GoS teymi (Geðrofs- og samfélagsgeðteymi)
Efnisyfirlit
Þjónusta
Geðrofs- og samfélagsgeðteymi Landspítala (GoS) veitir fólki með alvarlega geðsjúkdóma, einkum geðrofssjúkdóma meðferð og stuðning sem miðar að bættu heilsufari og auknum lífsgæðum.
Þjónustan tekur mið af þörfum hvers og eins með virkri þátttöku þjónustuþega og lögð er áhersla á gott samstarf við fjölskyldu og aðra aðstandendur.
Teymið veitir bæði þjónustu og meðferð á göngudeild Klepps, ásamt því að vera öflug samfélagsgeðþjónusta."
Meðferðaraðilar
Í teyminu starfa læknar, sálfræðingar, hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar, þroskaþjálfi, jafningi, atvinnuráðgjafar og aðrir sérhæfðir starfsmenn.
Miðað er við að allir fái sinn málastjóra sem heldur utan um meðferð þjónustuþega og er hans helsti tengiliður.
Unnið er í samvinnu við aðrar stofnanir eftir þörfum, eins og heilsugæslu og félagsþjónustu.
Teymin eru einnig í mjög þéttu sambandi við innlagnardeildir geðsviðs sem og búsetukjarna.
Áherslur í þjónustu
Hugmyndafræði batastefnunnar sem unnið er út frá tekur mið af því að bati sé mögulegur og einstaklingbundinn. Unnið er með styrkleika hvers og eins ásamt því að efla þátttöku fólks í daglegu lífi og ábyrgð á eigin bata.
Markmið
Veita þverfaglega og einstaklingsmiðaða þjónustu við fólk sem greinst hefur með alvarlega geðsjúkdóma og aðstandendur þeirra.
Rjúfa félagslega einangrun, virkja stuðningsnet og hvetja þjónustuþega til virkrar þátttöku og ábyrgðar á eigin bata.
Draga úr þörf á innlögnum og stytta innlagnartíma með því að tryggja góðan stuðning og eftirfylgd.
Styrkja sjálfsmynd fólks og val þeirra varðandi eigið líf og þau hlutverk sem eru þeim mikilvæg.
Tryggja að þjónustuþegar fái bestu mögulegu meðferð.
Greiða leið fólks og tengja við þá þjónustu út í samfélaginu sem er í boði og á við.
Eiga viðeigandi samvinnu, veita ráðgjöf og stuðning til annara er starfa í málaflokknum.
Þjónusta og meðferðarúrræði:
Þau meðferðarúrræði sem standa til boða eru meðal annars;
vitræn endurhæfing (VEF),
hugræn atferlismeðferð (HAM) við vímuefnavanda
HAM við geðrofseinkennum.
Atvinnuráðgjöf, jafningjastuðningur, regluleg stuðningsviðtöl og fræðsla fyrir þjónustuþega og aðstandendur.
Einnig eru teymin í góðri samvinnu við Batamiðstöðina þar sem fjölbreytt virkni er í boði.
Málastjórn
Í GoS eru flestir þjónustuþegar með málastjóra sem heldur utan um meðferð og er tengiliður inn í teymin og einnig við aðrar stofnanir. Áherslur í meðferð málastjóra eru sveigjanlegar og ráðast af aðstæðum og sjúkdómsstigi þjónustuþega hverju sinni.
Langtímamarkmið málastjóra eru að stuðla að bata og koma í veg fyrir endurteknar veikindalotur.
Ábyrgð málastjóra er að hafa yfirsýn yfir mál þjónustuþegans og setja saman meðferðaráætlun til að mæta þörfum hans.
Hlutverk málastjóra felst meðal annars í því að styðja þjónustuþega við að takast á við afleiðingar geðrofs, halda utan um fjölskyldustuðning og stuðla að bata og aukinni þátttöku í samfélaginu á ný.
Innan teymanna er starfrækt sérstök eftirfylgd fyrir einstaklinga sem eru á Clozapine lyfjameðferð. Sú eftirfylgd er í höndum hjúkrunarfræðinga, sem og geðlækna.
Málastjóri:
Stýrir meðferðarferli frá fyrstu vitjun til útskriftar.
Skipuleggur þjónustu í samvinnu við skjólstæðing.
Tryggir samfellu í meðferð og tengingu við aðra þjónustu.
Þjónusta er einstaklingsmiðuð og metin reglulega af teymi og málastjóra.
Tilvísun til geðrofs-og samfélagsgeðteymis (GoS)
Einungis er tekið við tilvísunum frá fagaðilum, beiðnir sendast á inntökuteymi geðrofsmeðferðar, í gegnum Heilsugátt (eða Sögu).
