Sérnám í endurhæfingarlækningum
Kynning og marklýsing
Námstími: 5 ár
Meginmarkmið námsins er að sérnámslæknirinn öðlist breiða fræðilega þekkingu, færni og reynslu og geti starfað sjálfstætt sem sérfræðingur í endurhæfingarlækningum og endurhæfingarteymi.
Marklýsing
Hvað varðar innihald námsskrár er vísað í kaflann “Curriculum of Studies in Physical and Rehabilitation Medicine” í fylgiskjali 1 og framvinduskrá í fylgiskjali 2 í marklýsingu.
Markmið
Meginmarkmið námsins er að sérnámslæknirinn öðlist breiða fræðilega þekkingu, færni og reynslu og geti starfað sjálfstætt sem sérfræðingur í endurhæfingarlækningum og endurhæfingarteymi.
Ennfremur að sérnámslæknirinn tileinki sér fagmennsku, þ.m.t. gagnrýna hugsun og sjálfsmat varðandi eigin þekkingu, eigin störf og þörf á viðhaldsnámi sem ýti undir jákvæðan og faglegan þroska.
Hin hefðbundna nálgun læknisfræðinnar hefur að mestu takmarkast við líffæri, sjúkdóma og/eða áverka sem alþjóðlega sjúkdómaflokkunarkerfið ICD byggir á. Sú nálgun nægir ekki eins og sér.
Endurhæfingarlæknar þurfa ætíð að taka tillit til undirliggjandi sjúkdóma og/eða skaða og afleiðinga þeirra, svo og til sálfélagslegra þátta, en aðaláherslan er þó á færni og virkni einstaklingsins. Þannig byggir nálgun endurhæfingarlækninga á færnimiðuðu flokkunarkerfi WHO: International Classification of Functioning, Disability and Health- ICF.
Samkvæmt þessu þurfa endurhæfingarlæknar að:
Hafa fræðilega þekkingu á sál-, félags og líkamlegum grunni heilsu og flóknu samspili þátta sem hafa áhrif á getu einstaklingsins og takmarka þátttöku og sjálfstæði hans/hennar sem einstaklings í samfélaginu.
Þróa með sér færni til að miðla viðeigandi upplýsingum og hafa góð og uppbyggileg samskipti við sjúklinginn, aðstandendur, meðferðarteymi og annað starfsfólk. Markmiðið er að allir verði samstíga í þeirri nálgun og að þarfir og væntingar sjúklingsins séu í fyrirrúmi.
Stunda einstaklingsmiðaða klíníska nálgun með áherslu á mat, áætlun og fræðslu í náinni samvinnu við teymi
Sérnámslæknirinn þarf að tileinka sér gagnrýna þekkingaröflun og hafa þekkingu á gæða- og vísindastarfi.
Tvær íslenskar endurhæfingarstofnanir hafa uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru til að standa undir menntun endurhæfingarlækna; endurhæfingardeild Landspítala á Grensási og Reykjalundur endurhæfingarmiðstöð SÍBS.
Skipulag kennslu
Sérnám í endurhæfingarlækningum er að lágmarki 5 ára nám. Reiknað er með að meginhluti námsins fari fram á endurhæfingardeildum og minni hluti í öðrum sérgreinum sem nýtast í náminu í samráði við kennslustjóra og kennsluráð, með hliðsjón af marklýsingunni.
Endurhæfingardeildir
Sérnámslæknir á að fá sem fjölbreyttasta mynd af starfi á endurhæfingardeildum hér á landi (Grensásdeild og Reykjalundur) og/eða erlendis. Sérnámslæknir sem tekur töluverðan hluta af sérnámi hér á landi þyrfti að vera að lágmarki eitt ár á hvorri stofnun.
Honum er ætlað að uppfylla viss námsmarkmið og þarf sérnámslæknir að halda nákvæma framvinduskráningu um sérnámsverkefni, fræðslu sem hann/hún tekur þátt í eða tileinkar sér með öðrum hætti, klínískar prófanir/próf/matsferli, svo og um framþróun sína hvað varðar reynslu og þekkingu (klíníska og fræðilega), í samræmi við framvinduskrá marklýsingar.
