Sálgæsla er í boði fyrir sjúklinga og eftir atvikum aðstandendur sem glíma við sárar tilfinningar og erfiðar spurningar tengdar veikindum eða áföllum.
Sálgæsla stendur öllum til boða, óháð lífsskoðunum eða trú. Prestar og djáknar sinna sálgæslu og bjóða upp á samtöl, fjölskyldufundi, handleiðslu og hópastarf. Sálgæsla getur reynst hjálpleg þegar fólk:
þarfnast traustrar nærveru, uppörvunar og stuðnings
er kvíðið, óöruggt, dapurt, reitt eða sorgmætt
þarfnast einhvers sem hlustar og leitast við að skilja það
þarf leiðsögn í samskiptum við starfsfólk eða fjölskyldu
vill tala um trú sína, efasemdir og spurningar og dýpka eigin svör og skilning
leitar tilgangs
er að missa stjórn
vill fyrirbæn og hjálp til trúariðkunar
þarfnast eftirfylgdar
Hvernig hefurðu samband?
Sálgæsluþjónustan er opin allan sólarhringinn, allt árið.
Þú getur beðið hjúkrunarfræðing, lækni eða annað starfsfólk að hafa samband við sjúkrahúsprest eða sjúkrahúsdjákna fyrir þína hönd.
Við erum hér fyrir þig.
Sjúkrahúsprestar og djákni á Landspítala liðsinna aðstandendum eftir því sem óskað er, leiða kveðjustund og veita nauðsynlegar upplýsingar um framvindu mála eða kalla til viðkomandi sóknarprest sé þess óskað.
Eftir andlát
Starfsfólk viðkomandi deildar býr um hinn látna eða hina látnu af virðingu og aðstandendur fá tækifæri til að eiga kveðjustund við dánarbeð.