræða eins og hálfs árs almennt grunnnám í réttarmeinafræði, en nám til sérfræðiréttinda í réttarmeinafræði tekur a.m.k. um fimm ár. Því er gert ráð fyrir að sérnámslæknar ljúki sérnámi erlendis til afla sér frekari reynslu og sérþekkingar.
Marklýsing
Verkefni réttarlæknis
Hið hefðbundna verkefni réttarlæknis er líkrannsókn (jafnan réttarkrufning; ytri og innri skoðun) til ákvörðunar á dánarorsök og dánaratvikum - stundum dánartíma. Réttarlæknir skoðar einnig lifandi einstaklinga með tilliti til mögulegra áverka og viðlíka ummerkja, skrásetur og túlkar þau. Aðrir þættir eru m.a. skoðun uppgrafinna líka (e. exhumation), kennslaburður og mat á myndgögnum. Í samræmi við sérþekkingu sína gefa réttarlæknar sérfræðiálit fyrir dómi í málum er varða dauða og/eða ofbeldi.
Á Meinafræðideild eru framkvæmdar u.þ.b. 200 réttarkrufningar og 50 áverkarannsóknir á ári. Tilfellin eru fjölbreytt og geta gefið sérnámslækninum yfirgripsmikla grunnþekkingu í réttarmeinafræði og grunnfærni í aðferðum greinarinnar, sem og stór- og smásærri formfræði sjúkdóma og áverka.
Sérnámshluti sem kenndur er á Íslandi
Í eins og hálfs árs sérnáminu á Íslandi vinna sérnámslæknar úr eigin tilfellum og fá kennslu í aðferðafræði réttarkrufninga og við mat á áverkum lifandi og látinna. Þannig öðlast sérnámslæknirinn breiðan grunn í almennri réttarmeinafræðiog góða færni í algengri og einfaldri vinnu við rannsókn á dauðsföllum, skrásetningu og mati á áverkum og öðru liðsinni við lögreglu eða önnur yfirvöld – og einnig töluverða færni í flóknari réttarmeinafræðivinnu.
Sérnámslæknar fá einnig þjálfun í túlkun rannsókna, kennslaburði, samskiptum við lögreglu, saksóknara og aðstandendur.
Mikilvægustu og víðtækustu reynsluna og þekkinguna í sérnáminu öðlast sérnámslæknar í gegnum daglega vinnu, sem að miklu leyti er unnin undir umsjón og í nánu samstarfi við sérfræðinga, þar sem mikil kennsla er samfara, en einnig eru reglulegir fræðslufundir, fræðslunámsdvalir til samstarfsaðila, s.s. Tæknideildar lögreglunnar, Héraðssaksóknara og Rannsóknastofu Háskólans í lyfja- og eiturefnafræði, og gert ráð fyrir sjálfsnámi sérnámslækna.
Staðsetning
Námið fer að mestum hluta fram á Meinafræðideild Landspítalans við Hringbraut, sem er tiltölulega lítil deild, þar sem persónuleg nánd og samvinna er á milli allra fagstétta deildarinnar.
