Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Landspítali Forsíða
Landspítali Forsíða

Landspítali

Uppbygging náms og framvindumat

Skipulögð fræðsludagskrá er til þriggja ára. Gert er ráð fyrir ½ degi aðra hverja viku, bæði haustönn og vorönn. Þetta verður sameiginleg fræðsla fyrir sérnámshópinn og er dagskráin endurtekin á þriggja ára fresti. Reynt verður að samkeyra hluta kennslunnar með sérnámslæknum í öðrum sérgreinum svo sem heimilislækningum, lyflækningum og geðlækningum. Sérnámslæknar taka virkan þátt í kennslu en kennslustjóri hefur yfirumsjón með fræðsludagskránni.

Auk þessa taka sérnámslæknar virkan þátt í vikulegum sameiginlegum fræðslufundum lækna á Grensási og Reykjalundi.

Framvinda: Sérnámslæknir þarf að halda framvinduskrá (log-bók). Skoðaðir verða möguleikar á notkun E-portfolio. Sökum fámennis íslensku þjóðarinnar er líklegt að námslæknar muni ekki geta tileinkað sér alla klíníska þætti framvinduskrárinnar á Íslandi. Gætu þær að einhverju leyti þurfa að taka sitt klíníska nám við erlendar sjúkrastofnanir. Á árlegum framvindumatsfundum (e. ARCP, Annual Review of Competency Progression)
er lagt mat á framvindu síðasta árs og ákveðið hvernig hægt sé að ná klínískum námsmarkmiðum og þá hvar og hvernig. Um framkvæmd er vísað í Almennar leiðbeiningar og viðmið vegna sérnáms lækna á Íslandi frá Embætti landlæknis.

Á árlegum framvindumatsfundi verður lagt á frammistöðu sérnámslæknis, þekkingu hans/hennar, hæfni og getustig og um leið er nauðsynlegt að halda utan um almennan framgang sérnámsins og auðvelda umbætur. Sérnámslæknir metur hverja deild fyrir sig varðandi námið, starfsaðstöðu, stuðning o.fl. Kennslustjóri hittir síðan bæði sérnámslækna og handleiðara til að fara yfir stöðu mála og úrbætur gerðar þar sem þörf er á. Við árlegt mat handleiðara, kennslustjóra og sérnámslæknis er farið yfir hvort fagleg þekking, almenn hæfni, geta og áunnin reynsla sé fullnægjandi með hliðsjón af hverjum sjúkdóma- eða efnisflokki samkvæmt marklýsingu sérnámsins og framvinduskrá sérnámslæknisins.

Mat á framvindu og frammistöðu

Framvinduskrá gefur námslækni yfirsýn yfir þá fagþekkingu, færni og getu sem hann/hún þarf að tileinka sér og hvaða námsþættir það eru sem á eftir að ná tökum á. Sérnámslæknir fer yfir skrána ásamt sérnámshandleiðara sínum á reglubundnum fundum þeirra. Framvinduskráin er ásamt eftirfarandi þáttum lögð til grundvallar í mati á framgangi í árlegum matsviðtölum.

Klínískt próf

Árlega er haldið klínískt próf fyrir námslækna að vori, oftast í maí. Skiptist það í fjórar stöðvar. Á hverri stöð er lagt fyrir sjúkratilfelli og spurt fyrir fram skilgreindra spurninga í tengslum við greiningu vanda og endurhæfingu. Einkunnagjöf er einföld: Framúrskarandi, fullnægjandi eða ófullnægjandi.

Mat handleiðara og endurgjöf frá samstarfsfólki

Á hverju ári fylla handleiðarar út staðlað matsblað, þar sem umsögn er gefin um ákveðna mikilvæga þætti í klínískri vinnu og framkomu námslæknis. Mat þetta byggir á samtölum handleiðara við samstarfsaðila og klíníska handleiðara námslæknis.

Sjálfsmat námslæknis

Árlega þarf deildarlæknir að svara spurningum á formlegu matsblaði varðandi eigin styrkleika og veikleika, kosti og galla námsins og hvert viðkomandi stefnir.

Árlegur matsfundur

Að vori, að loknum munnlegum prófum, fer fram formlegt mat á framgangi námsins. Er þá námslæknir boðaður til matsfundar ásamt kennslustjóra, kennara í endurhæfingarlækningum í læknadeild og handleiðara (ARCP nefnd). Farið er yfir stöðu og framvindu sérnámsins hjá viðkomandi námslækni. Til grundvallar eru lagðir þeir þættir sem taldir eru upp hér að ofan í kaflanum um mat á framgangi og frammistöðu. Styrkleikar námslæknis eru skoðaðir ásamt því sem betur má fara, væntingar ræddar og lögð skrifleg áætlun um næstu skref í námi og starfsþjálfun.