Sérnám í háls-, nef og eyrnalækningum
Efnisyfirlit
Kynning
Námstími: 5 ár fullt sérnám
Sérnámsferlið er að minnsta kosti 5 ár eftir sérnámsgrunnsár til að fá nauðsynlega þjálfun og menntun til að geta fengið sérfræðileyfi sem háls-, nef- og eyrnalæknir. Hluti af þeim árum verður notaður til að öðlast færni í skyldum fögum svo sem heyrnarfræði (á Heyrnar- og talmeinastöðinni) og greinum innan Landspítala, s.s. lýtalækningadeild, heila- og taugaskurðlækningum, ofnæmislækningadeild. Frekari sérhæfing í undirsérgreinum er ekki í boði á Íslandi, en ætti að fara fram erlendis á stærri sjúkrahúsum með skilgreindar undirsérgreinadeildir, s.s. krabbameinsskurðlækningar, eyrnaskurðlækningar.
Námsskráin og þjálfunin stuðlar að því að sérnámslæknirinn verði hæfur og með fulla getu til að takast á við sjúkdóma fagsins á breiðum grundvelli, bæði á göngudeild, skurðstofu, samráðsfundum og á legudeild, ásamt því að vita hvenær rétt sé að vísa vandamálum áfram til undirsérgreinalæknis.
Sérnám samhliða klínískri vinnu á háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala sem aðal sérnámsstað, og með stigvaxandi ábyrgð og sjálfstæði í klínískum störfum undir umsjón handleiðara, kennslustjóra og kennsluráðs eftir því sem líður á sérnámstímann.
